Miðvikudagur, 10. maí 2006
Glæpasögur á tímaflakki
Glæpasöguformið gefur ekki mikið svigrúm til nýjunga eða stílbragða - morð er morð og geta verið leiðgjörn. Flestar glæpasögur eru líka formúlusögur, morð, rannsókn og æsilegur lokapsrettur, en sumar svo listilega skrifaðar að maður gleymir sér í persónulýsingu eða þjóðfélagsgreiningu og man varla eftir morðinu fyrr en allt kemst upp að lokum. Eða ekki.
Undanfarin ár hefur mjög fjölgað glæpasögum þeirrar gerðar að þær gerast í framandlegu umhverfi, hefur til að mynda dugað vel fyrir Arnald Indriðason til að vekja áhuga erlendra lesenda, en eins hefur þeim bókum fjölgað gríðarlega sem gerast fyrir löngu, jafnvel fyrir hundruðum eða þúsundum ára.
Brautryðjandi í slíkum bókum er hollenski diplómatinn Robert Hans van Gulik sem skrifaði bækur um kínverska dómarann Dee og gerast á sjöundu öld. Serían varð þannig til að hann þýddi kínverska glæpasögu frá átjándu öld um dómarann Dee, Dee Goong An, og byggð var á spæjaranum Ti sem uppi var á sjöundu öld í Kína. Í kjölfarið skrifaði hann sextán bækur um Dee.
Margir þekkja eflaust bækur Anne Perry sem gerast í Englandi á Viktoríutímanum og segja ýmist frá spæjaranum William Monk eða lögregluforingjanum Thomas Pitt og Charlotte konu hans, um margt skelfilega lélegar bækur reyndar. Jaqueline Winspear skrifar bækur um spæjarannn Maisie Dobbs sem gerast á þriðja áratug síðustu aldar.
Fáar slíkar bækur hafa notið eins mikilla vinsælda og The Alienist eftir Caleb Carr sem varð metsölubók fyrir rúmum áratug, en hún gerist í New York 1896 og segir frá Theodore Roosevelt, sem þá var lögreglustjóri í New York, sálfræðingnum Laszlo Kreitzler og John Schuyler Moore, blaðamanni New York Times.
Hugsanlega má kenna Umberto Eco um munkaæðið, því í kjölfar metsölubókar hans um munkinn Vilhjálm Baskerville, Nafn rósarinnar, hafa fjölmargir fylgt, til að mynda nunnan Fidelma eftir Peter Tremayne (Peter Berresford Ellis), en hennar sagan gerist á sjöundu öld, og munkurinn Athelstan (Aðalsteinn) eftir Paul Harding (P.C. Doherty) sem ævintýri hans gerast á fjórtándu öld.
(Hvaðan Eco fékk hugmyndina er ekki gott að segja, kannski var hún sjálfsprottin, en ekki má gleyma vinsælum bókum um miðaldamunkinn welska Cadfael eftir Ellis Peters sem gerast á tólftu öld og nutu svo mikilla vinsælda að gerðir voru eftir þeim sjónvarpsþættir, en fyrsta bókin í þeim flokki kom út 1977.)
Enn bætist í þennan flokk, til að mynda ágætis bækur eftir C.J. Sansom sem segja frá Matthew Shardlake, lögmanni og krypplingi, sem rannsakar ýmis mál fyrir Thomas Cromwell um miðja sextándu öld. Ekki má gleyma bókunum um Erast P. Fandorin eftir Boris Akunin sem gerast í Rússlandi á seinni hluta nítjándu aldar. Þær bækur hafa náð milljónasölu víða um heim, meðal annars verið snarað á íslensku, enda skemmtilega húmorískar, hálfgerðar ævintýraspennubækur upp á gamla móðinn. Framundan eru svo fleiri sögulegar söguhetjur, ef segja má svo, því tvær slíkast slást í hópinn í sumar, önnur prússnesk, hin tyrknesk, og að segja samtímamenn.
Critique of Criminal Reason heitir skáldsaga eftir Michael Gregorio sem kemur út í sumar, fyrsta bók útgáfuraðar um Hanno Stiffeniis héraðsdómara í Lothingen í Prússlandi í upphafi nítjándu aldar. Michael Gregorio er í raun tveir höfundar, Daniela Gregorio og Michael Jacobs, en meðal sögupersóna í bókinni er heimspekingurinn Immanuel Kant. Ágæt bók um margt en full hástemmd.
Mun betra verk er The Janissary Tree eftir Jason Goodwin. Sú bók gerist í Tyrklandi á tímum Ottómanveldisins í upphafi nítjándi aldar, um áratug eftir að Mahmud II. braut á bak aftur veldi janissaranna. Sagan segir frá spæjaranum Yashim sem falið er að rannsaka tvo mál; annars vegar mannrán og morð fyrir herinn sem myndaður var til að ganga milli bols og höfuðs á janissörunum á sínum tíma og hinsvegar morð á einni af stúlkunjum í kvennabúri soldánsins og stuldi á skartgripum móður soldánins. Yashim er hugmyndaríkur og harðsnúinn og hefur betri aðgang að kvennabúrinu er aðrir vegna þess að hann er geldingur.
Goodwin er manna fróðastur um sögu Miklagarðs og veldir Ottómana, hefur enda skrifað margar bækur um þau mál, síðast Lords of the Horizons, sem segir einmitt sögu janissaranna, jeni ceri, frá 1365 til atburðanna í júní 1826 er Mahmud annar gekk á milli bols og höfuðs þeim. Istanbúl lifnar og í höndum Goodwins og bókin er ekki bara skemmtilega snúin glæpasaga heldur líka bráðfróðleg lýsing á lífinu í Istanbúl á nítjándu öld með sagnfræðilegu ívafi. Þó Yashim sé geldingur vantar ekki í bókina erótík, enda gerist hún að nokkru leyti í kvennabúri soldánsins, og þegar við bætast flugumenn erlendra ríkja, skuggaleg undirheimagengi og mataruppskriftir verður eiginlega ekki betur gert.
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir það. Mun kíkja á Janissary Tree. Komin á minn lista.
Villi Asgeirsson, 10.5.2006 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.