Cumbia, skælifetlar og sýrt vestrænt popp

BaretoÍ Perú, og víðar í Suður-Ameríku reyndar, panta menn chicha á veitingahúsum og malla líka heima. Í Perú er chicha búið til úr fjólubláum maís, maiz morada, en það er líka heiti á tónlistarstefnu sem náði miklu vinsældum þar í landi á áttunda áratugnum og nýtur enn hylli reyndar, eins og ég sannreyndi í Perúferð síðsumars því vinsælustu plötur landsins á þeim tíma voru ný plata með kombói Juanecos, sem naut gríðarlegrar hylli á áttunda áratugnum, og nýútkomin plata Bareto sem var einmitt hylling chicha-hefðarinnar.

Chicha morada er soðið úr maís og kryddað og tónlistarformið chicha er soðið úr cumbia og kryddað með skælifetlum og sýrðu vestrænu poppi. Cumbia er þjóðleg tónlist ættuð frá Kólumbíu, en upprunalega úr Gíneu í Vestur-Afríku. Við komuna til Suður-Ameríku blandaðist gínesk tónlistarhefð við tónlist sem tíðkaðist meðal innfæddra og úr varð Cumbia. Sú tónlist naut þó hylli víðar en í Kólumbíu, því hún náði traustri fótfestu í Amason-skógunum.

Á áttunda áratugnum varð mikil uppsveifla í Perú í kjölfar umbótahrinu, en byltingin sem varð í ungmennamenningu áttunda áratugarins í Vesturálfu barst líka til Suður-Ameríku og þar á meðal Perú. Í skógarhéruðum Amason var cumbia allsráðandi tónlistarform en þegar ungir menn tóku að nota rafgítara og skælifetla til að spila tónlistina varð til nýtt tónlistarform sem fékk nánast niðrandi heiti: chicha.

Heitið chicha var og er alla jafna notað yfir það sem er ódýrt, hversdagslegt, alþýðlegt og hverfult. Diario chicha þýðir þannig gula pressan (chicha dagblað) og cultura chicha, chicha menning, alþýðumenning. til aðgreiningar frá "alvöru" menningunni sem stunduð var í Lima.

Í bókinni Travesuras de la niña mala eftir Mario Vargas Llosa, dregur Llosa upp mynd af Lima fyrri tíma, heimi fína fólksins sem bjó í stórhýsum í Miraflores með skjólsælum garði þar sem dansað var á kvöldin um helgar mambó, guarachas, merengue, bolero og bugalú. Cumbia var lágstéttatónlist, klámfengin og ruddaleg í augum miðstéttarinnar og ekki bætti úr skák þegar menn voru búnir að flétta "dópmúsík", sýrurokki, saman við og úr varð chicha.

Kombó Juanecos, Juaneco y su Combo, sem áður var getið, er upp runnið 1964 í borginni Pucallpa í Amazon. Höfuðpaur hennar var múrsteinssmiður af kínverskum ættum og framan af hélt sveitin sig við cumbia. Sonur stofnandans tók við sveitinni 1969 og fyrsta platan var tekin upp 1970. Sveitin gekk í gegnum miklar hörmungar 1976 þegar flestir meðlimir hennar fórust í flugslysi. Einn af þeim sem lifðu slysið af var John Wong, leiðtogi hennar, en með nýjum mannskap tók sveitin stefnu í átt að því sem síðar var kallað chicha; bræðing af cumbia, kúbverskum hrynhætti, Andesfjallastemmum og brimbretta- og sýrurokki.

Chicha naut snemma gríðarlegrar hylli í skógarhéruðum Perú og barst síðan til borganna og tók enn breytingum er þangað var komið því; rokki jókst og yrkisefnið breyttist líka - það má lýsa því sem svo að tónlistin hafi orðið harðari bæði hvað varðaði anda og efni, en chicha var þó alltaf lágstéttatónlist, tónlist fyrir verkamenn og fátæklinga. Miðstéttarungmenni hlustuðu á vagg og veltu, á Los Shain's og Los Saicos.

Cumbia er enn vinsæl tónlist í Perú og líklegasta vinsælasta tónlistarformið meðal almennings því þó vestrænt popp njóti hylli þar líkt og víðast hvað annars staðar þá hljómar cumbia út um allt í Lima og víðar, í öllum þeim sæg af smárútum sem finna má í Lima, combi, ómar cumbia daginn út og daginn inn (í bland við reggaetón, en það er önnur saga). Á síðustu árum hefur orðið ákveðin vakning hvað varðar perúska tónlist fyrri tíma. Útgáfufyrirtæki keppast um að gefa út gamalt rokk og eins chicha, bugalú og fleiri tónlistarstefnur sem fallið hafa í gleymsku. Obbinn er eðlilega gefinn út fyrir perúskan markað, en talsvert er einnig alþjóðleg útgáfa, til að mynda safnplöturnar The Roots Of Chicha: Psychedelic Cumbias from Peru og skífutvennan góða Gozalo! Bugalu Tropical.

Eins og fram, kemur var önnur vinsælasta plata Perú í ágúst ný skífa með Juaneco y su Combo þar sem sveitin flytur gamla slagara frá löngum og viðburðaríkum ferli. Það segir svo sitt um vinsældir chicha að vinsælasta platan var með ungri hljómsveit, Bareto, sem var einmitt að rifja upp gamalt stuð.

Bareto er skipuð ungum tónlistarmönnum sem stofnuðu hljómsveitina meðal annars til að feta í fótspor sveita fyrrit íma eins og Black Sugar og Belkings. Fyrsta plata Bareto var stuttskífa, Ombligo, sem kom út 2005, en lengri plata, Boleto (miði) kom út 2006. Á henni leika þeir Bareto-félagar sér með ska, dub og reggí, en á Cumbia, sem kom út í haust, er þjóðlegur arfur undir, cumbia (eins og nafn skífunnar gefur til kynna) og chicha.

Ya se murerto mi abuelo er vinsælasta lag Juanecos og félaga og sló í gegn í útgáfu Bareto. Ótal útgáfur eru til af því á YouTube, en hér er textinn til að syngja með:

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
Tomando trago (ayayay)

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando masato (ayayay)
Tomando masato (ayayay)

Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)

Þýðing:

Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)

Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)

Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)

Masato er áfengur drykkur úr yucarót sem tuggin er og látin gerjast með munnvatni. Suri er stórvaxtin pálmabjöllulirfa. Hvort tveggja er algeng fæða í Amason skóginum. Myndin er af Bareto-félögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband