*$€#%@&#!* +%&$$#!@€&%

MótmæliÍ kjölfar hruns íslensku bankanna hefur heldur en ekki lifnað yfir Íslandi; fjöldi fólks fengið pólitíska köllun og mótmælir sem aldrei fyrr. Síður dagblaða, fréttatímar ljósvakamiðla og vefsíður vefmiðla hafa logað af fréttum af mótmælum, yfirlýsingum og uppákomum. Á sama tíma hefur mikið fjör færst í bloggheima þar sem menn beita breiðu spjótunum og vega hvern annan í gríð og erg, aukinheldur sem nýir vefmiðlar hafa bæst við fjölmiðlaflóruna.

Það gefur augaleið að netið hefur aukið til muna upplýsingaflæði til almennings og gott dæmi um það var til að mynda Kryddsíldarslagurinn á gamlársdag þar sem myndskeiðum af atburðunum, myndum og vitnisburðum snjóaði inn á netið nánast jafnóðum og eitthvað bar við. Þeir sem skima vilja þá flóru geta séð atburðarásina frá ýmsum hliðum og lesið óteljandi túlkun á því sem fram fór. Stundum eru menn að segja frá af nokkru hlutleysi, en á öðrum síðum eru menn eindregið að halda fram tiltekinni skoðun og fara ekki leynt með það.

Allir eru væntanlega samála um að aukin upplýsingamiðlun sé af hinu góða, en ekki er eins gott að svara þeirri spurningu hvort þetta upplýsingaflæði eigi eftir að leiða til breytinga á samfélaginu og hvaða áhrif netið hafi á lýðræðisþróun almennt.

Helstu kostir netsins eru að enginn á það, ef svo má segja, og það hefur aldrei verið auðveldara fyrir menn að kveða sér hljóðs, hrinda af stað eigin vefmiðli, eða bara bloggsíðum, stofna samtök og safna undirskriftum. Hér á landi er aðgangur að netinu aukinheldur ekki sama vandamálið og víða ytra; kannanir hér á landi hafa sýnt að nær allir hafa aðgang að netinu, ýmist á heimili, í vinnu eða skólum eða á bókasöfnum.

Eins og helsti kostur netsins liggur ljós fyrir fer ekki á milli mála hver helsti ókosturinn er: Nafnleysið. Hvernig er hægt að halda uppi samræðum við „corvux corax", „Haffa" eða „skattborgara" þegar maður veit ekki hver er á bak við nafnleysið. Það er þó ekki bara það, því þó nafn viðkomandi sé gefið upp og meira að segja mynd af honum, er ekki á það að treysta - það er ekkert víst að hann sé sá sem hann segist vera og reyndar ekki einu sinni öruggt að sá Jón Jónsson sem þú spjallar við í dags sé sá sami Jón Jónsson og þú spjallaðir við í gær.

Sumir hafa litið til þess að auka megi kosningaþátttöku með því að taka upp kosningar á netinu, en á því er sá ágalli sem þegar er nefndur; enn sem komið er er engin almennt viðurkennd og nothæf leið til að tryggja það að kjósandinn sé sá sem hann segist vera. Nú kemur það kannski ekki svo að sök þó eitthvað sé um svindl ef kosningaþátttaka er mikil, mikil þátttaka þynnir út svindlið, en upp getur komið óþolandi staða ef mjótt er á munum.

Önnur hlið á nafnleysinu hefur líka verið áberandi á bloggsíðum og víðar undanfarna daga og snýr að því hve umræður eiga að til að vera harkalegri á netinu en tíðkast almennt meðal manna. Það að ekki sé hægt að vita við hvern maður er að tala skiptir eðlilega máli í lýðræðislegri umræðu, enda er engin leið að gera sér grein fyrir af hvaða hvötum eða í hvaða tilgangi viðkomandi heldur fram tiltekinni skoðun ef maður veit ekki hver hann er.

Sá plagsiður að ausa þá svívirðingum sem maður er ekki sammála er líka tengdur þessu nafnleysi og eins þeirri fjarlægð sem netið gefur frá viðmælandanum, enda sjaldan sem menn eru kallaðir skíthælar augliti til auglitis þó það sé alsiða á blogg- og spjallsíðum og á örugglega eftir að vera útbreiddara eftir því sem hiti færist í menn þegar líður á árið og ekkert bólar á byltingunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 117477

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband