Langt mál um lágstemmda tónlist

Mi and L'au

Einn leiðinlegasti maður sem ég hef tekið viðtal við er Michael Gira, leiðtogi Swans sem léku á tónleikum hér á landi fyrir löngu, líklega í janúar 1988, þarf að kanna málið. Ég hringdi í Gira út til Lundúna og vissi ekki betur en ég væri að fara að taka viðtal við hvern annan rokkara sem vildi tala um sína tónlist og annarra. Annað kom á daginn. Þegar ég impraði á því við Gira að ég vildi ræða við hann um tónlistina sem Swans væri að spila þrumaði hann í símann: "I don't want to talk about my music!" Ég fitjaði því upp á textunum, enda þeir mikið dómadagsvæl og þunglyndisraus og höfundar slíkra texta hafa jafnan yndi af því að ræða um innitak þeirra. Svarið kom að bragði: "I don't want to talk about my lyrics." Aðrar tilraunir til að fá hann til að setja eitthvað af viti fóru á sömu leið þar til ég spurði hann hvern fjandann hann vildi þá tala um og hann hóf að lesa yfirlýsingu sem var eins og ræða fíflsins í Skoska leikritinu: "full af fimbulglamri - alveg marklaus" (þýð. M.Joch.). Eftir nokkrar línur slökki ég á bandinu og lagði frá mér símtólið. Tók það upp til að kveðja þegar ég heyrði að Gira var búinn.

(Eftir á að hyggja var Gira kannski spældur yfir því hvernig Sykurmolarnir léku Swans í Town & Country klúbbnum í Lundúnum í desember 1987, en Molunum var skotið þar inn til að kynna sveitina, fyrstu tónleikar þeirra í Lundúnum og lítill fyrirvari. Það voru fínir tónleikar fyrir Sykurmolana, en ekki eins fínir fyrir Swans, því þegar Molarnir voru búnir (mögnuð frammistaða reyndar) fóru allir blaðamenn af tónleikunum og hluti tónleikagesta.)

Tónleikarnir Swans í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð voru ekki merkilegir fannst mér, dynjandi, læti og lítið innihald.

Á næstu árum fjarlægðist Swans hávaðann og reyndi fyrir sér með aðgengilegri tónlist (heyr Burning World) og fór þaðan í þyngri músík aftur. Gira leysti sveitina upp 1997 en síðasta platan var tónleikaskífa sem kom út 1999.

Gira hætti þó ekki í músík, hefur sent frá sér sólóskífur og rekur plötufyrirtækið Young God Records. Fyrsta sólóverkefni hans var undir nafninu Angels of Light og platan The Angels Of Light Sing 'Other People' sem kom út í vor er fín. (Smellið hér til að komast á vefsetur Young God Records, en ég vara eindregið við því að menn lesi ævisögu Gira á vefsetrinu - eintóm uppskrúfuð steypa.)

Hvað sem segja má annars um Gira má hann eiga það að hann er ótrúlega fundvís á góða músík til að gefa út. Þannig var hann fyrstur til að átta sig á ágæti Devendra Banhart og rétt að þakka honum fyrir það. Hann hefur einnig gefið út fínar plötur með Akron/Family, fyrsta platan samnefnd sveitinni, sem kom út á þessu ári og líka Akron/Family & Angels of Light, sem er einkar skemmtileg.

Eftir þennan langa inngang komum við svo að kveikjunni að þessum skrifum öllum, semsé ný plata sem mér barst í gær með pari sem kallar sig Mi and L'au, en fyrsta plata þeirra kom út í októberlok vestan hafs og í byrjun desember austan.

Ef marka má kynningartexta um þau hjúin kynntust þau í París þar sem hún (Mi) vann fyrir sér sem fyyrirsæta, en hann (L'au) samdi kvikmyndatónlist. Þau felldu hugi saman og byrjuðu að semja og taka upp tónlist. Fljótlega fannst þeim París þrengja að sér og héldu því til heimalands Mi, Finnlands, þar sem þau settust að í afskekktum kofa þar sem friður fannst til að semja lögin á frumrauninni, Mi and L'au.

Tónlistin er mjög viðkvæmnisleg, fínleg og útsetningar einkar naumhyggjulegar í mjög hægum takti. Slík músík verður oft tilgerðarleg og/eða drepleiðinleg, en söngurinn og skemmtilega útfærðar laglínur, sumar afskaplega fínar, lyfta plötunni. Besta lag hennar er Older, sem minnir um margt á frábæra stuttskífu Espers, The Weed Tree, sem kom út í haust. Fiðla og plokkaður gítar gefa laginu mjög seiðandi blæ og Mi syngur það afskaplega vel. Hún hefur skemmtilega rödd, brothætta og fínlega, en L'au er heldur síðri söngvari eins og heyra má á laginu New Born Child (kannski bara hallærislegt að heyra fullorðinn karlmann syngja viðkvæmnislega "I am a newborn child" hvað eftir annað (i ammmm aaa neeew borrrrnn chiillld).

Til gamans má geta þess að þeim Devendra Banhart og L'au er vel til vina og lagið Gentle Soul á Oh Me Oh My, plötu Banharts, er um Lau.

(Kanski rétt að bæta því við að einn af Swans-mönnum var Roli Mosiman sem ber ábyrgð á bestu upptökunum sem til eru með Ham. Hitti hann hér heima þegar hann tók Ham upp og datt í það með honum einu sinni í New York, mjög skemmtilegur náungi.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband