Líf á öðrum plánetum

Halldór Laxness 1937
Rithöfundurinn Alan Bennett segir frá því í ritgerðasafninu The Uncommon Reader að konunglegur bókavörður Elísabetar Bretadrottningar hafi haldið að henni skáldsögum eftir Jane Austen en drottning hafi ekki kunnað að meta þær, því hún var svo hátt yfir alla landa sína hafin að hún skildi ekki yfirstéttartogstreituna sem knýr framvindu bóka Austen að miklu leyti. Hann lýsir því svo að úr sessi drottningar hafi persónurnar verið svo fjarlægar að þær voru sem maurar og frásögnin því fræðileg en ekki skemmtun.

Þessi saga er ekki rifjuð upp til að gera lítið úr Bretadrottningu, staða hennar er ekki hennar sök nema að litlu leyti. Það er ekki heldur ástæða til að gera lítið úr menntamönnum sem skilja ekki alþýðufólk, háskólafróðu fólki sem skilur ekki hvað almenningur er að hugsa, að hverju hann leitar og hvers hann krefst. Þrátt fyrir það skilningsleysi hafa mennta- og listamenn aftur á móti iðulega leitast við að ná til almennings, en með misjöfnum árangri. Sjá til að mynda Halldór Laxness þar sem hann stendur með félögum sínum í Kommúnistaflokki Íslands á Akureyri sumarið 1937; þessi snyrtilegi fagurkeri, sem alltaf var bísperrtur og glæsilegur á top notch-skóm stendur eilítið hokinn í hnjám, með hendur í vösum í flaksandi gabardínfrakka – gerir í því að vera sem verkamannslegastur. Það er eins og hann sé að segja: Sjáið mig, verkamanninn!

Á þeim tíma, fjórða áratug síðustu aldar og fram eftir öldinni, voru kommúnistar að berjast fyrir alþýðuna, fyrir verkamennina, en deildu þó ekki kjörum með henni, komnir af alþýðufólki en komnir á annan stað, í annað umhverfi og oftar en ekki orðnir menningarlega sinnaðir heimsborgarar sem skildu ekki alþýðumenn og -konur og lífsbaráttu þeirra. Hugsjónir knúðu þessa menn áfram, en líf verkamannsins var þeim fjarlægt, líkara lífi á annarri plánetu en þeim veruleika sem blasti við þeim í Moskva og Kaupinhafn.

Hægimenn elska einstaklinginn en hata almúgann, en því er öfugt farið með vinstrimenn, eða það hefði maður haldið. Annað kom þó á daginn í kjölfar síðustu kosninga þar sem vinstriflokkar guldu afhroð. Vinstrisinnað mennta- og listafólk hefur nefnilega verið gjarnt á að formæla löndum sínum fyrir að kjósa ekki „flokka alþýðunnar“, segja þá hafa gullfiskaminni, þeir séu haldnir Stokkhólmsheilkenninu, vanþakklátir einfeldningar og auðveld bráð illa innrættum stjórnmálamönnum. Samt er það nú svo að þessir landar okkar eru ekkert öðruvísi og í engu ómerkari en sá fjórðungur þjóðarinnar sem kaus vinstriflokkana.

Í áðurnefndri frásögn Bennets kemur fram að með tímanum hafi Bretadrottning lært að meta Jane Austen eftir því sem hún öðlaðist meiri skilning á bókmenntum og mannlegri náttúru. Vonandi öðlast beiskir íslenskir vinstrimenn meiri skilning á mannlegri náttúru og ná aftur sambandi við íslenska alþýðu.

Á myndinni er Halldór Laxness á Akureyri sumarið 1937. Með honum eru Einari Olgeirsson og Steingrímur Aðalsteinsson, sem buðu sig fram fyrir Kommúnistaflokk Íslands. Einari náði kjöri en Steingrímur ekki. Ingibjörg Einarsdóttir tók myndina.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 117486

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband