Augað alsjáandi

Presidio modeloUndir lok átjándu aldar hannaði enski heimspekingurinn Jeremy Bentham nýja gerð af fangelsi sem var hagkvæmari er önnur slík vegna þess hve ódýrt væri að reka það; í stað þess að verðir væru á hverju strái væri nóg að hafa einn vörð og skapa þá tilfinningu hjá föngunum að þeir gætu ekki vitað hvenær fylgst væri með þeim. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því að fangelsi Benthams, kallað Panopticon, er spegilmynd af mannlegu samfélagi og þeim ósýnilegu og óskrifuðu reglum sem stýra lífi okkar. (Reyndar líka spegilmynd af trúarbrögðum, en það er önnur saga.)
Annar heimspekingur, Frakkinn Michel Foucault, henti hugmynd Benthams um Panopticon á lofti í verki sínu Agi og refsing (Surveiller et punir) og spann út frá því vangaveltur um það hvernig opið þjóðfélag nútímans hefur í raun orðið til þess að færa fámennum hópi manna æ meiri völd eftir því sem auðveldara verður að fylgjast með okkur.

Þessar kenningar Foucaults og fleiri álíka fræði- og spámanna hafa gert sitt til að leggja grunn að þeirri vænisýki sem einkennir svo umræðu á netinu nú um stundir, sjá til að mynda Zeitgeist-æðið og dellumakeríið hjá þeim sem halda því enn fram að bandarísk stjórnvöld hafi sjálf sprengt tvíturnana í New York. Mér eru minnisstæðar líflegar umræður uppi á Alþýðubandalagsloftinu á Tjarnargötunni fyrir mörgum árum þar sem menn ræddu í alvöru allskyns kenningar og staðhæfingar sem tíminn hefur leitt í ljós að voru tómt bull. Margar dellukenningarnar lifa þó góðu lífi á netinu, afturgöngur, því ungmenni, sem eru í stöðugri valdabaráttu við foreldra sína, falla svo gjarnan fyrir því sem varpar rýrð á yfirvald (les: foreldra).

Við fyrstu sýn hefur netið því heldur en ekki rennt stoðum undir pælingar Foucaults, því aldrei hefur verið betra að fylgjast með fólki en nú um stundir. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða mann í vinnu byrjar þannig á að „Googla“ hann, kanna hvað hann er að gera á MySpace-síðunni sinni eða Facebook. Er þetta kannski gaur (eða gella) sem lýst hefur eftir BDSM-félögum á einkamal.is, eru myndir af viðkomandi fáklæddum og ælandi með vændiskonum (eða unglingsstúlkum) eða að fletta upp um sig á bar? Bloggsíður eru líka góð leið til að komast að því hvaða mann tilvonandi starfsmaður hefur að geyma; er hann fylgjandi dauðarefsingum fyrir stöðubrot eða áhugamaður um áhættuíþróttir eða kannabisreykingar?

Samkvæmt Foucault mætti því segja að netið sé hið fullkomna fangelsi, Panopticon, því allt sem við erum að gera á netinu er fyrir allra augum og þegar það er einu sinni komið þar inn er það þar um aldur og ævi. Er því ekki nærtækt að draga þá ályktun að netið verði til þess að við munum halda aftur af okkur, ekki skrifa neitt eða birta nema vera búin að velta því rækilega fyrir okkur hvort það sé líklegt til að hafa áhrif á framtíðarframa eða -starf?

Öðru nær. Sú hugmynd að það sé fylgst með okkur, að það séu ósýnilegir fangaverðir að lesa tölvupóstinn okkar, skanna hvaða síður við erum að skoða, hlera símtöl og skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum er vissulega skemmtilega galin, en eftir því sem fleiri gera sig að fíflum á netinu skiptir það eðlilega minna máli að vera fífl.

Myndin er af kúbverska fangelsinu Presidio modelo sem byggt er eftir hugmyndum Jeremys Benthams. Castro dvaldi þar um tíma. Friman tók myndina.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér talar höfundur af reynslu, þar sem formenska hans í samtökum um beastíalískan analsadisma hefur gert mörg áformin að engu. ;-)

Ég skora á þig að blogga oftar, kannski fikra þig upp í tvær færslur á mánuði!

Henrý Þór (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 02:01

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Í ljósi þessa, þá er vert að spyrja af hverju blog.is sér tilefni til að setja hömlur á málfrelsi þeirra, sem blogga nafnlaust. Sérstaklega þar sem almennar reglur um velsæmi eru fyrir hendi á blogginu til að hamla gegn óæskilegri tjáningu. Reglur sem ná yfir alla og ættu að nægja.

Hvert er tilefnið fyrir þessu tiltæki? Það hlýtur að vera ærið, er það ekki?

Jón Steinar Ragnarsson, 27.12.2008 kl. 11:39

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já og nafnlausir bloggarar eru ekki nafnlausir í raun og skráðir með bloggin sín undir fullu nafni , kennitölu og ábyrgir fyrir sínum skrifum.

Er þetta vegna tiltekinna aðila, sem fá of mikla athygli að mati blog.is með fréttatengingu.  Fréttatengd blogg eru jú mest lesin og bann við fréttatengingu er því mismunun og höft á tjáningarfrelsi og dreifingu.  Átt þú svör?

Jón Steinar Ragnarsson, 27.12.2008 kl. 11:44

4 identicon

Takk fyrir þennan mola, svolítið erfitt að átta sig á hvert þú ert að fara, því fyrri hlutinn sem þú gerir svo lítið úr í seinni hlutanum, er langbestur.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 12:03

5 Smámynd: Árni Matthíasson

Ágæti Jón Steinar.

Þó þetta sé kannski ekki rétti staðurinn til að svara spurningum sem snúa að mér sem starfsmanni mbl.is (og þar með blog.is):

Það er ekkert athugavert við það að ritstjórn miðils ráði því hvað birtist í miðlinum. Sú ákvörðun að leyfa aðeins fréttatengingar þeirra sem skrifa undir nafni er því fyllilega réttmæt.

Að sama skapi er það sjálfsögð þjónusta við lesendur og í anda opinnar umræðu að krefjast þess að menn skrifi undir nafni. Nærtækt dæmi er umræða um hugsanlega stækkun álversins í Hafnarfirði. Þá skrifuðu ýmsir nafnlaust fyrir stækkuninni sem síðar kom í ljós að voru starfsmenn viðkomandi álfyrirtækis og þar á meðal einn sem fékk greitt fyrir að berjast fyrir stækkuninni.

Fleiri slík dæmi má nefna og óskiljanlegt af hverju þeir sem berjast gegn spillingu og fyrir því að loftað verði út í íslensku þjóðfélagi skuli ekki átta sig á því að ein besta leiðin til þess er sú að koma í veg fyrir að menn séu að halda fram skoðunum í þágu stórfyrirtækja og fjárglæframanna. Víst getur nafnleysi verið skjól í einhverjum tilvikum, en það er líka skjól fyrir skuggabaldur.

Árni Matthíasson , 27.12.2008 kl. 12:48

6 Smámynd: Árni Matthíasson

Kæri Gullvagn.

Það sem ég er að reyna að koma til skila í þessum pistli (og gengur greinilega ekki nema miðlungi vel) er að vel má vera að fylgst sé með okkur og hugsanlega séu einhverjir að safna upplýsingar um hegðun okkar.

Á sama tíma erum við svo sjálf að bera okkur opinberlega á YouTube, Flickr, blogginu og víðar og því er þessi hugsanlega upplýsingasöfnun ekki svo óttaleg.

Árni Matthíasson , 27.12.2008 kl. 12:57

7 Smámynd: Offari

Eftir að hafa lesið svör þín Árni skil ég betur afstöðu til nafnlausra og á þar með auðveldara að sætta mig við dauða minn.

Offari, 27.12.2008 kl. 13:56

8 identicon

Takk Árni - þetta er frábært umræðuefni og ég hef ákveðið að reyna einnig að takast á við það.  Hið alsjáandi auga fyrsti hluti.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 14:31

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Semsagt að þú telur það tryggt að menn séu óhlutdrægir ef þeir skrifa undir nafni? Hefuðu hugsað þessa rökfærslu þína til enda? Er fólk nokkurntíman að skrifa með eða á móti hlutum nema af persónulegum og hagsmunalegum ástæðum?

Er það blog.is að sjá til þess að menn styðji ekki hagsmunamál eða séu með áróður? Er nafnleysið akkilesarhæll þar? Þú ert alveg gersamlega úti á túni hérna maður.  Þeir eru þá eru þá hlutlausir að þínu viti, sem skrifa kvartanir yfir skrifum annarra og reyna með öllum brögðum að fá lokað á fólk, sem þeir samsinna ekki. Þið hlaupið eftir slíku eins og húsbóndahollir hundar.

Hvað með trúarofstækisfólkið, sem er að prómótera sturlun sína hér? Skoðaðu Snorra í Betel. Hér eru heimsendaspádómar og samkomuauglýsingar um allt.  Trúboð.  Allt undir fullu nafni. Þeir kvarta hæst yfir þeim, sem vilja setja ofan í vitleysuna. Er blog.is einhverskonar útvörður fyrir trúarbrögðin t.d.?

Þessar spurningar tengjast beint efni greinarinnar þar sem þú talar niður til almennings, sem vill vernda persónuöryggi og upplýsingaöryggi.  Kallar fók fífl af ósamjafnanlegum hroka. Þetta er því alveg réttlætanlegur vettvangur til að ræða ofangreind mál.  ú sem starfsmaður bloggsins hefur tekið þátt í þessari umræðu og hefur aðstöðu sem forsíðubloggari til að reka þinn áróður.

Þú og ritstjórnin hafið í engu gefið fullnægjandi ef nokkur vitræn svör eða rök fyrir ákvörðuninni. Ég fer því enn og aftur fram á slíkan rökstuðning.  Ég legg einnig til að tilmæli þessa svokallaða fulltrúa neytenda fylgi með og væntanlegur rökstuðningur hans og umboð í efninu.

Hér ættu menn að geta skrifað með og á móti álverum eða rafbyssum eða hverju sem um er deilt án þess að nafnleysi eða greiðslur hafi nokkur áhrif á niðurstöðu umræðunnar. Þar ráða upplýsingar og rök.  Ef álrisarnir vilja koma sínum áróðri á framfæri, verður ekki komið í veg fyrir það hvort sem þeir gera það beint eða í gegnum milliliði.  Þannig er málfrelsið í eðli sínu. Sama gildir um safnaðarfórkólfa, sem nýta bloggið til að prómótera lygina um sína ímynduðu vini og þá sem ekki eru jafn ójarðbundnir.

Ég vona svo að þið látið það ekki bitna á mér persónulega þótt ég setji ofan í við ykkur. Þú getur sent mér póst með rökfærslum þínum ef þér finnst þetta ekki réttur vettvangur og við getum haft umræðuna í því formi á meðan við finnum einhvern flöt á þessu. Það er engin leið að ykkur verði stætt á svona fasisma, ef rökleiðslan er ekki ríkari en þetta. Er þetta þrýstingur að "ofan"? Eru engvir hagsmunir að baki þessari ákvörðun ykkar? Geturðu nefnt dæmi sem taka af allan vafa um nauðsyn þessa tiltækis?  Geturðu tíundað lagaforsendurnar? Ég á margar fleiri spurningar fyrir þig.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.12.2008 kl. 05:18

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst svo sjálfsagt að þú sendir mér lista yfir þau málefni fyrir utan nefnda álversumræðu, sem þið viljið koma böndum á með þessum aðgerðum. Einnig hvers vegna takmarkaður aðgangur eins hóps (sem er ekki nafnlaus nema útávið) á að blogga um fréttir per se, á að leysa þennan "vanda" ykkar.  Ég vil svo benda þér á að móðgun er engin glæpur. Það stingur enginn niður penna án þess að eiga það á hættu að móðga einhvern. Móðgun er svo gleggsta merkið um að sá sem ritar hafi rétt fyrir sér og er síðasta hálmstr´þeirra, sem verða ráðþrota. Ef heilög hneykslan á að ráða orðræðunni á blog.is, þá mun sú orðræða koðna niður og hér yrði eingöngu þægileg blogg húsmæðra með kökuuppskriftir og barnamyndir, umræða um bold and the beutyful og christian glitter klám um allar síður.

Þið eruð ekki bara á hálum ís hvað varðar grundvallar mannréttindi, heldur eruð þið að ganga frá blogginu ykkar með þessu. Skoðaðu bara blogg þeirra sauða, sem taka undir hjá þér. Þar sérðu prospectið.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.12.2008 kl. 05:31

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo ég æri þig nú óstöðugan, þá nægir víst ekki nafnleysið til að taka af rétt manna til að fjalla um fréttir og er gott og nýlegt dæmi um Stazi tilburði þína að banna Már Högnason fyrir sakleysislega og oft skemmtilega kviðlinga, tengda fréttum. Forsendan: Ítrekaðar kvartanir yfir efni þeirra!  Nú liggur næst við að spyrja í tengslum við nafnleysið: Er það snngjart að kvartanir séu nafnlausar? Á sá er beittur er skoðana og tjáningarkúgun á blog .is ekki rétt á að fá að vita hverjir það eru sem leggja inn þessar kvartanir?  Er tryggt að það séu utanaðkomandi lesendur, sem kvarta en ekki persónulegur pirringur þinn út í skoðanir og tjáningu bloggara?

Ég tel það sjálfsagt í ljósi þessa gegnsæis sem þú talar svo fjálglega um að kvörtunarkórinn (sem ég tel vera þröngan hóp) fá einnig nafn. Ég vil vita hvort hér eru á ferðinni raunverulegir einstaklingar, hvort þeir teljist með fullum fimm, hver tíðni kvartana þeirra er eða hvort geðþótti ritstjórnar einn ráði för. Hvað finnst þér um það? Ætlar þú að líða að menn noti þessa leið til að vega að bloggurum úr launsátri? Ég trúi því ekki upp á þig, þennan yfirlýsta mannréttindafrömuð.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.12.2008 kl. 05:48

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að þið ættuð frekar að hafa vöku með þeim, sem blogga undir nafni og tengja ekki við fréttir. Er þetta t.d. það yfirbragð, sem þið viljið sjá á blog.is? Trash, ofbeldisklám, dreggjamenning, klám og ofbeldisklám, allt það lægsta í mannlegu atferli.  Eru ekki velsæmisskilyrði ykkar akkúrat það sem nær yfir þetta í hvaða mynd sem bloggarar birtast? Þarf eitthvað að hnykkja sérstaklega á því við takmarkaðan hóp, sem hefur ekki gerst sekur um velsæmisbrot umfram aðra?

Jón Steinar Ragnarsson, 28.12.2008 kl. 09:06

13 identicon

Áttu eitthvað erfitt, Jón Steinar?

TL; DR

Henrý Þór (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 22:00

14 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæll vertu Jón Steinar.

Það geta allir bloggað nafnlaust á mbl.is svo framarlega sem þeir haldi almenna skilmála. Best að endurtaka þetta þar sem það vefst greinilega fyrir þér: 

Það geta allir bloggað nafnlaust á mbl.is svo framarlega sem þeir haldi almenna skilmála.

Aftur á móti geta þeir ekki tengt bloggfærslur við fréttir nema þeir bloggi undir nafni.

Í ljósi þessa verður æsingur þinn undifurðulegur svo ekki sé meira sagt og þegar skrif þín eru lesin rekst hvað á annars horn; röksemdafærslan þvæla og vænisýkin alvarleg. Þú fyrirgefur vonandi að ég skuli ekki hafa nennu til að svara þér frekar.

Árni Matthíasson , 29.12.2008 kl. 18:44

15 identicon

Bíddu Árni, er ekki öllum nafnlausum hent út af öllum síðum mbl.. .mér skilst það.
Auðvitað er þetta tilraun til stýringar á hver fær að sjást og hver ekki....

En kannski ég notfæri mér það sem Bingi ætlar að gera, að fá einhvern annan til þess að birta mitt efni..

Samkvæmt þér þá er verið að útiloka mig af síðum mbl vegna þess að vondir álversmenn skrifuðu eitthvað.... eitthvað sem menn undir nafni hafa aldrei gert.. hahaha lélegasta afsökun EVAR.

Að mbl taki sig til á þessum krepputímum og hindri málfrelsi segir allt sem segja þarf, það segir allt sem segja þarf um að þið eruð að vernda eitthvað sem þolir ekki ljósið.

DoctorE (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 10:26

16 Smámynd: Árni Matthíasson

Hippókrates: Það er rétt athugað hjá hér, menn eru mis-kurteisir og leiðast útí allskonar dellu, meira að segja undir nafni, en breytir því ekki að fyrir því eru gild rök að neita að birta skoðanir manna á mbl.is nema þær skoðanir séu birtar undir nafni ábyrgarmanns.

DoctorE: Ég sé að hér er á ferð sama vænisýki og hjá Jóni Steinari. Hvað kemur þér eiginlega til að halda að það sé verið að koma í veg fyrir að almenningur fái lesið þína þráhyggju gagnvart trúarbrögðum? Hver þinna óteljandi nafnlausu fréttatenginga heldur þú að hafi fengið yfirvöld til að skjálfa af skelfingu?

Þú sérð kannski fyrir þér fund í reykfylltu bakherbergi þar sem einhver valdsmannslegur hefur rekið hnefann í borðið og sagt með þunga: "Við verðum að stoppa þennan DoctorE!!"

Ónei.

Árni Matthíasson , 30.12.2008 kl. 11:20

17 identicon

Takk fyrir að segja mér að ég sé með þráhyggju vegna trúarbragða... við sjáum hvert þitt take er á málum :)
það er næsta víst að þú myndir ekki segja að td JVJ sé með þráhyggju gagnvart trúarbrögðum, nú eða trúaða sem básúna sína trú hér á hverjum degi hahaha

Ef enginn hefur rekið hnefann í borðið, ef enginn hefur kvartað með röksömum hætti.. hví þá að hafna mér eða setja mig út í horn :)

Ójá

DoctorE (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 11:34

18 Smámynd: Árni Matthíasson

Ágæti DoctorE.

Vel má vera að bloggarinn DoctorE hafi ekki þráhyggju gagnvart trúarbrögðum, eða hvert ætli sé hlutfall trúarbragða í færslum hans síðustu árin? Hvað þarf það hlutfall að vera hátt áður en hægt er að tala um þráhyggju? Hvert er þitt take á því?

Að sama skapi: Hvaða máli skipti í þessu samhengi hvernig aðrir haga sér? Er JVJ sá sem þú miðar þig við? Leiðtogi lífs þíns? Nú eða andskoti? Vorum við ekki að tala um DoctorE?

Sú ákvörðun um að leyfa ekki fréttatengingar nema nafn ábyrgðarmanns sé birt á viðkomandi bloggsíðu er ekki aðför að DoctorE, hvað þá að hún sé aðför að lýðræðinu, tjáningarfrelsinu eða öllu því sem gott og fallegt er í heiminum eins og sumir vilja vera láta.

Árni Matthíasson , 30.12.2008 kl. 11:52

19 identicon

Nú þú varst að segja að ég væri stoppaður af vegna skrifa annarra nafnleysingja... svei mér þá ef ég fíla mig ekki eins og Jesú bara ha :)

Er Richard Dawkins með þráhyggju? Eru allir menn í heiminum sem gera eins og ég haldnir þráhyggju?... nema þeir sem tala með trúabrögðum.
Ég lagði út með því að tala um trúarbrögð og þess vegna er hlutfall þeirra á toppnum hjá mér.
Ég tala um JVJ af augljósum ástæðum, þið flaggið áróðri hans gegn samkynhneigðum, gegn réttindum hinna ýmsu þjóðfélagshópa og hann notar einmitt biblíu sem forsendur fyrir sínum fordómum, þessu flaggið þið óhikað á forsíðu.

Er bara bann við fréttatengingu, var ekki sagt að nafnleysingar yrðu útilokaðir af öllum síðum mbl...??????

DoctorE (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 12:04

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

éinlokan er ekki mín heldur þín Árni minn. Það er óþarfi að ávarpa mig sem einhvern kjána. Éghef ekki nefnt það orði að það væri verið að loka á nafnleysingja hér, en hinsvegar er verið að setja skorður á tjáningafrelsi þeirra algerlega rakalaust. Ef þú getur ekki svarað þessum einföldu spurningum um hverþað er sem þrýstir á um þessa mismunun og hvers vegna, þá ert þú ekki beint málefnalegur. Hver er ókosturinn eða hættan við að nafnlaus maður leggi út af fréttafærslum? Hvaða atvik urðu til þessarar gerræðislegu niðurstöðu?  Hvar eru tilmæli fulltrúa neytenda? Hver er fulltrúi neytenda?

Ég er ekki eins vitlaus og þú villt láta í skína í þessum gáfumannabelgingi þínum. Þú ert vel liðinn náungi að mér skilst og greindur er mér sagt, en ekkert af framgöngu þinni og starfsbræðra þinna gefur tilefn i til að taka því sem gefnu.

Komdu með nöfn. Er BB og sjálfstæðisflokkurinn að heimta þetta? Er það biskupinn? Eru það kannski bara þessir standard vælukjóar á blogginu, sem virðast vera hin raunverulega ritstjórn?  Af hverju er þér ómögulegt að gera hreint fyrir þínum dyrum?

Feitletrað frá mér: Hverjir knýja á um þessar hömlur? Hver eru rökin fyrir þeim? Hvaða atvik urðu til þess að þið ákveðið að þverbrjóta stjórnarskrá og mannréttindasáttmála?  Hvað er verið að verja eða koma í veg fyrir. Hvaða málefni eru helst vandamál í þessu samhengi?

Þið eru ekki bara að meina fólki að tjá sig beint um fréttir heldur ætlið þið að útiloka aðra möguleika fyrir þessa aðila að gera sig sýnilega. ´Þú hefur engu svarað enn, en gefið vægast sagt vafasamt dæmi um álverstarfsmenn. Hvað er að því þótt menn fái borgað fyrir skrif? Hvað er að því þótt menn séu hlutdrægir? Hvernig veistu að einum aðila var greitt? Orðrómur? Persónunjósnir? Eða ertu með kvittanir eða uppáskrifaða játningu viðkomandi? Sérðu ekki rökleysu þína?

Jón Steinar Ragnarsson, 30.12.2008 kl. 14:09

21 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bentu mér svo vinsamlegast á einhver teikn um vænisýki eða þversagnir og rökleysu í málflutningi mínum, fyrst þú telur þig hafa tilefni til svona dónaskapar og sleggjudóma. 

Jón Steinar Ragnarsson, 30.12.2008 kl. 14:12

22 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svo er ég viss um að þú hefur hvorki menntun né þekkingu til að gera klíníska greiningu á andlegu ástandi fólks og kalla það vænisjúkt eða með þráhyggju. 

Jón Steinar Ragnarsson, 30.12.2008 kl. 14:41

23 identicon

Hvað ætli mbl taki upp á næst, þegar þeir nafngreindu eru einnig orðnir óstýrlátir og blogga ekki lengur bara um nærfatnað Britney og Paris Hilton?  Engin bloggfærsla birt fyrr en ritstjórn mbl hefur lesið hana yfir?  Það er allavega atvinnuskapandi, svona í fyrstu, þangað til fólkið fer.

sjá NÚ ER ÉG ALGERLEGA KJAFTSTOPP!!!!!!!!!!

Gullvagninn (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 117478

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband