Mánudagur, 19. febrúar 2007
Hjartað slitið úr Mosfellsbæ
Fyrir rúmum tuttugu árum settu menn í Mosfelsbæ á skipulag vegspotta sem tengja átti íbúðahverfi við helstu umferðaræðar. Gatan sú átti að vera svonefnd safngata og þjóna 200 íbúa byggð. Á skipulaginu lá hún skammt frá verksmiðjuhúsum í niðurníðslu í kvos við Varmá og öllum var sama.
Það breytist margt á tuttugu árum, 200 íbúa byggðin verður víst 1200 manna og hrófatildrin í Varmárkvosinni breyttust í íbúðarhús, menningarsetur, listakvos, Álafosskvos.
Um það leyti sem ég byrjaði að skrifa um tónlist fyrir Moggann, fyrir rúmum tuttugu árum, var Mosfellsbærinn fyrir mér bara staður þar sem hægt var að kaupa bensín. Ekki löngu síðar höfðu samband við mig strákar úr Mosfellsbæ sem þá voru nýkomnir frá útlöndum.
Hljómsveitin þeirra hét Gildran, hafði verið á samningi hjá útgáfu sem ekkert varð úr, en ætlaði nú að hasla sér völl hér heima. Talsmaður Gildrunnar var Karl Tómasson, framúrskarandi trommuleikari, en Birgir Haraldsson sá um söng og gítarleik og Þórhallur Árnason var geysiþéttur bassaleikari. Ég heimsótti Gildruna í Mosfellsbæinn oftar en einu sinni og komst síðan í kynni við fleiri hljómsveitir sem ráku ættir sínar þangað.
Álafosskvosin tók að byggjast upp á þessum árum, ýmislegt hugsjónafólk tók til við að endurbyggja hús í kvosinni og fluttist síðan þangað. Þorlákur Kristinsson vinur minn kom sér þar upp vinnustofu og þangað kom ég á sýningar eða til að sníkja kafi. Annar vinur, Arnþór Jónsson, sellóleikari, settist þar líka að. Smám saman byggist upp sérstakt samfélag í kvosinni, einskonar listamannanýlenda, þó ekki hafi allir íbúarnir verið listaspírur.
Það var alltaf tilhlökkunarefni að koma í kvosina, aka í gegnum steinsteypu- og malbiksmartröð og síðan eftir eina beygju og nokkur hundruð metra var maður kominn upp í sveit, fann hvernig spennan hvarf úr líkamanum við það eitt að stíga út úr bílnum í kyrrðinni, kominn til annars lands, í annan heim. Hér sló hjarta Mosfellbæjar.
Fyrir um áratug byrjuðu ungir strákar að æfa í bílskúr í Mosfellsbænum. Þeir byrjuðu á Smashing Pumpkins lögum en áttuðu sig snemma á því að það væri ömurlegt og fóru að semja eigin lög. Með tímanum óx þeim ásmegin og þeir tóku upp plötu í Mosfelslbænum, máluðu hljóðver til að borga fyrir stúdíótíma.
Næstu plötu unnu þeir að miklu leyti í Reykjavík, en þeir héldu tryggð við uppruna sinn og um leið og kostur gafst komu þeir sér upp vinnuaðstöðu þar, keyptu sundlaugina gömlu í kvosinni og breyttu í hljóðver. Þegar Sigur Rós var búin að sigra heiminn, sneri hún heim í sína heimabyggð.
Vegspottinn sem settur var á skipulag fyrir tutugu árum óx og dafnaði ofan í skúffu hjá bæjarstjórninni, byggðin sem hann átti að þjóna blés út og hann stækkaði að sama skapi eins og ormur á gulli, glópagulli. Á þessu áttuðu menn sig skyndilega - byggðin í kvosinni hafði þróast til hins betra, Álafosskvosin iðaði af mannlífi og var orðinn einn helsti ferðamannastaður Mosfellsbæjar, en vegurinn þróast til verri vegar og orðinn að ófreskju. Að þvílíkri ófreskju að einsýnt er að verði hann lagður eins og ætlað er er úti um sérstöðu Álafosskvosarinnar, útséð um listalíf það sem, þar hefur þróast, hjartað slitið úr bænum.
Það er svo gráglettni örlaganna að Gildrumaðurinn Karl Tómasson sé einn helsti fjandi menningarlífsins í kvosinni, nú orðinn forseti bæjarstjórnar.
Nú er það svo að vegaspottinn ógurlegi, Helgafellsvegur er opinbert heiti hans, liggur ekki í gegnum kvosina, en hann liggur utan í kvosinni á þannig stað að úti verður um friðsældina, mengun eykst umtalsvert og mikið lýti verður af þessari framkvæmd. (Það er svo til að bíta höfuðið af skömminni að bæjaryfirvöld skuli birta á vefsetri sínu skekkta mynd af svæðinu eins og sjá má ef smellt er hér. Þessi mynd er nefnilega teygð eins og menn sjá væntanlega um leið, en mér þykir líklegt að það sé fyrir aulagang, frekar en vísvitandi gert.)
Í gær voru í Verinu vestur í bæ tónleikar til styrktar Varmársamtökunum, samtökum sem tekið hafa að sér að berjast fyrir lífi Álafosskvosarinnar. Mæting var fín á tónleikana, húsið fullt og rúmlega það, sennilega vel á áttunda hundrað gesta í húsinu.
Á tónleikunum léku hljómsveitir og tónlistarmenn sem unnið hafa í hljóðverinu í kvosinni, Sundlauginni, eða tengast henni á annan hátt. Fram komu Amiina, Sigur Rós, Pétur Ben, Dór DNA, Bogomil Font og Flís og Benni Hemm Hemm. Ýmsir komu einnig við sögu, fluttu tölur og kynningar, fóru með gamanmál og kváðu rímur. Best að taka það fram hér að ég tók þátt í þessari skemmtan, flutti stutta ræðu og kynnti Sigur Rós á svið.
Bryndís Schram setti tónleikana, flutti inngangsorð. Henni höfum við margt að þakka, því það var hún sem settist fyrir framan gröfurnar og kom þessari geðveikisframkvæmd þannig í alla fjölmiðla, gerði baráttu í héraði að landsmálabaráttu. Hún nefndi það og í sínu spjalli að baráttan gegn vegnum um kvosina er liður í stærri baráttu, baráttu gegn umhverfisspjöllum og skeytingareysi stjótrnvalda víðar - við byrjum í kvosinni, sagði hún efnislega, næst björgum við Hafnarfirði og svo landinu öllu.
Fyrsta hljómsveit á svið var Amina, sem átt hefur margar stundir í Sundlauginni, en segja má að Amiina hafi verið á sviðinu stóran hluta kvöldsins, því Amiinu-stöllur léku einnig með Sigur Rós og Pétri Ben. Upphafslag þeirra var einskonar elegía vegna kvosarinnar, ábending um hvernig farið getur, en lokalagið upp fullt af von og kærleika. Frábært lag sem hljómað hefur í kollinum á mér síðan.
Sigur Rós spilaði órafmagnað, ef svo má segja, hljóðfæri mækuð upp en ekki rafmögnuð sjálf. Það fannst mér ganga vel upp og viðeigandi af þessu tilefni. Lokalag þeirra félaga var Ágætis byrjun sem segir frá því er þeir luku við Von, plötu sem varð að mestu til í Mosfellbæ, og tilfinningunum sem bærðust með þeim þegar þeir höfðu lokið við hana, léttinum og voninni.
Á fætur Sigur Rósar komu á svið félagar úr listasmiðjunni í Ásgarði og sögðu frá tilurð hennar og starfi sem mér fannst mjög merkilegt. Ég náð því miður aðeins nafni annars þeirra, Steindórs, en frásögnin var góð.
Pétur Ben hefur unnið talsvert í Sundlauginni, gert þar tvær bíómyndir og að auki eina breiðskífu. Sú skífa, Wine for My Weakness, var vel heppnuð og því gat maður átt von á góðum tónleikum frá Pétri. Hann stóð og undir þeim væntingum því frammistaða hans var hreint út sagt framúrskarandi og lögin komu frábærlega vel út, hvort sem þau voru af plötunni eða úr bíómynd.
Þeir félagar Steindór Andersen og Sigurður Sigurðarson, sem aldrei er kallaður annað en Sigurður dýralæknir, tróðu næstir upp, fóru með gamanmál, kveðlinga og vísur, og kváðu svo rímu sem þeir áður tóku upp undir brúnni við Sundlaugina. Mjög skemmtileg uppákoma og bráðfyndin.
Steindór kynnti á svið Halldór Halldórsson, Dóra DNA, sem fór hreinlega á kostum í magnaðri ræðu. Hann byrjaði mál sitt á að rifja upp fyrsta sleikinn sem hann upplifði tólf ára gamall í kvosinni þjóðhátíðardag einn fyrir löngu Hann rakti síðan hve bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ hefur illa tekist upp í viðleitni sinni að gæða bæinn lífi. Sannar ekki Helgafellsvegurinn að þau horfa jafnan í ranga átt? Leyfa græðginni að ráða.
Bogomil Font söng einmitt um græðgina, Perlur fyrir svín, í fínni sveiflu. Frábær hljómnsveit Flís og Bogomil í fínu formi, en þess má geta að skömmu áður átti hann stjörnuleik á trommurnar með Pétri Ben.
Ung stúlka úr Álafosskvosinni, sem ólst þar upp og hefur búið frá barnsaldri, kynnti lokaatriði kvöldsins, Benna Hemm Hemm, en sagði okkur í leiðinni stuttega frá lífinu í kvosinni, hvernig það var að alast upp þar, fyrstu árin innan um hálfhrunda hættulega kofa og úreltar verksmiðjur sem síðan öðluðust nýtt líf. Færði okkur aðeins nær fólkinu sem býr í kvosinni og vill fá að búa þar í friði - ekki óðelileg ósk, eða hvað.
Fáar hljómsveitir eru eins skemmtilegar á sviði og Benni Hemm Hemm, með sín epísku háreistu mögnuðu lög. Því miður fengum við ekki nema þjú lög að þessu sinni, en Benni og félagar stóðu sig frábærlega vel, slógu botninni í fjölbreytta og skemmtilega tónleika með góðan og göfugan tilgang.
(Björg Sveinsdóttir tók myndirnar. Sleppi mönnum við mynd af mér.)
Fékk "vinsamlega" ábendingu um að núlli væri ofaukið. Það hefur verið leiðrétt í færslunni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:06 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll,
Flottur og fínn, allar staðreyndir á hreinu hér hjá þér, ekki satt. Skrítið að ef maður fer inná vef Mosfellsbæjar þá kemur fram að þarna eiga að vera 1020 íbúðir. Samkvæmt þínum tölum eiga 12000 manns að búa í þeim, eða 11,76 persónur í hverri íbúð ! Ekki vildi ég búa við þessar aðstæður og þætti mér vænt um að þú létir nú sannleikann koma fram í nýju bloggi frá þér. Kveðja
Örn Johnson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 14:35
Leit aftur inn á síðuna þína og las mig betur til. Sá ég þá að ég hafði lesið tölu þína vitlaust og margfaldað hana með tíu, sem ekki er nú gott. Bið þig hér með afsökunar á fyrri athugasemd minni. En talandi annars um tölur, þá man ég ekki betur að einhvar hafði reiknað það út að um þennan undeilda veg færu líklega um 10.000, já tíuþúsund bílar á dag. Mér finnst það rosalega mikill akstur hjá ekki fleira fólki, hver 4ja manna fjölskylda fari 16 bílferðir út úr hverfinu og 16 ferðir inn í hverfið daglega. Hefur þú heyrt tölur um þetta ?
Kveðja
Örn Johnson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 17:46
Ég hef því miður ekki handbærar tölur um það hversu oft gera má ráð fyrir að viðkomandi bifreið verði notuð. Spár Samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar um bifreiðaeign gera ráð fyrir að mettun náist þegar 600 bílar verði á hverja 1.000 íbúa, en eins líklegt að þessi tala geti orðið eitthvað hærri hér þar sem lakar almenningsamgöngur og veðurfar ýta undir bílaeign.
Miðað við það má gera ráð fyrir að bílar í nýju hverfi verði ekki færri en 700. Ef við styðjumst við 10.000 bíla töluna gera þar ríflega fjórtán ferðir á dag á hvern bíl sem er nokkru minna en þú nefnir en þó býsna hátt. Fleiri eiga þó eftir að fara um hverfið en íbúarnir einir, gestir, þjónustuaðilar og svo má telja.
Sjálf umferðarspáin er fengin frá bæjaryfirvöldum sjálfum, sem eru ekki líkleg til að vilja sverta málstað sinn. Í Hljóðvistarskýrslu sem nálgast má á vef bæjarins stendur þannig: "Áætlað er að um 8-10 þús bílar/sólarhring eftir
Helgafellsvegi eftir uppbyggingu íbúðarbyggðar. Áætla má hæstu klukkustundarumferð um 1.200-1.500 bílar/klst." Það má semsé búast við því að þegar verst lætur fari allt að 1.500 bílar um veginn á klukkustund, eða 25 bílar á mínútu. Það er óneitanlega talsverð umferð, ekki satt?
Árni Matthíasson , 19.2.2007 kl. 19:18
Finnst ömurlegt að mbl.is leiði mig inn á síðu þína. Þú ert svo sannfærður um ágæti eigin málstaðar að þú ert tilbúinn að skíta út fólk sem vinnur að heilindum í þágu Mosfellinga. Karl Tómasson sýnir hugrekki með afstöðu sinni og setur greinilega hagsmuni heildarinnar framan sínum. Vegurinn hefur verið á skipulagi öll þessi ár og kemur til með að þjóna nýjum íbúum Mosfellsbæjar. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur farið að öllum leikreglum sem gilda í þessu sambandi og mér finnst satt að segja aðferðir mótmælenda ógeðfelldari en tali tekjur.
Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 22:06
Guði sé lof, að við, Íslendingar, eigum fólk eins og þau heiðurshjón, Jón Baldvin og Bryndísi Schram, sem ótrauð halda áfram baráttunni fyrir málstað okkar meðal jónanna. Bryndís settist niður á grasbalann beint fyrir framan gröfuna og horfðist í augu við gröfustjórann, uns hann brosti kankvíslega og drap svo á gröfunni ! Váá ! Svona á að taka á málunum, ganga beint til verks án málalenginga og láta athöfn fylgja orðum. Síðan kemur Jón Baldvin eins og riddari á hvítum hesti rakleiðis úr Reykjavík 101 til hjálpar Bryndísi sinni. Þetta er stórbrotin saga og ótrúlega rómantísk líka. Haldi menn, að hún sé sett á svið eins og heyrst hefur, þá skjöplast þeim algjörlega, því að þarna er þeim hjónum rétt lýst, blátt áfram og djörf að vanda. Þau myndu sóma sér vel að Bessastöðum, þegar okkar ástkæri Ólafur Ragnar lætur af störfum í náinni framtíð. Já, það er bjart yfir Íslandinu góða um þessar mundir. Með góðri kveðju, KPG
Kristján P. Gudmundsson, 20.2.2007 kl. 07:33
Sérkennileg þykir mér beiskjan sem einkennir skrif Skúla. Mér finnst ekkert "ömurlegt" við það að ég fái að halda skoðunum mínum fram undir nafni frekar en hann. Bendi líka á að ef mbl.is er að "leiða" fólk inn á síðu mína er það líka að "leiða" fólk að athugasemd hans, og ekkert ömurlegt við það, eða hvað. Ég fæ heldur ekki séð að ég sé með skítkast í garð Karls Tómassonar, sem ég met mikils sem tónlistarmann og stjórnmálamann. Öll mín samskipti við hann hafa verið ánægjuleg hingað til og verða vonandi framvegis. Ég er líka ekki í vafa um að hann hefur vald og hugrekki til að leysa þetta mál, slá því á frest nógu lengi til að full sátt náist, ef hann kýs svo.
Hvað leikreglurnar sem bæjarstjórn hefur farið eftir varðar veit ég ekki betur en nýfallinn sé úrskurður opinbers aðila (Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála) um að "talsverður vafi" leiki á lögmæti ákvarðana Mosfellsbæjar. Ef það reynist rétt þá er það vissulega ógeðfelldara en aðgerðir mótmælenda ekki satt?
Hvað pilluna til Jóns Baldvins varðar bendi ég Kristjáni á að hann er búsettur á Krosshóli. Síðast þegar ég vissi var póstnúmer þar 270, ekki 101.
Árni Matthíasson , 20.2.2007 kl. 11:45
Hvernig dettur þér í hug að segja annað eins um Karl Tómasson? Að hann sé nú mesti fjandmaður menningarlífs í Kvosinni? Þetta lýsir þröngsýni og grunnhuggni og kemur úr ótrúlegustu átt, þú átt að vita betur og ég veit að þú veist betur. Það er ömurlegt til þess að vita að halda eigi Karl einan ábyrgan fyrir þessu máli. Þetta er farið að virka eins og Karl sé einráður í bænum og sé búinn að vera það undanfarin 20+ ár. Skammastu þín fyrir hvernig þú talar um hann og reyndu að koma með málefnalegri umræðu um þetta mál - málflutningur þinn er orðinn of líkur málflutningi Varmársamtakanna og stjórnarandstöðunnar hér í bæ, um að gera að skella allri skuldinni á einn mann. Það getur verið að Karl hafi ekki haldið rétt á spöðunum í þessu máli en á bak við hann er heil bæjarstjórn sem enginn nefnir á nafn, sem í raun var búin að samþykkja brautina áður en VG komust til valda. Það kemur hvergi fram að brautin sem nú hefur verið samþykkt er allt önnur en sú sem upphaflega var farið af stað með. Þessi hatursáróður í garð Karls er runninn undan rifjum Framsóknar og Samfylkingar í Mos sem geta ekki horfst í augu við það að þeir klúðruðu stjórnarmynduninni í fyrra og sitja því ekki í stjórn, og því standa öll spjót á Karli. Þetta gleypir illa upplýst og grunnhyggið fólk eins og það er matreitt og áttar sig ekki á neinu. Ég hefði viljað sjá hvernig Framsókn og Samfylking hefðu brugðist við í þessu máli, þegar á hólminn væri komið, hefðu þeir í alvöru komið í veg fyrir brautina? Hvað voru þeir þá að gera öll átta árin sem þeir sátu í stjórn og vissu af brautinni? Það eru um 15 ár síðan Kvosin tók að byggjast upp, þannig að það hefur verið vitað jafnlegni að þessi hús yrðu ekki rifin, og hvað gerði þáverandi stjórn með tengibrautina í huga? Ekkert og traðkar svo í dag á manni sem er í raun staddur á milli steins og sleggju. Hús hans á nánast eftir að standa eins og strætóskýli við umræddan veg, og þessvegna lýsti hann sig vanhæfan þegar málið var tekið fyrir á fundum bæjarstjórnar og annar sat í hans stað. Samrt er ráðist svon ómanneskjulega á hann. Ég held að orð þin um fjandmennsku Karls séu afar vanhugsuð, hann hefur alltaf unnað Kvosinni, hefur gert þar upp þrjú hús, búið þar og rekið veitingahús, þannig að það er ekki hægt að segja að hann sé fjandsamlegur gegn Kvosinni.
Annað er að það sé alltaf verið að hampa Sigurrós og segja að hún megi ekki fara úr Kvosinni. Með fullri virðingu fyrir Sigurrós þá sé ég bara ekki að það komi málinu við hvort hún sé í Kvosinni eða ekki, deilan snýst ekki um veru hennar, heldur um hvort lífvænlegt verður í Kvosinni í framtíðinni. Persónulega er mér alveg sama hvort Sigurrós er í Kvosinni eða ekki en mér er ekki sama hvort það er gott fyrir alla að búa í Kvosinni.
Með von um málefnalegri umræðu í framtíðinni og að þeir sem almennt tjá sig um þetta mál fari að kippa hausnum upp úr sandinum og horfa á hlutina í réttu ljósi.
Hjördís Kvaran Einarsdóttir
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 21:32
Kæra Hjördís.
Ég sagði ekki að Karl Tómasson væri "mesti fjandmaður menningarlífs í Kvosinni" enda væri það hin verstu öfugmæli - Karl Tómasson er einn þeirra sem blésu lífi í kvosina á sínum tíma, einskonar guðfaðir þeirrar listamannanýlendu sem þar hefur myndast. Ég bið þig um að lesa aftur það sem ég sagði.
Hvers vegna menn beina svo ákaft óskum sínum til hans ræðst vitanlega af því að þeir treysta honum best, vita að hann var einn af þeim sem lagði grunna að því mannlífi sem þrífst í kvosinn og því líklegastur til að geta bjargað því, svo einfalt er það nú. Lestu til að mynda það sem haft hefur verið eftir bæjarstjóranum Ragnheiði Ríkarðsdóttur og þá skilur þú fljótt að hverju manni finnst lítið vit að klappa á þann klettavegg.
Ég tek undir það með þér að þeir flokkar sem nú hafa hæst í þessu efni, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, eiga mikla sök á því hvernig komið er - af hverju var þetta mál ekki unnið betur á sínum tíma? Hvernig stóð á því að þeir sem áttu að gæta hagsmuna bæjarbúa tóku ekki upp skipulagið þegar byggð í Helgafellslandinu stækkaði úr 200 manna byggð í 1200 íbúða byggð? Ekki verður Vinstri grænum kennt um það, svo mikið er víst.
Ég er alveg sammála þér um að þessi deila snýst ekki bara um Sigur Rós og hljóðver hljómsveitarinnar, en hún snýst líka um það, hún snýst um alla sem búa og starfa í kvosinni, um að það sem fékk fólk til að flytja á þennan stað sé ekki frá því tekið, um að þessi merkisreitur í Mosfellsbæ fái að halda serstöðu sinni.
Enn og aftur - ég er ekki að ráðast á Karl Tómasson, hans hlutskipti er erfitt - það er ekkert grín að þurfa að moka flórinn eftir aðra. Ég er heldur ekki að ganga erinda Samfylkingarinnar eða Framsóknar og er ekki einu sinni viss um að sama staðan hefði ekki komið upp þó þessir flokkar hefðu verið í meirihluta. Mér finnst þó líklegra að Karl eða félagar hans í vinstri grænum gætu stöðvað þessar framkvæmdir í bili að minnsta kosti en að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geri það, eins og þeir hafa talað til þessa.
Árni Matthíasson , 20.2.2007 kl. 22:50
"Það er svo gráglettni örlaganna að Gildrumaðurinn Karl Tómasson sé einn helsti fjandi menningarlífsins í kvosinni, nú orðinn forseti bæjarstjórnar."
Kæri Árni.
Ég skal lesa það sem þú skrifaðir en passaðu þig á því að lesa það sjálfur og skilja það rétt, það er of seint að draga í land og þykjast hafa meint eitthvað annað en í orðunum liggur þegar það brennur á eigin skinni. Það að ég vitni ekki beint í þig í fyrri athugasemd breytir ekki innihaldi þess sem þú skrifaðir. Þú segir Karl vera, hvorki meira né minna, en fjanda, það vantar bara stórt F og þá mætti halda að þú álitir hann þann vonda sjálfan. Hvað vann hann sér til að þú talir svona um hann? Þetta eru ljót og mjög gróf orð sem þú viðhefur um þennan mann og eiga enganveginn heima í skrifum virts blaðamanns Morgunblaðsins til 20 ára. Eiga ekki heima í skrifum neins um neinn. Það er sama hve fallega þú talar um Karl í pistlinum og Gildruna í pistlinum þínum, það væri sama þó allur pistillinn fjallaði um hve frábærir þeir eru, þessi eina setning segir allt sem segja þarf um álit þitt á honum. Þú ert ekki að beina óskum þínum til Karls í þessum pistli, þú virðist nefna hann í byrjun og mæra aðeins til þess að níða hann svo í svaðið seinna. Í raun spyr ég mig um það afhverju þú ert yfirhöfuð að nefna hann á nafn, það er engin sýnileg ástæða, því ef þú værir að rekja tilefni þessara tónleika sem þú ert að fjalla um þá myndir þú nefna svo ótalmörg önnur nöfn.
Afhverju sagðir þú ekki frá því í pistlinum sjálfum að þú skildir hlutskipti hans eins og þú gerir svo skilmerkilega hér í svarinu þínu? Hentaði það ekki nógu vel í annars hlutdrægan pistil þinn um tónleikana? Þér ætti að vera fullkunnugt um að Gildran úr Mosfellsbæ sem og margar aðrar hljómsveitir á landinu bera fyrir þér mikla virðingu, en þarna gekkstu of langt.
Orð þín í garð Karls eru svo gróf að þú ættir að sýna sóma þinn í því að biðja hann opinberlega afsökunar.
Hjördís Kvaran Einarsdóttir
blog.central.is/kolan
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 23:46
Það er illt við að eiga þegar fólk vill misskilja og ekki veit ég hvers vegna þú skilur ekki samhengi þeirrar setningar sem þú vitnar í. Mér er líka algerlega fyrirmunað að þú skulir lesa það út úr henni að ég sé að líkja Karli Tómassyni við djöfulinn sjálfan - ef einhver ætti að biðjast afsökunar þá er það sá (sú) sem snýr svo gróflega út úr.
Árni Matthíasson , 21.2.2007 kl. 00:43
Kæri Árni
Ég get ekki hjálpað þér með það, þó þú skiljir ekki sjálfur innihaldið í skrifum þínum. Hitt er annað að ég sagði aldrei að þú hefðir líkt Karli við djöfulinn sjálfan, ég skrifaði: það vantar bara stórt F og þá mætti halda að þú álitir hann þann vonda sjálfan. Í stuttu máli sagt var ég að undirstrika hve fáránlega gróf orð þín í garð Karls eru, þannig að ef einhver mistúlkar eitthvað þá ert það þú. Það sem þú sagðir um Karl verður aðeins skilið á einn veg, sama hversu mikið þú reynir að breiða yfir það eða blása á það. Þannig er það bara.
Góðar stundir,
Hjördís
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 01:08
Kæri Árni Matthíasson,
Mér þykir verr og miður að sjá skrifað svona um Karl Tómasson. Við svona skrif er ekki annað hægt að segja að þú sem einn virtasti penni tónlistarlífsins á landinu, sért búinn að klára blek þitt. Karl Tómasson býr þarna í Kvosinni og hefur staðið fyrir fjölmörgum menningarviðburðum þar. Maðurinn er sennilega einn þeirra fáu sem lagt hafa metnað sinn í að gera Kvosina lifandi. Hann setti t.d. á laggirnar skemmtistaðinn Álafoss Föt Bezt, það húsnæði er í dag notað undir starfsemi Ásgarðs. Það að nýta svo þær manneskjur sem þar vinna málefninu til framdráttar er ekki rétt siðferðisleg hugsun. Gráglettni örlaganna er mun frekar að þú gerir greinilega upp á milli manna og þá jafnvel tónlistar þeirra líka. Ég mun sennilega ekki taka mikið mark á þínum störfum í framtíðinni. Þú ert einfaldlega að hengja bakara fyrir smið. Þó gæti verið að í múgæsingi hafir þú misst þetta út úr þér. Það er mun skemmtilegri útskýring á málflutningi þínum og hægt að fela sig á bak við hið margbreytilega eðli mannsins. Ein besta aðferð við að lagfæra svona hluti er að biðjast Karl Tómasson afsökunar á orðum þínum og þá gæti komið aftur blek í pennann. Það eru þó ekki allir sem ráða við að takast á við svo stóra hluti í lífinu.
Þetta tengibrautarmál er löngu hætt að snúast um Kvosina og allt notað til þess að blása þetta mál upp. Persónulegar árásir frekar en málefnaleg rökhugsun eru ekki til neins. Ég er alveg viss um það að þessi "geðveikisframkvæmd" komi til með styrkja þann frábæra stað sem Kvosin er.
Hjartað verður ávallt til staðar í bænum.
Með kveðju, Ágúst Bernhardsson Linn tónlistarmaður og starfsmaður á sambýli í Mosfellsbæ.
Ágúst Bernhardsson Linn (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 01:31
Ágætu bloggarar. Mig langar eindregið að hvetja ykkur til að halda ykkur við málefnalega umræðu. Mér finnst ekki skrýtið að Kalli valdi Árna vonbrigðum. Þið verðið að gera ykkur grein fyrir vægi atkvæðis hans í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Þetta mál snýst ekki um persónur heldur siðfræði. Þá siðfræði að sitja í valdastóli á réttum forsendum.
Tölur um íbúafjölda í Helgafellslandi eru eitthvað á reiki og ekki nema von að fólk ruglist á ÍBÚAfjölda og ÍBÚÐAfjölda. Í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992-2012 segir á bls. 11 að áætlaður þéttleiki byggðar í Helgafellslandi sé10 íbúðir á hektara, þ.e. 200 íbúðir (miðað við 20 ha byggingarland sem gert var ráð fyrir).
Þegar safngatan um Álafosskvos var sett á aðalskipulag 1983 var íbúafjöldi áætlaður 200 manns. Í dag er gert ráð fyrir um 1200 ÍBÚÐA byggð á þessu svæði sem þýðir að gera má ráð fyrir um 4000 ÍBÚA byggð í Helgafellslandi. Það er 20 faldur fjöldi þeirra íbúa sem áætlaður varí upphafi 1983 og rúmlega helmingur allra íbúa í Mosfellsbæ í dag.
Ég bendi á að Helgafellslandi er skipt niður í 4 deiliskipulög og er búið að breyta skipulagstillögum nokkrum sinnum. Síðast þegar fréttist var gert ráð fyrir tæplega 1200 ÍBÚÐUM á öllu svæðinu.
Við hjá Varmársamtökunum furðum okkur á því að svo viðamikið mannvirki og Helgafellsbraut og framkvæmdir sem af henni leiða sé ekki sett í mat á umhverfisáhrifum. VG í Mosfellsbæ hafa fengið ótal tækifæri til að stuðla að því að áhrifin séu metin. Því hafa þeir hins vegar síendurtekið hafnað í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Eins því að gerð sé fagleg úttekt á áhrifum tengibrautarinnar á atvinnustarfsemi í Kvosinni.- Vantrúuðum bendi ég á fundargerðir á mos.is. Það vekur óneitanlega furðu að fulltrúar VG skuli líka hunsa alvarlegar athugasemdir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis við deiliskipulagi Helgafellsbrautar.
Deiliskipulagið var ekki samþykkt í bæjarstjórn fyrr en um miðjan desember sl. Þá voru 7 mánuðir liðnir frá síðustu sveitarstjórnarkosninum. Á svörum félaga í VG við gagnrýni VS og fleiri aðila mætti ráða að þeir telji sig þess megnuga að meta áhrif þessara framkvæmda á umhverfi og mannlíf í Mosfellsbæ upp á eigin einsdæmi.
Félagar í Varmársamtökunum halda því hins vegar fram að til þess að meta afleiðingar framkvæmdanna þurfi að leita eftir áliti til þess bærra sérfræðinga og þar við situr.
Þeir sem lesa vilja umsagnir UST og HK geta leitað eftir þeim hjá: varmarsamtokin@gmail.com.
Eins eftir áðurnefndum fundargerðum bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 01:55
Sæl Sigrún
Hvað mig varðar hafa umræðurnar hér verið málefnalegar. Þær hafa eingöngu snúist um eitt af minni hálfu og það er það orðalag sem Árni notar um Karl í pistli sínum. Annað ekki. Það getur meira en vel verið að Karl hafi valdið Árna vonbrigðum en það var ekki það orðalag sem Árni notaði um hann í pistlli sínum. Það hefði verið virðingarvert orðalag. Tölulegar staðreyndir um tengibrautina koma þessum skrifum mínum ekki við, tengibrautin sem slík kemur því ekki við. Það sem ég hef gagnrýnt eru þær miskunnarlausu persónulegu árásir sem Karl hefur orðið fyrir undanfarna daga, ekki bara hér á þessari síðu heldur á endalaust mörgum öðrum og í öðrum fjölmiðlum. Þú skalt því ekkert segja mér neitt um hvar málefnaleg umræða byrjar eða endar. Það er rétt hjá þér að þetta mál snýst ekki um persónur, það er gott ef fólk er farið að gera sér grein fyrir því. Ég geri mér líka grein fyrir þeirri oddstöðu sem VG er í í bæjarstjórn en á móti vil ég benda á að Karl lýsti sig vanhæfan til að taka á þessu máli og sinnti því því ekki. En honum er samt gert að bera hitann og þungann af þessari ákvörðun, ekki aðeins pólitíska, heldur fyrst og fremst persónulega. Það er það sem ég er ósátt við!!!
Á meðan að hluti umræðunnar er á því plani að fólk líður fyrir persónulegar árásir ekki bara á sig sjálft heldur og fjölskyldu sína þá get ég ekki samþykkt að umræðan sé málefnaleg. Því get ég ekki tekið undir málstað ykkar, hvorki Varmársamtakanna né Árna, hversu gott sem málefnið kann annars að vera.
Hvernig er það annars Sigrún? Ert þú ekki flokksbundin í Samfylkingunni og situr í stjórn hennar hérna uppfrá? Telur þú, pólitísk, flokksbundin manneskjan, að þú sért álitin vera hlutlaus í þessu máli? Það held ég ekki. Fyrir mér eru Varmársamtökin ekkert annað en pólitískt samkurl fýlupokaflokkanna í bænum, Samfylkingarinnar og Framsóknar, skreytt með smá dash af Vinstri grænum flóttamönnum sem fóru í fýlu þegar núverandi stjórn var mynduð.
Miðað við framgöngu þína í þessu máli þá grunar mig að þess sé stutt að bíða að þú farir af einhverri alvöru í pólítík. Hvort sem svo verður eða ekki þá skulum við vona að þú eigir aldrei eftir að lenda í þeirri pólitísku stöðu að þurfa að taka efriðar ákvarðanir.
Hjördís Kvaran Einarsdóttir
blog.central.is/kolan
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 03:20
Ágæta Hjördís.
"Þú skalt því ekkert segja mér neitt um hvar málefnaleg umræða byrjar eða endar." - Þessi yfirlýsing setur þessar athugasemdir frá þér í ankannanlegt samhengi, en skýra líklega hvers vegna þú mótmælir "persónulegum árásum" með, einmitt, persónulegum árásum.
Samkvæmt þér lýsa skrif mín "þröngsýni og grunnhyggni", gagnrýni á Karl, sem er oddviti Vinstri grænna og því sannarlega í forsvari fyrir þann flokk og að auki forseti bæjarstjórnar og því sannarlega í forsvari fyrir bæjarstjórn, er "hatursáróður" og "ómanneskjulegar" og "miskunnarlausar persónulegar árásir". Að sama skapi segir þú málflutning Varmársamtakanna "hálfklikkaðan", ýjar að því að þar fari "snobbhyski" og ekkert annað en "pólitískt samkurl fýlupokaflokkanna í bænum".
Ég veit ekki með þig, en mér finnst þú komin ansi langt frá málefnalegri umræðu, en ég á vitanlega ekkert með að segja þér hvar málefnaleg umræða byrjar eða endar, eða hvað?
Ágæti Ágúst. Lestu athugasemdir mínar hér fyrir ofan við "málefnaleg" skrif Hjördísar þar sem fjalla frekar um þann ágæta mann Karl Tómasson.
Ég á vissulega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig aukin umferð í jaðri Álafosskvosarinnar, aukinn hávaði og aukin mengun komi til með að styrkja þann frábæra stað sem Kvosin er, en þú sérð kannski fyrir þér öðruvísi kvos en ég.
Árni Matthíasson , 21.2.2007 kl. 08:25
Ágæti Árni
Hef ég ráðist að þér persónulega og kallað þig ljótum nöfnum? Er það ómálefnaleg umræða að vilja mótmæla því að laggst sé á svo lágt plan að upphaflega umræðu- og
baráttuefnið er að hverfa og gleymast í persónulegum árásum á einn mann? Það held ég ekki. Ég hef ekki veist að þér eða öðrum hérna persónulega en rétt eins og þú segir
í öðru svari hér um sjálfan þig þá hef ég líka rétt á að hafa mínar skoðanir um hlutina. Ég leitast þó við að halda því innan marka þess sem getur flokkast undir
velsæmi gagnvart einstökum mönnum. Það sem ég sagði um miskunnarlausar, persónulegar árásir og hatursáróður var ekki beint gegn þér persónulega og það veistu, ég var að lýsa yfir skoðun minni á því hvernig umræðan hefði þróast, ekki bara hér heldur um alla netheima og í öðrum fjölmiðkum. Mér ofbýður það sem fólk leyfir sér að segja um
Karl og fela sig svo á bak við maélfnalega umræðu.
Þröngsýni þín og grunnhyggni er aftur á móti eitthvað sem þú þarft að íhuga vandlega í framtíðinni í skrifum þínum, því þú varðst uppvís að því í þessum. Þetta eru
vinsamleg tilmæli og ábending og þessu fylgir ekki að ég ætli að fara að kalla þig fjanda eða eitthvað þvílíkt, í því liggur meginmunurinn á því sem ég hef sagt um þig
og þú sagðir um Karl. Það er orðalagið. Þér hefði brugðið núna ef ég hefði stokkið upp á nef mér og farið að kalla þig öllum illum nöfnum þó við séum ekki sátt
um þetta mál er það ekki? Orð mín um snobbhyskið skýra sig sjálf en þau eru tekin af annarri síðu en þinni, þ.e. minni (blog.central.is/kolan) þú gleymdir að taka það
fram. Þar er ég heldur ekki að veitast að neinum persónulega aðeins lýsa því sem mérfinnst um baráttu Varmársamtakanna, sem að mér finnst hálfklikkuð. Þannig
koma samtökin mér fyrir sjónir og það má spyrja sig hvernig þeim tókst það, þar sem ég er ekkert ósammála þeirra málflutningi í grundvallaratriðum. Fylgismenn þeirra
verða þó seint að fjöndum í mínum augum. Það er vegna þessa sem þú skalt ekki segja mér hvar málefnaleg umræða byrjar eða endar.
Hjördís Kvaran
Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 09:39
Sæl Hjördís.
Viltu ekki bara kíkja við hjá okkur í Varmársamtökunum og kynna þér okkar málstað í stað þess að dylgja um okkar heilindi á opinberum vettvangi. Við búum í lýðræðisríki þar sem öllum er frjálst að hafa sínar skoðanir. Ég er engin þar engin undantekning. En þú veist greinilega meira um mig en ég sjálf.
Það hefur augljóslega farið fram hjá þér að Varmársamtökin eru ekki bundin neinum einum stjórnmálaflokki. Félagar í samtökunum eru úr öllum flokkum m.a. Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Framsókn og Samfylkingin í Mosfellsbæ eiga að mínu mati heiður skilinn fyrir að vilja standa með okkur í því að varðveita náttúruperlur Mosfellsbæjar. Þeir sýna pólitíska ábyrgð sem ekki er hægt að segja um forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Hann hefur t.d. ekki persónulegra hagsmuna að gæta í Leirvogstungu en samt höfnuðu fulltrúar VG því að tengibraut við friðlýsta ósa Varmár í Leirvogi væri sett í mat á umhverfisáhrifum. Þeir höfnuðu því líka að endurskoða legu tengibrautarinnar og að gerð yrði úttekt á áhrifum tengibrautarinnar á atvinnustarfsemi í Kvosinni. Hvernig er hægt að samræma þetta stefnu flokksins?
Haft var eftir gömlum sýslumanni í Hafnarfirði sem var yfirlýstur Sjálfstæðimaður að hann myndi kjósa hund væri ekki annarra kosta völ á framboðslista flokksins.
Væri ekki ráð að við lærðum eitthvað af þessari annars ágætu skilgreiningu á íslenskri flokkshollnustu?
Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 11:59
Mér finnst það nú býsna ljótt að segja um einhvern að hann sé þröngsýnn og grunnhygginn. En þú veist greinileg best hvar málefnaleg umræða byrjar eða endar. Eða þannig.
Árni Matthíasson , 21.2.2007 kl. 12:02
Sæll Árni.
Nei þú segir ekki Árni. Kemur mér á óvart. Mér finnst líka býsna ljótt að kalla einhvern annan helsta fjanda menningarlífsins í kvosinni. Um það snýst mín gagnrýni og já, hún hefur verið málefnaleg af því að hún snýr eingöngu að því. Ég ætla að biðja þig hér með afsökunar á þessum orðum mínum þó ég biðjist ekki afsökunar á því sem ég hef annars sagt. Þetta geri ég vegna þessa að ég finn inn á að þér hefur sárnað og finnst ég hafa ráðist á þig persónulega. Nú skilurðu kannski aðeins betur um hvað ég var að tala.
Sæl Sigrún
Ég er ekki að dylgja um samtökin, ég byggi mitt mat á frammistöðu þeirra í fjölmiðlum og á heimasíðu þeirra. Ég hef aldrei sagt að hugsjónin sem býr að baki sé ekki góðra gjalda verð, það eins sem ég hef sagt er að þetta lyktar allt einhvern veginn af fýlupúkaflokkunum tveimur og flóttamönnunum úr VG. Þó þetta eigi að vera pólitískt hlutlaus samtök þá eru þau það sko svo sannarlega ekki þegar á hólminn er komið. Þetta eru einhver póltískustu samtök sem ég hef nokkru sinni vitað um. Svo einfalt er það.
Hjördís
Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 13:17
Hvort sem að menn eru með eða á móti lagningu þessa vegar þá er ekki rétta baráttuleiðin að vera með persónulegar ávirðingar gagnvart fólki. Slíkt hafa þó hvorki þú né hin svokölluð Varmársamtök og velunnarar þeirra samtaka tekist að forðast. Að taka Karl Tómasson út úr sem einhvern ábyrgðaraðila fyrir þessari framkvæmd ber vott um fáfræði á málefninu. Karl hefur verið hér við völd í nokkra mánuði og á nú að bera ábyrð á lagningu vegar sem var ákveðin fyrir um tuttugu árum. Hvað ætli margir flokkar hafi verið hér við völd á því tímabili sem hefðu ef vilji hefði verið fyrir hendi getað tekið í taumana ef þeim þótti það þurfa?
Hvar voru Framókn og Samfylking þá?
Örn Franzson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 00:34
Heyr, heyr!
Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.