Tunglið allt úr tómum osti

Sé tunglið allt úr tómum osti
talsvert held ég að það kosti
A Grand Day Out
hljómaði í leikritinu Ferðinni til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu vorið 1964. Í því segir frá ferð músasystkinanna Magga og Möllu til plánetunnar Limbó, sem er miðja vegu milli jarðar og tunglsins, en Magga litla langar til að komast til tunglsins og í ostinn sem þar sé að finna.

Að einhver trúi því að tunglið sé úr osti er gjarnan notað til að gera gys að viðkomandi eða að sýna fram á barnaskap, enda dettur engum í hug að slík og þvílík della geti verið sönn; vísindin hafa sýnt okkur fram á að tunglið sé úr tómu grjóti. Að því sögðu þá lifir allskyns fjarstæðu- og dellutrú góðu lífi á okkar upplýstu öld, hvort sem það er trú á kókoshnetuolíu, agave-síróp og það að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp tvíturnana, ótti við bólusetningar eða sannfæring um að það sé ekki að hitna á jörðinni og ef svo er þá sé það örugglega ekki mannkyni að kenna.

Segjum sem svo að hópur manna takið að efast um það að tunglið sé úr grjóti. Sjáið bara, segja þeir, það er mysulitt og þar af leiðir: Það er úr osti! Þeir gætu líka gripið til röksemda á við: Til eru heimildir um að tunglið hafi verið úr osti á landnámsöld og þar af leiðir: Það er úr osti í dag! Ég er ekki í vafa um að hægt væri að finna fjölda manna sem myndu skrifa undir slíka staðhæfingu, ekki síst ef hún væri sett upp á netinu.

Fjölmiðlar myndu eflaust gefa slíkum fullyrðingum gaum og í takt við misskilið hlutleysishlutverk myndu þau gefa ostatrúarmönnum sama pláss í fjölmiðlum og raunhyggjumönnum. Í hvert sinn sem rætt væri um tunglið við stjarnvísindamann þyrfti líka að hafa tunglostafræðing með. Fyrir vikið fengi almenningur þá hugmynd í kollinn að það væri umdeilt hvort tunglið væri úr grjóti og tilgátan um að það væri úr osti væri jafn líkleg.

Ofangreint hljómar kannski eins og hver önnur þvæla, en á sér þó stað í raunveruleikanum þegar loftslagsvísindi eru annars vegar. Í þeim fræðum fær hávær minnihluti ámóta pláss í fjölmiðlum og þeir sem rannsakað hafa málið og komist að þeirri niðurstöðu að það fari hlýnandi í heiminum og að sé að miklu eða mestu leyti af okkar völdum.

Umræður um að hvort það sé að hitna í heiminum eða ekki ráðast núorðið einna helst af pólitískum skoðunum og vestan hafs skiptir líka máli hverrar trúar viðkomandi er. Í öllu argaþrasinu gleymist að 97% loftslagssérfæðinga eru sammála um að veðurfar fari hlýnandi af manna völdum. 3% þráast við fyrir einhverjar sakir, sumir sjálfsagt vegna þess að það væri svo indælt ef tunglið væri úr tómum osti því:

Þá yrði Möllu magi stór
og Maggi ekki lengu mjór.

(Á myndinni sjást ostatrúarmaðurinn Wallace og ostatrúarhundurinn Gromit gæða sér á tunglosti á tunglinu.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband