Mew - And the Glass Handed Kites

Mew - And the Glass Handed KitesSíðasta plata dönsku hljómsveitarinnar Mew fékk frábæra dóma víðast hvar (utan Danmerkur í það minnsta) þegar hún kom út um alla Evrópu í september 2005. Hún barst þó ekki hingað fyrr en fyrir stuttu, um líkt leyti og hún kom út í Bandaríkjunum og þá vaknar spurningin; er hér komin ein af bestu erlendu plötum ársins 2006 á Íslandi eða var þetta kannski ein af bestu erlendu plötum ársins 2006 á Íslandi - þó enginn hafi heyrt hana?

Mew félagar kynntust í barnaskóla í Hellerup, úthverfi Kaupmannahafnar, þegar þeim var falið að gera stuttmynd um heimsendi sem skólaverkefni. Þeir voru ekki lengi að setja myndina saman, kvikmynduðu hver annan að fara með titil myndarinnar og sýndu það síðan hægt aftur og aftur þar til tilskilinni lengd var náð. Í kjölfarið stofnuðu þeir hljómsveit án þess þó að eiga hljóðfæri eða kunna að spila yfirleitt, en hugmyndafærðin var altént á hreinu.

Þó þeir félagar hafi snemma verið búnir að gera sér grein fyrir hvernig músík þeir vildu setja saman gekk það ekki þrautalaust og fyrsta birtingarmynd Mew, hljómsveitin Orange Dog, var ekki betri en svo að hún var púuð af sviðinu á sínum fyrstu tónleikum. Eftir það fóru þeir félagar hver í sína áttina um tíma, en endurreistu svo hljómsveitina nokkrum árum síðar og þá undir nýju nafni, Mew, nú öllu betri hljóðfæraleikarar og lagasmiðir. Svo mikið hafði þeim fleygt fram reyndar að þegar eftir fyrstu tónleikana undir nýju nafni var þeim boðinn útgáfusamningur.

Fyrsta platan, A Triumph For Man, kom út í apríl 1997 í takmörkuðu upplagi, en aðeins voru framleidd af henni 2.000 eintök. Platan fékk fína dóma og seldist upp á skömmum tíma, en fyrir einhverjar sakir urðu þeir Mew-menn ósáttir við útgáfu sína og næstu skífu, Half The World Is Watching Me, tóku þeir því upp á eigin spýtur og gáfu út sjálfir í 5.000 eintökum, en af plötunni voru reyndar gefnar út þrjár útgáfur með mismunandi lagalista.

Þeir Mew liðar stofnuðu eigin fyrirtæki til að gefa plötuna út, Evil Office, en þegar Sony vildi endilega gera við sveitina samning um útgáfu um heim allan og gefa plötuna út á sínu merki ákváðu þeir að fara frekar í hljóðver að taka aftur upp bestu lögin af A Triumph For Man og Half The World Is Watching Me og bæta við nýrra efni. Afrakstur þess var platan Frengers sem kom svo út á vegum Sony vorið 2003, en þess má geta að lögin sem þeir félagar endurhljóðrituðu eru ekki svo frábrugðin fyrri gerð þó hljómur sé talsvert betri.  

Eftir að Frengers kom út lögðust þeir félagar í ferðalög og fluttust meðal annars til Lundúna og stundu útgerð á sendibíl úr lítilli tveggja herbergja íbúð. Á milli þess sem þeir þvældust um Bretland að spila sömdu þeir lögin á næstu plötu, And the Glass Handed Kites, sem kom út fyrir ári víðast í Evrópu, en platan var gefin út vestan hafs í júlí sl. og er að berast hingað um þessar mundir.

And the Glass Handed Kites er talvert frábrugðin Frengers, meira lagt í útsetningar og hljóm, gítarlínur grafnar í hljómborðum og strengjum og platan fráleitt eins grípandi við fyrstu hlustun. Fyrir vikið tóku margir plötunni fálega, en eftir því sem menn hlusta meira hrífast þeir og meira og mál manna vestan hafs að hér sé komin ein af bestu plötum ársins.


Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband