Mann- og kvenfyrirlitning

Jean-Paul Sartre og Simone de BeauvoirEitt af helgiritum unglingsára minna var bókin One-Dimensional Man eftir þýska heimspekinginn Herbert Marcuse. Á þeim tíma, í upphafi áttunda áratugarins, var annar hver maður að blaða í Marcuse, þótt ekki hafi skilningurinn á verkinu kannski verið ýkja mikill. Ég man þó að mér þótti það flott greining á kapítalismanum að í neyslusamfélagi hans muni sál almúgans felast í varningi, bílum, stereógræjum (hvað er það annars), pallaraðhúsi og eldhústækjum. (Víst er þetta einföldun en á líka að vera það.)

Því er þetta rifjað upp hér að ég rakst á One-Dimensional Man í bókabúð í fyrrakvöld og fór að fletta henni mér til gamans. Þar var margt sem hefur ekki staðist tímans tönn og inn á milli gullkorn eins og óborganleg tilvitnun í annan mikinn marxista, Jean-Paul Sartre. Sartre var samtímamaður Marcuse, nokkru yngri þó, og þeirra skoðanir lágu saman að mörgu leyti. Tilvitnunin sem Marcuse tínir til er úr ritinu Critique de la raison dialectique og fjallar um erótíska drauma kvennanna við vélina. Ég man ekki eftir að hafa tekið sérstaklega eftir henni á sínum tíma, en ég tók eftir henni núna og þá sérstaklega kvenfyrirlitningunni sem bjó undir.

Víst er innbyggt í fræði Marcuse, líkt og svo oft í vinstrimennsku, lítið álit á almúganum, sem hann og aðrir marxistar vildu vernda fyrir vondu kapítalistunum, en litu um leið niður á fyrir óstéttvísi, menntunarskort og smáborgaraskap. Minna hefur farið fyrir umræðu um það hvernig eðlislæg kvenfyrirlitning þess tíma smitaðist inn í byltingarfræðin.

Svonefnd '68-kynslóð tignaði Sartre sem spámann og hann stóð líka með byltingarsinnuðum ungmennum á götum Parísar í lok sjöunda áratugarins. Sagan hefur leitt í ljós að þótt hann hafi verið merkilegur á sinn hátt var sambýliskona hans og sálufélagi í gegnum árin, Simone de Beauvoir, mun næmari á það sem fram fór. Hún sá það sem var, að í vinstrihreyfingu þess tíma var barist fyrir frelsi, og þá frelsi karla, en það var enn langt í land að konur fengju að njóta þess frelsis: „Karlar fluttu ræður, en konur vélrituðu þær. Karlar stóðu á sápukössum og í ræðupúlti, en konurnar voru inni í eldhúsi að búa til kaffi,“ er haft eftir Beauvoir, og það var ekki fyrr en konurnar áttuðu sig á því að þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu að hjólin tóku að snúast: „Ég skildi það loks að konur gætu ekki vænst þess að frelsun þeirra myndi spretta af almennri byltingu, þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu. Karlar voru alltaf að segja þeim að þarfir byltingarinnar gengju fyrir og síðar myndi röðin koma að þeim.“

Þess má geta að lokum að lykilrit Beauvoir, Hitt kynið, „Le Deuxieme Sexe“, kom út fyrir rúmum 60 árum. Franska dagblaðið Le Monde nefndi hana elleftu merkustu bók síðustu aldar í samantekt sem birtist um síðustu aldamót. arnim@mbl.is

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband