Leyndarmálið mikla

The SecretSvonefndar sjálfshjálparbækur byggjast að því mér hefur sýnst á því sem kalla má almælt sannindi eða almenna vitneskju. Til að mynda deila menn varla um það að þeim vegnar yfirleitt vel í lífinu sem skipuleggja tíma sinn vel, bægja frá sér þráhyggju og slæmum hugsunum og eru fullir sjálfstrausts. Frá því sjónarhorni eru bækur þessarar gerðar þarfaþing þeim sem á þurfa á sjálfstyrkingu að halda og reyndar má færa fyrir því rök að flestir hafi gott af að tileinka sér margt það sem kennt er í slíkum ritum þó leiðir að því marki sé alla jafna betra að finna með almennri skynsemi en með því að lesa bækur sem pakka sannindum inn í gervivísindi eða trúarstagl.

Sjálfshjálparfræðin eru arðbær í meira lagi og bækur þeirrar gerðar eru gjarnan metsölubækur víða um heim, því við viljum öll verða betri, eða flest í það minnsta. Reglulega rísa líka bylgjur sjálfshjálparfræða, allir verða að kynna sér þennan eða hinn fræðinginn, lesa allt sem hægt er um þessa eða hina aðferðina. Algengt er að þessi fræði berist hingað frá Bandaríkjunum, enda eru trúarbrögð þar markaðsvædd, sjálfshjálpartrú líka, og það sem best er gert, hannað eða útfært góð útflutningsvara. Nú ber aftur á móti svo við að mest selda sjálfshjálparbók vestan hafs er ættuð frá Ástralíu. The Secret heitir hún. 

The Secret hefur ekki enn borist hingað til lands, en á eflaust eftir að gera það, kemur örugglega út á íslensku fljótlega, kannski í sumar eða haust, enda er markaðssetning á bókinni snilldarlega útfærð; í senn höfðað til þeirra milljóna sem keyptu Da Vinci Lykilinn og þeirra sem keypt hafa bækur eftir Mitch Albom, Paulo Cohelo og Robin Sharma og ótal annarra sjálfshjálparfræðinga. leydarmálið er nefnilega sannkallað leyndarmál, eða var það í það minnsta þar til Rhonda Byrne kom upp um allt saman.

Eins og því er lýst á vefsetri útgáfunnar og ótal vefsetrum sem mæra bókina hefur leyndarmálið verið ljóst öllum helstu stórmennum sögunnar, Plato, Leonardo Da Vinci, Galileo, Napoleon, Victor Hugo, Ludwig van Beethoven, Jesú Kristur, Abraham Lincoln, Thomas A. Edison, Alfred Einstein og Dale Carnegie, svo dæmi séu tekin (ekki ætla ég að hætta mér út í deilur um það hvort Dale Carnegie eigi það skilið að vera nefndur í sömu setningu og Albert Einstein, Ludvig van Beethoven eða Abraham Lincoln). Allir þekktu þessir andans jöfrar leyndarmálið, eða réttara sagt Leyndarmálið, og nýttu það í vísindum sínum, listsköpun, heimspeki, stjórnmálastarfi, hernaðarbrölti eða gróðabralli.

Leyndarmálið mikla var aðeins varðveitt í munnlegri geymd í gegnum aldirnar og það var ekki fyrr en Rhonda Byrne, fráskilin miðalda móðir sem glímdi við þunglyndi rakst á bók frá 1910 sem hét því dægilega nafni Vísindin við að verða ríkur, The Science of Getting Rich. Í þeirri bók var því haldið fram að það eina sem þyrfti til að verða auðugur væri að hugsa sér það - ef maður hugsar nógu stíft um það sem manni langar í fær maður það. (Þetta er semsagt leyndarmálið, Leyndarmálið, sem þú, kæri lesandi, færð hér gratís.)

Gleymum því svo ekki að hvert selt eintak af Leyndarmálinu er sönnun þess að það sé sannleikur - aðstandendur útgáfunnar, sem hljóta að vera öðrum fremri í fræðunum, vaða í peningum geislandi af lífshamingju á öllum myndum. Þarf frekari vitnanna við?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hægt að horfa á myndina á slóðina www.thesecret.tv

Lúðvík Bjarnason (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 10:39

2 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Já athyglisverð grein hjá þér þarna.Gleymum ekki því að til að breyta heiminum þá verður maðurinn að byrja og hvar auðvitað í spegli sínum,þú hjálpar engum ef þú hefur ekki hreinsað eigin skít,því segi ég byrjum á að hreinsa okkur sjálf og þá munum við vera fær um að hjálpa öðrum,verum allsgáð og vakandi í anda gefðu og þér mun hlotnast,þú saurgast ekki afþví sem inn um munn þinn fer,heldur því sem út af honum gengur,takk samt fyrir góða grein og eigðu notalega helgi minn kær.

Virðingafyllst:Úlfar B Aspar.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 9.3.2007 kl. 10:46

3 Smámynd: Heiða

Takk Árni! Ég er að hugsa stíft um djúsí hamborgara núna, það hlýtur einhver að bjóða mér í mat í kvöld!!!

Heiða, 9.3.2007 kl. 15:57

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég á myndina og ljóstra því hér með upp.  Ágætis hugmyndafræði um jákvæða hugsun.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2007 kl. 16:22

5 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Þetta er s.s. ágætis "leyndarmál". Það er náttúrulega einfalt að þú áorkar engu nema þú hafir hugann við eitthvað markmið - setjir þér stefnu og sækir fram eftir henni. Þetta gæti flokkast undir "leyndarmál" vegna þess að þessi einfaldi sannleikur gleymist oft. Það er ágætt að minna á hann reglulega. Það er nefnilega þannig að margt af því sem við upplifum sem eitthvað óbreytanlegt er það alls ekki.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 9.3.2007 kl. 22:50

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hugsunin og fræðin eru í grunninn það sem öll trúarbrögð boða í einhverri mynd. Slakaðu á og treystu forsjóninni. Hættu að keppast eftir gæðunum og þar með glata þér í fortíð og framtíð. Hafðu vilja þinn og markmið ljós, lifðu í núinu, þar sem lífið á sér stað og lífið mun koma til þín..draumarnir rætast. Ergo: þÞú stjórnar ekki eigin lífi og þaðan af síður annarra.  Það sem skemmir fyrir þessari mynd er ofuráherslan á efnaleg gæði, en sennilega er sá framsetningarmáti einmitt það sem dregur dreymandi fólk að. Menn eins og Joe Vitale, eru ekki sannfærandi fulltrúar andlegra efna og sjálfsþóknun hans augljós í samhenginu. Það eru þó athyglisverðir punktar hvað varðar skammtafræði, lífeðlisfræði og viljastyrkinn. Ágætt er að taka út og skoða, marga þá sem vitni bera í myndinni. Sérlega Esther Hicks, Neale Donald Walch o.fl. 

Myndin er framleidd af sömu aðilum og gerðu "What the bleep do we know...?" en þar er mjög hrífandi viðleitni gerð til að útskýra galdur lífsins, sem hefur sópað að áhangendum.  'Arangurinn er þó undir ástundun kominn eins og í trúnni.  Það sem þú segir og það sem þú þykist vita skiptir akkúrat engu, heldur það sem þú gerir... 

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2007 kl. 01:04

7 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Ég fór í Rope Yoga nú fyrir jól, ágætis líkamsrækt að ýmsu leyti sýnist mér. Gallinn var bara sá að það var stöðugt verið að prédika yfir manni úr einhverjum svona fræðum. Fannst það óþolandi, var ekki að hlaupa úr vinnunni í hádeginu til þess að hlusta á einhverja vasafílósófíu þar sem talað er "Karlar eru frá Mars. Konur eru frá Venus" sem einhvern sannleik.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 12.3.2007 kl. 08:38

8 Smámynd: Baldvin Jónsson

Það er að sjálfsögðu þannig að það er ólíklegt héðan af að það komi fram mikið af nýjum sannindum um atferli mannsins, en markaðssetningin á þessari bók og mynd er gott dæmi um vel unnið verk.  Það eru engin ný sannindi sem koma þarna fram, en eins og vinur minn Jónas segir hér að ofan, að þá er þetta eitthvað sem er virkilega þarft að minna okkur á reglulega.

Er ekki bara jákvætt að minna sig á að hugsa jákvætt?  Að hugsa til þess sem við erum þakklát fyrir og til þess sem okkur dreymir um, frekar heldur en að eyða deginum (gryfja sem ég hef oft fallið í) í að hugsa bara um það sem er að og það sem mig kvíðir fyrir?

Baldvin Jónsson, 12.3.2007 kl. 09:40

9 identicon

Mér hefur til þessa fundist flestar þessar sjálfshjálparbækur eiga það sammerkt að vera gríðar vel markaðssettur common sense. En common sense er kannski einmitt oft á tíðum besta leiðin til að halda líkama og sál í sæmilega góðu lagi. Dæmi: Besta bókin sem ég hef lesið í þessum flokki bóka heitir The good food medicine bible. Hún kennir, eins og nafnið bendir til, hvernig hinar ýmsu fæðutegundir eru til þess fallnar að lækna okkur af hinum ýmsu kvillum eða koma í veg fyrir að þeir láti yfirhöfuð á sér kræla. Við þurfum jú öll að næra okkur, það myndi flokkast undir common sense, það myndi líka kallast common sense að álíta að hollur matur sé eftirsóknarverðari leið en fleiri tegundir af pillum á dag til að halda sér heilbrigðum. Ég þekki ekki þessa bók, Secret, sýnist hún frekar vera undantekning frá þessari common sense reglu, frekar svona Hókus Pókus bók sem líklega virkar ágætlega fyrir þá sem langar til að dreyma ekki bara á nóttunni heldur allan sólarhringinn. Svona ef ég ætla að halda mig við raunveruleikann er ég ekkert viss um að ég vilji endilega fá allt sem ég hugsa

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband