Hver er bestur?

Fyrir mánuði birtist í New York Times listi yfir bestu skáldsögu bandarísks höfundar síðasta aldarfjórðunginn. Fjallað var um listann í Lesbók Morgunblaðsins, og því ekki ástæða til að tíunda hann hér, menn geta flett honum upp. Sitthvað þótti mér þó merkilegt við listann þann, meðal annars það hvað höfundahópurinn var einsleitur, valið fyrirsjáanlegt og niðurstaðan óspennandi (nema kannski fyrsta sætið). Einnig hvað fáar konur eru á honum og hvað hver bók fékk fá atkvæði, en á annað hundrað manns tók þátt í valinu. Það er svo aftur umhugsunarefni út af fyrir sig hvort yfirleitt sé hægt að flokka bækur eftir "gæðum" á þennan hátt, enda byggist allt mat á tilfinningum þegar grannt er skoðað og á bak við hvert atkvæði ýmsar flækjur sem okkur er ókunnugt um.

Að því sögðu er ekki ástæða til að amast við slíku vali, það ýtir undir umræðu um bókmenntir, vekur oft athygli á bókum sem farið hafa framhjá mönnun og þegar vel tekst til getur slík atkvæðagreiðsla gefið yfirlit yfir menningarsögu og jafnvel leitt í ljós strauma sem menn ekki áttuðu sig á - strauma í menningarumfjöllun, ef ekki annað.

Á netinu hafa ýmsir fjallað um þennan lista New York Times og sýnist sitt hverjum þó ekki sé hægt að segja að hann hafi beinlínis valdið deilum. Þetta uppátæki hefur líka orðið ýmsum tilefni til að gera eins, þ.e. að gera álíka könnun á viðhorfi lesenda sinna. Bloggarinn mapletree7 (mapletree7.blogspot.com) hrinti til að mynda af stað eigin atkvæðagreiðslu um bestu bandarísku bók síðustu 25 ára og fékk út nokkuð aðra niðurstöðu: Besta verkið töldu menn vera New York þríleik Pauls Austers. Þar næst komu Peace Like a River eftir Lief Enger, A Prayer for Owen Meany eftir John Irving, Empire Falls eftir Richard Russo, The Amazing Adventures of Kavalier and Klay eftir Michael Chabon og Gilead eftir Marilynne Robinson.

Þeir sem þátt tóku í vali á New York Times listanum voru upp til hópa menningarvitar, en á mapletree7 voru það almennir vefnotendur, að því er við best vitum, sem skýrir niðurstöðuna að einhverju leyti. Valið á mapletree7.blogspot.com fellur mér reyndar meira að skapi en á New York Times - mér finnst til að mynda Paul Auster vel að heiðrinum kominn, þó hann sé höfundur sem er betri á meðan maður er að lesa hann en þegar maður er búinn með bókina. Empire Falls eftir Russo og The Amazing Adventures of Kavalier and Klay eftir Chabon er líka báðar skemmtilegar, sérstaklega sú síðarnefnda, og átt vel heima á listanum þykir mér. Ekki finnst mér þó John Irving skemmtilegur höfundur.

Ýmsir vefir halda líka úti árlegum bókmenntaverðlaunum, fá lesendur sína til að velja þær bækur frá liðnu ári sem þeir hafa mest dálæti á. Þannig fékk BookBrowse.com lesendur sína til að taka þátt í vali á bókum ársins 2006, en í valinu komu til greina þær bækur sem mælt var með á BookBrowse-vefnum á árinu. Svosem ágæt leið til að þrengja valið, enda erfitt við að eiga að velja bestu bók þegar gefnir eru út ríflega 100.000 titlar á ári vestan hafs.

Slík verðlaun gefa einna besta mynd af því hvað fólk sé að lesa (en val eins og New York Times stóð fyrir skilar yfirliti yfir það sem fólki finnst það ætti að vera að lesa) og kemur kannski ekki á óvart að ofarlega á blaði er oft sitthvað sem menn telja yfirleitt ekki til fagurbókmennta. Bók ársins var til að mynda glæpasagan The Closers eftir Michael Connelly, reyndar eitt af hans bestu verkum. Vinsælasta frumraunin var valin The Penderwicks eftir Jeanne Birdsall og bók Joan Didion The Year of Magical Thinking fék einnig verðlaun. Um 1.000 áskrifendur að BookBrowse tóku þátt í kosningunni og greiddu atkvæði eftir gæðaskala (frábær, mjög góð, í meðallagi o.s.frv.).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 117724

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband