Skreytt og logið

Love and ConsequencesNú veit ég ekki hvað þér finnst, kæri lesandi, en ég hef ævinlega goldið varhug við ævisögum manna sem rifja upp eftir minni orðrétt samtöl sem þeir áttu fyrir mörgum árum eða áratugum. Ekki batnar það þegar menn hafa orðrétt eftir án þess að hafa verið á staðnum.
 
Aftur á móti telst það íþrótt að kunna að færa í stílinn, að barna frásögn til að gera hana eftirminni- og skemmtilegri og allir góðir sögumenn búa yfir slíku í ríkum mæli, hvort sem þeir eru að skreyta sögur af öðrum eða þeim sjálfum. Það kemur líka ekki að sök - allir sem á hlýða vita væntanlega að inntak frásagnarinnar er satt þó að umbúðirnar, smáatriðin, séu login.
 
Það er alsiða að stjórnmálamenn og aðrar sjónvarpsstjörnur lappi upp á mannorð sitt í sjálfsævisögum og eins hefur það reynst ábatasamt ef ævisagan er harmsaga. Það sannaðist vissulega á James Frey sem skrifaði metsölubókina Mölbrotinn (A Million Little Pieces) fyrir nokkrum árum. Í bókinni segir Frey frá ömurlegri ævi, glímu upp á líf og dauða við fíkniefni og erfiða fangavist. Síðar kom í ljós að megnið af sögunni væri lygi, að Frey krítaði liðugt, þó að hann og útgefandi hans hafi kynnt bókina sem sannleik.
 
James Frey gerðist sekur um ýkjur og fékk að vonum bágt fyrir, gekk of langt í skreytninni, en Laura Albert gekk enn lengra þegar hún bjó til sögupersónuna Jeremiah „Terminator" LeRoy / JT LeRoy, og skrifaði „sjálfsævisögu" LeRoys, The Heart Is Deceitful Above All Things. Hlutskipti LeRoys var enn ömurlegra en Freys og svo ömurlegt reyndar að ekki er eftir hafandi á prenti í virðulegu dagblaði, en margir vildu lesa um það og lásu. Blekkingin var svo umfangsmikil að Albert fékk vinkonu sína til að þykjast vera LeRoy búin hárkollu og sólgleraugum og eignaðist þannig fullt af „vinum", en upp komust svik um síðir og í dag vilja margir helst gleyma samskiptum sínum við LeRoy.
 
Álíka bar og við í vikunni þegar spurðist að „ævisagan" Love and Consequences eftir Margaret B. Jones væri lygasaga. Bókin segir frá ungri stúlku, að hálfu indíáni og að hálfu hvít, sem elst upp hjá fósturforeldrum meðal blökkumanna í glæpahverfi í Los Angeles og byrjar snemma að selja eiturlyf með alvæpni. Sá er hængurinn á sögunni, sem fengið hafði fína dóma og þótti átakanleg, að höfundurinn er í raun hvít stúlka sem alin var upp við allsnægtir í friðsælu hverfi menntamanna og gekk í fyrirmyndarskóla þar sem kennd var önnur og heilsusamlegri iðja en selja krakk og skjóta fólk.
 
Fyrirtækið sem gaf bókina út, Riverhead Books, sem er í eigu Penguin-útgáfurisans, kynnti bókina af krafti og mikið var fjallað um höfundinn í helstu dagblöðum, þar á meðal í New York Times, sem má alla jafna ekki vamm sitt vita. Það var þó einmitt mikil grein í New York Times sem varð til þess að allt komst upp því þegar systir Margaret Seltzer sá hana kynnta í blaðinu sem rithöfundinn Margaret B. Jones og las um ömurlega æsku hennar gat hún ekki orða bundist og hafði samband við blaðið.
 
Í kjölfar þeirrar afhjúpunar hafa menn gagnrýnt höfundinn, nema hvað, en mest gagnrýni hefur þó beinst að útgefandanum og New York Times fyrir að hafa ekki kynnt sér uppruna höfundarins og fyrir að hafa látið nægja þær skýringar að allir sem staðfest gætu söguna væru ýmist dauðir, týndir eða tröllum gefnir og því yrðu þeir bara að trúa. Gleymum því ekki að New York Times gekk í vatnið með James Frey (líkt og aðrir fjölmiðlar reyndar) og eins með JT LeRoy og svo má líka rifja upp að Riverhead gerði einmitt útgáfusamning við James Frey á sínum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 117489

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband