Elvis Aron og Jesse Garon

Scott WalkerSérkennilegasta platan í safni mínu er eflaust Tilt með bandaríska tónlistarmanninum Scott Walker sem kom út 1995. Scott Walker, sem hét eitt sinn Scott Engel, hefur búið í Englandi í áratugi eða allt frá því hann sló í gegn með söngflokknum Walker Brothers á sjöunda áratugnum. Walker bræður sungu létta popptónlist og urðu gríðarlega vinsælir, en Scott vildi feta aðra slóð eins og sjá mátti og heyra á sólóskífum hans eftir að Walker bræður lögðu upp laupana.

Fyrsta sólóplata Scott Walker kom út 1967 og síðan sendi hann frá sér plötur nokkuð reglulega allt til 1974 að hann hvarf eiginlega sjónum manna að mestu, hætti að sjást opinberlega og hætti að gefa út plötur. Áratug síðar kom út platan Climate of Hunter, 1984, en á henni er laglínan í aukahlutverki en þess meira lagt í stemmningu og áhrifshljóð.

Ellefu árum síðar kom svo út platan sem getið er í upphafi, Tilt, þar sem hann hefur lag laglínuna á hilluna fyrir fullt og fast  á Tilt er ekkert til að halda sér í, ekkert stef sem bindur lögin saman, engin eiginleg framvinda, upphaf eða endir. Textarnir eru einskonar klippimynd sem gefur í skyn en segir ekkert beint, það er helst að hinir sérkennilegu og sundurlausu textar mundi samhengið með honum sérkennilegu og sundurlausu hljómum sem lögin eru gerð úr, ef það er þá hægt að tala um lög í þessu samhengi.

Um daginn kom út enn ný plata með Scott Walker, The Drift, ellefu árum eftir að Tilt kom út. The Drift hefur víðast fengið fínar viðtökur eða þá verið jörðuð rækilega - það er nú svo að ýmist hrífast menn af því sem þeir eiga erfitt með að skilja eða þeir finna því allt til foráttu. The Drift er þó heldur aðgengilegri en Tilt, lögin að mestu tiltölulega mótuð og auðveldara að skilja textana. Hugsanlega er að þó fyrst og fremst vegna þess að maður lærði af að hlusta á Tilt.

Við fyrstu hlustun á The Drift vakti þriðja lagið einna mesta athygli, Jesse. Það hefst með lágstemmdum drungalegum rafgítar og draugalegri röddun Walkers þar sem hann hvíslar taktinn, "Pow, Pow" syngur/hvíslar hann eins og tvær flugvéar sem lenda á háhýsi . Í bakgrunninum birtist síðan útúrsnúningur á upphafsstefi Scotty Moore í Elvislaginu Jailhouse Rock, hægfara og drungalegt eins og það sé spilað neðansjávar.

Walker lét þau orð falla í viðtali fyrir skemmstu að lagið fjallaði um árásirnar á tvíturnana í New York 9. september fyrir fimm árum, enda er fyrsta textalínan svo: "Nose Holes Caked in Black Cocaine". Útúrsnúningurinn á Jailhouse Rock er viðeigandi því lagið er lagt í munn Elvis Presley þar sem hann situr á veröndinni heima í Memphis og talar við tvíbura sinn, Jesse Garon, sem var andvana fæddur og grafinn í skókassa. Elvis ræddi reyndar iðulega við Jesse Garon þegar mikið lá við en væntanlega var fátt um svör og hugsanlega hefur hann sagt í sífellu: "Jesse, Are You Listening?", eins og Walker syngur í sífellu, og jafnvel vælt undir lokin í angist: "Alive / I’m the only one / Left alive / I’m the only one / Left alive"

Hægt er að hlusta á Jesse og fleiri lög af plötunni á vefsetri hennar, the-drift.net.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband