Fingrafimi og snerpa

Marc-André HamelinKanadíski píanóleikarinn Marc-André Hamelin, sem  lék á Listahátíð í hitteðfyrra, er með mögnuðustu hljóðfæraleikurum sem nú eru starfandi. Til sannindamerkis um það eru tónleikar hans í Háskólabíói og eins fjölmargir diskar sem hann hefur gefið út. Til að mynda diskur frá Hyperion þar sem hann leikur meðal annars sem etýður eftir Paganini í endurritun Franz Liszt, þar á meðal þriðju etýðuna, La Campanella, sem kallar á ótrúlega fingrafimi fiðluleikarans og ekki síður fimi og snerpu píanóleikarans í umrituninni.

Að vissu leyti má segja að Hamelin spili etýðuna of vel, hann spilar hana af svo mikilli íþrótt að manni finnst nánast eins og hann sé eiginlega ekki á reyna á sig, það vantar alla spennu í verkið. Á móti kemur að ljóðrænan í því kemst betur til skila, laglínur ná að anda um stund áður en þær hverfa í nótnaflóðið að nýju.

Gott vald á tækni gefur listamanninum líka svigrúm til að leyfa tilfinningunum í verkinu að njóta sín; ef tæknin er ekki til staða næst ekki samfella í túlkuninni. Gott dæmi um það er Grande sonate 'Les quatre ages' opus 33, eitt helsta verk Charles Valentins Alkans. Í því lýsir hann mannsævinni frá þrítugu til fimmtugs.

Verkið er fjörutíu mínútna sónata í þremur þáttum þar sem hver þáttur er hægari en sá á undan, aukinheldur sem tónmálið tekur breytingum eftir því sem á líður mannsævina, þróttmikil bjartsýni hins tvítuga blómstrar í líkamsstyrk hins þrítuga, snýst svo í raunsæi hins fertuga og síðan sættir sá fimmtugi sig við að hann mun ekki breyta heiminum úr þessu.

Breski píanóleikarinn Roland Smith var fyrstur til að flytja verkið opinberlega svo vitað sé, en hann flutti það á tónleikum vestan hafs 1973 og hljóðritaði síðar sama ár. Hann spilar verkið afskaplega vel, en heldur finnst mér hann hikandi í hröðum sprettum tvítugsaldursins og eins er ekki nógu mikill þungi hjá hinum þrítuga, hann á að vera í blóma lífsins en hljómar frekar eins og settlegur stofuherra með innfallið brjóst. Eftir því sem aldurinn færist yfir stendur Smith sig betur, en þó er hann full-daufur fyrir minn smekk, full dapur kominn á fimmtugsaldurinn, nánast samfelldur útfararmars. Gleymum því þó ekki að á dögum Alkans voru meðallífslíkur innan við fimmtíu ár í Frakklandi (43 ár 1850, en féll svo aftur vegna styrjalda undir lok aldarinnar).

Marc-André Hamelin spilar þessa miklu sónötu af slíkum þrótti að maður hrekkur við, tempóið hjá honum í fyrsta þætti er ótrúlega snarpt og tónmótun góð. Ungi maðurinn sprettur fram af leik hans, eilítið fljótfær og og galgopalegur. Hamelin er líka í essinu sínu á þrítugsaldrinum, fertugur er hann yfirvegaður og traustur og óneitanlega meiri reisn yfir "öldungnum" fimmtuga, þó ekkert sé dregið úr því að dauðinn sé á næsta leyti.

Charles-Valentin Morhange, sem tók sér síðar nafnið Alkan, var gyðingur, fæddur í París 1813 og lést þar í borg 1888. Hann var talinn með fremstu píanóleikurunum síns tíma og eins eitt merkasta tónskáld píanóbókmenntanna; Ferrucio Busoni taldi hann þannig með fimm fremstu tónskáldum píanósins eftir Beethoven, skipaði honum í flokk með Chopin, Schumann, Liszt og Brahms.

Alkan var sjúklega feiminn og átti mjög erfitt með að spila opinberlega. Það fór og svo að hann dró sig í hlé 1848 og heyrðist ekki frá honum í aldarfjórðung. Í einverunni samdi hann mikið af píanótónlist, þar á meðal mörg sín helstu verk eins og Douze Etudes dans les tons majeurs og Douze Etudes dans les tons mineurs, sem kunnugir telja með helstu píanóverkum sögunnar. Það er þó ekki fyrr en á síðustu áratugum sem verk hans hafa fengið almenna útbreiðslu.

Roland Smith, sem lést fyrir tveimur árum, er þó helst að þakka að Alkan er spilaður í dag, enda var hann óþreytandi við að kynna tónskáldið, lék verk Alkans á tónleikum árum saman, skrifaði ævisögu hans og stofnaði félag Alkan-vina. Sagan segir að hann hafi náð ástum konu sinnar með því að spila fyrir hana fimmtu dúr etýðuna, Allegro Barbaro.

Hamelin hefur líka verið duglegur við að draga fram í dagsljósið gleymda höfuðsnillinga píanósins og annar pínaóleikari og tónskáld sem hann hefur tekið upp talsvert af er Leopold Godowsky, sem frægastur er fyrir stúdíur sínar og umritanir á etýðum Chopins.

Það er líka gaman að bera sama hvernig Hamelin hefur þroskast sem tónlistarmaður. Gott dæmi til samanburðar er umritanir Godowskys á etýðum Chopins sem Hamelin tók upp fyrir Musica Viva 1987 (tónleikaupptaka) sem bera má saman við upptöku hans á öllum umritununum fyrir Hyperion tólf árum síðar. Honum hefur farið fram í tækni, en líka tónhugsun því lýríkin skilar sér mun betur og íþróttin hverfur í bakgrunninn, maður tekur ekki eins eftir því hve erfiðar sumar umritanirnar eru en því betur hve vel heppnaðar þær eru.

Annar píanóleikari sem tók minna þekkt verk upp á sína arma var Bretinn John Ogdon sem vakti mikla athygli fyrir flutning sinn á píanókonsertnum sem Alkan settu saman út þremur af moll etýðunum, nr. átta, níu og tíu. Sá konsert hafði áður verið tekin upp í styttri útgáfu af áðurnefndum Roland Smith, en hljóðritun Ogdons er frá 1969 og kom út 1973 með síkadelísku umslagi að því menn segja.

Ogdon var einkar þróttmikill píanóleikari og spilar verkið af miklum krafti, og miklum reyndar á köflum, átökin verða fullmikil fyrir minn smekk. Hamelin fer betur með í upptöku sem Music 6 Arts gaf út 1992, þó hann eigi enn nokuð í land með að ná þeim listaræna þroska sem við þekktum í dag og sumir kaflar séu spilaði af mikilli nákvæmni, en ekki nógu mikilli tilfinningu.  

Til gaman læt ég fylgja með YouTube vídeó með Hamelin, annars vegar að spila fimmtu dúr etýðuna eftr Alkan, Allegro Barbaro, og svo hins vegar Ungverska rapsódíu númer tvö eftir Liszt sem er einkar skemmtilega spiluð. Hamelin semur sjálfur kadensuna undir lokin og það enga smá kadensu, rúmar þrjár mínútur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá bravó, bravó...

Þetta er all svakalegt, sammála því að hann lætur þetta virðast vera jafn auðvelt og drekka vatn.

Helgi Bárðarson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 117724

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband