Kyljur í Kiljan eða kilju

kiljan-4Kiljan, bókmenntaþáttur Egils Helgasonar, hóf göngu sína í vikunni í Sjónvarpi ríkisins. Þátturinn fór vel af stað fannst mér og lofar góðu. Skemmtilegast af öllu var þó að heyra í Páli Baldvini Baldvinssyni, öðrum "álitsgjafa" Egils, sem hann nefndi svo, því hann var úti á þekju í gagnrýni sinni á Bókmenntahátíðina í Reykjavík 2007.

Menn með skoðanir eru skemmtilegir, en skoðanir Páls Baldvins eru skondnar fyrir það hvað hann virðist illa að sér um bókaútgáfu nú um stundir. Þannig kom fram í máli hans að "hópur útgefenda" hefði ákveðið "að dúndra [...] út þýðingum sem að væntanlegar hafa verið, rétturinn hefur verið keyptur að þeim bókum fyrir einhverjum einum, tveimur árum, af því þær gerðu það gott í útlöndum, og það er búið að þýða þær úr ýmsum málum og mér sýnist að þær séu nú flestar þýddar úr ensku".

Núorðið er það aftur á móti svo alla jafna að útgáfuréttur á bókum er keyptur mun fyrr en tíðkaðist á árum áður, bækur eru iðulega keyptar í handriti, og útgáfuréttur á mörgum af þeim bókum sem um ræðir var örugglega keyptur áður en þær komu út og líklega rétturinn á velflestum áður en þær "gerðu það gott í útlöndum".

Að sama skapi er sérkennileg sú staðhæfing að þær séu flestar þýddar úr ensku, því bókunum sem komu út um daginn var snarað úr ensku, þýsku, dönsku og ítölsku.

Það þriðja sem nefna má er að þetta er fráleitt sorplitteratúr þótt einhverjar bækurnar seljist vel og þarf eiginlega ekki að ræða það; bók verður ekki betri fyrir það að enginn vilji lesa hana og ekki verri fyrir það að margir vilji gera það.

Skemmtilegast af öllu var þó að rekast á þá gömlu goðsögn að allt hafi verið betra hér áður fyrr, eða eins og Páll Baldvin orðar það:

"[Á] síðustu öld sáum við alveg gríðarlegt magn af vönduðum þýðingarverkum [...] eru þýðingarnar að taka á sig meira iðnaðarsnið, er verið að skófla inn litteratúr sem er kannski ekki í rosalega háum gæðum?"

Nú er það vissulega svo að á árum áður, fyrri hluta síðustu aldar til að mynda, var gríðarlega mikið gefið út af vönduðum bókmenntaverkum af miklum metnaði meðal útgefenda og þýðenda (þótt margar bókanna hafi ekki verið þýddar úr frummálinu). Það vill þó gleymast að þessi tími, árin frá þarsíðustu aldamótum og fram yfir seinna stríð, voru líka blómatími reyfaranna, sem eru alla jafna taldir lakur litteratúr, þótt skemmtilegir séu. Gríðarlega mikið var gefið út af slíkum ritum aukinheldur sem legíó reyfara var birt í dagblöðum. Í því ljósi breytist menningarlega háhýsahverfið í ósköp venjulegt borgarhverfi með blöndu háhýsa og lágreistra kofa, tvílyftra tvíbýla og einlyftra heildsalahalla; ekki svo frábrugðið því sem gerist í dag, eða hvað?

Svo er það hitt, að megnið af þessari blómlegu útgáfu sem við sjáum í hillingum, gróskan og menningarleg þrekvirki síðustu aldar byggðust á hálfgerðri sjóræningjastarfsemi. Málið er nefnilega það að þessar þýðingar voru yfirleitt gefnar út án þess að spyrja kóng eða prest og án þess að borga fyrir útgáfuréttinn – það þótti merkilegt ef bók var merkt svo að hún væri þýdd með leyfi höfundar.

Árið 1905 voru sett hér á landi lög um höfundarrétt og þar á meðal þýðingarrétt, en gætt að því að hafa ekki nema tíu ára vernd frá útgáfu – eftir það máttu menn taka bækur frillutaki. Skömmu fyrir hvítasunnu 1947 gerðust Íslendingar síðan aðilar að Bernar-samþykktinni um "rithöfundarétt og prentfrelsi", en með þeim fyrirvara þó að 10 ára ákvæðið myndi halda.

1952 var undirritaður í Genf nýr sáttmáli sem kvað á um meiri vernd hugverka og nú kveðið á um að verndin entist ævi höfundar og fimmtíu ár til viðbótar. Þetta gátu Íslendingar ómögulega sætt sig við og fimm manna nefnd á vegum alþingis sem skipuð var fulltrúum rithöfunda og bókaútgefenda lagði til að Íslendingar gerðust ekki aðilar að sáttmálanum nema með þeim skilyrðum að þýðingarvernd erlends höfundar gilti aðeins 25 ár frá því viðkomandi rit var fyrst gefið út.

Í umræðum um þetta mál birtist heilsíðugrein í Morgunblaðinu í mars 1947 þar sem tekið var undir þetta sjónarmið, enda myndu íslenskir bóka- og blaðaútgefendur ekki geta borgað sama fyrir þýðingarrétt og erlend stórfyrirtæki. Ekki fannst höfundi þeirrar greinar svo við hæfi að bera fyrir sig smæð lands og þjóðar þegar sótt væri um leyfi til þýðinga – Íslendingum væri ekki sæmandi að betla. Honum virðist aftur á móti hafa þótt í lagi að stela.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er frábær umfjöllun. Ég trúi að mörgu bókmenntafólki / bókafólki hafi brugðið við að horfa á þennan þátt sem endurspeglaði ekki einungis ótrúlega fáfræði heldur líka fordóma og uppskafningshátt. Það er líka dálítið einkennileg tilfinning að láta tala um sig eins og maður sé ekki til - skipti engu máli. Þarna var rætt fram og til baka um JPV sem einu útgáfuna í landinu. „Hvar er kapmaðurinn á horninu? Hann r ekki lengur til í bókaútgáfu.

Hildur Hermóðsdóttir (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 11:47

2 Smámynd: Helgi Már Barðason

Ég sá ekki umræddan þátt en mér finnst gott hjá Páli að hrista aðeins upp í fólki og halda útgáfu- og þýðingaumræðunni lifandi. Því miður eru líklega sannleikskorn í máli Páls þó að hann hefði mátt fara sparlegar með stóru orðin. Vitaskuld er vandfundið fólk sem þýtt getur úr t.d. japönsku og þá er enskan valin. Ég er ekki frá því að meira „iðnaðarsnið“ sé komið á bókaútgáfu - og þar með ritstörf og þýðingar - en áður var, en ég óttast að án slíkra breytinga væri staða bókarinnar nú mun verri gagnvart myndmiðlunum. Við lifum á tímum örra breytinga og þeir sem koma að bókaútgáfu með einhverjum hætti geta ekki leyft sér að sitja með hendur í skauti og horfa til fortíðar. En þeir mega heldur ekki láta sem sagan skipti engu máli.

Helgi Már Barðason, 15.9.2007 kl. 13:30

3 identicon

Las þessa grein þína í Mogganum yfir morgunkaffinu mínu og er sammála Hildi, þörf umfjöllun og góð framsetning. Mér finnst Páll Baldvin oft hressandi karakter þegar hann kemur fram í miðlunum en þarna sýnist mér hann hafa puðrað skotum úr byssunni án þess svo mikið sem horfa í kringum sig. Ef hann vill láta taka sig alvarlega á þessum vettvangi þarf hann að gera betur en þetta.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 13:41

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég var nú svo heppinn að ná þessum þætti í morgun þegar hann var endurtekinn. Og ætla að reyna að horfa á sem flesta í vetur. Ég hef nú ekkert á móti þessum álitsgjöfum Egils. En mér finnst einhvernveginn skína af þeim að þeir einir viti. Reyndar er nú Kolbrún kunn að því að upphefja suma höfunda en troða aðra niður í svaðið. Vonandi býður Egill upp á eitthvað skárra næst.

Sigurður Sveinsson, 15.9.2007 kl. 15:50

5 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Tjah .. hinn portúgalski nafni Páls, Coelho, selst býsna vel. Komment á það, Árni?

Skemmtileg samantekt og minnir á að predikurum og sjálfskipuðum postulum er hollt að vera teknir til bæna endrum og eins. 

Jón Agnar Ólason, 16.9.2007 kl. 01:21

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það var mikið alhæfingarsnið og fílabeinsturnaskvett á þessu.  Þýðingar eru afar misjafnar, það viðurkennist og verst er þegar gæðabækur eru illa þýddar.  Ofstæki gegn öðru en einhverri bókmenntalegri hágnæfu er ekki ósvipað trúarofstæki. Allt þetta á rétt á sér og "síðri" bókmenntir verða til, svo lengi sem eftirspurnin er.  Hér er verið að tala niður til fólksins en ekki bókmenntanna finnst mér.  Um vandaðar þýðingar fyrri aldar er líka soldið verið að einfalda hlutina og horfa til Sveinbjarnar Egilssonar eða Helga Hálfdánar, eins og ekkert annað hafi verið þýtt.  Það er jú hrein og klár ósannindi. Ég fékk einusinni lánaðann einn sendibíl af bókum hjá Braga Kristjóns til að prýða leikmynd í Nóa Albínoa. Þar var mikið af Aldamótaþýðingum og var obbinn af þessu hræðilegt drasl.  Væmnar og uppskrúfaðar ástarsögur, drama og rómantík, sem ekki bara var skelfilega þýtt heldur virkilega vondar bókmenntir. Þó ekki verri en svo að ég og Hjalti Röggvaldsson ásamt fleirum sátum löngum stundum og lásum valda kafla úr þessu og vættum skrefbótina af hlátri.

Þátturinn hafði einhvern flausturslegan brag á sér, þótt Egill sé réttur maður á réttum stað.  Sum innslög voru allt of löng og efni í sér prógram en önnur skrigileg og stutt.  Sárnaði mér að Birni Th. gömlum listsögukennara mínum skyldu ekki gerð betri skil og virtust viðmælendur í sjónvarpssal koma af fjöllum um ritverk hans og geypilegt framlag til Íslenskra bókmennta og söguskoðunar.   Sjálfbyrgingu Páls og léttúð Kollu eru ágæt í smá skömmtum en ég held að fleiri ættu að fá að komast að til að fá einhvern vitrænan ramma á þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2007 kl. 03:43

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það var mikið alhæfingarsnið og fílabeinsturnaskvett á þessu.  Þýðingar eru afar misjafnar, það viðurkennist og verst er þegar gæðabækur eru illa þýddar.  Ofstæki gegn öðru en einhverri bókmenntalegri hágnæfu, er ekki ósvipað trúarofstæki.  Allt þetta á rétt á sér og "síðri" bókmenntir verða til, svo lengi sem eftirspurnin er.  Hér er verið að tala niður til fólksins en ekki bókmenntanna finnst mér.  Um vandaðar þýðingar fyrri aldar er líka svolítið verið að einfalda hlutina og horfa til Sveinbjarnar Egilssonar eða Helga Hálfdánar, Magnúsar Ásgeirs eins og ekkert annað hafi verið þýtt.  Það eru jú hrein og klár ósannindi. Ekki má heldur gleyma að einhverstaðar verðum við að hafa viðmiðin, þegar við metum það sem gott er.

Ég fékk einu sinni lánaðan einn sendibíl af bókum hjá Braga Kristjóns til að prýða leikmynd í Nóa Albínoa. Þar var mikið af Aldamótaþýðingum og var obbinn af þessu hræðilegt drasl.  Væmnar og uppskrúfaðar ástarsögur, drama og rómantík, sem ekki bara var skelfilega þýtt heldur virkilega vondar bókmenntir. Þó ekki verri en svo að ég og Hjalti Röggvaldsson ásamt fleirum sátum löngum stundum og lásum valda kafla úr þessu og vættum skrefbótina af hlátri.

Þátturinn hafði einhvern flausturslegan brag á sér, þótt Egill sé réttur maður á réttum stað.  Sum innslög voru allt of löng og efni í sér prógramm, en önnur skringileg og stutt.  Sárnaði mér að Birni Th. gömlum listsögukennara mínum skyldu ekki gerð betri skil og virtust viðmælendur í sjónvarpssal koma af fjöllum um ritverk hans og geypilegt framlag til Íslenskra bókmennta og söguskoðunar.   Sjálfbirgingur Páls og léttúð Kollu eru ágæt í smá skömmtum, en ég held að fleiri ættu að fá að komast að til að fá einhvern vitrænan ramma á þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2007 kl. 03:49

8 Smámynd: Árni Matthíasson

Mér finnst það rétt athugað hjá þér Hildur að menn vilja oft gleyma því að til eru önnur fyrirtæki en þau stóru og íslenskur bókamarkaður væru snöggtum snautlegri ef ekki væri fyrir fyrirtæki eins og Sölku. Svo má ekki gleyma því að Salka snýtti þeim stóru rækilega með því að landa Leyndarmálinu - litlu og meðalstóru fyrirtækin eru nefnilega oft fljótari að átta sig á hlutunum.

Hvað varðar "iðnaðarsniðið", Helgi, verður það seint talinn ókostur á bókaútgáfu ef menn vinna hlutina skipulega og vel. Bókaútgáfa er og hefur ævinlega verið iðnaður (í það minnsta frá 1450) og það er hagur bókavina að hún standi með blóma, ekki satt.

Anna, mín ágæta bloggvinkona, ég er sammála þér í því að Páll Baldvin er hressandi og mér finnst oft skemmtilegt hve hann nær að hrista upp í fræðimönnum og öðrum sem starfa að bókaútgáfu, þeir fara margir á límingunni í hvert sinn sem hann opnar munninn. Það er oft þörf á því að hnippa aðeins í menn.

Hvað varðar Paulo Coelho, sem ég veit að er í miklu uppáhaldi hjá þér Jón Agnar, er mitt komment þetta: De gustibus non est disputandum.

Ég er svo sammála þér um það, Jón Steinar, að það var gríðarlega mikið þýtt á árum áður af bókmenntum sem þykja ekki par fínar. Ég á einmitt mikið safn af þýddum reyfurum vegna þess að þeir eru margir svo ótrúlega slæmir og þýðingin léleg að bráðskemmtilegt er að lesa þá. Þetta gleymist og eftir standa þrevirkin, sem gefa villandi mynd.

Árni Matthíasson , 17.9.2007 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 117502

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband