Keppt í lýsingarorðaklámi

Sigur Rós í MogganumÍ viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum lét Atli Heimir Sveinsson þau orð falla að menn skyldu hafa hugfast að listir séu ekki íþróttakeppni, "listsköpun snýst ekki um að hreppa verðlaunasæti og enn hefur ekki verið sett heimsmet í listum," sagði hann. Það er nú samt svo að okkur finnst gaman að raða listamönnum í verðlaunasæti, velja bestu bækur, plötur eða myndir, fjasa um þær söluhæstu og svo má telja. Öðrum þræði er slíkt markaðstengt, þ.e. blöð velja lista til að selja fleiri eintök, útvarpsstöðvar spila topplista til að fleiri hlusti og svo má telja. (Líka er gaman að benda öðrum á einhverja snilld sem maður hefur sjálfur uppgötvað, en það er eiginlega til hliðar við þennan pistil.)

Alllengi hafa bókaútgefendur haldið úti bókmenntaverðlaunum sem nokkur sátt gefur verið um, en þau eru fyrst og fremst til að selja bækur, sýnist mér - eftir tilnefningu er merkimiða smellt á allar bækur sem tilnefndar hafa verið til að auka á þeim söluna. Nú veit ég ekki hversu vel hefur tekist til við þá söluaukningu, en skilst að sambærileg verðlaun bresk, Booker verðlaunin, hafi stóraukið sölu á þeim bókum sem tilnefndar eru. Íslensk tónlist á sér líka verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin (hljómar eiginlega betur að segja Hin Íslensku tónlistarverðlaun, en kannski full hátíðlegt). Þau voru fyrst veitt 1993, en mér skilst að félagsmenn úr rokkdeild FÍH hafi verið upphafsmenn verðlaunanna, en síðastliðin ár hefur Samtónn "verið ábyrgðaraðili Íslensku tónlistarverðlaunanna" eins og það er orðað á síðu þeirra.

Fyrir þeim sem fylgjast með íslenskri tónlist hafa íslensku tónlistarverðlaunin eiginlega alltaf verið hálf hallærisleg og tilnefningar oft svo útúr kú að ekki er hægt annað en skella uppúr þegar þær eru lesnar. Hugsanleg skýring á þessu er að þeir sem um véla eru ekki að fylgjast með íslenskri tónlist og ég get borið vitni um það að í þau tvö skipti sem ég tók þátt í slíku vali var ég hissa á því hve sumt samstarfsfólk mitt í því vali, "samdómarar", var úti að aka, höfðu til að mynda ekki hlustað á alla þá diska sem velja átti úr, en völdu samt.

Tilnefningar vegna síðustu verðlauna þóttu mér til að mynda sérstaklega ankannanlegar, hljómsveit tilnefnd sem bjartasta vonin sem var að gefa út sína þriðju breiðskífu, tilnefnd hljómsveit sem ekki hafði gefið neitt út og svo má telja. (Vilji menn leita lengra aftur má nefna er Björk Guðmundsdóttir söng fyrir milljarða manna á Ólympíuleikunum árið sem Medúlla kom út og fékk enga tilnefningu þó.) Þetta ár er líka slæmt hvað þetta varðar að mínu viti, tilnefningarnar gefa mjög skakka og villandi mynd af tónlistarárinu og fyrir vikið eru Íslensku tónlistarverðlaunin sama ruglið og endranær. Hvernig stendur til að mynda á því að Sigur Rós er ekki tilnefnd fyrir að hafa spilað fyrir þorra þjóðarinnar á þessu ári með magnaðri tónleikaferð um landi síðsumars? (Ekkert tuð um að hún hafi ekkert gefið út, takk, annað eins hefur nú gerst.) Hvernig stendur á því að Jóhann Jóhansson er hvergi að finna? Hvernig stendur á því að Pældu í því sem pælandi (ýmsir flytja Megasarlög) er tilnefnd sem dægurtónlistarhljómplata ársins en Skakkamanage kemst ekki á lista?

Á síðu tónlistarverðlaunanna má síðan lesa rökstuðning dómnefndar sem er hvorki vandaður né ítarlegur: "Frábær frumraun söngkonunnar sem byrjaði að ferðast um heiminn með Gus Gus þegar hún var aðeins 15 ára gömul," segir til að mynda um plötu Hafdísar Huldar, en ekki ljóst hvort rökin fyrir tilnefningunni eru þau að frumraun hennar sé frábær eða að hún hafi ung lagst í ferðalög. "Popp með lúðrasveitaívafi er sjaldgæft og því sérstakt" segir í rökstuðningi vegna tilnefningar Kajak, þeirrar fínu plötu Benna Hemm Hemm. Þess má geta að hann fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 2005 fyrir áþekka plötu.

Annars eru þessar "röksemdir" að mestu lýsingarorðaklám: "Afskaplega mikill gleðigjafi", "hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur...", "Ein ferskasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi í langan tíma", "Heillandi nýliði ... " "Frábær frumraun ... " (aftur!), "Skemmtileg fjölbreytni ... ", "það er margt í mörgu" (!), ""Hressandi plata með suðrænni stemmningu", "Falleg tónlist ... Klassík fyrir popparana ... ?-)" (!), "Einn óvæntasti gleðigjafi ársins ... Algjör gullmoli!", " ... frábærir textar og æðislegar útsetningar", "SöngvarINN!", "Næstum fullkomið lag!", "Hún er sjúkleg á nýju ... plötunni ... ", "Ein sérstakasta gulrótin í matjurtagarðinum þetta misserið", "Óþarfi að segja meira".

Óttalegur vaðall er þetta. Hvað þýðir það til að mynda að einhver sé "SöngvarINN!"? Og hvað er átt við með þessum orðum: " ... hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur..."? Óneitanlega setur þessi "rökstuðningur" Íslensku tónlistarverðlaunin í ankannalegt ljós, en hæfir skel kjafti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rakst á þetta blogg og verð að segja að ég er að mörgu leyti sammála þér með íslensku tónlistarverðlaunin. Á oft erfitt með að skilja val þeirra. Man t.d. eitt ár(man þó ekki hvaða ár það var) þá vann Björk Guðmundsdóttir enn eina ferðina verðlaun sem besta söngkona. Ef ég man rétt, þá höfðu fram að þessu eingöngu Björk og Emilíana unnið í þeim flokki. Þetta ár hafði Andrea Gylfa farið á kostum í blússöngi sínum og að mig minnir gefið út frábæra plötu. Ekki svo að skilja að Björk hafi ekki átt það skilið, enda held ég MIKIÐ upp á hana, hún er ein af þeim bestu á heimsvísu og finnst mér Íslendingar oft gleyma hversu hæfileikarík hún er. En þetta ár varð ég samt fúl þó Björk ynni, því mér fannst Andrea Gylfa eiga það miklu betra skilið. Andrea er FRÁBÆR söngkona. Ég man ekki til þess að hún hafi e-n tímann unnið til þessara verðlauna en vona að einn daginn muni hún gera það.

Jóna (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 14:21

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Andrea Gylfadóttur hefur unnið íslensku tónlistarverðlaunin oftar en einu sinni fyrir texta sína. Ég er sammála því að hún er með fremstu söngkonum okkar og hefði vissulega átt skilið að vera valin söngkona ársins eitthvert þeirra þrettán skipta sem verðlaunin hafa verið veitt (aðstandendur tónlistarverðlaunanna hafa aftur á móti lagt áherslu á að ekki sé verið að velja bestu listamennina, heldur þá listamenn sem skarað hafa framúr á árinu fyrir einhverjar sakir).

Árni Matthíasson , 8.12.2006 kl. 16:13

3 Smámynd: Kristján Gunnarsson

Það væri mjög undarlegt ef Andrea myndi hljóta verðlaun á árinu eftir einhverja skammarlegust framkomu á rauðanefskvöldin, ásamt Todmobile í heild sinni og hrikalega plötu sem ég hún kanski á ekki svo mikið í.

Hún heftur staðið sig vel, en hún átti það nú samt mest skilið þegar Grafík var og hét ... vona svo innilega að hún nái því formi á ný, að öllum þroska og snilldarleik ólöstuðum. 

Kristján Gunnarsson, 10.12.2006 kl. 04:11

4 identicon

þessi hamfaraskrif eru stórkostleg og ekki oft að svona birtist á opinberum vettfangi nema þá kannski á bloggsíðum 14 ára unglinga. á hverjum degi síðan ég sá þetta fyrst fer ég á heimasíðu ístóns og flissa að sérstökustu gulrótinni í matjurtargarðinum og stóru B-unum tveimur...

p.s. ég segi önnur verðlaun

Helga Þórey Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 13:17

5 identicon

Takk fyrir þessa löngu tímabæru grein um skrípaleikinn kringum Íslensku tónlistarverðlaunin. Ég gæti ekki verið meira sammála þér varðandi smáa letrið á iston.is síðunni. Ég gerði það svo mér til skemmtunar að koma með tillögu að heiðarlegri texta í blogginu mínu. Ég er búin að vera í sömu deildinni og Helga Þórey, að droppa inn á ístón-síðuna reglulega þegar ég er í þörf fyrir aulabrandara! Þessi tónlistarverðlaun eru náttúrulega bara "í boði Senu". Ef okkur langar á annað borð í svona uppskeruhátíðir þá held ég að aðrar útgáfur ættu að taka sig saman og halda sína eigin hátíð og leyfa Senu að sjá um sína ein og sjálf! 

justme (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 14:02

6 identicon

Hvað með Hin íslensku tónlistarverðlaun(in)?

Sigurður (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 14:19

7 identicon

Óborganlega skemmtileg hugmynd að titli!!!  - Nú er bara að koma henni á framfæri við Hinar útgáfurnar ;-)

justme (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 15:04

8 identicon

Skakkamanage kemur fram með "ótrúlega magnaða plötu" þetta árið. Auðvitað komast þau ekki á blað - við elskum miðjutaðið mest. Sykurmolarnir ná ekki einu sinni að fylla Höllina einu sinni á meðan Magni gerir það tvisvar. Þetta er tónlist á Íslandi í dag - þannig að það er verið að fagna því sem fólkið elskar.

Grímur (IP-tala skráð) 10.12.2006 kl. 20:42

9 identicon

Minna má á að reggísveitin Hjálmar var á sínum tíma verðlaunuð sem Rokkhljómsveit ársins. 

Gísli (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 10:08

10 identicon

Sælinú. Ástæða þess að ég er hér er að mig langaði að senda þér tölvupóst Árni en sé síðan þessa færslu sem fjallar einmitt um það sem mig langaði að fá þitt álit á. Þú ert búinn að fara yfir flest það sem ég sé að þessum Grammy verðlaunum okkar Íslendinga en mig langar til að benda á smá í viðbót.

Í fyrsta lagi held ég að langflestir viti ekki að til að fá að vera með í pottinum þá verður útgáfa listamannsins að borga batteríinu um 20.000 krónur per plötu og per flokk (minnið gæti verið að bregðast mér en einhver leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál). Þetta veit ég m.a. vegna þess að sveit sem ég var í varð einmitt tilnenfd tvisvar í flokknum Nýliðar ársins.

Hvað þýðir það? Tökum dæmi um glænýtt rokkband. Ef menn vilja vera með í Rokk-kategóríunni ásamt Nýliðar ársins flokknum þá þarf að greiða 40.000kr fyrir. Ath þetta garanterar ekki að bandið verði tilnefnt til verðlaunanna heldur bara að það verði tekið til greina. Semsagt - þetta er EKKI fólk sem hlustar á músíkina sem gefin var út á árinu og velur síðan hvað var best af því - heldur er þetta fólk sem fær lísta í hendurnar og velur það sem þeim þykir best af því. Þetta útskýrir að hluta til steikina sem maður sér á þessum listum ár eftir ár.

En já kveikjan að þessum skrifum er sú að ég var að renna Angela Test skífu Leaves pilta áðan og ég furðaði mig enn og aftur á því afhverju hún var ekki tilnefnd í fyrra. Mér þykir þetta nefninlega magnaðasta plata sem komið hefur hér út síðan Ágætis Byrjun. Kann einhver einhverja skýringu á því afhverju þessi plata hefur ekki fengið neina athygli? 

Gunnlaugur Lárusson (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 14:25

11 identicon

Það má að sjálfsögðu mikið setja út á ÍT. Rökstuðningurinn á síðu verðlaunanna í ár er t.d. til háborinnar skammar. Betra hefði verið að sleppa honum.

 

Hafa ber í huga að það eru margir ólíkir einstaklingar semskipa dómnefndir ÍT og niðurstöðurnar eru lýðræðisleg niðurstaða þeirra.

 

Það er mjög auðvelt að gagnrýna ÍT án þess að fara með rangt mál. Það er t.d. ekki rétt hjá þér Árni að Björk hafi ekki verið tilnefnd 2004. Hún var þá bæði tilnefnd sem besta söngkonan (Ragnheiður Gröndal fékk verðlaunin) og Medúlla sem besta popp-platan (Mugimama fékk verðlaunin).

 

Hér eru vinningshafar ÍT síðustu 2 ár. Allt aumingjar frá Senu auðvitað!!

 

2004:

Hljóðlega af stað – Hjálmar

Vetrarljóð – Ragnheiður Gröndal

Mugimama is this Mugimusic - Mugison

Jagúar (flytjandi)

Ragnheiður Gröndal (söngkona)

Páll Rósinkranz (söngvari)

Murr Murr – Mugison (lag)

Hjálmar (bjartasta vonin)

 

2005:

Fishermans Woman – Emilíana Torrini

Takk – Sigur Rós

Ást...í sex skrefa fjarlægð frá Paradís - Bubbi

Benni Hemm Hemm – Benni Hemm Hemm

Sigur Rós (flyjandi)

Emilíana Torrini (söngkona)

Bubbi (söngvari)

Pabbi þarf að vinna – Baggalútur (lag)

Benni Hemm Hemm (bjartasta vonin)

 

Mjög auðvelt að gagnrýna þetta, en samt. Gæti þetta ekki verið verra?

 

tj

tj (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 14:34

12 identicon

Mér fannst áhugavert að lesa framlagið frá þér tj. Mig langar samt vegna athugasemdarinnar þinnar um "aumingja frá Senu" að taka fram að það að t.d. ég álíti að tilnefningarnar séu "í boði Senu" þarf ekki að merkja að Sena gefi ekki út góða listamenn en það hefur einfaldlega brunnið við að diskar og listamenn frá Senu eru fyrirferðarmeiri á tilnefningalistanum en aðrir og að mínu mati stundum á hæpnum forsendum. Ég er t.d. sammála því sem fram hefur komið hér að árið í ár sé ekki ár Andreu (þó að hún sé á tveimur diskum) og var mjög undrandi á að sjá hana tilnefnda. Ég er líka á þeirri skoðun að ef verið er að horfa á þetta ár hefði verið eðlilegra að setja nafn Magna Ásgeirssonar í stað Friðriks Ómars eða Bubba í tilnefningu um söngvara ársins (burtséð frá því hvað fólki finnst um keppni í söng þá er það staðreynd að hann stóð sig frábærlega í þeirri keppni sem söngvari, hann söng vel eitt vinsælasta lag ársins og gaf þar að auki út disk með hljómsveitinni sinni). Mér finnst líka mjög sérkennilegt að tilnefna Megasar-diskinn. Ef ég man rétt þá er þetta í þriðja skiptið sem búið er til svona "einn listamaður eða ýmsir listamenn flytja lög Megasar" concept. Þannig er þetta ekki tilnefning út á frumleika, ekki tilnefning til Megasar sjálfs í rauninni og ég spyr mig út á hvað diskurinn er tilnefndur. Það að einhverjir söngvarar flytja lögin vel og "gera þau að sínum" í þriðja skiptið á nærri því jafnfáum árum???? Ég á erfitt með að skilja hvaða forsendur þessi dómnefnd gefur sér þegar ég horfi á svona tilnefningar. Svo eru það ferilplöturnar - þær eru sérkapítuli fyrir sig. Mér fyndist allt í lagi að búa til einn flokk þar sem listamenn eins og Björgvin og Bubbi og Mannakorn (sem NB líka voru með ferilplötu í tónleikaformi á árinu) fá einhvers konar viðurkenningu fyrir ferilinn en að blanda ferilplötum inn í þessa flokka sem tilnefnt er í núna finnst mér mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Ég hef oft átt erfitt með að átta mig á hvaða viðmið þessi dómnefnd setur sér en eftir að hafa skoðað tilnefningarnar í ár botna ég bara ekki neitt í neinu. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að útskýra það fyrir okkur svo að við publicum hættum að vaða svona í villu og svíma og rífa tóman kjaft

justme (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 16:25

13 identicon

Já “justme”. Ég er sammála þér með Megasar tribjútið. Sú tilnefning er í meira lagi undarleg. Það er undarlegt að tilnefna tribjútplötu og undarlegt að tilnefna tribjútplötu sem er ekki einu sinni sérstaklega vel heppnuð. Það er engin sérstök hugsun á bakvið hana og hún er mjög ójöfn að gæðum. En einhverjir eru greinilega á annarri skoðun. Hinsvegar sé ég engar ferilplötur tilnefndar. tj

tj (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 22:45

14 identicon

Kommentið þitt "tj" um ferilplöturnar er einmitt gott dæmi um það hvað viðmiðin sem dómnefndin notar eru óljós allavega í mínum huga. Þegar ég sé nöfn Björgvins og Bubba þá horfi ég þannig á að þeir séu að fá tilnefningu fyrir geisladiskana með hljómleikaupptökum þar sem þeir fara yfir ferilinn. Björgvin og Bubbi er tilnefndir flytjendur ársins og svo Bubbi söngvari ársins. Það getur vel verið að það sé réttlætanlegt en ég hef alltaf tengt þessi verðlaun, hvort sem það er flytjandi ársins eða söngvari ársins við það að menn/konur þyrftu að vera að koma með eitthvað nýtt framlag inn í tónlistarflóruna til að koma til greina og mér er ómögulegt að líta á þessa diska sem annað en endurvinnslu, hversu flottir sem þeir eru. Ég held að fleiri hugsi á svipuðum nótum og ég þarna en vafalaust má skilja þetta á marga vegu. Ef dómnefndin er fyrst og fremst að horfa á tónleikana sjálfa en ekki diskana þá er ég algjörlega sammála Árna að það er undarlegt að ganga framhjá Sigur Rós.

justme (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 23:29

15 Smámynd: Árni Matthíasson

Til gamans má nefna að álíka umræða átti sér stað í Danmörku og lyktaði með því að tónlistargagnrýnendur dagblaða tóku sig saman um að veita árleg verðlaun fyrir í ýmsum flokkum. Á vefsíðu verðlaunanna segir:

Foreningen blev stiftet i foråret 2002. Det skete direkte i forlængelse af Ifpi's uddeling af Årets Danish Music Awards (DMA) i Forum. En kreds af danske musikkritikere besluttede at undersøge muligheden for at uddele en pris, der er uafhængig af pladebranchen og andre kommercielle interesser.

Sjálfum finnst mér þetta fín hugmynd, enda best fyrir verðlaun sem þessi ef þau eru veitt án tillits til markaðshagsmuna. Vel má vera að hægt væri að koma þannig verðlaunum á, en kannski er hægt að berja í brestina hvað varðar Íslensku tónlistarverðlaunin. Nú eru menn búnir að baslast við þau í þrettán ár og hugsanlega tekst einhvern tímann að gera þetta almennilega, ekki síst ef aðstandendur fara að hlusta á þá sem gagnrýnt hafa framkvæmdina í stað þess að finna þeim allt til foráttu.

Árni Matthíasson , 14.12.2006 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband