Færsluflokkur: Bækur

Mann- og kvenfyrirlitning

Jean-Paul Sartre og Simone de BeauvoirEitt af helgiritum unglingsára minna var bókin One-Dimensional Man eftir þýska heimspekinginn Herbert Marcuse. Á þeim tíma, í upphafi áttunda áratugarins, var annar hver maður að blaða í Marcuse, þótt ekki hafi skilningurinn á verkinu kannski verið ýkja mikill. Ég man þó að mér þótti það flott greining á kapítalismanum að í neyslusamfélagi hans muni sál almúgans felast í varningi, bílum, stereógræjum (hvað er það annars), pallaraðhúsi og eldhústækjum. (Víst er þetta einföldun en á líka að vera það.)

Því er þetta rifjað upp hér að ég rakst á One-Dimensional Man í bókabúð í fyrrakvöld og fór að fletta henni mér til gamans. Þar var margt sem hefur ekki staðist tímans tönn og inn á milli gullkorn eins og óborganleg tilvitnun í annan mikinn marxista, Jean-Paul Sartre. Sartre var samtímamaður Marcuse, nokkru yngri þó, og þeirra skoðanir lágu saman að mörgu leyti. Tilvitnunin sem Marcuse tínir til er úr ritinu Critique de la raison dialectique og fjallar um erótíska drauma kvennanna við vélina. Ég man ekki eftir að hafa tekið sérstaklega eftir henni á sínum tíma, en ég tók eftir henni núna og þá sérstaklega kvenfyrirlitningunni sem bjó undir.

Víst er innbyggt í fræði Marcuse, líkt og svo oft í vinstrimennsku, lítið álit á almúganum, sem hann og aðrir marxistar vildu vernda fyrir vondu kapítalistunum, en litu um leið niður á fyrir óstéttvísi, menntunarskort og smáborgaraskap. Minna hefur farið fyrir umræðu um það hvernig eðlislæg kvenfyrirlitning þess tíma smitaðist inn í byltingarfræðin.

Svonefnd '68-kynslóð tignaði Sartre sem spámann og hann stóð líka með byltingarsinnuðum ungmennum á götum Parísar í lok sjöunda áratugarins. Sagan hefur leitt í ljós að þótt hann hafi verið merkilegur á sinn hátt var sambýliskona hans og sálufélagi í gegnum árin, Simone de Beauvoir, mun næmari á það sem fram fór. Hún sá það sem var, að í vinstrihreyfingu þess tíma var barist fyrir frelsi, og þá frelsi karla, en það var enn langt í land að konur fengju að njóta þess frelsis: „Karlar fluttu ræður, en konur vélrituðu þær. Karlar stóðu á sápukössum og í ræðupúlti, en konurnar voru inni í eldhúsi að búa til kaffi,“ er haft eftir Beauvoir, og það var ekki fyrr en konurnar áttuðu sig á því að þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu að hjólin tóku að snúast: „Ég skildi það loks að konur gætu ekki vænst þess að frelsun þeirra myndi spretta af almennri byltingu, þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu. Karlar voru alltaf að segja þeim að þarfir byltingarinnar gengju fyrir og síðar myndi röðin koma að þeim.“

Þess má geta að lokum að lykilrit Beauvoir, Hitt kynið, „Le Deuxieme Sexe“, kom út fyrir rúmum 60 árum. Franska dagblaðið Le Monde nefndi hana elleftu merkustu bók síðustu aldar í samantekt sem birtist um síðustu aldamót. arnim@mbl.is

Flóknar fjölskyldur

Svo skal dansaFlókin fjölskyldutengsl eru áberandi í haustbókaflóðinu; flókin fjölskyldutengsl og einstæðar mæður. Það er kannski ekki há prósenta af þeim ca. þrjátíu bókum sem ég er búinn að lesa af haustflóðinu sem snýst um mæður og börn, en það vildi svo til að ég las þrjár bækur í röð sem meira og minna gengu út á brotin fjölskyldumynstur.

Tengslin eru hvergi flóknari en í skemmtilegri bók Bjarna Harðarsonar, Svo skal dansa, sem segir sögu tveggja kvenna, Sigríðar Bjarnadóttur Velding og Sesselju dóttur hennar, en Sesselja var langamma Bjarna. Sigríður Velding fæddist um miðja nítjándu öldina og Sesselja skömmu fyrir næstsíðustu aldamót. Sigríður bjó við mikla fátækt, var eiginlega allslaus og Sesselja átti lítið meira, þó hún hafi búið við heldur betri kjör en móðir hennar, en þær áttu báðar börn sem þær gátu ekki annast - Sigríður gaf frá sér tvö börn vegna fátæktar og Sesselja átti fimm börn með fjórum mönnum.

Sagan sem Sindri Freysson segir í Dóttir mæðra minna segir einnig frá börnum sem verða viðskila við mæður sínar, eða réttara sagt mæður sem verða að segja skilið við börn sín sökum fátæktar og aðstöðuleysis, því þó okkur hafi heldur miðað áfram í tíma, komnir vel inn í tuttugustu öldina, var fátæktin litlu minni og síst dró úr því að ungar stúlkur létu fallerast - feðurnir lítið annað en sæðisgjafar sem eru úr sögunni að getnaði loknum.

Sagan hans Sindra segir frá stúlku sem á tvær mæður, aðra líffræðilega og hina sem elur hana upp. Sagan er þó ekki eins einföld og virðist við fyrstu sýn, því líffræðileg móðir stúlkunnar átti sér annað líf; hófst úr fátækt fyrir vestan í að verða eiginkona stöndugs Englendings áður en hún hrökklaðist til Íslands að nýju, varð að skilja barn eftir þar ytra og síðan að láta frá sér annað.

Bók Sindra er mun flóknari smíð en hér er gefið til kynna, en hluti hennar rímaði svo vel við bókina hans Bjarna að mér fannst þær renna saman á kafla.

Þriðja bókin sem ég las í lotunni var einnig um konu sem varð að gefa frá sér barn, eða réttara sagt var svipt barni sínu, því bókin hans Bergsveins Birgissonar um hugarfar kúa hefst þar sem foreldrar ungrar stúlku nánast hrekja hana að heiman og svipta hana barninu. Í henni er mesta klisjusmíðin, bæði hvað varðar örlög móðurinnar og svo barnsins, en sagan er líka allt annars eðlis.

(Birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember sl. Myndin: Kiddi, Setta, Kristbjörg og Sjana koma fyrir í frábærri bók Bjarna Harðarsonar Svo skal dansa.)

Sterkar konur óskast

Sterk konaÞað eru viðtekin sannindi í bókaútgáfu að hinn dæmigerði lesandi er kona á miðjum aldri, áhugasöm um menningu og oftar en ekki langskólagengin. Þrátt fyrir það er bókmenntahefð okkar enn karllæg; þó blessunarlega sé sjatnað flóðið af mæðulegum þroskasögum ungra karla sem ætlaði okkur lifandi að drepa fyrir nokkrum árum, er fátt um sterkar konur að pakka inn fyrir þessi jól.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að lítið fari fyrir konum sem sögupersónum; af þeim íslensku skáldverkum sem ég hef lesið undanfarinn mánuð eða svo eru karlar í góðum meirihluta – 38 á móti 19.

Flestar karlabókanna eru þroska- og baráttusögur karla sem þurfa að komast að því hverjir þeir eru (eða hverjir þeir voru), en inn á milli eru líka bækur sem eru með sterkum konum eða stúlkum í aðalhlutverki, til að mynda Svo skal dansa eftir Bjarna Harðarson, þar sem umkomulausar konur bogna en brotna ekki, og eins í sögunni hans Sindra, Dóttir mæðra minna, þar sem helstu sögupersónur eru konur sem takast á við mikil og erfið örlög.

Þá eru eiginlega upp taldar sterkar konur fyrir þessi bókajól, og þær eru í boði karla.

Í bókum kvenna birtast meiri gufur, nefni sem dæmi pasturslitla aðalpersónu Blómanna frá Maó eftir Hlín Agnarsdóttur, og höfuðpersónu Hins fullkomna landslags Rögnu Sigurðardóttur sem er óttalegur veifiskati (veifiskata?); hefur lítið sem ekkert frumkvæði þó hún sé alltaf að setja sig í skylmingastellingar (enda eru skylmingar nútímans í eðli sínu varnaríþrótt).

Í Góða elskhuganum hennar Steinunnar eru þrjár veigamiklar persónur, forvitnilegur karl, kona sem þýðist hann fyrir einhverjar sakir og svo geðlæknir, fínt efni í sterka sögupersónu, vel menntuð, gáfuð og ákveðin, en svo kemur það í ljós í bókinni að hún þráir ekkert frekar en gullhamra frá karlinum og þegar þeir loks koma er lífi hennar lokið.

Kristin Marja kemst eiginlega einna best frá þessu öllu saman í Karlsvagninum, þó hún sé frekar að velta fyrir sér kynslóðabili en bili milli karla og kvenna þá eru konurnar heilar og saga þeirra trúverðug.

Svo verður ekki annað sagt en að sú Auður djúpúðga sem birtist í samnefndri bók Vilborgar Davíðsdóttur sé mikið kjarnakvendi. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu.

(Birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember sl.)


Pappírinn kvaddur

Rocket eBookFyrir hálfum öðrum áratug lét breski hönnuðurinn og fræðimaðurinn Malcolm Garret þau orð falla í viðtali við Morgunblaðið að bókin væri úreltur upplýsingamiðill. Hann var þá meðal annars að rifja upp sams konar yfirlýsingu og hann hafði sett fram nokkrum árum áður og vakti talsverða athygli og deilur í Bretlandi. Bókin lifir þó enn sem miðill skemmtunar og fróðleiks þó ýmislegt bendi til þess að dagar hennar séu taldir, í það minnsta í núverandi mynd.

Yfirlýsing Garrets beindist að umbúðum en ekki innihaldi; hann var að fjalla um pappír, ef svo má segja, því hann sá fyrir sér að tölvutæknin byði upp á svo mikla möguleika í framsetningu á efni að pappírinn hlyti að láta undan síga. Þeir sem helst hafa gagnrýnt slíka og þvílíka spádóma gleyma því líka oft að bækur eru meira en pappírsstaflar, það er innihaldið sem skiptir máli þó fallega búin bók sé listmunur í sjálfu sér.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem mestum árangri hefur náð í netverslun er bókaverslunin Amazon, sem selur reyndar allt milli himins og jarðar í dag. Eigandi fyrirtækisins, Jeff Bezos,  setti það af stað vegna áhuga síns á verslun, en ekki bókaáhuga; Bezos vildi hasla sér völl á netinu og ákvað að velja þann varning sem hentaði best að selja þar - bækur; auðvelt að geyma, auðvelt að senda, vara sem fólk þarf ekki endilega að handfjatla og þar fram eftir götunum. Í því ljósi, þ.e. að Bezos sé ekki bundinn pappír neinum tilfinningaböndum, kemur því væntanlega ekki á óvart að hann hafi séð möguleika felast í því að yfirgefa pappírinn, fara að selja bækur á rafrænu formi.

Eitt af því sem staðið hefur svonefndum rafbókum fyrir þrifum er að það er erfitt að keppa við pappír þegar þægindi eru annars vegar; það er þægilegt að lesa svart letur af hvítum pappír, ekki þarf sérstakan búnað til að lesa bækur annan en þann sem okkur er náttúrlegur, ekki sérstaka tækniþekkingu nema þá sem við tileinkum okkur sem börn (lestrarkunnátta), ekki þarf að hlaða bækur, þær þola talsvert hnjask (meðal annars að digna), hægt er að hnoða kilju í vasa og hægt er að lesa bók í dag sem prentuð var fyrir 500 árum.

Sumt af þessu verður seint jafnað, það er til að mynda ekki fyrirsjáanlegt að rafbækur geti virkað án rafmagns, en tækninni hefur fleygt svo fram að rafbækur eru bæði handhægar og hentugar og svo hafa þær líka upp á ýmislegt að bjóða sem pappírsbókin hefur ekki; hægt er að hafa margar bækur í einu í rafbók (jafnvel þúsundir bóka - hentugt fyrir skólanemendur), sumar rafbækur er hægt að nota í myrkri, hægt er að stækka og minnka letur, hægt að leita í sumum bókanna og skrifa minnispunkta án þess að skemma "bókina" og svo má nota margar rafbækur fyrir sitthvað fleira, til að mynda spila músík ef vill.

Rocket eBookRúmur áratugur er síðan fyrstu rafbækurnar komu á almennan markað, í það minnsta keypti ég fyrstu rafbókina 1999, Rocket eBook, sem er enn nothæf, þó hún hafi vikið fyrir nýrri bókum (fyrst GEB 1150 og síðan Sony Reader). Rocket eBook var fyrsta rafbókin sem náði einhverri útbreiðslu, en þá var aðalmálið hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að sá sem keypti rafbók gæti miðlað henni til annarra; þ.e. hver bókin var bundin við rafbók þess sem keypti hana. Á þeim tíma, fyrir um áratug, deildu menn líka um tekjuskiptinu og olli því meðal annars að rafbækur voru síst ódýrari en innbundnar bækur, svo einkennilegt sem það kann að virðast.

Á næstu árum birtust reglulega fréttir um að nú væri þetta alveg að koma, nú myndu rafbækur slá í gegn, en allt kom fyrir ekki. meira að segja Microsoft lagði tugmilljónir í þróun og kynningu á hugbúnaði til að lesa slíkar bækur (Microsoft Reader) og ætlaði að ná markaðnum undir sig. Það var þó ekki fyrr en Sony kynnti til sögunnar Sony Reader (PRS-500) að hjólin tóku að snúast (PRS-500 kom á markað haustið 2006, PRS-505 kom 2008 og PRS-700 sama ár).

Sony varð fljótlega aðal rafbókin og reyndar nánast eina rafbókin sem skipti málið, eða þar til Kindle kom til sögunnar.

Það þótti nánast óðs manns æði þegar Amazon kynnti sína rafbók í nóvember 2007, Kindle. Menn fundu henni flest til foráttu, hún væri ljót og dýr og svo myndi enginn bókavinur sleppa hendi af pappírnum. Fljótlega kom þó í ljós að bókaáhugamenn eru ekki endilega pappírsáhugamenn því Kindle var svo vel tekið að tækið seldist upp á fyrstu fimm tímunum og löng bið var eftir fleiri rafbókum. Ný útgáfa kom svo á markað sl. haust, heitir einfaldlega Kindle 2, og verulega endurbætt, þynnri og öflugri, með betri skjá og meira minni (rúmar um 1.500 bækur). Amazon hefur ekki gefið út hve margar rafbækur fyrirtækið hefur selt, en samkvæmt upplýsingum sem birtust á TechCrunch í ágúst sl. höfðu þá selst um 240.000 eintök, sem er langt umfram spádóma, en rétt er að geta þess að Kindle fæst ekki utan Bandaríkjanna. Til samanburðar má geta þess að af Sony Reader höfðu þá selst 300.000 eintök frá því í október 2006.

Kindle er ekki bara fyrir bækur því einnig er hægt að lesa dagblöð og tímarit í tækinu og sökum þess hvernig tækið er upp sett er allt efni sent sjálfkrafa í tækið frá Amazon um þriðju kynslóðar símanet (sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu). Hér er því komið apparat sem hægt er að taka sér í hönd við morgunverðarborðið til að lesa "blaðið", enda er hægt að kaupa áskrift að flestum helstu dagblöðum heims: Le Monde, Frankfurter Allgemeine, The Independent, New York Times, Los Angeles Times, Corriere Della Sera, Financial Times, The Wall Street Journal, The International Herald Tribune og svo má telja.

Fróðir eru ekki sammála um það hvaða áhrif Kindle muni hafa á bóka- og blaðamarkað. Á undanförnum árum hefur mjög hallað undan fæti hjá dagblöðum vestan hafs og þá aðallega fyrir tilstilli netsins; skyndilega varð til dreifileið upplýsinga sem er svo miklu ódýrari og skilvirkari en dagablöð og bókaútgefendur hafa áður þekkt að við því eiga menn engin svör.

Enn sem komið er í það minnsta er ekki svo ýkja mikill munur á verði bóka og blaða eftir því hvort maður fær efnið á pappír eða rafrænu formi þó oft sé erfitt að bera saman vegna tilboða ýmiss konar.
Mánaðaráskrift að Los Angeles Times kostar þannig um 1.200 kr. í Kindle (fyrstu tvær vikurnar ókeypis), en áskrift að pappírsútgáfunni er um 1.500 kr. (kynningartilboð).

Sem dæmi um bók má taka Breaking Dawn, lokabókina í vampírubókaröð Stephenie Meyer, sem kostar hjá Amazon um 1.600 kr. á pappír (innbundin), en um 1.200 í Kindle-útgáfu.

Þess má geta að sendingarkostnaður er ekki innifalinn í verðinu á bókum á pappír á Amazon, en hann er um 500 kr. innanlands (a.m.k. 1.000 kr. til Íslands). Hann er aftur á móti innifalinn í verði bókar á Kindle-sniði (ókeypis sending yfir 3G-farsímanet).

Öll rómantíkin sem tengd er pappírnum, hrjúf hlýleg áferðin, skrjáfið í pappírnum við morgunverðarborðið, lyktin af leðurbandinu, myglulykt af gömlum gersemum, velkta kiljan í rassvasanum - ekkert af þessu skiptir máli því lesendur framtíðarinnar eru þegar orðnir vanir því að lesa á tölvuskjá, lesa vefsíður daginn út og daginn inn, og þeir hafa ekki bundist pappír sömu tilfinningaböndum og þær kynslóðir sem brátt hverfa af sjónarsviðinu.

Þó pappír hafi haft gríðarleg áhrif á sögu Vesturálfu kom hann ekki til sögunnar fyrr en á tólftu öld og það var ekki fyrr en í upphafi nítjándu aldar að pappírsframleiðsla varð svo vélvædd og ódýrt að dreifa upplýsingum á prenti að dagblöð og bækur urðu almenningseign.

Munu menn lesa dagblöð og bækur í sérstökum rafbókum? Skiptumst við á bókum í tölvupósti? Er 2.000 ára sögu pappírs lokið? Við þessum spurningum er ekkert augljóst svar, en þó það sé í sjálfu sér engin ástæða til að halda dauðahaldi í pappírinn er ekki víst að það verði rafbækur sem hafi vinninginn; það er nefnilega ekkert mál að lesa Laxness í farsíma.

FirminÍ greinasafninu " Due Considerations: Essays and Criticism " ræðir John Updike sálugi bækur og mærir pappír eins og gamalla manna er siður; finnst það ferleg tilhugsun að hugsanlega eigi pappírinn eftir að fara sömu leið og papírusinn.

Í greinasafninu "Due Considerations: Essays and Criticism" ræðir John Updike sálugi bækur og mærir pappír eins og gamalla manna er siður; finnst það ferleg tilhugsun að hugsanlega eigi pappírinn eftir að fara sömu leið og papírusinn.
Máli sínu til stuðnings nefnir Updike nokkur atriði sem við færum á mis við, við það að hætta að nota pappír til að skrá texta, að vísu ekkert sem kemur eiginlegum skáld- eða fræðiverkum við, en meðal annars þá gleði sem menn hafa af að sjá fallega bundnar bækur í hillum og að strjúka pappír og spjöld af munúð, bók sem minjagrip og svo má telja.

Bókin Firmin eftir Sam Savage segir frá rottunni Firmin sem elst upp við það að meta bækur eftir innihaldi þeirra, frekar en umbúðum, þ.e. hann lærir sem lítill rottugríslingur (þrettándi gríslingur drykkfelldrar móður) að bækur séu hráefni í hreiðurgerð, enda býr hún gríslingunum sínum þrettán hreiður úr Finnegan's Wake, ólesandi doðranti James Joyce. Þegar Firmin litli fer síðan halloka í slagnum um spenann (rottur eru með tólf spena) fer hann að narta í pappírstæturnar í hreiðrinu og kemst á bragðið: bækur eru hinn besti matur.

Svo vindur sögu Firmin fram, hann étur hvert meistaraverkið af öðru (það er honum til happs að rottufjölskyldan býr í kjallara fornbókaverslunar), en svo kemur að hann fer að rýna í textann á síðunum og ekki verður aftur snúið; Firmin fellur gersamlega fyrir innihaldi bókanna og les allt það sem hann kemst yfir (og kemst meðal annars að því að oft er bragð og áferð viðkomandi bóka býsna líkt inntaki þeirra).

Ýmsir þeir sem fjallað hafa um Firmin hafa haft á orði að erfitt hafi verið að komast yfir það að aðalsöguhetjan sé rotta, alla jafna hafi menn á þeim illan bifur og hjálpar lítt til þó um sé að ræða víðlesna og fróða bókarottu - erfitt sé að líta fram hjá því að rottur eru óþrifaleg og illskeytt kvikindi sem bera með sér plágur og annað ógeð. Rottur eru líka óþokkarnir í sögunni af Despereaux, en mýsnar hetjur, sætar og indælar.

DespereauxSagan af Despereaux, The Tale of Despereaux, er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Kate DiCamillo sem fékk Newberry-verðlaunin bandarísku fyrir bestu barnabók 2004. Höfuðpersóna bókarinnar er nagdýr, líkt og í Firmin, en nú er það mús og það engin venjuleg mús heldur mús sem óttast ekkert og engan. Það skapar eðlilega ýmis vandræði í heimi músanna, því mýs eiga vitanlega alltaf að vera eins og mýs undir fjalaketti.

Inn í söguna af Despereaux, sem varð að vinsælli kvikmynd og sýnd var í vor, fléttast rotta sem er góð, svo vond og svo góð aftur, óhamingjusöm prinsessa og óhamingjusöm ekki-prinsessa, súpuveisla og lútublús svo fátt eitt sé talið. Despereaux er þó málið, músin hugprúða, sem ekki tekst að skelfa þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölskyldu hennar og yfirvalda í Músalandi. Gengur svo langt að þegar hún á að læra að naga bækur fer hún að lesa þær og þá tekur steininn úr: Despereaux er varpað í ystu myrkur. Updike hefði væntanlega kunnað að meta það.

(Hlutar af þessari langloku birtust í Morgunblaðinu í mars og apríl.)

Langdregin leiðindi

ÓþurftaentarÞað er nú svo að oft verða bækur frægar fyrir eitthvað allt annað en gæði og sumar svo frægar að gæðin hætta að skipta máli. Þannig er því til að mynda farið með skáldsöguna miklu Lord of the Rings, eftir J.R.R. Tolkien, sem snarað var sem Hringadróttins saga á íslensku og endaði sem bíómynd. Bókin hefur notið gríðarlegrar hylli í fjóra áratugi og það þó hún sé bæði langdregin og leiðinleg – líkt og kvikmyndirnar sem gerðar voru eftir henni.

Undir lok sjöunda áratugarins, er ég var táningur, var enginn maður með mönnum nema hann hefði lesið Lord of the Rings og þá í þeirri útgáfu sem var með alla eftirmálana og viðbæturnar (eftirmálarnir voru sex alls, hver öðrum leiðinlegri, og fjölluðu um tímalínu atburða, ættartengsl (vei!), dagsetningar, tilbúin tungumál Tolkiens og fleira). Það varð því ekki undan vikist að lesa bókina og það þó ég hafi snemma komist að því að Tolkien hafði ekki beitt sjálfan sig neinum aga við samningu bókarinnar, hann var svo óðamála að úr varð hálfgerður grautur sem brotinn var upp með langdregnum ferðalýsingum.

Varla er þörf á að rekja söguþráð bókarinnar fyrir þér, ágæti lesandi, en hann má læsa í eina setningu: Ef þú ert vondur tapar þú þó að þú vinnir. Þessi einfaldi (augljósi) sannleikur er svo grafinn í orðskrúði á ríflega tólf hundruð síðum í eins bindis útgáfunni, en Tolkien hugðist einmitt gefa bókina út í einu bindi þó pappírsskortur á stríðsárunum hafi komið í veg fyrir það.

Ég spáði í það á sínum tíma, þegar ég var samviskusamlega búinn að lesa langlokuna alla og að auki viðaukana og skýringarnar, að þetta hefði hugsanlega getað orðið góð bók með rækilegri styttingu. Til að mynda hefði mátt draga mjög úr landslagslýsingum, klippa út endurtekningar og álfabull, fækka aðalpersónum og stytta rækilega allar bardagalýsingar. Úr hefði þá orðið ágætis bók, kannski 3-400 síður.

Sumir lesa Lord of the Rings reglulega að mér skilst, en eftir skyldulesturinn um 1970 leit ég ekki í bókina að nýju fyrr en ég frétti að til stæði að kvikmynda hana. Skemmst er frá því að segja að hún hafði lítið batnað í millitíðinni. landslagslýsingarnar fóru að vísu ekki eins mikið í taugarnar á mér og forðum, en dulspekin í bókinni var enn leiðinlegri, álfarnir enn tilgerðarlegri og rómantíkin enn væmnari.

Fyrir nokkru kom út aukin útgáfa myndanna þriggja á tólf DVD-diskum. Myndirnar þrjár eru reyndar ekki nema ellefu klukkutímar að lengd (Föruneyti hringsins er hálfur fjórði tími, Turnarnir tveir tólf mínútum betur og Hilmir snýr heimfullir fjórir tímar og ellefu mínútur til), svo það er talsvert af aukaefni í boði, en í ljósi þess að upprunalegar myndir voru eiginlega ekki annað en löng ferðasaga með innskotum af mönnum í hetjuleik og óteljandi orrustum þar sem menn frömdu óteljandi hetjudáðir má gera ráð fyrir að viðbæturnar séu meira af því sama.

Draumur minn er sá að einhver taki að sér að klippa þessi ósköp saman í eina mynd, úr ellefu tíma langloku verði til ein mynd, tveir tímar eða svo. Mín tillaga er þessi: Byrja á að klippa út nánast öll bardagaatriði, allar tilvísanir í Treebeard og Ent-ana mættu hverfa, burt með Tom Bombadil og hans náttúrutilfinningaklám, sleppa mætti Saruman með öllu og hætta við heimsóknina í krána Prancing Pony, stytta til muna langdreginn flæking þeirra Frodos og Sam, gleyma Gimli og banna Boromir og allt hans slekti og svo má lengi telja. Já, svo má gjarnan gleyma álfunum. Algerlega.

Mér leiðist Llosa

Mari Vargas Llosa

Eflaust hefur það verið erfitt að vera rithöfundur á Íslandi á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, að vera sífellt í skugga Halldórs Laxness. Það kom í hug mér í ferð til Perú fyrir skemmstu að eins hlýtur perúskum rithöfundum að líða þar sem þeir hafa Mario Vargas Llosa sífellt yfir sér, ef svo má segja, enda er hann ekki bara með helstu rithöfundum Suður-Ameríku heldur er hann enn í fullu fjöri, enn að skrifa skáldsögur (Travesuras de la niña mala kom út 2006) og mér fannst ég ekki opna Limeska dagblaðið El Comercio án þess að rekast á grein eftir hann eða um hann.

Mikill áhugi Limamanna á Vargas Llosa um þessar mundir ræðst væntanlega að einhverju leyti af því að sýning sem helguð er lífi hans, "Mario Vargas Llosa, la libertad y la vida", var opnuð í Casa Museo O'Higgins í miðborg Lima í byrjun mánaðarins, en sýningin er sett upp af kristilegum háskóla, Universidad Católica de Lima.

Llosa, sem menn kalla jafnan Vargas Llosa þar suðurfrá, er prýðilegur rithöfundur og alla jafna fer af honum gott orð; menn eru stoltir af sínum manni, dáldið fúlir yfir því að hann skuli ekki hafa hlotið Nóbelinn ennþá almennt sammála um að hann sé mikill og merku rithöfundur. Annað það sem Llosa hefur fengist við er umdeildara, til að mynda stjórnmálastarf hans. Hann er nefnilega mikill frjálshyggjumaður og var einn af stofnendum hægriflokksins Movimiento Libertad sem tók upp samstarf við tvo aðra hægriflokka í samsteypunni Frente Democrático. Llosa bauð sig svo fram sem fulltrúi Frente Democrático í forsetakjöri 1990 og boðaði róttækan uppskurð á perúsku þjóðfélagi. Hann sigraði í fyrri umferð kosninganna, fékk 34% atkvæða, en tapaði svo fyrir öðrum hægrimanni, lítt þekktum verkfræðingi, Alberto Fujimori, í annarri umferð kosninganna.

Stjórnmálavafstur Llosas og skoðanir hans hafa fallið í grýttan jarðveg hjá landsmönnum hans sem þykir mörgum sem hann sé í litlu sambandi við almenning eða það fannst mér í það minnsta á mörgum þeim sem ég ræddi við í Lima. Að því sögðu fannst mér merkilegt hve lítið var spunnið í sýninguna og hvað hún gaf í raun litla innsýn í rithöfundinn Llosa, stjórnmála- og blaðamanninn.Það var skemmtilegt í sjálfu sér að sjá gömlu ritvélina hans og líka gömul bréf, myndir og skruddur (þó ekki hafi allar bækur verið hans, í einu herberginu höfðu menn greinilega keypt nokkra metra af gömlum bókum til skrauts án þess að hirða um innihald þeirra).

Að öðru leyti var sýningin daufleg, fjórtán herbergi af leiðindum - jamm, hann var mjög hrifinn af Flaubert og Sartre, og svo hélt hann líka upp á Faulkner, og skrifaði athugasemdir í bækurnar sínar og páraði í minnisbækur og var í París ... geisp.

Einn kunningi minn perúskur sagðist sakna þess helst á sýningunni að ekki væri sagt almennilega frá sjónvarpsþáttum sem Llosa hefði gert þar sem hann ræddi við rithöfunda víða um Suður-Ameríku, en ég saknaði myndar Rodrigo Moya af Gabriel García Márquez með glóðarauga eftir að Llosa lét hendur skipta í bíói í Mexíkó 1976. Það hefði nú heldur en ekki lífgað upp á sýninguna.


Enginn mannvinur

Alexander SolzhenítsynMario Vargas Llosa skrifaði um Alexander Solzhenítsyn í El Comercio sl. laugardag og nefndi að hann hefði verið eins og spámaður í Gamla testamentinu. Fín samlíking í sjálfu sér því spámenn Gamla testamentisins voru alla jafna að spá vel fyrir sanntrúuðum og innvígðum en illa fyrir öllum öðrum; þeir voru engir mannvinir.

Sama má segja um Solzhenítsyn - hann var ekki mannvinur og síst af öllu einlægur baráttumaður fyrir einstaklingsfrelsi eins og menn héldu fram á Vesturlöndum (og ekki síst í Morgunblaðinu).

Solzhenítsyn má eiga það að hann barðist gegn kúgun eftir að hafa verið brýndur til þess með Gúlagdvöl. Hann fletti ofan af illvirkjum Stalíns, sem ekki er hægt að kalla annað en glæpi gegn mannkyninu, og sýndi mikið hugrekki í þeirri baráttu. Hann var þó ekki að berjast fyrir frelsi heldur rússneskri þjóðernishyggju og alræði réttrúnaraðkirkjunnar og ekki síst að berjast gegn gyðingum, enda kenndi hann þeim um rússnesku byltinguna.

Að mínu viti átti hann ekki skilið að fá Nóbelsverðlaunin - það á ekki að verðlauna menn sem sá hatri.


1001 bók fyrir andlátið

1001 Books you must read before you dieFáir komast yfir það að lesa allar þær bækur sem gefnar eru út hér á landi á ári hverju og væntanlega langar engan til þess. Það er þó fyrst þegar menn átta sig hve mikið er gefið út af bókum í heiminum sem þeim fallast hendur; samkvæmt tölum frá UNESCO koma út um 800.000 titlar í þeim tíu löndum sem gefa mest út, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kína, Þýskalandi, Japan, Spáni, Rússlandi, Ítalíu, Frakklandi og Hollandi (á listanum, sem byggist reyndar að nokkru á heldur gömlum upplýsingum, er Ísland í 29. sæti.

Til að nýta lestímann sem best er gott að leita til annarra, lesa tímarit sem fjalla um bækur, umsagnir í dagblöðum og bloggsíður, en þó helst að hlusta á það sem almennir lesendur segja, enda meta þeir bækur ekki eftir bókmenntafræðilegum dellukvörðum heldur eftir því eina sem skiptir máli: Var bókin skemmtileg eða ekki.

Ekki hef ég tölu á þeim bókum sem fjalla um bækur og þá helst hvaða bækur maður á að lesa. Eitt dæmi um slíka bók er doðranturinn 1001 bók sem maður ætti að lesa fyrir andlátið. Hér er reyndar ekki verið að vísa í 1001 bók um það hvernig eigi að gera upp liðinn ævitíma og búa sig undir lokaferðina, heldur bækur sem vert sé að lesa um ævina, 1001 úrvalsbók, ef svo má segja.

Það er vitanlega ákveðin skemmtun við að fletta slíkri bók og telja hvað maður er nú kominn langt (eða skammt) í menningarlegum þroska, en líka skemmtilegt að velta fyrir sér hvað vantar í slíka bók. Áberandi er til að mynda að þó talsvert sé af kvenrithöfundum í bókinni þá vantar sumar helstu konur í rithöfundastétt, til að mynda er Christinu Stead að engu getið (höfundur The Man Who Loved Children, meðal annars), sú stórmerkilega Ivy Compton-Burnett sést ekki heldur og ekkert eftir Floru Thompson, Edith Wharton (fyrst kvenna til að vinna Pulitzer-verðlaun fyrir The Age of Innocence), Beatrice Webb, Sigrid Undset og svo framvegis.

Í raun má endalaust bæta við í slíkan lista sem þennan; hvar eru Carlo Collodi (höfundur Gosa), Robertson Davies (einn helsti rithöfundur Kanada), Damon Runyon, Orhan Pamuk, Thomas M. Disch, Eduardo Mendoza, T.E. Lawrence, J.B. Priestley, Raymond Carver, Lewis Wallace, Nahgib Mahfouz, Zane Grey og svo má lengi, lengi telja.

Kvarðinn sem beitt er liggur ekki fyrir í inngangi að bókinni og því ekki hægt að meta hvort allri þeir framúrskarandi höfundar sem hér er getið hafi dottið út á tæknilegu atriði, en víst að menningarsögulegt mikilvægi þeirra var mikið þó ekki séu þeir miklir rithöfundar. Nefni sem dæmi í því tilliti mergjaðan stíl Damons Runyons og mikil áhrif bóka hans um bísa í New York, merkisritið Riders of the Purple Sage eftir Zane Grey sem skapaði erki-kúrekann, svipmyndir Edith Wharton af menningar- og hóglífi yfirstétta New York í upphafi 20. aldar og barnabækur Beatrice Webb sem fengu gríðarlega útbreiðslu (skrifaði sem Beatrice Potter).

Vitanlega er til grúi rithöfunda sem ætti heima í slíkri bók og bækurnar þyrftu að vera mun fleiri en 1001, en það er líka gaman að sjá hverjir komust þó inn. Mér er til að mynda spurn af hverju þurfum við að lesa sjö bækur eftir nasistann gamla Wyndham Lewis? Er ekki nóg að lesa The Apes of God og Tarr og láta þar við sitja? Mátti ekki skipta hinni drepleiðinlegu The Childermass út fyrir The Good Companions Priestleys (kom út um líkt leyti)? Af hverju eru níu (!) bækur eftir Graham Greene í bókinni? Er verið að hefna fyrir það að hann fékk aldrei Nóbelinn? Og að lokum: Hvers vegna eiga menn að eitra líf sitt með því að lesa níu bækur eftir Paul Auster og svo aðrar sjö eftir Don DeLillo? Er ekki betra að deyja áður en að því kemur?


Tölvupóstur til Falklandseyja

Steve ToltzFleyg urðu þau orð Halldórs Laxness að menn ættu að skrifa skáldsögur eins og væru þeir að semja símskeyti til Falklandseyja – orðið er dýrt! Hann beitti hnífnum líka óspart sjálfur, skar og tálgaði, stytti og stýfði, snyrti og snikkaði þar til tvö þúsund síður voru orðnar tvö hundurð og jafnvel minna. Það er kúnst og víst mættu fleiri tileinka sér þá kúnst; Paul Auster gerast smásagnahöfundur, Ólafur Jóhann skrifa vinjettur, Tom Wolfe skrifa ferskeytlur og Hallgrímur Helgason, tja, væri hann ekki fínn í málshætti?

Sumir höfundar gleyma sér líka við skrifin, týna sér í smáatriðum, klifa sífellt á sömu hugsun og eru ýmist of duglegir að búa til nýjar persónur eða ekki nógu duglegir við að drepa þær sem fyrir eru. Hvað á það til dæmis að þýða þegar Neal Stephenson skrifar fyrst Cryptonomicon upp á 918 síður og svo forleik hennar á 944+815+912 síðum (The Baroque Cycle: Quicksilver, The Confusion og The System of the World)? Mig þraut örendi á síðu 2.318 af 2.671. Ég klára hana í sumar. Eða ekki. Á borðinu hjá mér liggur svo næsta bók hans, Anathem, sem ég ætla líka að lesa í sumar, 935 síður.

Hvað sem því líður eru sumar bækur góðar fyrir orðaflauminn, gaman að stinga sér í hann og svamla dagsstund, eða nokkra daga ef út í það er farið. Hver myndi þannig treysta sér til að stytta Sacred Games eftir Vikram Chandra án þess að glata keimnum af Mumbay sem gegnsýrir bókina (915 síður)? Hver getur tálgað af Tom Jones eftir Henry Fielding á þess að spilla framvindu hennar (hvert einasta atvik í bókinni miðar frásögninni áfram – 981 síður). Sama má eiginlega segja um Gravity's Rainbow eftir Thomas Pynchon; þegar maður er loks búinn að þræla sér í gegnum hana, 760 síður, áttaði maður sig á því að hún er meistaraverk og þá aðallega fyrir orðbólguna, ruglið, subbuskapinn, stílleysið.

Oftar en ekki eru það ungir rithöfundar sem eiga svo erfitt með að hemja sig, kunna sér ekki læti, að úr verður doðrantur, „doorstopper“ segja enskumælandi. Þeir skrifa líka oft eins og þeir eigi lífið að leysa, fái aðeins þetta eina tækifæri til að koma öllu frá sér sem hefur ólgað í hausnum á þeim í ár eða áratugi. Það getur verið þreytandi að lesa slíkan texta, sjá til að mynda þá annars ágætu bók Special Topics in Calamity Physics eftir Marisha Pessl (528 síður) sem er eiginlega allt of löng, þó í henni séu snilldarsprettir. Það getur þó líka verið gaman að ungæðiskap og orðfimi og þar komum við loks að frumlaginu – nýrri skáldsögu, fyrstu skáldsögu, Ástralans Steve Tolzs sem heitir Fraction of the Whole, 710 síður og engu ofaukið.

Steve Toltz er á fertugsaldri, fæddur í Sidney, en hefur víða farið, búið og starfað í Montreal, Vancouver, New York, Barcelona og París, unnið sem myndatökumaður, handritshöfundur, símasölumaður, öryggisvörður, einkaspæjari og enskukennari.

Líkt og vill vera með rithöfunda var hann sífellt að skrifa frá barnsaldri, ljóð og hugleiðingar ýmsar en þrátt fyrir ýmsar atlögur að skáldsögum segir hann aldrei hafa komist nema nokkrar síður inn í þær þegar hann var búinn að fá leið á sögunni. Í viðtali við netmiðilinn BookBrowse segir hann að hann hafi ekki endilega langað til að verða rithöfundur þó hann hafi alltaf verið að skrifa, en eftir því sem láglaunadjobbunum fjölgaði á ferilskránni áttaði hann sig á því að líklega væru ritstörf eina vinnan sem hann gæti stundað skammlaust.

Fyrir rúmum fjórum árum komast hann svo vel af stað með skáldsögu þegar hann bjó úti í Barcelona og hélt dampi þau ár sem þurfti til að skrifa bókina. Hann segir reyndar að fyrsta árið hafi hann verið í tómu tjóni og endað í körfunni, enda kom í ljós eftir því sem honum miðaði áfram að hann var einfaldlega ekki eins góður og honum fannst þegar hann byrjaði á bókinni. „Það að skrifa skáldsögu gerir mann að rithöfundi,“ sagði hann í viðtali við BookPage fyrir stuttu og má til sanns vegar færa, það er eiginlega handverk sem menn læra af því að gera.

Toltz er iðinn við að vitna í aðra höfunda sem hann segir hafa haft áhrif á sig og á vefsetri hans, www.stevetoltz.com, mætir manni bunki af bókum eftir aðra höfunda, þeir eru í öndvegi á upphafssíðunni: Louis-Ferdinand Celine, John Fante (margar bækur), John Cheever, Henry Miller, Sherwood Anderson, Jorge Louis Borges, Emile Michel Cioran og Knut Hamsun (margar bækur), en einnig nefnir hann Woody Allen, Thomas Bernhard, Ralph Waldo Emerson, Júrí Lemertov og Raymond Chandler sem áhrifavalda.

Í áðurnefndu viðtali segist Toltz hafa velt því fyrir sér eitt sinn hvernig það sé að vera barn manns sem sífellt sé í sviðsljósinu, hvort sem það er vegna þess að viðkomandi sé hataður af öllum þorra manna eða dáður. Upp úr eim vangavelta varð þessi mikla bók, enda er sögumaður hennar, Jasper Dean, sonur manns sem er fyrst elskaður af Áströlum öllum, en síðan svo hataður að hann hrökklast úr landi.

Sagan er ekki svo flókin á yfirborðinu: Jasper Dean situr í fangaklefa og hefur lýsingu á föður sínum, Martin Dean, heimspekingi og draumóramanni, mannhatara sem á þá ósk heitasta að vera almenningi að gagni („lík hans mun aldrei finnast“ eru síðustu orð fyrsta kafla). Það segir sitt um söguna að Martin Dean er hataðasti maður ástralskrar sögu en Terry Dean hálfbróðir hans, siðblindur glæpamaður og ofbeldisseggur, ástmögur Ástrala. Martin á í stöðugum erfiðleikum í samskiptum við fólk, skilur það ekki og fólk skilur ekki hann; hugsanlega vegna þess að hann liggur í dái í fjögur ár og fjóra mánuði og kemst eiginlega aldrei í samband aftur.

Þrátt fyrir það fór hann víða og gerði margt, flest sérkennilegt eða ævintýraleg. Eins og Jasper rekur söguna var Martin þó enginn ævintýramaður, þvert á móti, hann lagði hart að sér til að vera venjulegur, en gat það ekki, hausinn á honum þvældist fyrir honum hvort sem hann var að vinna sem smygill, flóttamaður, þingmaður eða velgjörðarmaður mannsins á götunni.

Svo vindur fram sögunni og Martin Dean fer úr hverju óláninu í annað, allt sem hann gerir er dæmt til að mistakast, allt verður honum að ógæfu og enginn fær að kenna á því eins og hans nánustu. Saga hans er líka saga illmennisins bróður hans, Astrid óræðu sem er móðir Jaspers, andlitsins þungbúna sem grúfir yfir lífi Jaspers og lífi Astrid, Anouk og hins dularfulla Eddie með myndavélarnar sínar. Hver er það? Hverjum er ekki sama þegar maður er að lesa tölvupóst til Falklandseyja – engin lengdartakmörk á okkar tímum.

Á hverri síðu fer Toltz heljarstökk í málfari og hugmyndaauðgi, ryður út úr sér frumlegum setningum og óvenjulegum uppákomum – svona fjörlega skrifa bara þeir sem vita ekki að þeir eiga ekki að skrifa svona. Booker-verðlaunin? Ójá!

Næturlest til Lissabon

Pascal MercierRaimund Gregorius er kennari í svissneskum menntaskóla, öðrum fremri í sínu fagi, vinsæll og vel liðinn sérfræðingur í "dauðum" tungumálum, forngrísku og latínu og að auki sérfróður í fornaldarhebresku, þó hann sé óneitanlega hálf myglaður, svo hefur hann helgað sig fræðunum að hann hefur eiginlega gleymt að lifa lífinu, gleymt að upplifa hversdagslega hluti eins og fjölskyldu og félagslíf. Víst er hann enginn furðufugl og þó; í augum nemenda sinna, sem kalla hann Mundus, er hann stofnun en ekki manneskja, 

Morgun einn er hann á leið í vinnuna er hann hittir fyrir tilviljun portúgalska konu og hrífst svo af henni og tungumálinu að hann fer og kaupir fyrstu portúgölsku bókina sem hann kemst yfir hjá fornbókasala og áður en hann veit af, samdægurs, er hann á leið til Lissabon með næturlestinni, yfirgaf skólann, og líf sitt allt reyndar, án þess að kveðja kóng eða prest.

Bókin sem hann keypti var eftir portúgalskan lækni og ljóðskáld, Amadeu de Prado, og eftir að hafa lesið bókina verður Gregorius heltekinn af löngun til að fræðast um höfundinn. í Lissabon kemst hann svo að því að Prado er allur, lést úr heilablæðingu nokkrum dögum áður, en Gregorius heldur leitinni áfram og smám saman lýkst upp líf Prados fyrir honum um leið og hann fer að fleta síðunum í sinni eigin lífsbók.

Þetta er nokkurn veginn lýsing á söguþræðinum á nýrri bók svissneska heimspekingsins Pascal Merciers (sem heitir í raun Peter Bieri). Bókin, Night Train to Lisbon heitir hún upp á ensku, vakti mikla athygli er hún kom út í Þýskalandi og hefur einnig ver vel tekið víðar, selst í ríflega tveimur milljónum eintaka. Hún fellur í flokk bóka sem er á köflum frekar heimspeki- eða bókmenntalegar hugleiðingar og ná oftar en ekki milljónasölu; sjá til að mynda verk Umberto Ecos, Antonio Tabucchis, Carlos Ruiz Zafóns og Bernhard Schlinks. Í bókum þeirra er atburðarásin og spennan undirliggjandi, það gerist ekkert á yfirborðinu en undir niðri eru átök; menn takast á við hinstu rök tilverunnar og þroskast á glímunni.

Sumir hafa gagnrýnt bókina fyrir það að í henni gerist ekkert og víst hefði Mercier mátt vera gagnorðari. Það þó svo að það hversu hæg framvindan er í bókinni gerir hana skemmtilegri. Eini verulegi gallinn á henni er þó þýðingin enska sem er stirð.


Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband