Frelsi eða helsi?

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag er viðtal við Björn Sigurðsson framkvæmdastjóra Dags Group, sem áður hét Skífan. Í því viðtali kemur ýmislegt forvitnilegt fram, þar á meðal það að söluaukning á íslenskri tónlist er um 30% á síðasta ári, en á erlendri tónlist eykst sala um 5%. Forvitnilegast af öllu er þó undarlegheitin sem felast í þeirri staðhæfingu Björns og þetta sé "þrátt fyrir áframhaldandi ólöglegt niðurhal á tónlist".

Ekki er svo langt síðan samband hljómplötuútgefenda fékk liðsinni STEFs við að koma á sérstökum skatti á óbrennda diska sem átti að bæta upp að fólk væri að brenna diska útum allan bæ með tilheyrandi samdrætti á sölu og tekjutapi íslenskra tónlistarmanna. Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta heimsendatal var þvæla geri ég ráð fyrir því að þessi félög muni taka höndum saman í baráttu fyrir því að skatturinn verður felldur niður og að menntamálaráðherra muni taka því vel.

Það er annars fróðlegt að rýna aðeins í það sem haft er eftir Birni.

Í fyrsta lagi er sú staðhæfing hans að "niðurhalið" sé ólöglegt della ef marka má Eirík Tómasson, sem verður að teljast með fróðustu mönnum um höfundarrétt. Í viðtali í Morgunblaðsinu 1. október 2004 segir þannig:

"[Eiríkur Tómasson] segir að það sé tvímælalaust brot á höfundarrétti að setja verk á Netið, án samþykkis höfundar, þar sem það sé gert aðgengilegt hverjum sem er. [...] Samkvæmt lögunum sé þó heimilt að gera eintök af myndverkum og tónlist, m.a. með því að hala það niður af Netinu, til einkanota."

Það er því ljóst að þau orð Björns "um ólöglegt niðurhal á tónlist" benda til þess að hann hafi takmarkaða þekkingu á veigamiklu atriði sem snýr að starfi hans.

Í öðru lagi gefur Björn í skyn að "ólöglegt niðurhal" á tónlist hafi aðeins áhrif á erlenda tónlist ("Aukningin verður væntanlega um 30% í íslenskri tónlist en töluvert minni í erlendri tónlist, eða um 5%, en þar er aukning engu að síður, þrátt fyrir áframhaldandi ólöglegt niðurhal á tónlist.") Varla þarf að taka fram hve mikil rökleysa þetta er því ef svo mikill áhugi er fyrir íslenskri tónlist hlýtur líka að vera mikill áhugi fyrir "ólöglegu niðurhali" á íslenskri tónlist. (Honum hefur væntanlega þótt það hallærislegt að skeyta "þrátt fyrir áframhaldandi ólöglegt niðurhal" aftan við er hann hreykir sér af 30% söluaukningu.)

Í þriðja lagi er það svo skondið útaf fyrir sig að ýmist dregst sala saman vegna "ólöglegs niðurhals" eða hún eykst þrátt fyrir "ólöglegt niðurhal".

Leitin að patentlausninni
Þeir sem enn muna eftir vínylplötunni muna væntanlega líka eftir því að plötusala var á niðurleið um það leyti sem fyrsti geisladiskurinn kom á markað. Geisladiskurinn var því eins og að gefa lafmóðum örvandi innspýtingu, enda stórjókst sala á tónlist í kjölfarið og var svo um hríð að hún tók að falla aftur, aðallega vega aukinnar samkeppni frá kvikmyndum, tölvuleikjum, neti og álíka afþreyingu.

Á sinum tíma byggðist markaðssetning á geisladiskum aðallega á því að selja tæknina, mikið var gert úr endingu diskanna, hagræðinu af þeim (stærð og meðfærileiki) og hve hljómur væri góðum. Flest reyndist það hálfgerð della, diskarnir voru vandmeðfarnir, þó þeir væru slitsterkari en vínylplötur, og ending þeirra umdeilanleg, enda ekki allir framleiddir af mikilli vandvirkni. Eins var hljómur á þeim fræðilega góður en ekki endilega raunverulega (mannseyrað er nú einu sinni hliðrænt). Notagildið var þó óumdeilt, ekki síst er fyrstu ferðaspilararnir komu á markað og urðu til þess að auka hlustun á tónlist umtalsvert.

Ekki var þó bara að geisladiskurinn væri meðfæri- og þægilegur heldur fólst framtíðin í því að snúa tónlistinni yfir á stafrænt snið eins og síðar kom í ljós. Það var þó annmörkum háð að koma henni á milli manna með öðrum hætti en á diskum, því hljóðskrár eru svo stórar, hve mínúta um 10 MB miðað við 44,1 kílóriða 16 bita tónlist á geisladiski. Svarið við því er að þjappa músíkinni með sérstökum hugbúnaði eftir ákveðnum reiknireglum. Mörg gagnsnið eru til fyrir tónlist sem búið er að þjappa saman, þeirra vinsælast MP3.

MP-gagnasniðið er lossy þjöppun, þ.e. upplýsingum sem ekki eru taldar skipta máli er hent út og síðan þjappa menn því sem eftir er eftir mætti. Miklu skiptir hvaða algrími er notað við þjöppunina og líka hvernig valið er það sem sleppa má. Smám saman hefur gagnasniðið farið batnandi (128 Kbita á sek. MP3 skilar sömu gæðum og 192 Kbita á sek. MP2).

Hér hefði maður talið að væri komin ný innspýting fyrir tónlistarbransann, ný tækni sem gæti haft álíka áhrif og geisladiskurinn á sínum tíma. Annað kom á daginn. Til að byrja með voru plötufyrirtæki algerlega úti að aka, vissu ekki hvað var í gangi, og þegar þau svo áttuðu sig byrjaði ruglið, vonlausar tilraunir til að koma í veg fyrir að fólk nýtti sér kostina sem fólust í nýrri tækni. Það segir sitt að allar tilraunir sem plötuútgefendur hafa gert til að nýta stafræna tækni hafa gengið út á það meira og minna að skerða frelsi notenda, gera þeim erfiðara fyrir að hlusta á músík þar sem þeim þóknast og þegar þeim hentar og helst að láta þá borga meira fyrir minna frelsi en þeir höfðu með vínyl og kassettutækjum. Það er svo til að bíta höfuðið að skömminni að víða um heim hafa stéttarfélög tónlistarmanna lagt útgefendum lið í heimskunni, til að mynda hér á landi. (Víst liggja hagsmunir útgefenda og tónlistarmanna saman á ýmsum sviðum, en gleymum því ekki að markmið útgáfufyrirtækja er að skila eigendum sínum sem mestum arði, skítt með músíkantana.)

Netið = Frelsið
Plötuútgefendur eru sérkennilegt fyrirbæri. Í fyrndinni völdust í það starf aðallega tónlistar- eða tónlistaráhugamenn, stundum til að gefa út eigin efni, stundum til að gefa út tónlist vina eða kunningja, eða jafnvel í menningarlegum tilgangi. Á síðustu árum hafa orðið talsverðar eignarhaldsbreytingar á tónlistarútgáfufyrirtækjum og ekki svo langt síðan stærsti (eða einn stærsti) plötuútgefandi heims var viskíframleiðandi (Seagram). Segir líka sitt að eigandi Dags Group, sem fyrirtæki hans kemur við sögu í upphafi þessarar alltoflöngu bloggfærslu (sem á þó eftir að lengjast enn, sýnið biðlund) var umsvifamikill í lyfjainnflutningi og sölu áður en hann sneri sér að afþreyingunni.

Útgefendur hafa gegnt veigamiklu hlutverki í gegnum tíðina, þeir hafa (yfirleitt) tekið fjárhagslega áhættu af útgáfunni og eðlilegt að þeir njóti þess þegar vel gengur alveg eins og þeir fá skellinn þegar illa fer. Þeir hafa líka verið einskonar hliðverðir, valið úr það sem þeir telja að markaðurinn vilji heyra og stundum það sem er best. Margir hafa líka reynst tónlistarmönnum vel með ráðgjöf og aðstoð varðandi útsetningar og lagasmíðar - óteljandi sögur eru til um útgefendur sem gert hafa góðar plötu betri með sínu framlagi, þó ekki sé þeim alltaf þakkað á umslagi.

Á milli plötukaupenda og -útgefenda hefur verið einskonar óskrifaður samningur sem byggst hefur á trausti, þ.e. að plötukaupendur geti treyst því að útgefandinn sé að gefa út tónlist sem þeir vilji heyra og að sú tónlist sé í hæsta gæðaflokki (og útgefandinn að plötukaupendur muni kaupa þá tónlist sem hann kýs að gefa út).

Það er vitanlega allur gangur á því hvernig þau samskipti hafa gengið og verður ekki farið nánar út í það hér, en meginþáttur málsins er að mínu viti sá að kaupandinn hefur ekki getað fylgst með því hvernig útgefandinn stendur við sinn hluta af samningnum. Hann getur til dæmis ekki vitað hvað liggur á bak við ákvörðun útgefanda um að gefa út plötu, hvort það sé vegna gæða tónlistarinnar eða sérhagsmuna útgefandans. Hann hefur heldur engar forsendur til að meta hvort verðið sem hann greiðir fyrir diskinn sé sanngjarnt, þ.e. hve mikið kostaði að taka plötuna upp og hve mikið hver listamaður fær í sinn hlut (kostnaður við framleiðslu á hverjum disk, prentun og steypu, er hverfandi og skiptir ekki máli í þessu samhengi).

Allt breyttist þetta með Netinu - skyndilega er hliðvörðurinn óþarfur og valdalaus því mun auðveldara er að afla sér upplýsinga um tónlist, kynnast nýrri tónlist, sækja lög af nýútkomnum plötum og meta gæði þeirra áður en viðskiptin eiga sér stað, jafnvel að kaupa þær beint af höfundum og flytjendum eða kaupa beint af fyrirtækinu sem gefur þær út (eins og vill verða með nýrri tækni hefur orðið valdatilfærsla).

Neyslan á tónlist hefur og aldrei verið meiri, það hlusta fleiri en nokkru sinni, sem hefur sitt að segja með aukna sölu. Það er svo aftur annað mál hvort stóru plötufyrirtækin eigi eftir að nýta sér þessa aukningu, reyndar ótrúlegt í ljósi þess hvernig þau hafa staðið sig hingað til. Flest bendir nefnilega til þess að markaðurinn sé að breytast þvert ofan í vilja þeirra, smáfyrirtækjum fjölgar sem aldrei fyrr og salan dreifist á fleiri titla. Þannig eru á lista yfir helstu erlendu plötur ársins að mati gagnrýnenda Morgunblaðsins, annarra en mín, sem birtur verður á morgun, ekki nema tvær plötur sem gefnar eru út af stórfyrirtækjum þó stórfyrirtæki dreifi sumum hinna. (Áhugavert í sjálfu sér að helsta plötufyrirtæki landsins, sem áður hefur verið getið í langloku þessari, á enga plötu á listanum yfir bestu innlendu plöturnar - ætli það verði mönnum þar á bæ tilefni til naflaskoðunar?)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband