Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Miðvikudagur, 29. febrúar 2012
Tunglið allt úr tómum osti
Sé tunglið allt úr tómum osti
talsvert held ég að það kosti
hljómaði í leikritinu Ferðinni til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu vorið 1964. Í því segir frá ferð músasystkinanna Magga og Möllu til plánetunnar Limbó, sem er miðja vegu milli jarðar og tunglsins, en Magga litla langar til að komast til tunglsins og í ostinn sem þar sé að finna.
Að einhver trúi því að tunglið sé úr osti er gjarnan notað til að gera gys að viðkomandi eða að sýna fram á barnaskap, enda dettur engum í hug að slík og þvílík della geti verið sönn; vísindin hafa sýnt okkur fram á að tunglið sé úr tómu grjóti. Að því sögðu þá lifir allskyns fjarstæðu- og dellutrú góðu lífi á okkar upplýstu öld, hvort sem það er trú á kókoshnetuolíu, agave-síróp og það að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp tvíturnana, ótti við bólusetningar eða sannfæring um að það sé ekki að hitna á jörðinni og ef svo er þá sé það örugglega ekki mannkyni að kenna.
Segjum sem svo að hópur manna takið að efast um það að tunglið sé úr grjóti. Sjáið bara, segja þeir, það er mysulitt og þar af leiðir: Það er úr osti! Þeir gætu líka gripið til röksemda á við: Til eru heimildir um að tunglið hafi verið úr osti á landnámsöld og þar af leiðir: Það er úr osti í dag! Ég er ekki í vafa um að hægt væri að finna fjölda manna sem myndu skrifa undir slíka staðhæfingu, ekki síst ef hún væri sett upp á netinu.
Fjölmiðlar myndu eflaust gefa slíkum fullyrðingum gaum og í takt við misskilið hlutleysishlutverk myndu þau gefa ostatrúarmönnum sama pláss í fjölmiðlum og raunhyggjumönnum. Í hvert sinn sem rætt væri um tunglið við stjarnvísindamann þyrfti líka að hafa tunglostafræðing með. Fyrir vikið fengi almenningur þá hugmynd í kollinn að það væri umdeilt hvort tunglið væri úr grjóti og tilgátan um að það væri úr osti væri jafn líkleg.
Ofangreint hljómar kannski eins og hver önnur þvæla, en á sér þó stað í raunveruleikanum þegar loftslagsvísindi eru annars vegar. Í þeim fræðum fær hávær minnihluti ámóta pláss í fjölmiðlum og þeir sem rannsakað hafa málið og komist að þeirri niðurstöðu að það fari hlýnandi í heiminum og að sé að miklu eða mestu leyti af okkar völdum.
Umræður um að hvort það sé að hitna í heiminum eða ekki ráðast núorðið einna helst af pólitískum skoðunum og vestan hafs skiptir líka máli hverrar trúar viðkomandi er. Í öllu argaþrasinu gleymist að 97% loftslagssérfæðinga eru sammála um að veðurfar fari hlýnandi af manna völdum. 3% þráast við fyrir einhverjar sakir, sumir sjálfsagt vegna þess að það væri svo indælt ef tunglið væri úr tómum osti því:
Þá yrði Möllu magi stór
og Maggi ekki lengu mjór.
(Á myndinni sjást ostatrúarmaðurinn Wallace og ostatrúarhundurinn Gromit gæða sér á tunglosti á tunglinu.)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. janúar 2008
Hvert fóru allir?
Bókin er ekki bara fróðleg fyrir vangavelturnar um það hvernig heiminum reiði af án okkar, heldur eru í honum líka fjölmargar skemmtilegar staðreyndir um heiminn eins og hann er, sumt sem verður til þess að mann langar að heyra meira og skoða meira. Það er til að mynda mjög skemmtilegt að lesa um Panamaskurðinn og tilurð hans, vangaveltur um upphaf mannkyns og hvernig það breiddist um jörðina, hvað varð um stórvaxin spendýr í Norður-Ameríku og fróðlegt þótti mér að lesa um það að einn mesti mengunarvaldur okkar tíma er fegurðarsmyrsl ýmiskonar (í þeim eru örsmáar plastörður sem rata í smádýr í sjónum og drepa þau smám saman).
Alan Weisman hefur skrifað greinar í ýmis blöð og tímarit vestan hafs: Harpers, tímarit New York Times og Atlantic meðal annars. Ein af þeim greinum sem hann skrifaði var um það hvernig dýralíf tók því fagnandi þegar menn hrökkluðust undan Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu - í nágrenni kjarnakljúfsins, sem enn er lífshættulegur og verður væntanlega í hundruð eða þúsundir ára, blómstrar dýralíf og smám saman brýtur náttúran niður allar mannvistarmenjar. Í kjölfar þeirra greinar var hann beðinn að skrifa grein um það ef allt mannkyn hyrfi á brott og sú grein endaði sem bókin sem hér er gerð að umtalsefni.
Ef mannkyn allt hyrfi skyndilega væri það ekki í fyrsta sinn sem ráðandi lífform á jörðinni stigi inn í eilífðina - gleymum því ekki að það tímaskeið sem nú er er þriðja tilraun til lífs á jörðinni - fyrst var það fornlífsöld sem iðaði af lífi þar til það eyddist nánast alveg á skömmum tíma (95% lífs á jörðinni hurfu í hamförum), síðan miðlífsöld sem endaði líka með látum og loks nýlífsöld sem við lifum. Hún gæti sem best endað með látum líka. Kannski af manna völdum
Hann skoðar líka hvað verður um mannvirkin, húsin okkar og minnisvarða, og kemst að því að þau verða ekki ýkja lengi að hverfa, stíflur fyllast og gefa sig á endanum, hús grotna niður á skemmri tíma en eiganda þeirra grunar (eða kannski þekkja þeir það manna best á eigin skrokki), bændabýli hverfa í óræktina og smám saman hristir landið af sér allt manngert. Allt tekur þetta þó mislangan tíma, hugsanlega líða þúsundir ára þar til fram koma örverur sem éta platsagnirnar, þungmálmar hverfa seint, PCB er nánast eilíft, nema einhver ördýr læri að brjóta það niður, og helmingunartími geislavirks úrgangs er talinn í þúsundum ef ekki milljónum ára (helmingunartími úrans U-238 er hálfur fimmti milljarður ára).
Það verður því ýmislegt eftir en það hverfur smám saman ofan í jörðina og á meðan ekki kemur fram önnur eins dýrategund og við sem getum ekkert séð í friði þá fer allt vel. Það er reyndar huggun að lesa í bók Weismans hve heimurinn verður fljótur að jafna sig á okkur og eins hvað þeir vísindamenn sem hann ræðir við eru rólegir yfir hugsanlegu hvarfi mannsins; allt hverfur á endanum segja þeir, engin dýrategund er eilíf - vísindin hafa kennt okkur það - og maðurinn ekki heldur.
Vísindi og fræði | Breytt 15.1.2008 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Póstmódernisminn er dauður
Póstmódernisminn er uppfinning þeirra sem sitja við sitt heimspekilega hlaðborð og finna þar ekkert ætilegt, enga grósku engan gróanda. Undir borðinu iðar aftur á móti allt af lífi, þar er fólk upptekið við að lifa án þess að velta því fyrir sér hvers vegna, upptekið við að njóta án þess að hugsa úti hvað það sé nú smáborgaralegt að vera hamingjusamur.
Póstmódernistinn sækir í það sem honum finnst lágmenning því þar finnur hann lífsanda, lífsgleði, lífsháska. Skáldið kjáir framan í rapparana af því að í þeirra textum verður tungumálið eins og nýtt, málarinn öfundast við graffarana sem fundið hafa upp nýja tjáningu og tónspekingurinn gapir yfir hugmyndaauðgi þeirra sem kunna engar reglur, vita ekki hvað er hægt og gera því það sem ekki er hægt.
Póstmódernistinn minnist til lágmenningardrósarinnar því hann vil eiga við hana mök, finna sér lífsglaða úfna menntunarsnauða drós til að temja. Hann stígur niður af sínum ólympstindi til að sækja sér smá líf, smá svita, smá slor og heldur síðan upp aftur harla ánægður með sjálfan sig og sín víðsýnu viðhorf.
Póstmódernistinn segir af yfirlæti sínu: Þegar almenningur er farinn að tala um póstmódernisma er póstmódernisminn dauður. Orð að sönnu enda er þessu margtugða og -mærða stefna dæmigerður elítismi, hugmyndafræðilegt snobb.
Vísindi og fræði | Breytt 14.5.2007 kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 6. september 2006
Tónlist er ómeðvituð talning
Í bréfi sem Gottfried Leibniz skrifaði Christian Goldbach vini sínum 27. apríl 1712 varpaði hann fram þeirri tilgátu að sú sæla sem skapast af því að hlusta á tónlist sé í raun sælan af því að telja óafvitandi - tónlist sé ómeðvituð talning.
Þetta rímar við allar gerðir tónlistar þegar grannt er skoðað, enda felur hún í sér ýmist takt eða taktleysi og ótal tilbrigði við það. Gott dæmi er kajagum-tónlist frá Kóreu sem er með svo torræðum takti að spennan sem felst í að greina takt eða taktleysi gerir að verkum að maður hlustar dolfallinn.
Í nýrri bók, This Is Your Brain on Music, eftir Daniel J. Levitin er þessi tilgáta síðan sönnuð með því að fylgjast með heilastarfsemi fólks sem hlustaði á tónlist. Að sögn Levitins mátti sjá á starfsemi heilahnykils viðkomandi að hann var að fylgjast með taktinum hvort sem hann vissi af því eða ekki og síðan að þar spratt fram ánægjutilfinning við taktbreytingar.
Í ljósi þess að heilahnykillinn gegnir veigamiklu hlutverki í líkamshreyfingu, meðal annars í samhæfingu hreyfinga, kemur varla á óvart að flestir eiga erfitt með að hemja sig undir grípandi takti og standa sig jafnvel að því að slá taktinn sér þvert um geð.
Vísindi og fræði | Breytt 14.9.2006 kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 27. febrúar 2006
Er David Irving sagnfræðingur?
Fyrsta bók Irvings, Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden, er gott dæmi um vinnubrögð hans. en í henni fer hann með ýmsar staðleysur um loftárásir Breta á borgina 13. febrúar 1945. (Bók Irvings er hægt að sækja ókeypis á vefsetur hans.) Irving byggir bókina að mestu á áróðri þýskra stjórnvalda, enda hófst áróðursteymi Göbbels handa tveimur dögum eftir árásina við að ýkja íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna. Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi tóku þráðinn upp í kringum 1950 og héldu því meðal annars fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna.
Árásin á Dresden hefur alla tíð verið eitt helsta sameiningartákn nýnasista sem nýtt hafa sér rangfærslur nasista og kommúnista, aukinheldur sem ýmsir aðrir hafa orðið til að ýta undir rangtúlkun á árásinni, til að mynda bandaríski rithöfundurinn Kurt Vonnegut (sjá bókina Slaughterhouse Five). Meðal þess sem Irving og skoðanabræður hans hafa haldið á lofti er að 250.000 manns hafi látist í árásinni (sumir segja 135.000, aðrir 320.000) sem sé meira en í nokkurri loftárás sögunnar, fleiri en í Nagasaki og Hiroshima samanlagt. Eins er því haldið fram að borgin hafi verið óvarin og ekki haft neina hernaðarlega þýðingu, eiginlega verið athvarf flóttamanna fyrst og fremst.
Í nýlegri bók eftir sagnfræðinginn Frederick Taylor, Dresden: Tuesday 13 February 1945, kemur fram að staðhæfingar Irvings eru staðleysur. Víst fórust margir í Dresden-árásinni en mun færri en áður hafði verið talið, 25.000 (til samanburðar má geta þess að um 40.000 fórust í einni árás á Hamborg í júlí 1943). Eins gegndi borgin hernaðarlegu hlutverki líkt og aðrar helstu borgir Þýskalands, þar voru hergagnaverksmiðjur og stjórnstöð herflutninga á austurvígstöðvarnar. Fróðlegt viðtal við Taylor er á vef Der Spiegel. (Gaman að því að tengill á þetta viðtal barst mér í spam-pósti frá þýskum nýnasistum fyrir nokkru.)
Ólíkt David Irving er Frederick Taylor sagnfræðingur, menntaður sem slíkur og vinnur í samræmi við starfshætti sagnfræðinga. Það kom fram í réttarhöldum vegna máls sem David Irving höfðaði gegn Deborah Lipstadt og Penguin útgáfunni að Irving beitir öðrum vinnubrögðum, hann notar þær heimildir sem honum þykir henta en sleppir öðrum, setur fram tilgátur sem hann rökstyður ekki og þýðir vísvitandi vitlaust ef það hentar honum. Það er því rangt að kalla hann sagnfræðing og í raun móðgun við þá sem stunda sagnfræðileg vinnubrögð.
Í kjölfar þess að Irving var dæmdur í fangelsi í Austurríki fyrir að þræta fyrir að nasistar hafi stundað skipulagða útrýmingu á gyðingum hafa ýmsir haft orð á því að með því að dæma Irving í fanglesi fái hann frægð sem hann hafi þráð, best sé að láta sem hann sé ekki til. Að mínu viti er þetta óttalegt bull. Sömu raddir heyrðust þegar Irving höfðaði málið gegn Lipstadt og Penguin - að það að þau skyldu taka til varna hafi verið til þess falli að auka hróður Irvings, hann myndi nota tímann í réttinum til að útvarpa skoðunum sínum. Annað kom á daginn - eftir réttarhöldin var Irving rúinn ærunni (og gjaldþrota) og hefur vart borið sitt barr síðan.
Eins hafa menn haft orð á því að það sé aðför að málfrelsi að banna David Irving að halda fram sínum fáránlegu skoðunum. Mér eru minnisstæðar bækur sem ég hef lesið um fjöldamorð Hútúa á Tútsum í Rúanda 1994. Snar þáttur í morðæðinu var það er Hútúar voru hvattir til að myrða Tútsa, samlanda sína, á fjölmörgum útvarpsstöðvum. Þar lögðu menn að Hútúum að láta nú hendur skipa, æstu menn upp og hvöttu til mannvíga, lásu upp lista yfir Tútsa með heimilisföngum þeirra og lofsungu þá sem harðast gengu fram í morðunum. Þeir voru að nota málfrelsi sitt.
Vísindi og fræði | Breytt 16.3.2006 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. febrúar 2006
Nútíminn er vondur
Sumt slíkra rannsókna má kalla gervivísindi, eins og rafsegulbylgjubullið sem gýs upp aftur og aftur, ósannaðar staðhæfingar um heilsufarsvandann ógurlega sem fylgi raflínum, farsímum og álíka búnaði. Líkt og var með járnbrautavæðingu fyrri tíma mun tíminn afsanna rafsegulbullið, eða hver heldur því fram í dag að það að fara hraðar en ríðandi hestur sé óhollt og eigi eftir að kalla fram allskyns kvilla og krankleika? Minni á að þrátt fyrir alla farsímavæðingu og raflagnafjöld bólar ekki á heilsufarsvandanum mikla - fyrsta farsímasamtalið fór fram fyrir 33 árum.
Dæmi um gagnslausar rannsóknir er obbi rannsókna um skaðsemi sjónvarpsáhorfs. Slíkar rannsóknir skoða oft hvernig börnum sem horfa mikið á sjónvarp farnast í skóla miðað við börn sem horfa lítið á sjónvarp sem er ótækur samanburður því það er svo margt annað sem spilar inní og eins líklegt að grunnástæða þess að börnin horfi mikið á sjónvarp sé orsakavaldur frekar en sjónvarpsglápið sjálft.
Tökum dæmi. Nú kemst ég að því að börnum sem búa í einbýlishúsum sem eru 250 fermetrar eða stærri vegnar betur í skóla en börnum sem búa í íbúðum sem eru 70 fermetrar eða minni. Þar er komin rannsóknarniðurstaða sem bendir til þess að fermetrafjöldi skipti máli við námsárangur. Þetta er vitanlega della og álíka della reyndar og með það hvort sjónvarpsáhorf sé slæmt, hér spilar annað inní.
Í frægri grein velta þeir Stephen J. Dubner og Steven D. Levitt því einmitt fyrir sér hvað skipti máli þegar námsárangur barna er annars vegar. Í greininni, sem birtist í USA Today og er einnig birt nokkuð breytt í bók þeirra Freakonomics, segja þeir frá mikilli rannsókn vestan hafs á námsárangri 20.000 barna, Early Childhood Longitudinal Study, sem sýnir meðal annars að líkastil sé ofmælt að fjórðungi bregði til fósturs.
Í rannsókninni kemur fram að ef fimmtíu bækur eða fleiri séu til á heimili barns fái það að jafnaði betri einkunn en ef engar bækur er þar að finna. Ef bækurnar eru hundrað eða fleiri hækka einkunnir barnsins enn. Þetta er allt gott og blessað, en málið bara það að hér virðast erfðir skipta meira máli en bækurnar, þ.e. bókafjöldinn er frekar til marks um að foreldrarnir séu gáfaðir, en að hann auki gáfur barnanna. Í rannsókninni kemur einmitt fram að gáfaðir foreldrar eru líklegri til að eignast gáfuð börn, en heimskir foreldrar (tökum umræðu um gáfur og gjövileika seinna).
Dubner og Levitt greina þetta svo:
- Skiptir máli: Fjöldi bóka, menntun foreldra, háar tekjur foreldra, móðir barnsins þrítug eða eldri við fæðingu, foreldrarnir taka virkan þátt í skólastarfi.
- Skipti ekki máli: Lesið er fyrir barnið, barnið horfir mikið á sjónvarp, móðir barnsins er heimavinnandi, foreldrarnir fara með barnið á söfn, barnið er rassskellt reglulega.
Draga má þessa rannsókn þeirra Dubners og Levitts saman svo: Það skiptir meira máli hvert foreldrið er en hvernig foreldrið er. (Ekki má skilja þetta svo að ekki skipti máli hvernig foreldri eru, það skiptir gríðarlegu máli, en þó meira máli hver þau eru.)
Í Slate er grein um álíka rannsókn, sjá hér en í henni komust tveir hagfræðingar við háskólann í Chicago, Matthew Gentzkow og Jesse Shapiro, að því að lítil fylgni væri á milli sjónvarpsáhorfs og þess hvernig börnum gengi í skóla. Vísbending væri þó um að ef börn innflytjenda sem ekki tala ensku horfa mikið á sjónvarp gengur þeim betur í skóla en ella af augljósum ástæðum.
"We find strong evidence against the prevailing wisdom that childhood television viewing causes harm to cognitive or educational development. Our preferred point estimate indicates that an additional year of preschool television exposure raises average test scores [...] For reading and general knowledge scores - domains where intuition and existing evidence suggest that learning from television could be important - we find marginally statistically significant positive effect."
Rannsókn þeirra Gentzkows og Shapiros er fróðleg, hægt er að lesa pdf af henni með því að smella hér, ekki síst fyrir það hvernig þeir fundu leið til að mæla sjónvarpsáhorf og áhrif þess. Mjög forvitnileg er líka samantekt þeirra um útbreiðslu sjónvarps vestan hafs.
Vísindi og fræði | Breytt 16.3.2006 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar