Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Minna er meira

Ari EdwaldFyrir mörgum árum, á meðan Sovétríkin voru enn við lýði, birtist í Morgunblaðinu frásögn af því að brauðverð, sem var náttúrlega ákveðið af embættismönnum eins og annað í óskalandinu, hefði verið hækkað all svakalega. Embættismaður hjá Moskvuborg var spurður hverju þetta sætti og svaraði að bragði: Brauðverð var hækkað vegna eindreginna óska almennings.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á frétt í Fréttablaðinu þar sem skýrt var frá því að hætt hefði verið að dreifa blaðinu á hvert heimili á Selfossi, í Hveragerði, Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi, en þessi í stað verði komið fyrir "dreifikössum" á þeim stöðum. Aðspurður um ástæðu svaraði Ari Edwald, forstjóri 365-miðla svo: "Með þessu erum við að færa blaðið nær lesendunum."

Ekkert að óttast með Exista

Götuhátíð í PtujÉg sé það að menn hafa áhyggjur af eignasafni Exista og nægir að vísa til fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem skýrt er frá því mati sænska bankans SEB Enskilda að verðmæti eigna Exista nemi nú um 485 milljörðum króna en skuldir félagsins séu 534 milljarðar. "Miðað við eignastöðuna segir bankinn að ekki þurfi nema 7,5% verðfall á eignum Exista til að eigið fé félagsins verði uppurið," segir í fréttinni. Að mínu viti er þó óþarfi að vera með áhyggjur - Exista-menn kunna fótum sínum forráð eins og sagan hefur sannað.

Í október síðastliðnum bjuggust menn til að mynda við því að tap Exista á þriðja ársfjórðungi 2007 yrði allt að tíu milljarðar, en annað kom á daginn - hagnaðurinn var 676 milljónir króna. Skýringin á þessum óvænta hagnaði var að félagið uppfærði virði á óskráðum eignum um 5,6 milljarða króna. Í frétt Morgunblaðsins 27. október sagði svo:

"Á kynningarfundi félagsins í gærmorgun kom fram að um er að ræða fjárfestingu sem Exista réðst í í A-Evrópu fyrir um 18 mánuðum, í félagi við alþjóðlega fjárfestingarbankann Lehman Brothers. Ekki voru gefnar frekari skýringar á þessu en "vegna samkeppnisástæðna"."

Einn eigenda hlutar í Exista sem ég ræddi við í nóvemberbyrjun sagði mér að hann hefði árangurslaust reynt að komast að því hvaða austur-evrópska fyrirtæki þetta væri sem hefði verið svo vanmetið í eignasafni Exista, en sagðist jafnframt hafa glaðst yfir því að hlutur hans í fyrirtækinu hafi hækkað við þessar tilfærslur (fór úr 31,10 í 33,25, er 13,26 þegar þetta er skrifað). Hann lýsti þessu svo: "Ég er viss um að þetta hefur verið einhvernveginn svona: Sveittir menn sitja yfir brunarústunum og halda um höfuð sér þegar einn þeirra segir: Hvað með bakaríið sem við keyptum í Riga? Getum við ekki metið það upp á nýtt? Heyrðu, segir annar, algjör snilld! Hvað vantar okkur mikið ... ?"

Eigendur Exista hafa áður sýnt hugkvæmni í reikningsfærslum, til að mynda þegar eigið fé Exista var aukið um ríflega 48,5 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2007 meðal annars með 15% hlutdeild í söluhagnaði Sampo sem Exista fékk þó aldrei krónu skv. frétt Morgunblaðsins í dag. Á næstu dögum, jafnvel strax í dag, munu Exista-menn því skyndilega eftir þjóðbúningasafninu í Ptuj og gríðarlegum vaxtarmöguleikum þess. Það er stórlega vanmetin eign og verður að leiðrétta verðmat á eignasafninu til samræmis, þó ekki verði getið um hvað búi að baki "vegna samkeppnisástæðna". 

Myndin sýnir stjórnarmenn Exista á götuhátíð í Ptuj í Slóveníu.

Minnkandi ójöfnuður

Í ljósi þeirra hamfara sem nokkrir helstu auðjöfrar Íslands hafa nú gengið í gegnum (og sér ekki fyrir endann á) er ég steinhissa á að ekki hafi meira heyrst í þeim mæta hagfræðingi Stefáni Ólafssyni.

Málið er nefnilega það að eftir því sem milljarðar grósseranna hafa gufað upp hefur ójöfnuður minnkað í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson mælir hann, bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað sem gerist vissulega þegar hinum ríku fækkar.

Úr orðum Stefáns mátti og lesa að ef sá ójöfnuður yrði minnkaður myndi hinum fátæku líða betur. Gengur það eftir?


Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband