Satt og logið

Í mars síðastliðnum gafst skoska söngkonan Alexandria "Sandi" Thom upp á því að þurfa að þvælast um landið í lélegum sendibíl og spila fyrir 200 manns á hverju kvöldi. Þegar bíllinn gaf endanlega upp öndina settist hún niður með félögum sínum og þau einsettu sér að finna nýja leið til að ná til fólks. Á endanum ákváðu þau að halda tónleika á Netinu, fara sýndartónleikaferð úr kjallara í Lundúnum. Tónleikaferðin fékk yfirskriftina 21 Nights From Tooting og hófst 24. febrúar sl. Fyrstu tónleikana voru áheyrendur aðeins 70 en tólftu tónleikana voru þeir 182.000. Síðustu tónleikana í röðinni hlustuðu 70.000 manns að jafnaði. Útgefendur sperrtu eyrun og buðu stúlkunni og félögum hennar miljónasamning sem síðan var undirritaður í kjallaranum í beinni útsendingu á netinu, nema hvað.

Þetta hljómar ósköp vel og rómantísk sú mynd sem dregin er upp af fátækum listamanni sem brýst áfram fyrir hæfileika og hugvit. Netfróðir sjá þó strax að hér er mjög vafasöm saga á ferð svo ekki sé meira sagt. Vel má vera að Sandi Thom hafi fengið sér vefmyndavél og notað hana til að senda út tónleika heiman úr kjallaranum hjá sér. Það getur líka verið að það hafi hún gert marga daga í röð. En ef menn eiga að trúa því að 70.000 manns hafi verið að horfa á tónleika hennar samtímis undir það síðasta hættir maður að trúa.

Til þess að geta sent út á netinu þarf vefmyndavél, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera svo dýr ef maður sættir sig við lélega útsendingu, þokkalega öfluga tölvu og nettengingu. Líkt og vefmyndavélin þarf tölvan ekki að kosta svo mikið og það er í sjálfu sér ekki dýrt að vera með nettengingu. Ef senda á út á netinu dugir venjuleg nettenging á meðal fáir eru að horfa, helst ekki fleiri en tveir eða þrír, því slík útsending kallar á talsvert gagnamagn og því meira eftir því sem fleiri horfa, nema hvað.

Rifjum það upp að Sandi Thom var svo fátæk að hún hafði ekki efni á að fara um og spila fyrir 200 manns í hvert sinn (sem flestum hljómsveitum sem eru að stíga fyrstu skrefin finnst reyndar harla gott) og þegar bíldruslan hennar bilaði hafði hún ekki efni á að láta gera við hann. Við eigum síðan að trúa því að hún hafi aftur á móti haft efni á nettengingu sem þjónað gat 70.000 samtímanotendum. Ekki þarf mikla þekkingu á netfræðum til að finna það út að gagnamagn slíkrar útsendingar væri nálægt hálfu fimmta terabæti fyrir klukkutíma tónleika. 4.500.000 GB. Ekki veit ég hvernig samninga hún á að hafa haft við netþjónustu sína, hugsanlega með góðan afslátt fyrir svo mikið gagnamagn, en hjá netþjónustu sem valin var af handahófi hefði slík útsending kostað hálfa sjöundu milljón króna.

Þessi fallega saga er því dæmigerð lygasaga og þarf smá rannsóknir til að komast að hinu sanna. Eftir því sem ég kemst næst var Sandi Thom með útgáfusamning þegar hún byrjaði á netútsendingum sínum, þó við smáfyrirtæki, og líka búin að gera samning við kynningarfyrirtæki.

Ef marka má fyrirtæki sem starfa við að greina netumferð var ekkert sérstakt á seyði um það leyti sem Sandi Thom var að senda út tónleika sína og engin merki um það verið væri að senda út tónleika fyrir 70-100.000 manns á hverju kvöldi. Eins sjá fyrirtæki sem fylgjast með bloggum ekki í sínum skrám að mikið hafi verið bloggað um Thom á þeim tíma, þó hennar sé víða getið í dag.

Nýtt innlegg í þetta mál er svo innlegg gamla Who-foringjans Pete Townsend frá því á þriðjudag en þar segir hann að útsendingarnar hafi ekki verið beinar, heldur hafi tónleikarnir verið hljóðritaðir og svo sendir út yfir netið. Bandvíddin hafi svo fengist fyrir lítið eða jafnvel fyrir ekkert að hann telur og kostnaður Thom af öllu saman ekki verið nema nema um fimmtán milljónir króna fyrir allan pakkann.

Townsend tekur upp þykkjuna fyrir Thom, segir að hún sé fín listakona og eigi allt gott skilið. Látum vera hversu góður tónlistarmaður hún er, það skiptir eiginlega ekki máli í þessu sambandi að mínu mati, en ef það er rétt hjá Townsend að ekki hafi verið logið um fjölda áhorfenda, sem er ósannað, finnst mér lítil vörn í þeirri uppljóstrun hans að logið hafi verið til um að tónleikarnir hafi verið sendir út beint og eins að Thom hafi gripið til þessa ráðs sökum fátæktar. Eins kostar sama gagnamagn að senda út tónleika af bandi og beint ef að er rétt að samtímanotendurnir voru að jafnaði 70.000. (Bloggið hans Townsend er annars ágætar pælingar um Netið og útsendingar á því, en óneitanlega fyndið hvernig hann reynir að stilla sér upp sem miklum spámanni.)

Fleiri hafa gripið til varna fyrir Thom, aðallega með það að vopni að ekkert sé að því að ljúga smá og menn hafi gengið lengra í þá átt en Sandi Thom (Townsend segir að hún sé kannski að segja ósatt, en menn hafi nú logið meiru um Írakstríðið; "But the Sandi Thom story is not the Iraq war.").

Eftir stendur þó að Sandi Thom lét markaðsfyrirtæki sitt véla sig út í ósannindi, spilaði með þó henni hefði svosem átt að vera ljóst að verið væri að ljúga um netvinsældir hennar. Hvort það eigi svo eftir að skaða tónlistarferil hennar er ekki gott að segja, en sem stendur er í það minnsta meira rætt um lygar hennar en tónlistina á netinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Matthíasson

Semsé: Betra er illt umtal en ekkert. Segðu Gary Glitter það.

Árni Matthíasson , 2.6.2006 kl. 13:41

2 Smámynd: Ólafur N. Sigurðsson

haha Gary Glitter var nú sleipur tappi.. en þetta er sorgleg leið til að koma sér á framfæri.

Ólafur N. Sigurðsson, 5.6.2006 kl. 09:08

3 Smámynd: Ólafur N. Sigurðsson

haha Gary Glitter var nú sleipur tappi.. en þetta er sorgleg leið til að koma sér á framfæri.

Ólafur N. Sigurðsson, 5.6.2006 kl. 09:08

4 Smámynd: Ólafur N. Sigurðsson

sjitt.. klárlega bannað að döbbelklikka á senda hérna.

Ólafur N. Sigurðsson, 5.6.2006 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 117484

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband