Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ólundarleg bloggfærsla

Óttalega er ólundarleg bloggfærslan hans Denna frá Ómarsgöngu. Mér þótti það nú nokkur tíðindi að svo margir skyldu ganga á  móti virkjuninni, hvort sem þeir voru 5.000 eða 15.000 (12.000 sagði í Mogganum). 

Hvað varðar auglýsinguna "rosalegu" má til samanburðar nefna að í vor auglýsti Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vissulega "rosalega" mikið og fékk þó ekki nema 4.056 í sína göngu þrátt fyrir "aðra þætti á borð við afar gott veður, lélega sjónvarpsdagskrá og þrælpólitískt mál". Og svo var frjáls mæting í þá göngu allan daginn. 


Fram og aftur blindgötuna

Sé að heimildarmyndin The Road to Guantánamo eftir Michael Winterbottom og Mat Whitecross verður meðal mynda á kvikmyndahátíðinni sem hefst í Reykjavík eftir viku en myndin lýsir dvöl þremenninganna Shafiq Rasul, Asif Iqbal og Rhuhel Ahmed "sem máttu dúsa þar, saklausir, við skelfilegar aðstæður í tvö ár", eins og segir í kynningarbæklingi hátíðarinnar, en þeir voru aldrei kærðir fyrir eitt né neitt.

Myndin sem er hér til hliðar er af kynningarspjaldi sem notað hefur verið vegna myndarinnar í Evrópu að mér sýnist, en vestur í Amríku var annað kynningarspjald notað og varð býsna umdeilt, enda bannaði bandaríska kvikmyndaeftirlitið upprunalega gerð þess og því varð að búa til nýtt. Kvikmyndaeftirlitinu, MPAA, þótti sem myndin, sem sjá má til vinstri hér fyrir neðan, of hryllileg til að hengja mætti hana upp þar sem börn og viðkvæmar sálir gætu séð það enda benti strigahauspokinn sem fanginn ber til þess að verið væri að pynta hann.

Ekki vil ég vanmeta umhyggju kvikmyndaeftirlitsins fyrir bandarískum börnum, en ótal dæmi eru um hryllileg veggspjöld sem eftirlitið hefur engar athugasemdir gert við, til að mynda veit ég ekki betur en að á auglýsingaspjöldum fyrir þá ömurlegu mynd Saw II hafi verið afskornir líkamshlutar. Það sem gerir þessa ákvörðun svo sérdeilis öfugsnúna er að samkvæmt túlkun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna á það ekkert skylt við pyntingar að setja á menn hauspoka á þann hátt sem sýnt er á spjaldinu og brýtur ekki í bága við bandaríska mannréttindahefð. (Þeim, og forsetanum, finnst það reyndar ekki heldur brjóta í bága við þá hefð að draga menn fyrir rétt og dæma síðan fyrir óljós afbrot byggt á sönnunargögnum sem ekki má skýra frá hver eru og framburði vitna sem njóta nafnleyndar og enginn má lesa framburðinn, sjá eða heyra.) Það brýtur aftur á móti í bága við reglurnar að tjóðra menn á þann hátt sem sýndur er á seinni myndinni, þeirri hægra megin. Það má því segja að MPAA hafi bannað myndspjald sem sýnir löglega meðhöndlun fanga (að mati varnarmálaráðuneytisins) en leyft spjald sem sýnir ólöglegar aðfarir.

Þess má svo geta að tveir þremenninganna verða gestir hátíðarinnar og Amnesty International og taka þátt í málþingi um Guantánamo-fangabúðirnar í Iðnó. (Það verður fróðlegt að sjá þá, ekki síst í ljósi þess að þeim (og öðrum föngum í Guantánamo) var lýst sem þeir væru verstir allra (The Worst of the Worst) af háttsettum yfirmanni í bandaríska hernum.)


Dagsbrún umbreytir sér í ekki neitt

Fyrir rétt rúmu ári var kynnt stofnun nýs móðurfélags Og Vodafone, 365 prentmiðla, 365 ljósvakamiðla og P/F Kall í Færeyjum sem bera myndi nafnið Dagsbrún. Skipulag samstæðunnar nýju tók gildi 1. október. Í frétt frá fyrirtækinu sem birtist í Morgunbaðinu 5. ágúst sl segir svo:

"Dagsbrún hf. mun verða hið skráða félag í Kauphöll Íslands í stað Og fjarskipta. Það hyggst marka sér stöðu á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar og stefnir að umbreytingum á þessum sviðum hérlendis og útrás á erlenda markaði."

Mikið var fjallað um hið nýja félag í fréttum í kjölfarið og aðallega á jákvæðum nótum. Þannig birtust fréttir af hagnaði Dagsbúnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 rúmum mánuði eftir að fyrirtækið varð til, en sá hagnaður nam 554 milljónum króna eftir skatta sem var nokkuð meira en á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 er hann var 367 milljónir (hagnaður af rekstri Og Fjarskipta (Og Vodafone)).

Í yfirliti sem fylgdi téðri frétt segir að skuldir séu 13.509 milljónir króna og eigið fé 8.943 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 499 m.kr. og eiginfjárhlutfall 39,8% svo tíndar séu til nokkrar stærðir. (Á hluthafafundi Dagsbrúnar í apríl. sl. kom fram að félagið stefndi að 35-40% eiginfjárhlutfalli til lengri tíma.)

Umsvif fyrirtækisins jukust hratt í kjölfar stofnunar þess, enda háleit markmið sett í upphafi eins og ég nefni hér að framan. Meðal annars var stefnt á stórsókn í útlöndum, keypt prentverk í Bretlandi (Wyndeham - "góður fjárfestingakostur sem fellur að langtímastefnu Dagsbrúnar"), unnið að stofnun fríblaðs í Danmörku og svo má telja, aukinheldur sem fyrirtækið keypti allt það sem það óttaðist að Síminn myndi annars kaupa hér heima.

Í sumar gerðust þær raddir háværar sem hermdu að ekki væri allt með felldu í rekstri fyrirtækisins og 17. ágúst sl. birtust svo fréttir af því að Dagsbrún hefði verið rekin með 1,5 milljarða tapi á fyrri hluta ársins. Þrátt fyrir það voru menn bjartsýnir,  í það minnsta útávið, og forstjóri félagsins, Gunnar Smári Egilsson, sagði við Viðskiptablað Morgunblaðsins að stjórnendur Dagsbrúnar teldu að afkoma félagsins ætti að vera betri en niðurstöður fyrri hluta ársins sýndu. Hann bar sig þó vel og sagði að þegar hefði verið brugðist við ákveðnum þáttum og áfram yrði unnið að því að bæta kostnaðarhlutföll í rekstrinum.

6. september sl. birtist í Viðskiptablaðinu þessi merkilega tafla:

Lykiltölur 30.6. 2006 (m.kr.)
Sala20.176
EBITDA2.096
EBIT676
Hagnaður (tap)(1.522)
Handbært fé frá rekstri f. vexti og skatta500
Greiddir vextir og skattar-681
Handbært fé frá rekstri-181
Fjárfestingar (net CAPEX)-1.360
Frjálst fjárflæði-1.541
Vaxtaberandi skuldir55.654
Eigið fé17.682
Eiginfjárhlutfall19%

Nú kann ég lítið fyrir mér í hagfræði en verð þó að segja að ég varð sleginn yfir þessum tölum enda bentu þær til þess að fyrirtækið stæði verr að vígi en mann hefði grunað. Það kom því ekki á óvart þegar almannarómur hermdi að hitnað hefði undir forstjóranum og að Dagsbrún yrði skipt upp. Orðið skúbbaði á því eins og svo mörgu, sjá til að mynda þessa frétt frá 28. ágúst og svo þessa frá 6 september.

Í gær birtist svo í Morgunblaðinu frétt um það að Dagsbrún hafi verið skipt í tvö félög. Í þeirri frétt er rætt við Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformann Dagbrúnar, sem fer fögrum orðum um uppskiptin og nýju fyrirtækin tvö enda muni aðgerðirnar skila sér í tveimur öflugum félögum "sem í dag eru hvort um sig jafnstórt eða stærra heldur en Dagsbrún var í upphafi ársins". (Góð uppskipti það að taka fyrirtæki, lima það í sundur, selja fasteignir og fyrirtæki sem það átti og eftir standi tvö fyrirtæki sem eru hvort um sig jafnstórt eða stærra en það gamla.)

Þórdís fer á kostum í viðtalinu en best af öllu er svar hennar við spurningunni um hvort sagan hafi ekki sýnt að viðskiptamódel Dagsbrúnar hefði ekki gengið upp:

"Svaraði hún því til að það hefði gengið fullkomlega upp og myndi gera svo áfram. "Dagsbrún gaf sig út fyrir það að vera umbreytingarfélag og því höfum við sannarlega fylgt eftir núna.""

Þarna er svo vel svarað að maður stendur eiginlega á öndinni. Dagsbrún sneri þokkalegum hagnaði í gríðarleg tap á innan við ári, umbreytti hagnaði í tap, hefði Þórdís eflaust sagt og bent á að það hafi verið í samræmi við tilganginn með fyrirtækinu sem var svo mikið umbreytingafélag að það umbreytti sér á endanum í ekki neitt.

Þegar ég las þetta óborganlega svar Þórdísar rifjaðist upp fyrir mér Dilbert ræma sem fjallar um það að ein leið til að meta hvaða augum viðmælandi lítur mann er að skoða hvernig hann lýgur að manni. Í ræmunni glímir Dilbert við svikulan samstarfsmann sem segist ekki hafa unnið umbeðið verk vegna þess að honum hafi verið rænt af íkornum sem hyggist leggja undir sig heiminn. Svo fjarstæðukennd saga sýnir að viðkomandi bar minna en enga virðingu fyrir viðmælandanum. Hvaða virðingu ætli eigendur Dagsbrúnar beri fyrir íslenskum fjölmiðlum?


Vandamál með handfarangur

Fyrir nokkrum áratugum vann faðir minn starf sem kallaði á tíðar ferðir til útlanda. Á þeim tíma voru flugsamgöngur ekki eins almennar og vel skipulagðar og nú er og því kom oft fyrir að heimsferðinni seinkaði fyrir ýmsar sakir. Ein slík seinkun er mér ofarlega í huga en þá tafðist flug frá Lundúnum vegna verkfalls hlaðmanna. Málið var að nokkrir hlaðmenn staðnir að því að stela úr farangri á Heathrow-flugvelli og voru reknir fyrir. Þetta sættu starfsfélagar þeirra sig ekki við og fóru í verkfall til að þrýsta á að mennirnir yrðu ráðnir aftur. Fyrir vikið tafðist flug frá og til Lundúna þar tilbúið var að ráða mennina aftur.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér er öryggisreglur voru svo hertar eftir meint fyrirhugað sprengjutilræði fyrir stuttu að fólki var bannað að hafa handfarangur með sér í flugi. Ég geri ráð fyrir að flestir hafi það í handfarangri sem verðmætast og viðkvæmast því þó aðstæður séu gerbreyttar hvað varðar meðferð á farangri í flugi, mun sjaldséðara að töskur séu skemmdar eða að þær hafi verið opnaðar, þá er það svo að verðmætin vill maður helst hafa í augsýn á heimleiðinni, ekki síst ef skipta þarf oft um flugvél.

Ég verð því að segja að ég skil áhyggjur breskra tónlistarmanna mjög vel (og ekki bara breskra, sjá þessa frétt) en það hljóta fleiri að hafa áhyggjur af því hvert stefni, til að mynda atvinnuljósmyndarar og fleiri þeir sem bera þurfa með sér dýran og viðkvæman búnað milli landa og eins hlýtur tryggingamönnum að renna kalt vatn milli skinns og hörund


mbl.is Öryggisreglur á breskum flugvöllum reiðarslag fyrir tónlistarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósigur Ísraela

Þvert á von bókstafstrúarmanna vestan hafs og víðar varð árás Ísraela á Líbanon ekki til þess að flýta fyrir heimsendi og það þó menn hefði vísað í Opinberunarbókina fram og aftur. Sjá til að mynda hér, hér eða hér. (Ævintýraleg della.)

Öllu verra, fyrir Ísraela í það minnsta, var að árásirnar urðu ekki til þess að auka öryggi Ísraels og merkilegt hve hinn vel vopnaði her landsins var illa búinn undir stríðið þegar á reyndi. Ýmsir hafa gert því skóna að ráðamenn vestan hafs hafi lagt hart að Ísraelum að láta til skarar skríða og talið þeim trú um að loftárásir á bækistöðvar Hizbolla myndu draga broddinn úr Hizbolla og síðan mætti sprengja Líbani til hlýðni - með árásum á óbreytta borgara í bland við árásir á Hamas, samanber fjöldamorðin í Qana, mætti berja Líbani til þess að afvopna Hamas. það hefur og komið framað Bandaríkjamenn áttu von á því að átökin í Líbanon gætu veikt stöðu Sýrlendinga og þar með breytt valdahlutföllum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Málið er bara það að Hizbolla hefur komið sér svo vel fyrir í samfélagi sjíta í Suður-Líbanon og nýtur svo mikillar velvildar að eina leiðin til að sigra samtökin er að drepa alla íbúa svæðisins eða hrekja þá á brott fyrir fullt og allt. Það bætir enn stöðu samtakanna að nú þegar flóttamenn snúa aftur til sína heima eru það Hamas-liðar sem leggja þeim lið við að endurreisa húsnæði, tengja vatnsleiðslur, endurbyggja skóla og sjúkrahús og útdeila mat og lyfjum til þurfandi. Stjórnvöld í Beirút hafa ekki brugðist við af sama krafti og ekki Sameinuðu þjóðirnar - ekki er bara að Hizbolla hafi unnið stríðið (með því að lifa það af og gott betur) - samtökin eru líka að vinna friðinn.

Ýmsir hafa reynt að gera hið besta úr öllu saman, halda því fram að Hizbolla sé nánast óstarfhæft, að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna muni tryggja öryggi Ísraels og halda Hizbolla í skefjum, en það er bara tálsýn og óskhyggja. Yfirlýsingar Bush um þessi máli eru til að mynda hreinn barnaskapur og eins var flest það sem frá Condolezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna tóm steypa. Hún er rúin trausti í þessum heimshluta.

Ísraelskur almenningur er sleginn yfir lélegri frammistöðu hersins, ekki síður en yfir aulagangi yfirmanna hans og forsætisráðherrans - ríflega helmingur Ísraelsmanna telur að hernum hafi mistekist ætlunarverk sitt og enn fleiri telja að Ísrael hafi ekki náð neinu af markmiðum sínum með árásinni á Líbanon. Kemur ekki á óvart að menn eru almennt mjög óánægðir með forsætisráðherrann og enn óánægðari með varnarmálaráðherrann.

Ágæt úttekt á niðurstöðu stríðsins í Suður-Líbanon hjá Shmuel Rosner blaðamanni Haaretz hér. ("My Lebanese friend wrote me a couple of days ago: "Destroying Lebanon will do you no good; all you're doing is nurturing additional hate towards the Israelis." I have not yet answered. I don't really know what to say.")

Hann tekur líka fyrir orðaleppana og hálfsannleikinn sem stjórnmálamenn bregða fyrir sig hér. ("70% of Hezbollah capability was destroyed But it appears that these terrorist bastards had 750% before the war.")


Leiðakerfi andskotans

Gaman að þessu, Fyrst eyðileggja Vinstri Grænir strætó með Björk Vilhelmsdóttur í broddi fylkingar - taka upp leiðakerfi andskotans, og síðan vilja þeir leggja byggðasamlagið af.

 "Við hjá Strætó höfum mikla trú á þessu kerfi og erum í raun sannfærð um að þegar fólk kynnist því verði mikil ánægja með kerfið," sagði Björk Vilhelmsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi vinstri græna innan R-listans og stjórnarformaður Strætó bs. í viðtali í Morgunblaðinu fyrir rétt rúmu ári. Hvað segir hún nú? En allir þeir mörgu merku sérfræðingar sem hún vitnaði svo gjarnan í?


mbl.is VG leggja fram tillögu í borgarráði um endurreisn Strætisvagna Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfi til að drepa

Merkilegur andskoti.

Sprengingar í Mumbai, á annað hundrað óbreyttra borgara ferst, mikil rannsókn, 300 handteknir.

Sprengingar í Beirút, hátt í hundrað óbeyttra borgara ferst. Enginn handtekinn.


Rottur!

Skemmtilegur pistill eftir Þormóð Dagsson í Morgunblaðinu í dag um þá merku menningarstarfsemi sem stunduð var í Siglufjarðarprentsmiðju á níunda áratugnum (Hasarblöðin frá Siglufirði). Þar var gefin út íslensk útgáfa hasarblaða, aðallega frá Marvel og DC Comics, meðal annars blöð um Tarsan og Korak son hans, Gög & Gokke, Superman, Hulk, Batman, Kóngulóarmanninn og Tomma & Jenna.

Eitt það skemmtilegasta við blöðin voru þýðingarnar sem voru oft frábærlega klaufalegar. Segir sitt að Superman var íslenskaður með því að skeyta n-i við titil blaðsins sem hét eftir það Supermann - merkilegur andskoti að láta hasarblað heita eftir heiti söguhetjunnar í þolfalli!

Eins var gaman að lesa (og nota upp frá því) upphrópanir eins og "úh-oh", "rottur!" og "ó, bróðir", sem Þormóður nefnir í grein sinni, og svo voru það setningar sem voru svo klunnalega þýddar að maður gleymir þeim ekki. Gott dæmi er eftirfarandi setning sem hraut af vörum Koraks í einu blaðinu: "Tennur mínar hlaupa í vatni."


Natchez brennur

Hinn 23. apríl 1940 var haldin skemmtun í Natchez, smábæ í Mississippi, um 200 kílómetra norðvestur af New Orleans. Skemmtunin var í gamalli bárujárnsskemmu og neglt fyrir gluggana til að koma í veg fyrir að menn svindluðu sér inn. Skemman var um 70 metrar að lengd og á henni einar dyr, fyrir endanum, og eina loftræsingin var vifta sem blés lofti í átt að þeim dyrum. Í nokkur ár hafði verið rekin í henni hrynklúbburinn, The Rhythm Club, vinsæll staður til að skvetta úr klaufunum, en hann var ætlaður svertingjum.

Skemmst er frá því að segja að það kviknaði í mosaskreytingu sem var um allan skálann að innan. Mosinn sem notaður var, spánarmosi, sem er reyndar ekki mosi, er mjög eldfimur og klúbburinn, sem var troðfullur af fólki, varð alelda á svipstundu. Erfitt var fyrir fólk að komast út vegna troðnings og æsings og ekki bætti úr skák að dyrnar einu opnuðust inn og fyrir vikið komust fáir út. Alls létust 212 í brunanum, 212 negrar, eins og tekið var fram í dagblaðinu Nashville Banner daginn eftir.

Hljómsveitin sem spilaði þetta kvöld hét Walter Barnes and his Royal Creolians Orchestra, en Barnes var vinsæll hljómsveitastjóri á sinni tíð og virtur. Sagan segir að Barnes hafi verið eini rólegi maðurinn í eldhafinu, hann hafi reynt að róa fólk niður, en allt kom fyrir ekki. Hljómsveitin hélt þó áfram að spila þótt hljómsveitarmenn væru banvænir - síðasta lagið sem spilað var hét Marie og það síðasta sem heyrðist frá hljómsveitinni var tær trompettónn um leið og þakið hrundi.

Þessi fallega saga og átakanlega er meðal annars rakin í bókinni Lost Delta Found sem Vanderbilt-háskóli gefur út, en í þeirri bók er safnað saman áður týndum rannsóknarskjölum þriggja litra fræðimanna. Fræðimennirnir héldu til Mississippi á vegum Fisk-háskóla, háskóla svartra, 1942 meðal annars til að leita laga sem samin hefðu verið um þennan hörmulega atburð, en þar sem stærstur hluti negra var ólæs og óskrifandi á þeim slóðum á þessum tíma var munnleg geymd mjög mikilvæg til að miðla fréttum, frásögnum og skoðunum manna á milli. Í kafla sem segir frá brunanum er meðal annars vitnað í einn þeirra sem komust úr eldinum við illan leik og hann lýsir þessu svo: "[Hljómsveitin kaus] ekki hlutverk hugleysingjans. Þeir voru eins og hugdjarfur skipstjóri og áhöfn hans sem fer í dauðann með skipi sínu."

Ég geri ráð fyrir að eins sé farið flestum þeim sem þetta lesa og mér - ósjálfrátt kemur upp í hugann hljómsveitin á ólánsfleyinu Titanic sem lék undir harmleiknum og fór síðan niður með skipinu vorið 1912. Sá harmleikur átti sér líka stað í apríl, ólánsdaginn 14. apríl sem blökkumenn nefndu svo því þann dag 1985 féll lausnarinn mikli Abraham Lincoln fyrir morðingjahendi. Lincoln var að vísu ekki lýstur látinn fyrr en morguninn fimmtánda apríl, en 14., föstudagurinn langi, var ólánsdagurinn. Uppáhaldssálmur Lincolns var "Nearer, My God, to Thee" eftir ensku skáldkonuna Sarah Flower Adams og var sunginn við útför hans. Eftir andlát og útför Lincolns varð sálmurinn gríðarlega vinsæll vestan hafs.

(Matthías Jochumsson heyrði sálminn sunginn í Chicago-för sinni 1893 og hreifst af, snaraði honum á íslensku sem "Hærra minn Guð til þín" og birti í tímaritinu Sameiningunni í Winnipeg sama ár.)

Á Titanic var átta manna hljómsveit undir stjórn Englendingsins Wallaces Hartleys. Skipið sigldi á ísjaka að kvöldi 14. apríl 1912 og hóf þegar að sökkva. Upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtánda apríl kom hljómsveitin sér fyrir í stássstofu fyrsta farrýmis og byrjaði að spila til að reyna að róa fólk. Síðar færði hljómsveitin sig framarlega á bátadekkið og spilaði á meðan skipið sökk. Ýmsar sögur hafa verið uppi um hvaða lag hljómsveitin lék er hún hvarf í djúpið en mestra vinsælda naut snemma sú að það hefði verið sálmurinn "Hærra minn Guð til þín".

Fræðimennirnir frá Fisk-háskóla héldu til Mississippi að leita að söngvum um brunann í Natchez og af slíkum söngvum er líka til nóg. Það var líka til gríðarmikið af söngvum um Titanic-slysið. Einn af þeim sem sömdu slíka söngva, slíka blúsa, var Blind Lemon Jefferson.

Framan af tónlistarferlinum framfleytti Blind Lemon Jefferson sér með því að syngja á götum úti, í samkvæmum og á skemmtunum blökkumanna, jafnan við annan mann. Einn af þeim sem spiluðu með honum á þeim tíma var Huddie William Ledbetter sem þekktur varð sem Lead Belly eða Leadbelly. Hann spilaði með Jefferson í Dallas og eitt laganna sem hann sagðist hafa lært af honum var "The Titanic", fyrsta lagið sem hann lærði að spila á tólfstrengja gítar.

Lead Belly tók The Titanic í tveimur útgáfum, en hann breytti textanum ef hann var að syngja fyrir hvíta. Texti annarrar útgáfunnar hefst svo:

"It was midnight on the sea,
Band playin' "Nearer My Got to Thee".
Cryin' "Fare thee, Titanic, fare the well"."

Það var hluti af þjóðtrú bandarískra negra að hnefaleikakappinn Jack Johnson hefði verið meðal þeirra sem ætluðu að fara með Titanic frá Liverpool til New York en honum hefði verið neitað um pláss á fyrsta farrými þar sem hann var svartur. Leadbelly segir frá þessu í útgáfunni sem hvítir fengu helst ekki að heyra:

"Jack Johnson wanted to ge on boa'd;
Captain Smith hollered, "I ain' haulin' no coal."
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well"."

Fyrir vikið, sagði sagan, fórst enginn svartur maður með Titanic og þegar Johnson heyrði um skipsskaðann dansaði hann og söng:

"Black man oughta shout for joy.
Never lost a girl or either a boy.
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well."


Vatnið og Jón

Jón Ólafsson kaupsýslumaður seldi allar eigur sínar hér á landi og fluttist til Lundúna fyrir nokkrum árum. Fram að því hafði hallað undan fæti í flestum þeim fyrirtækjum sem hann tengdist og sum voru komin í verulegan vanda, en Jón var á sinni tíð einn umsvifamesti grósseri á Íslandi, sannkallaður Bör Börsson sem efldist við hverja þraut þar til um þraut.

Nú býr Jón semsé í útlöndum en hefur byggt upp vatnsverksmiðju hér á landi, í Þorlákshöfn, sem gengur að sögn vel. Hann vill stækka hana til muna, en til þess þarf hann að afla verulegs hlutafjár. Í Viðskiptablaðinu í dag segir: "Að sögn Jóns virðast íslenskir fjárfestar ekki vera áhugasamir um verkefnið ..." Af hverju ætli það sé?

(Skemmtileg kynning á vatninu hans Jóns hér ("noted Icelandic businessman Jon Olafsson, known for his passionate stewardship of his country’s environment").)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband