Færsluflokkur: Kvikmyndir

Langdregin leiðindi

ÓþurftaentarÞað er nú svo að oft verða bækur frægar fyrir eitthvað allt annað en gæði og sumar svo frægar að gæðin hætta að skipta máli. Þannig er því til að mynda farið með skáldsöguna miklu Lord of the Rings, eftir J.R.R. Tolkien, sem snarað var sem Hringadróttins saga á íslensku og endaði sem bíómynd. Bókin hefur notið gríðarlegrar hylli í fjóra áratugi og það þó hún sé bæði langdregin og leiðinleg – líkt og kvikmyndirnar sem gerðar voru eftir henni.

Undir lok sjöunda áratugarins, er ég var táningur, var enginn maður með mönnum nema hann hefði lesið Lord of the Rings og þá í þeirri útgáfu sem var með alla eftirmálana og viðbæturnar (eftirmálarnir voru sex alls, hver öðrum leiðinlegri, og fjölluðu um tímalínu atburða, ættartengsl (vei!), dagsetningar, tilbúin tungumál Tolkiens og fleira). Það varð því ekki undan vikist að lesa bókina og það þó ég hafi snemma komist að því að Tolkien hafði ekki beitt sjálfan sig neinum aga við samningu bókarinnar, hann var svo óðamála að úr varð hálfgerður grautur sem brotinn var upp með langdregnum ferðalýsingum.

Varla er þörf á að rekja söguþráð bókarinnar fyrir þér, ágæti lesandi, en hann má læsa í eina setningu: Ef þú ert vondur tapar þú þó að þú vinnir. Þessi einfaldi (augljósi) sannleikur er svo grafinn í orðskrúði á ríflega tólf hundruð síðum í eins bindis útgáfunni, en Tolkien hugðist einmitt gefa bókina út í einu bindi þó pappírsskortur á stríðsárunum hafi komið í veg fyrir það.

Ég spáði í það á sínum tíma, þegar ég var samviskusamlega búinn að lesa langlokuna alla og að auki viðaukana og skýringarnar, að þetta hefði hugsanlega getað orðið góð bók með rækilegri styttingu. Til að mynda hefði mátt draga mjög úr landslagslýsingum, klippa út endurtekningar og álfabull, fækka aðalpersónum og stytta rækilega allar bardagalýsingar. Úr hefði þá orðið ágætis bók, kannski 3-400 síður.

Sumir lesa Lord of the Rings reglulega að mér skilst, en eftir skyldulesturinn um 1970 leit ég ekki í bókina að nýju fyrr en ég frétti að til stæði að kvikmynda hana. Skemmst er frá því að segja að hún hafði lítið batnað í millitíðinni. landslagslýsingarnar fóru að vísu ekki eins mikið í taugarnar á mér og forðum, en dulspekin í bókinni var enn leiðinlegri, álfarnir enn tilgerðarlegri og rómantíkin enn væmnari.

Fyrir nokkru kom út aukin útgáfa myndanna þriggja á tólf DVD-diskum. Myndirnar þrjár eru reyndar ekki nema ellefu klukkutímar að lengd (Föruneyti hringsins er hálfur fjórði tími, Turnarnir tveir tólf mínútum betur og Hilmir snýr heimfullir fjórir tímar og ellefu mínútur til), svo það er talsvert af aukaefni í boði, en í ljósi þess að upprunalegar myndir voru eiginlega ekki annað en löng ferðasaga með innskotum af mönnum í hetjuleik og óteljandi orrustum þar sem menn frömdu óteljandi hetjudáðir má gera ráð fyrir að viðbæturnar séu meira af því sama.

Draumur minn er sá að einhver taki að sér að klippa þessi ósköp saman í eina mynd, úr ellefu tíma langloku verði til ein mynd, tveir tímar eða svo. Mín tillaga er þessi: Byrja á að klippa út nánast öll bardagaatriði, allar tilvísanir í Treebeard og Ent-ana mættu hverfa, burt með Tom Bombadil og hans náttúrutilfinningaklám, sleppa mætti Saruman með öllu og hætta við heimsóknina í krána Prancing Pony, stytta til muna langdreginn flæking þeirra Frodos og Sam, gleyma Gimli og banna Boromir og allt hans slekti og svo má lengi telja. Já, svo má gjarnan gleyma álfunum. Algerlega.

Vofa tíðarandans

bralds_marx-s_2.jpgVofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa Zetigeist. Kvikmyndin Zeitgeist og síðan Zeitgeist Addendum berst með ógnarhraða um heim allan og í kjölfar þeirra ótal myndir aðrar sem flestar gera sitt til að sýna fram á að hagkerfi heimsins eru sem kölkuð gröf og við öll peð á taflborði auðmanna og óþokka sem skipt hafa heiminum með sér.

Eftir loðmollulega tíma hefur pólitískur áhugi stóraukist hjá ungu fólki - í stað þess að velta helst fyrir sér tískufatnaði, glæsikerrum, skemmtiferðum og afleiðusamningum velta ungmenni nú því fyrir sér hvernig búa megi mannkyni betra líf. Sitthvað hefur ýtt undir þennan áhuga en þó helst af öllu tveir ávextir hins kapítalíska hagkerfis; netvæðing og fartölvur, en upplýsingahraðbrautina varð einmitt til sem tilraunverkefni á vegum bandaríska hersins.

Pólitísk umræða fer í sívaxandi mæli fram á netinu, það er vígvöllur hugmyndanna og þar blómstra vefsíður sem ýmist berjast fyrir tilteknum málstað eða á móti. Ekki síst hefur YouTube orðið skilvirk leið til að skila ádeilunni áfram og eins hafa ýmsir hópar nýtt sér Facebook með góðum árangri; smalað saman mannskap til aðgerða, hnýtt saman hóp óánægðra og miðlað upplýsingum þeim á milli.

Oft eru myndir eins og Zeitgeist-tvennan kallaðar samsærismyndir, enda snúast þær oft um það að á bak við tjöldin sé klíka valdamikilla manna sem véli um líf okkar án þess við fáum nokkru um það ráðið. Það er þó ekki rétt að afskrifa þær því þó sumar myndanna séu tóm steypa, eins og gengur, þá velta aðrar upp spurningum um skipan heimsmála og benda á ýmislegt sem miður hefur farið og miður gæti farið.

Fjármálakreppa sú sem nú gengur yfir heiminn er til að mynda vatn á myllu Zeitgeist-manna, enda fjallar seinni myndin í þeirri syrpu, Zeitgeist Addendum, um peningakerfi sem komið er að fótum fram, aukinheldur sem hún segir frá ýmsum skuggahliðum á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo má telja. Ekki ný sannindi en eftirtektarverð í samhengi kvikmyndarinnar. Eins er eftirtektarverður sá hluti myndarinnar sem segir frá Venusar áætluninni, The Venus Project, sem er hugarfóstur Jacque Fresco, en Fresco, sem býr í Flórída, hefur komið upp grunnmynd af samfélagsgerð sem hann tekur að muni nýtast mannkyni betur en það sem nú er við lýði.

Þó höfundur Zeitgeist-myndanna, Peter Joseph, taki ekki beina afstöðu með eða á móti hugmyndum Frescos þá kemur vel í gegn sú hugmyndafræði sem hann aðhyllist; hann er á móti græðgivæðingu heimsins, á móti hagkerfi kapítalismans sem hann segist byggja á skorti, og leggur til nýja skipan mála. Þeim sem þekkja eitthvað fyrir sér í hugmyndasögu kemur skemmtilega á óvart að það sem Joseph er að boða svipar ekki svo lítið til útópíansks kommúnisma (íslenska þýðingin á utiopia, þ.e. staðleysa, á ekki við í þessu sambandi, og þó).

Marx átti ekki sökótt við kapítalismann, hann taldi hann eðlilegan þátt í þróun samfélags mannanna og því ekkert athugavert við það að njóta góðs af auði síns helsta stuðningsmanns, Friedrich Engels. Í augum Marx yrði kapítalisminn sjálfdauður, en þar skilur með Marxistum og Zeitgeististum að þeir síðarnefndu vilja ganga af kapítalismanum dauðum og það ekki seinna en strax.

Zeitgeist-myndirnar er hægt að sjá hér: http://www.zeitgeistmovie.com/


Tilfinningaklám og "byltingin" í Rúmeníu

12:08, austur af BúkarestKanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Atom Egoyan var verðlaunaður af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn um daginn. Hann er eflaust vel að þeim verðlaunum kominn, mig brestur þekking til að meta það, en ekki fannst mér myndin Framhaldslífið ljúfa / The Sweet Hereafter skemmtileg, fullmikið tilfinningaklám fyrir minn smekk. Hún var þó vel gerð um margt og góðar senur, til að mynda þegar rútan fer niðrum ísinn, þegar Ian Holm sér rútuna í fyrsta sinn og þegar Tom McCamus / Sam bögglast með dóttur sína, Sarah Polley / Nicole, lamaða upp tröppur.

Annað er ekki gott. Söngatriðið í upphafi er til að mynda misheppnað, hljómur allt of góður fyrir útitónleika og ankannalegt að sjá söngkonu syngja svo langt frá hljóðnemanum. Ekki fannst mér það heldur koma vel í ljós að koma lögfræðingsins hafi eins mikið áhrif og nauðsynlegt er til að lygin í lokin hafi eitthvert gildi. Svo var mér eiginlega ómótt af öllu tilfinningaflóðinu.

Miklu betri þótti mér mynd sem ég sá fyrr um daginn, 12:08, austur af Búkarest, eftir rúmenska leikstjórann Corneliu Porumboiu. Hún gerist að mestu í kvikmyndaveri í beinni útsendingu þegar stjórnandi sjónvarpsstöðvar í smáborg austur af Búkarest (sem er ófélegasta borgarheiti sem ég þekki) kallar til sín tvo borgarbúa til að ræða um atburðina 22. desember 1989 þegar Nicolae Ceausescu hraktist frá völdum. Tilefni umræðunnar er að sextán ár eru liðin frá byltingunni og spurningin sem stjórnandi þáttarins varpar fram er hvort bylting hafi líka verið í borginni þeirra - hvort fólk hafi byrjaði sín mótmæli fyrir kl. 12:08 eða eftir að búið var að steypa Ceausescu. Þeirri spurningu er eiginlega ekki svarað, enda flækist málið þegar fólk fer að hringja inn í þáttinn með ýmsar skoðanir á því sem fram fór.

Myndin er bráðfyndin á köflum, en er um leið að fjalla um grafalvarlegt mál, byltinguna rúmensku sem var dularfull í meira lagi (hvaða hlutverk lék Ion Iliescu? af hverju slóst öryggislögreglan í hóp mótmælenda? hvað lá á að drepa Ceausescu? - reyndar ekki spurningar sem varpað var fram í myndinni). Leikarar standa sig vel, þeir Mircea Andreescu, Teodor Corban og Ion Sapdaru bera myndina uppi, sérstaklega Ion Sapdaru. Lúðrasveitin stendur sig líka vel og rúmenska salsað bráðfyndið. Frábær mynd.


Dagar á milli

In Between DaysIn Between Days sem sýnd var í Iðnó gærkvöldi var prýðileg mynd, einföld og beinskeytt. Hún sagði frá kóresku stúlkunni Aimie, sem Jiseon Kim lék einkar vel, sem flytur frá Kóreu til Kanada með móður sinni sem unglingur. Hún á í erfiðleikum með að samsama sig lífinu í Kanada, einangruð og leiðist í skólanum, en kynni hennar af kóresk-kanadískum pilt, Tran, Taegu Andy Kang, gera lífið áhugaverðara um stund.

Höfundur myndarinnar, So Yong Kim, sem byggði hana að einhverju leyti á eigin reynslu, nær vel að sýna leiðindin og tilgangsleysið sem einkenna svo gjarnan líf unglinga og þess heldur unglings er er á milli þjóðfélaga.

Þau Aimie og Tran ná ekki saman nema að vissu marki, hann vill nánara samband en hún, enda hefur hún ekki gert upp við sig hvort hún vilji halda í gamla heiminn - öryggi og áhyggjuleysi æskunnar. Á endanum stígur hún skrefið inn í nýtt líf, nýjan heim, og skilur þá Tran eftir í gamla heiminum. Mjög snyrtilegur endir á myndinni sem er hæfilega tvíræður.

Annað sem er skemmtilega leyst í myndinni er samræður Aimie við föður sinn, sem eftir varð í Kóreu, og skotið er inn á milli atriða. Þau hefjast að morgni snemma í myndinni og lýkur síðan að kvöldi er í ljós kemur að hún hefur ákveðið að vera sátt við hlutskipti sitt. Kim sagði það reyndar í spjalli eftir myndina að faðirinn hafi haft hlutverk í myndinni en síðan verið klipptur út, en mér fannst það eiginlega betra að hann skyldi ekki sjást.

Gaman var heyra í Rottweilerhundunum í partíinum í myndinni, þó partíin sjálf hafi ekki verið ýkja villt - að minnsta kosti ekki á íslenskan mælikvarða.


Leynilíf orðanna

Secret Life of WordsÞá komst maður loks í gang á kvikmyndahátíð - sá í gærkvöldi myndina Leynilíf orðanna, La vida secreta de las palabras, eftir Isabel Coixet. Mjög áhrifamikil mynd þó ekki sé hún gallalaus. Undir lokin ræðir söguhetjan Josef, sem Tim Robbins leikur, við Julie Christie sem er í hlutverki Inge, forstöðumanns, alþjóðastofnunar sem hjálpar fórnarlömbum pyntinga. Þau eru að ræða um hjúkrunarkonuna Hönnu, sem Sarah Polley leikur, sem sinnti Robbins eftir alvarlegt slys. Í því samtali segir Cristie Robbins að það versta sem fórnarlömb þjóðernishreinsana og gegndarlauss ofbeldis í Balkanskagastríðum þurfi að glíma við, en Hanna var hart leikin af löndum sínum, sé skömmin yfir því að hafa komist að.

Primo LeviÞetta rímar vel við það sem ítalski rithöfundurinn Primo Levi segir í bókinn I sommersi ei salvati, The Drowned and the Saved, sem var síðasta bókin sem hann lauk við og kom út 1986. Í þriðja kafla bókarinnar, Skömm, segir hann frá því hve erfitt það reyndist mörgum að hafa komist af og hve margir hafi svipt sig lífi eftir að hafa verið bjargað úr fanga- eða útrýmingarbúðum Þjóðverja. Eins og Levi orðaði það þá áttuðu menn sig þá fyrst á niðurlægingunni þegar henni lauk, og margir áttu erfitt með að horfast í augu við sjálfa sig. Hann ræðir einnig um þá tilfinningu að einhver annar hefði frekar átt að lifa af "hvert okkar [...] hefur tekið sess nágranna síns og lifir í hans stað".

Að mati Levis voru það aðeins hinir verstu sem lifðu hörmungarnar af, hinir sjálfselsku, svikulu, eigingjörnu, fláráðu komust af en hinir göfugu, góðu, hughraustu fórust, drukknuðu. Þeir sem fórust voru þeir einu sem þekktu til fullnustu hörmungar útrýmingarbúðanna og voru fyrir vikið ófærir um að segja frá reynslu sinni.

Eins og Levi lýsti því átti hann sífellt erfiðara með að sætta sig við að hafa komist af þegar svo margir létust, sektarkenndin varð æ sterkari eftir því sem hann lifði lengur. Enn deila menn um það hvort það hafi verið sektin sem varð til þess að hann stytti sér aldur 11. apríl 1987 í stigaganginum heima hjá sér eða hvort hann hafi fallið fyrir slysni.


Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 116875

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband