Meiri tækni, minni gæði

Einhversstaðar las ég það að Elvis hafi hlustað á prufupressur af upptökum á ódýrum ferðaplötuspilurum til að meta mixið því þannig myndi obbinn af aðdáendum hans heyra lögin. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum græjum eru ekki nema miðlungi góð. Kannski eru menn þegar farnir að gera eins með iPodinn og álíka spilastokka - taka upp lög og þjappa þeim síðan í mp3 eða m4a og hlusta á í spilastokk. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum apparötum eru talsvert minni en á venjulegum geisladisk, þó þau séu vissulega meiri en á ferðaplötuspilurunum gömlu.

Undanfarna áratugi hafa menn lagt mikið á sig til að skila tónlist sem best til áheyrenda, byggt fullkomin hljóðver, bætt upptökutækni til muna, smíðað æ betri hljóðnema og beitt tölvutækni til að skila sem bestum hljómi til tónlistarunnenda. Ámóta þróun hefur verið í hljómtækjunum sjálfum, en nú verður væntanlega breyting á - vinsælasta fermingjargjöfin er græjur fyrir iPodinn.

Málið er hinsvegar að músík sem búið að er þjappa á mp3-snið tapar talsvert af gæðum við þá þjöppun, og því meiri gæðum eftir því sem þjöppunin er meiri. Mp3-sniðið byggist nefnilega á svonefndi lossy-þjöppun, þ.e. þjöppun þar sem hluta af upplýsingum er hent. (Annað dæmi um lossy-þjöppun er JPEG-þjöppun sem notuð er fyrir ljósmyndir og algengasta myndasnið á vefnum (.jpg myndir).)

Þegar tónlist er snúið á mp3-snið metur hugbúnaður hvað mannseyrað getur greint og hvað ekki. Til að mynda greinir mannseyrað ekki hljóð sem eru yfir 16.000 sveiflur á sek., 16 kílóhertz, og því er þeim öllum sleppt, menn heyra illa mjög dauft hljóð strax á eftir háværu hljóði og því má henda út þeim lágu hljóðum sem svo háttar um og svo má telja.

Hversu langt er gengið í þjöppuninni fer vitanlega eftir því hvaða gæði menn velja. Fyrir nokkrum árum var alsiða að þjappa tónlistinni í 128 Kbita gæði, síðan fór menn upp í 160, þá 192 og nú er algengt að rekast á skrár sem eru 320 K bitar á sek, sem er í áttina en ekki nógu langt - tónlist á geisladisk er vistuð í mun meiri gæðum; (16 bitar sinnum 44.100 × 2 rásir) = 1411,2 kílóbitar á sek.

Mjög er misjafnt hversu vel gengur að þjappa tónlist, fer meðal annars eftir tónlistinni, þ.e. gerð hennar, og atriðum eins og hvort um tónleikaupptöku sé að ræða, hljóðmynd upptökusalarins og svo má telja. Það hversu vel tónlistin hljómar síðan þegar búið er að þjappa henni er svo smekksatriði, sumum finnst ekkert að því að hlusta á tónlist í 128 kbita gæðum, aðrir þola það ekki og enn aðrir sætta sig ekki einu sinni við 320 kbita gæði.

Það þarf ekki mikla þjálfun eða þroskaða athyglisgáfu til að heyra að tónlist sem er í 128 kílóbita sniði hljómar illa, flatneskjuleg og köld, en ef menn hafa aldrei heyrt annað finnst þeim eflaust eins og þannig eigi þetta bara að vera, svo eigi viðkomandi lag einmitt að hljóma. Þeir kaupa sér síðan stereogræjur til að stinga iPoddnum í, jafnvel allt sambyggt, eins og til að mynda iPod Hi-Fi sem Apple mærir á vefsíðu sinni, og trúa jafnvel bullinu sem þar stendur: "Dock to turn on and tune in to digital music as you've never heard it before. From pumping bass to bright treble, iPod Hi-Fi delivers natural, room-filling sound. Close your eyes and you'd think you were listening to a huge stack of speakers." Það var og.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Þetta eru ansi góðir punktar hjá þér, mjög fáir sem gera sér grein fyrir því að þessi þjöppun skerðir alltaf gæði, hvort sem við heyrum það eða ekki.

Góðir þjapparar í dag styðja náttúrulega VBR (Variable Bitrate) þjöppun, svo reiknirit greina jafnvel hverja sekúndu fyrir sig og hækka eða lækka gæðin eftir þörfum. Nú á dögum sýnist mér algengt að menn hafi 192kbit sem lægri mörk og 320kbit sem hærri mörk.

Sjálfur get ég nú ekki sagst heyra neinn mun á t.d. 192kbit og 256kbit tónlist, en oft heyrir maður mun frá 128kbit og uppí 192kbit, og auðvitað allt undir 128kbit er greinilega í slæmum gæðum.

Steinn E. Sigurðarson, 24.4.2006 kl. 10:13

2 identicon

Sæll Árni, takk fyrir góða síðu. Varðandi þetta með að hlusta á prufupressur í draslhátölurum, gerði Phil Spector þetta ekki líka? Minnir að hann hafi mixað með litla bílhátalara í klefanum. Góð færslan um ólöglegt upphal!

Ari Eldjárn (IP-tala skráð) 25.4.2006 kl. 14:32

3 Smámynd: Tryggvi Thayer

"Hversu langt er gengið í þjöppuninni fer vitanlega eftir því hvaða gæði menn velja." Ég er ekki svo viss. Þjöppunin ræðst líka oft (jafnvel oftast?) af því hvað hlustendur vilja hafa skjalið stórt og það vegur stundum þyngra en gæði. Þannig að þú ert að vissu leyti að bera saman epli og appelsínur því tæknin sem er notuð í hljóðverum hefur með gæði að gera en í hugum flestra snýst þjöppun um nákvæmlega það, þ.e.a.s. að þjappa skrár svo þær taki minna pláss í vistun eða flutningi yfir net. Fyrir mitt leyti er það kostur að geta valið um að hafa bæði - eins mikið af tónlist og ég get hugsanlega komið á spilarann minn fyrir heimshornaflakkið og svo hágæðatónlist fyrir stofuna heima. Hljóðversgæðin eru því mikilvæg en möguleikinn á að þjappa, jafnvel þótt einhver gæði tapast, er líka mikilvægur en af allt öðrum ástæðum.

Tryggvi Thayer, 28.4.2006 kl. 16:22

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Já og nei.

Það er gott að geta valið á milli þess að hafa mörg lög á spilaranum í litlum gæðum eða fá í miklum gæðum. Val sem ekki byggir á þekkingu er aftur á móti ekkert val.

Þau ungmenni sem ekki vita betur, meðal annars vegna auglýsingamennsku fyrirtækja eins og Apple, eru ekki að velja að mínu mati vegna þess að þau hafa mörg aldrei heyrt tónlist í góðum hljómi. Þau velta því ekki fyrir sér hvort þau séu að fórna gæðum með því að hafa tónlistina frekar í 128 Kbitum en í 192 Kbitum - það eina sem þau spá í er plássið. Þú (Tryggvi) getur valið vegna þess að þú veist hverju þú ert að fórna, veist hvernig tónlist getur hljómað best, en þeir sem aldrei hafa heyrt aðra tónlist en þá sem er í 128 Kbita gæðum, finnst þeir ekki vera að fórna neinu. (Það er svo annað mál að kannski er betra að hafa það svo, að vita ekki af hverju maður er að missa, Ingorance is bliss o.s.frv.)

Að þessu sögðu er spurningin um pláss varla spurning lengur þegar obbinn en með 20 GB spilara eða þaðan af stærri - m.v. 20 GB kem ég 4.800 lögum í 192 Kbitum, líklega um ellefu dagar af tónlist. (Það er svo annað mál að það er sama hvað maður er með mikið af músík á spilaranum, stundum er bara ekkert að hlusta á ...)

Árni Matthíasson , 28.4.2006 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband