Miðvikudagur, 20. október 2010
Fiskað í gruggugu vatni
Óttinn nagar sálina er titill á kvikmynd eftir þýska kvikmyndasmiðinn Rainer Werner Fassbinder. Myndin segir frá Emmi, ekkju á miðjum aldri, sem kynnist Ali, marokkóskum farandverkamanni sem er tuttugu árum yngri. Þau fella hugi saman og giftast við litla hrifningu barna hennar og nágranna, en allt fer vel að lokum, eða lítur út fyrir það minnsta kosti í lok myndarinnar.
Heiti kvikmyndarinnar er eftir setningu sem Ali lætur falla þegar þau eru að glíma við fordóma fjölskyldu Emmi og nágranna (hann segir reyndar á sinni farandverkamannaþýsku Angst essen Seele auf sem þýðir orðréttótti éta sál upp) og orð að sönnu því óttinn nagar sál hans og Emmi. Hann nagar ekki síður sálir þeirra sem tortryggja þau og fyrirlíta fyrir aldursmuninn og eins fyrir þá ósvinnu að hvít kona sé að taka saman við ungan þeldökkan farandverkamann.
Þessi mynd Fassbinders var frumsýnd ytra fyrir hálfum fjórða áratug, þegar straumur innflytjenda barst til Þýskalands frá Tyrklandi og Norður-Afríku, og hér á landi ekki löngu síðar á kvikmynda- eða listahátíð. Hún varð mér mjög minnisstæð og er enn enn mér varð einmitt hugað til hennar þegar ég las ummæli Angelu Merkel Þýskalandskanslara um að fjölmenningarsamfélagið hefði mistekist algjörlega, eins og hún orðaði það.
Merkel er sjálfsagt ekki óttaslegin í alvöru en hún er að nýta ótta annarra sér til pólitísks framdráttar, gerir út á ótta, spilar á þjóðerniskennd kjósenda, ýtir undir hatur til að næla sér í atkvæði. Það hafa stjórnmálamenn gert alla tíð um allan heim, enda auðveldara að sameina fólk um ótta en hugsjónir og auðveldara að viðhalda óttanum en hugsjónaeldi, því óttann má næra með lygi.
Það er vandlifað á þeim tímum þegar vanþekking er orðin að skoðun og fordómar að rökum, en það er einmitt það sem við búum við nú um stundir. Óttinn hefur tekið völdin í pólitískri umræðu í Evrópu, ótti við atvinnuleysi, ótti við gjaldþrot og ótti við útlendinginn, hinn ókunnuga, þann sem er öðruvísi.
Stjórnmálamanna er iðulega siður að skara eld að óttanum, ýta undir fordóma gegn litu fólki, gegn samkynhneigðum, gegn múslimum, gegn öllum þeim sem eru ekki eins og við og vilja kannski ekki verða eins og við. Vopn í þeirri baráttu er hálfsannleikur og ósannindi, della sem dreift er um netheima og kjötheima og menn éta upp hver eftir öðrum, hvort sem það eru atvinnulausir verkfræðingar, fyrrverandi sjómenn, alþingismenn, íslenskukennarar í útlöndum eða barnakennarar uppi á Íslandi. Saman við þessa göróttu blöndu hrærum við síðan vænum skammti af ótta við breytingar hví skyldum við breyta nokkru í þessum besta heimi allra heima? Af hverju getur ekki allt verið eins og það var?
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.