Tilfinningaklám og "byltingin" í Rúmeníu

12:08, austur af BúkarestKanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Atom Egoyan var verðlaunaður af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn um daginn. Hann er eflaust vel að þeim verðlaunum kominn, mig brestur þekking til að meta það, en ekki fannst mér myndin Framhaldslífið ljúfa / The Sweet Hereafter skemmtileg, fullmikið tilfinningaklám fyrir minn smekk. Hún var þó vel gerð um margt og góðar senur, til að mynda þegar rútan fer niðrum ísinn, þegar Ian Holm sér rútuna í fyrsta sinn og þegar Tom McCamus / Sam bögglast með dóttur sína, Sarah Polley / Nicole, lamaða upp tröppur.

Annað er ekki gott. Söngatriðið í upphafi er til að mynda misheppnað, hljómur allt of góður fyrir útitónleika og ankannalegt að sjá söngkonu syngja svo langt frá hljóðnemanum. Ekki fannst mér það heldur koma vel í ljós að koma lögfræðingsins hafi eins mikið áhrif og nauðsynlegt er til að lygin í lokin hafi eitthvert gildi. Svo var mér eiginlega ómótt af öllu tilfinningaflóðinu.

Miklu betri þótti mér mynd sem ég sá fyrr um daginn, 12:08, austur af Búkarest, eftir rúmenska leikstjórann Corneliu Porumboiu. Hún gerist að mestu í kvikmyndaveri í beinni útsendingu þegar stjórnandi sjónvarpsstöðvar í smáborg austur af Búkarest (sem er ófélegasta borgarheiti sem ég þekki) kallar til sín tvo borgarbúa til að ræða um atburðina 22. desember 1989 þegar Nicolae Ceausescu hraktist frá völdum. Tilefni umræðunnar er að sextán ár eru liðin frá byltingunni og spurningin sem stjórnandi þáttarins varpar fram er hvort bylting hafi líka verið í borginni þeirra - hvort fólk hafi byrjaði sín mótmæli fyrir kl. 12:08 eða eftir að búið var að steypa Ceausescu. Þeirri spurningu er eiginlega ekki svarað, enda flækist málið þegar fólk fer að hringja inn í þáttinn með ýmsar skoðanir á því sem fram fór.

Myndin er bráðfyndin á köflum, en er um leið að fjalla um grafalvarlegt mál, byltinguna rúmensku sem var dularfull í meira lagi (hvaða hlutverk lék Ion Iliescu? af hverju slóst öryggislögreglan í hóp mótmælenda? hvað lá á að drepa Ceausescu? - reyndar ekki spurningar sem varpað var fram í myndinni). Leikarar standa sig vel, þeir Mircea Andreescu, Teodor Corban og Ion Sapdaru bera myndina uppi, sérstaklega Ion Sapdaru. Lúðrasveitin stendur sig líka vel og rúmenska salsað bráðfyndið. Frábær mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband