Föstudagur, 16. júní 2006
Höfundurinn verður sögupersóna
Það er ekki alltaf til góðs að vita eitthvað um uppáhaldshöfund og margir muna eflaust eftir því er þeir komust að því að skáldið sem þeir héldu mikið uppá, dáðust jafnvel að fyrir mannúð og djúpan skilning, var bölvaður hórkarl og fylliraftur. Ég man það enn, til að mynda, er ég áttaði mig á því að T.S. Eliot, sem ég las mér til óbóta um það leyti sem ég fór á sjóinn sem unglingur, var uppskrúfað snobbhænsn. (Hafði þó húmor fyrir sjálfum sér, sbr. "How unpleasant to meet Mr. Eliot! / With his features of clerical cut, / And his brow so grim / And his mouth so prim" o.s.frv., sem Eliot samdi til að votta Edward Lear virðingu. Hann var nefnilega ekki alvondur.)
Oft er það því vissulega kostur að vita ekkert um höfund bókar eða ljóðs og oftast allra best að vita ekkert um viðkomandi, þekkja ekki nafnið eða upprunann, að mæta textanum í tóminu .. og þó. Gefur það manni ekki meir og betri sýn á verk rithöfundar eins og Charles Dickens að vita hvurslags hamhleypa hann var til verka, maður sem lifði af svo miklum þrótti að maður verður eiginlega hálf dasaður að lesa um hann. Hjálpar það ekki manni að skilja Georges Perec, furðufuglinn þann, þegar maður veit af dálæti hans á Raymond Queneau og þekkir til starfs OuLiPo-hópsins? Vex ekki Danzig-þríleikurinn hans Grass (reyndar orðinn kvartett í dag) eftir því sem maður fær betri sýn í æsku hans og uppvaxtarár?
Það getur því verið gott og gagnlegt að fræðast um höfunda, sérstaklega ef maður kemst ekki á snoðir um of marga galla á þeim. Reyndar mega þeir vera gallaðir (og eru það allir, meira og minna), en þá helst á skemmtilegan og skrýtinn hátt. Frásagnir af slíkur eru vitanlega ekkert annað en slúður og í sjálfu sér ekkert betra að slúðra um rithöfunda, lífs og liðna, en það flóð sem er af slúðri um þotulið nútímans. Það getur þó verið skemmtilegt, en og til að mynda í bókinni Written Lives eftir spænska rithöfundinn Javier Marías, sem segir frá nokkrum rithöfundum sem Marías hefur dálæti á. Í inngangi að bókinni, sem Canongate gaf út á ensku um miðjan febrúar sl., lýsir Marías tilurð bókarinnar og nefnir meðal annars að hann hafi einsett sér að skrifa stutta frásögn af ævi nokkurra höfunda sem hann valdi af handahófi með það eitt að skilyrði að þeir væru látnir.
Marías hefur þó greinilega lagt einhverjar aðrar mælistikur á þá höfunda sem hann valdi, því velflestir hafa þeir átt frekar óskemmtilega eða ömurlega ævi og einnig hefur Marías verið ótrúlega naskur á að finna höfunda sem létu ekki nægja að vera furðufuglar á meðan þeir lifðu heldur létust þeir öðruvísi en annað fólk. Hugsanleg skýring á því er þó að hann hafi einfaldlega fært frásagnir af höfundunum í stílinn, enda segir hann frá því í innganginum að hann hafi farið með efniviðinn eins og hann væri að segja frá skáldsagnapersónum sem er óneitanlega skemmtilega til fundið - höfundurinn verður sögupersóna.
Í bókinni segir hann til að mynda frá Rimbaud, Turgenev, Rilke, di Lampedusa, Robert Louis Stevenson, Isak Dinesen, Arthur Conan Doyle, Rudyard Kipling, Joseph Conrad, James Joyce, Thomas Mann, Yukio Mishima, Malcolm Lowry og Laurence Sterne, svo dæmi séu tekin, en alls rekur hann stuttlega æviatriði tuttugu sex rithöfunda, tuttugu karla og sex kvenna. Í lokahluta bókarinnar sýnir Marías svo dæmi úr póstkortasafni sínu, en hann safnar, að því er virðist, póstkortum með myndum af rithöfundum.
Marías fer fimlega með, skreytir og ýkir og býr jafnvel til aukapersónur og uppákomur. Í bókinni segir hann frá því að Henry James var í nöp við Flaubert vegna þess að hann tók á móti honum í slopp er James heimsótti hann eitt sinn og eins hataði hann Oscar Wilde eftir að Wilde gerði lítið úr honum fyrir að sakna Lundúna. Hann hélt aftur á móti mikið upp á Maupassant, enda tók sá síðarnefndi eitt sinn á móti James í hádegismat með nakta grímuklædda konu sem sessunaut.
Annar höfundur sem Marías segir skemmtilega frá er William Faulkner, en Faulkner hafði þvílíka óbeit á pósti að hann opnaði ekki bréf eða pakka nema að væri frá útgefenda hans og þá kíkti hann aðeins í það til að kanna hvort í bréfinu leyndist ávísun.
Við lestur bókarinnar rifjuðust upp fyrir mér nokkrar álíka bækur, til að mynda Portraits in Miniature eftir Lytton Strachey, en helst þó hið mikla mannlýsingasafn Johns Aubreys, en Aubrey var uppi 1626-1697. Úrval úr mannlýsingum hans kom út á vegum Penguin 1962 og endurprentað oft síðan. Í þeirri bók, sem kallast Aubrey's Brief Lives, er að finna um þriðjung af mannlýsingum Aubreys, gott æviágrip og fínar skýringar.
Mannlýsingar Aubreys eru óborganlegar og margar mjög opinskáar, enda fæstar ætlaðar til birtingar. Víst eru frásagnir hans hreint slúður, oft upplýsingar frá þriðju eða fjórðu hendi, en hann var skemmtilegur stílisti og laus við alla tilgerð eða tepruskap. Af skemmtilegum lýsingum má nefna það er hann segir frá Will Shakespeare, sem faðir hans var slátrari: "Nágranna hans segja að sem ungur maður hafi hann unnið við fag föður síns, en þegar hann slátraði kálfi gerði hann það með tilþrifum og ræðuhöldum."
Eins er skemmtilegt það sem Aubrey segir frá Thomas Hobbes: "Hann varð mjög sköllóttur sem gamall maður (sem veitti honum virðuleikablæ), en innan dyra sat hann jafnan berhöfðaður við fræðastörf og sagðist aldrei verða kalt á höfðinu, en mikill vandi væri þó að koma í veg fyrir að flugur settust á skallann."
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 117724
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.