Færsluflokkur: Viðskipti

Ekkert að óttast með Exista

Götuhátíð í PtujÉg sé það að menn hafa áhyggjur af eignasafni Exista og nægir að vísa til fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem skýrt er frá því mati sænska bankans SEB Enskilda að verðmæti eigna Exista nemi nú um 485 milljörðum króna en skuldir félagsins séu 534 milljarðar. "Miðað við eignastöðuna segir bankinn að ekki þurfi nema 7,5% verðfall á eignum Exista til að eigið fé félagsins verði uppurið," segir í fréttinni. Að mínu viti er þó óþarfi að vera með áhyggjur - Exista-menn kunna fótum sínum forráð eins og sagan hefur sannað.

Í október síðastliðnum bjuggust menn til að mynda við því að tap Exista á þriðja ársfjórðungi 2007 yrði allt að tíu milljarðar, en annað kom á daginn - hagnaðurinn var 676 milljónir króna. Skýringin á þessum óvænta hagnaði var að félagið uppfærði virði á óskráðum eignum um 5,6 milljarða króna. Í frétt Morgunblaðsins 27. október sagði svo:

"Á kynningarfundi félagsins í gærmorgun kom fram að um er að ræða fjárfestingu sem Exista réðst í í A-Evrópu fyrir um 18 mánuðum, í félagi við alþjóðlega fjárfestingarbankann Lehman Brothers. Ekki voru gefnar frekari skýringar á þessu en "vegna samkeppnisástæðna"."

Einn eigenda hlutar í Exista sem ég ræddi við í nóvemberbyrjun sagði mér að hann hefði árangurslaust reynt að komast að því hvaða austur-evrópska fyrirtæki þetta væri sem hefði verið svo vanmetið í eignasafni Exista, en sagðist jafnframt hafa glaðst yfir því að hlutur hans í fyrirtækinu hafi hækkað við þessar tilfærslur (fór úr 31,10 í 33,25, er 13,26 þegar þetta er skrifað). Hann lýsti þessu svo: "Ég er viss um að þetta hefur verið einhvernveginn svona: Sveittir menn sitja yfir brunarústunum og halda um höfuð sér þegar einn þeirra segir: Hvað með bakaríið sem við keyptum í Riga? Getum við ekki metið það upp á nýtt? Heyrðu, segir annar, algjör snilld! Hvað vantar okkur mikið ... ?"

Eigendur Exista hafa áður sýnt hugkvæmni í reikningsfærslum, til að mynda þegar eigið fé Exista var aukið um ríflega 48,5 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2007 meðal annars með 15% hlutdeild í söluhagnaði Sampo sem Exista fékk þó aldrei krónu skv. frétt Morgunblaðsins í dag. Á næstu dögum, jafnvel strax í dag, munu Exista-menn því skyndilega eftir þjóðbúningasafninu í Ptuj og gríðarlegum vaxtarmöguleikum þess. Það er stórlega vanmetin eign og verður að leiðrétta verðmat á eignasafninu til samræmis, þó ekki verði getið um hvað búi að baki "vegna samkeppnisástæðna". 

Myndin sýnir stjórnarmenn Exista á götuhátíð í Ptuj í Slóveníu.

Minnkandi ójöfnuður

Í ljósi þeirra hamfara sem nokkrir helstu auðjöfrar Íslands hafa nú gengið í gegnum (og sér ekki fyrir endann á) er ég steinhissa á að ekki hafi meira heyrst í þeim mæta hagfræðingi Stefáni Ólafssyni.

Málið er nefnilega það að eftir því sem milljarðar grósseranna hafa gufað upp hefur ójöfnuður minnkað í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson mælir hann, bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað sem gerist vissulega þegar hinum ríku fækkar.

Úr orðum Stefáns mátti og lesa að ef sá ójöfnuður yrði minnkaður myndi hinum fátæku líða betur. Gengur það eftir?


Dagsbrún umbreytir sér í ekki neitt

Fyrir rétt rúmu ári var kynnt stofnun nýs móðurfélags Og Vodafone, 365 prentmiðla, 365 ljósvakamiðla og P/F Kall í Færeyjum sem bera myndi nafnið Dagsbrún. Skipulag samstæðunnar nýju tók gildi 1. október. Í frétt frá fyrirtækinu sem birtist í Morgunbaðinu 5. ágúst sl segir svo:

"Dagsbrún hf. mun verða hið skráða félag í Kauphöll Íslands í stað Og fjarskipta. Það hyggst marka sér stöðu á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar og stefnir að umbreytingum á þessum sviðum hérlendis og útrás á erlenda markaði."

Mikið var fjallað um hið nýja félag í fréttum í kjölfarið og aðallega á jákvæðum nótum. Þannig birtust fréttir af hagnaði Dagsbúnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 rúmum mánuði eftir að fyrirtækið varð til, en sá hagnaður nam 554 milljónum króna eftir skatta sem var nokkuð meira en á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 er hann var 367 milljónir (hagnaður af rekstri Og Fjarskipta (Og Vodafone)).

Í yfirliti sem fylgdi téðri frétt segir að skuldir séu 13.509 milljónir króna og eigið fé 8.943 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 499 m.kr. og eiginfjárhlutfall 39,8% svo tíndar séu til nokkrar stærðir. (Á hluthafafundi Dagsbrúnar í apríl. sl. kom fram að félagið stefndi að 35-40% eiginfjárhlutfalli til lengri tíma.)

Umsvif fyrirtækisins jukust hratt í kjölfar stofnunar þess, enda háleit markmið sett í upphafi eins og ég nefni hér að framan. Meðal annars var stefnt á stórsókn í útlöndum, keypt prentverk í Bretlandi (Wyndeham - "góður fjárfestingakostur sem fellur að langtímastefnu Dagsbrúnar"), unnið að stofnun fríblaðs í Danmörku og svo má telja, aukinheldur sem fyrirtækið keypti allt það sem það óttaðist að Síminn myndi annars kaupa hér heima.

Í sumar gerðust þær raddir háværar sem hermdu að ekki væri allt með felldu í rekstri fyrirtækisins og 17. ágúst sl. birtust svo fréttir af því að Dagsbrún hefði verið rekin með 1,5 milljarða tapi á fyrri hluta ársins. Þrátt fyrir það voru menn bjartsýnir,  í það minnsta útávið, og forstjóri félagsins, Gunnar Smári Egilsson, sagði við Viðskiptablað Morgunblaðsins að stjórnendur Dagsbrúnar teldu að afkoma félagsins ætti að vera betri en niðurstöður fyrri hluta ársins sýndu. Hann bar sig þó vel og sagði að þegar hefði verið brugðist við ákveðnum þáttum og áfram yrði unnið að því að bæta kostnaðarhlutföll í rekstrinum.

6. september sl. birtist í Viðskiptablaðinu þessi merkilega tafla:

Lykiltölur 30.6. 2006 (m.kr.)
Sala20.176
EBITDA2.096
EBIT676
Hagnaður (tap)(1.522)
Handbært fé frá rekstri f. vexti og skatta500
Greiddir vextir og skattar-681
Handbært fé frá rekstri-181
Fjárfestingar (net CAPEX)-1.360
Frjálst fjárflæði-1.541
Vaxtaberandi skuldir55.654
Eigið fé17.682
Eiginfjárhlutfall19%

Nú kann ég lítið fyrir mér í hagfræði en verð þó að segja að ég varð sleginn yfir þessum tölum enda bentu þær til þess að fyrirtækið stæði verr að vígi en mann hefði grunað. Það kom því ekki á óvart þegar almannarómur hermdi að hitnað hefði undir forstjóranum og að Dagsbrún yrði skipt upp. Orðið skúbbaði á því eins og svo mörgu, sjá til að mynda þessa frétt frá 28. ágúst og svo þessa frá 6 september.

Í gær birtist svo í Morgunblaðinu frétt um það að Dagsbrún hafi verið skipt í tvö félög. Í þeirri frétt er rætt við Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformann Dagbrúnar, sem fer fögrum orðum um uppskiptin og nýju fyrirtækin tvö enda muni aðgerðirnar skila sér í tveimur öflugum félögum "sem í dag eru hvort um sig jafnstórt eða stærra heldur en Dagsbrún var í upphafi ársins". (Góð uppskipti það að taka fyrirtæki, lima það í sundur, selja fasteignir og fyrirtæki sem það átti og eftir standi tvö fyrirtæki sem eru hvort um sig jafnstórt eða stærra en það gamla.)

Þórdís fer á kostum í viðtalinu en best af öllu er svar hennar við spurningunni um hvort sagan hafi ekki sýnt að viðskiptamódel Dagsbrúnar hefði ekki gengið upp:

"Svaraði hún því til að það hefði gengið fullkomlega upp og myndi gera svo áfram. "Dagsbrún gaf sig út fyrir það að vera umbreytingarfélag og því höfum við sannarlega fylgt eftir núna.""

Þarna er svo vel svarað að maður stendur eiginlega á öndinni. Dagsbrún sneri þokkalegum hagnaði í gríðarleg tap á innan við ári, umbreytti hagnaði í tap, hefði Þórdís eflaust sagt og bent á að það hafi verið í samræmi við tilganginn með fyrirtækinu sem var svo mikið umbreytingafélag að það umbreytti sér á endanum í ekki neitt.

Þegar ég las þetta óborganlega svar Þórdísar rifjaðist upp fyrir mér Dilbert ræma sem fjallar um það að ein leið til að meta hvaða augum viðmælandi lítur mann er að skoða hvernig hann lýgur að manni. Í ræmunni glímir Dilbert við svikulan samstarfsmann sem segist ekki hafa unnið umbeðið verk vegna þess að honum hafi verið rænt af íkornum sem hyggist leggja undir sig heiminn. Svo fjarstæðukennd saga sýnir að viðkomandi bar minna en enga virðingu fyrir viðmælandanum. Hvaða virðingu ætli eigendur Dagsbrúnar beri fyrir íslenskum fjölmiðlum?


Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband