Færsluflokkur: Ferðalög
Fimmtudagur, 11. september 2008
Skreytin list eða skreytilist
Cusco (eða Qusqu) er hin forna höfuðborg Tawantinsuyu-ríkisins, sem menn kalla almennt Inka-konungdæmið (inka þýðir kóngur á quechua og því köllum við það víst konunga-konungsríkið). Þar þreifst forn og frumstæð menning sem leið undir lok að mestu er Spánverjar lögðu Perú undir sig á sextándu öld. Eitt af því sem þeir lögðu mikla áherslu á var að útrýma öllu því sem ekki féll vel að kenningakerfi kaþólsku kirkjunnar og þá helst af öllu allri menningu og list sem ekki var rammkaþólsk.
Til að tryggja að innfæddir vissu hvernig ætti að bera sig að við listsköpun fluttu Spánverjar til Perú listmálara sem kenndu fagið og til varð skóli í málaralist sem kallaður hefur verið Cuzqueña-skólinn; fjarvíddarlausar myndir í sterkum jarðlitum (rautt, brúnt og gult) og jafnan mjög gullskreyttar. Einnig er áberandi í myndum frá þeim tíma að fyrirmyndirnar (Jesú og hans hyski, nánustu ættmenni og dýrlingar) eru eins og ofur-stílfærðar myndir af blúnduskreyttu spænsku fyrirfólki.
Inn á sumar myndirnar læddust svo perúsk minni, alpaca og lamadýr, naggrísir (étnir á þeim slóðum við hátíðleg tækifæri, enda lostæti) og jafnvel stöku Jesúbarn sem var með indíánasvip (dökkan hörundslit og stóran brjóstkassa (þunna fjallaloftið)).
Eftirmyndir ef þessum myndum eru til sölu á götum úti í Cusco og atgangurinn oft harður þegar reynt er að þröngva myndum inn á ferðamenn. Hugsanlega eru einhverjar þeirra málaðar af kínverskum börnum (eins og flest það glingur sem selt er ferðamönnum hér á landi), en líklegt þykir mér að fátækir listamenn í Cusco taki sér fyrir hendur að mála slíkar myndir þegar hungrið sverfur að. Það sýndist mér í það minnsta í heimsókn í nútímalistasafnið í Cusco fyrir stuttu.
Nútímalistasafnið í Cusco er í gríðarlega fallegu húsi sem reist var á dögum spænskrar landstjórnar í Perú. Húsið er í eigu borgarstjórnar Cusco og notað í starf hennar, einskonar ráðhús sýndist mér, enda kallast það Palacio Municipal. Safnið sjálft er reyndar ekki nema í tveimur sölum eða í það minnsta voru ekki nema tveir salir opnir er ég kom þar, en í öðrum salnum var sýning á ljósmyndum frá fáförnum stöðum í Perú; myndir með takmarkað listrænt gildi, en að vissu leyti forvitnilegar fyrir ferðamenn.
Í aðalsalnum voru svo til sýnis helstu gripir úr eigu nútímalistasafnsins og að vissu leyti áfall að sjá það sem þar var til sýnis. Sitthvað af því hefði nefnilega eins getað verið til sölu á Plazoleta del Regocijo framan við safnið dæmigert túristagums.
Eitt af því sem áberandi var við málverkin, ekki öll en býsna mörg, var að handverkið á þeim var gott, mjög gott reyndar, fínleg vinna vel unnin líkt og með allar myndirnar sem seldar eru á torgum Cusco. Margar myndanna voru líka vel útfærðar, en þær voru handverk, ekki list, snertu mann ekki, gervilist eða skreytilist.
Í stuttu samtali við starfsmann á staðnum komst ég að því að safnið er ekki ýkja gamalt, stofnað af núverandi borgarstjóra borgarinnar sem hafi viljað vekja athygli manna á því að þótt menning Cuscverja eigi sér langa sögu (borgin var stofnuð fyrir um þúsund árum) séu listamenn enn að skapa. Í því ljósi er ekki rétt að dæma safnið hart; kannski á það bara eftir að byggja upp kost sem eitthvað kveður að, myndir sem varið er í. Kannski verða svo einhvern tímann til sölu eftirmyndir af þeim verkum á torgum Cusco.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar