Roger Waters í Egilshöll

Roger Waters í Egilshöll - Mynd ÞÖKTónleikar Rogers Waters í Egilshöll voru um margt magnaðir, í það minnsta það sem ég entist til að horfa á. Það var gaman að sjá hann á sviði og hafa þannig samanburð við þær tónleikaupptökur sem ég hef sé að Pink Floyd undir stjórn David Gilmours, því meir hlýju og einlægni stafaði af Waters en sjá má á tónleikaupptökum með Gilmour og félögum. Kannski ekki alveg að marka en merkilegt í ljósi þess að myndin sem gefin hefur verið af Waters er af sjálfumglöðum hrokagikk. Hann kom mér fyrir sjónir sem einlægur og blátt áfram í Egilshöll, maður sem er ekki alveg sáttur við stjörnuhlutverkið en lætur slag standa til að gefa áheyrendum sem mest. Geðflækjurnar eru svo annað mál því ef hann var ekki að syngja um mömmu sína þá var hann að syngja um pabba sinn. Nú eða þá Syd Barrett.

Pink Floyd kynntist ég þegar Steini bróðir spilaði fyrir mig eintak af Ummagumma 1970 eða þar um bil. Það þótti mér sérkennileg tónlist, en kunni vel að meta tónleikahlutann, sérstaklega Set the Controls for the Heart of the Sun og lögin sem Waters átti einn á skífunni, Grantchester Meadows og Several Species of Small Furry Animals Gathered Together in a Cave and Grooving With a Pict, hvorugt eiginlegt lag en það fyrra fannst mér býsna gott

Seinna kom svo Atom Heart Mother, sem ég var ekki svo hrifinn af, og Meddle sem ég féll algerlega fyrir, man enn hvað mér fannst magnað að heyra Echoes í fyrsta sinn - þvílík snilld! Obscured by Couds var líka í uppáhaldi um tíma, kannski aðallega fyrir það hvað hún var sjaldséð, enda ekki hlaupið að komst yfir plötur á þessum tíma, að ekki sé talað um ef þær höfðu ekki að geyma tónlist sem naut almennar hylli.

Svo kom Dark Side of the Moon. Sumir keyptu sér tvö eintök af þeirri plötu, eitt til að eiga og eitt til að hlusta. Dögum saman lágum við yfir þeirri plötu og lærðum hana utanað, gæti væntanlega enn spilað hana í huganum. Byrjun plötunnar, fyrsta rúma mínútan af Breathe, þótti mér mikið meistaraverk og ég man eftir einu sérstaklega súru kvöldi þar sem hlustað var aftur og aftur á upphaf plötunnar og spilað hátt með áherslu á bilið frá 1:12 til 1:13 - gott ef við vorum ekki búnir að finna það út félagarnir að í þeirri sekúndu eða þar um bil lægi allur leyndardómur plötunnar.

Aðrar plötur Pink Floyd voru ekki síður merkilegar hver á sinn hátt. Meira að segja fannst mér The Final Cut fín plata textalega þó músíkin væri ekki eins vel heppnuð og fyrri verk.

Síðan eru þó liðin mörg ár, smekkurinn breyttur, skoðanir á músík talsvert breyttar og lítil þolinmæði fyrir gömlu dóti almennt. Mér þótti þó gaman að sjá Waters spila í Egilshöll, gaman að upplifa sömu tilfinningar og bærðust með manni á sínu tíma, að finna sömu hughrifin og forðum, en svo fékk ég eiginlega nóg. Ekki af Waters þó, heldur nóg af sjálfum mér anno 1970-og-eitthvað. Fór snemma heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

15þúsund manns settu Grafarvoginn á hliðina til að komast á hr Waters, og þú fórst snemma heim? Ja, þú verður ekki sakaður um að dvelja við liðið, svo mikið er staðfest.

Jón Agnar Ólason, 14.6.2006 kl. 11:04

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

15þúsund manns settu Grafarvoginn á hliðina til að komast á hr Waters, og þú fórst snemma heim? Ja, þú verður ekki sakaður um að dvelja við liðið, svo mikið er staðfest.

Jón Agnar Ólason, 14.6.2006 kl. 11:04

3 Smámynd: Víðir Þór Magnússon

Er þetta hroki? þú lýsir hvernig þú hlustaðir á The Dark site of the Moon í denn í gegnum "ria síu" og gengur síðan út með músík nálina í æðinni...

Víðir Þór Magnússon, 14.6.2006 kl. 12:05

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Nú verður síðasti ræðumaður að fyrirgefa en ég skil ekki hvað hann er að fara. Hvað þýðir "ria síu"? Hvað er að ganga út með "músík nálina í æðinni"? Og að lokum: Í hverju felst hrokinn? Að hafa breyst?

Árni Matthíasson , 14.6.2006 kl. 21:07

5 identicon

Þetta er dáldið góð pæling sem þú minnist á. Sérstaklega þegar maður hefur í huga að allar plötur Pink Floyd post Waters eru ótrúlega mekanískar, beinlínis vondar, á meðan að sólóstöffið hans Waters er full...erm, þú veist.

Annars var ég voðalegur Floyd-haus sem táningur á síðustu öld. Mér þykir vænt um þessa tónlist en ég nenni ekki að hlusta á hana lengur, fyrir utan einstaka lag þegar Satúrnusaráhrifin er verulega sterk. Rétt eins og ég nenni ekki lengur að hlusta á Nick Cave nema þegar ég ef þörf til þess endurupplifa einhverja persónu sem ég einu sinni var en er ekki lengur.

Tónlist snýst um þetta; hún er sándtrakkið við lífið sem þú ert lifa. Og sándtrökk eru til einskis nýt nema til þess að rifja upp gamlar minningar.

Örn (IP-tala skráð) 14.6.2006 kl. 23:01

6 Smámynd: Heiða

Árni mér finnst þú frábær! Soldið klikk, en frábær. Snilldar niðurstaða sem þú kemst að í denn:

,,með áherslu á bilið frá 1:12 til 1:13 - gott ef við vorum ekki búnir að finna það út félagarnir að í þeirri sekúndu eða þar um bil lægi allur leyndardómur plötunnar." Ég grét af gleði og hrifningu á tónleikunum, því ég hef einmitt hlustað óteljandi oft á Dark Side of the moon, og fannst nánast óhugsandi að ég fengi einhverntíma að sjá hana flutta í heild. En svona er nú lífið skemmtilegt!

Heiða, 17.6.2006 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband