Þriðjudagur, 4. júlí 2006
Natchez brennur
Hinn 23. apríl 1940 var haldin skemmtun í Natchez, smábæ í Mississippi, um 200 kílómetra norðvestur af New Orleans. Skemmtunin var í gamalli bárujárnsskemmu og neglt fyrir gluggana til að koma í veg fyrir að menn svindluðu sér inn. Skemman var um 70 metrar að lengd og á henni einar dyr, fyrir endanum, og eina loftræsingin var vifta sem blés lofti í átt að þeim dyrum. Í nokkur ár hafði verið rekin í henni hrynklúbburinn, The Rhythm Club, vinsæll staður til að skvetta úr klaufunum, en hann var ætlaður svertingjum.
Skemmst er frá því að segja að það kviknaði í mosaskreytingu sem var um allan skálann að innan. Mosinn sem notaður var, spánarmosi, sem er reyndar ekki mosi, er mjög eldfimur og klúbburinn, sem var troðfullur af fólki, varð alelda á svipstundu. Erfitt var fyrir fólk að komast út vegna troðnings og æsings og ekki bætti úr skák að dyrnar einu opnuðust inn og fyrir vikið komust fáir út. Alls létust 212 í brunanum, 212 negrar, eins og tekið var fram í dagblaðinu Nashville Banner daginn eftir.
Hljómsveitin sem spilaði þetta kvöld hét Walter Barnes and his Royal Creolians Orchestra, en Barnes var vinsæll hljómsveitastjóri á sinni tíð og virtur. Sagan segir að Barnes hafi verið eini rólegi maðurinn í eldhafinu, hann hafi reynt að róa fólk niður, en allt kom fyrir ekki. Hljómsveitin hélt þó áfram að spila þótt hljómsveitarmenn væru banvænir - síðasta lagið sem spilað var hét Marie og það síðasta sem heyrðist frá hljómsveitinni var tær trompettónn um leið og þakið hrundi.
Þessi fallega saga og átakanlega er meðal annars rakin í bókinni Lost Delta Found sem Vanderbilt-háskóli gefur út, en í þeirri bók er safnað saman áður týndum rannsóknarskjölum þriggja litra fræðimanna. Fræðimennirnir héldu til Mississippi á vegum Fisk-háskóla, háskóla svartra, 1942 meðal annars til að leita laga sem samin hefðu verið um þennan hörmulega atburð, en þar sem stærstur hluti negra var ólæs og óskrifandi á þeim slóðum á þessum tíma var munnleg geymd mjög mikilvæg til að miðla fréttum, frásögnum og skoðunum manna á milli. Í kafla sem segir frá brunanum er meðal annars vitnað í einn þeirra sem komust úr eldinum við illan leik og hann lýsir þessu svo: "[Hljómsveitin kaus] ekki hlutverk hugleysingjans. Þeir voru eins og hugdjarfur skipstjóri og áhöfn hans sem fer í dauðann með skipi sínu."
Ég geri ráð fyrir að eins sé farið flestum þeim sem þetta lesa og mér - ósjálfrátt kemur upp í hugann hljómsveitin á ólánsfleyinu Titanic sem lék undir harmleiknum og fór síðan niður með skipinu vorið 1912. Sá harmleikur átti sér líka stað í apríl, ólánsdaginn 14. apríl sem blökkumenn nefndu svo því þann dag 1985 féll lausnarinn mikli Abraham Lincoln fyrir morðingjahendi. Lincoln var að vísu ekki lýstur látinn fyrr en morguninn fimmtánda apríl, en 14., föstudagurinn langi, var ólánsdagurinn. Uppáhaldssálmur Lincolns var "Nearer, My God, to Thee" eftir ensku skáldkonuna Sarah Flower Adams og var sunginn við útför hans. Eftir andlát og útför Lincolns varð sálmurinn gríðarlega vinsæll vestan hafs.
(Matthías Jochumsson heyrði sálminn sunginn í Chicago-för sinni 1893 og hreifst af, snaraði honum á íslensku sem "Hærra minn Guð til þín" og birti í tímaritinu Sameiningunni í Winnipeg sama ár.)
Á Titanic var átta manna hljómsveit undir stjórn Englendingsins Wallaces Hartleys. Skipið sigldi á ísjaka að kvöldi 14. apríl 1912 og hóf þegar að sökkva. Upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtánda apríl kom hljómsveitin sér fyrir í stássstofu fyrsta farrýmis og byrjaði að spila til að reyna að róa fólk. Síðar færði hljómsveitin sig framarlega á bátadekkið og spilaði á meðan skipið sökk. Ýmsar sögur hafa verið uppi um hvaða lag hljómsveitin lék er hún hvarf í djúpið en mestra vinsælda naut snemma sú að það hefði verið sálmurinn "Hærra minn Guð til þín".
Fræðimennirnir frá Fisk-háskóla héldu til Mississippi að leita að söngvum um brunann í Natchez og af slíkum söngvum er líka til nóg. Það var líka til gríðarmikið af söngvum um Titanic-slysið. Einn af þeim sem sömdu slíka söngva, slíka blúsa, var Blind Lemon Jefferson.
Framan af tónlistarferlinum framfleytti Blind Lemon Jefferson sér með því að syngja á götum úti, í samkvæmum og á skemmtunum blökkumanna, jafnan við annan mann. Einn af þeim sem spiluðu með honum á þeim tíma var Huddie William Ledbetter sem þekktur varð sem Lead Belly eða Leadbelly. Hann spilaði með Jefferson í Dallas og eitt laganna sem hann sagðist hafa lært af honum var "The Titanic", fyrsta lagið sem hann lærði að spila á tólfstrengja gítar.
Lead Belly tók The Titanic í tveimur útgáfum, en hann breytti textanum ef hann var að syngja fyrir hvíta. Texti annarrar útgáfunnar hefst svo:
"It was midnight on the sea,
Band playin' "Nearer My Got to Thee".
Cryin' "Fare thee, Titanic, fare the well"."
Það var hluti af þjóðtrú bandarískra negra að hnefaleikakappinn Jack Johnson hefði verið meðal þeirra sem ætluðu að fara með Titanic frá Liverpool til New York en honum hefði verið neitað um pláss á fyrsta farrými þar sem hann var svartur. Leadbelly segir frá þessu í útgáfunni sem hvítir fengu helst ekki að heyra:
"Jack Johnson wanted to ge on boa'd;
Captain Smith hollered, "I ain' haulin' no coal."
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well"."
Fyrir vikið, sagði sagan, fórst enginn svartur maður með Titanic og þegar Johnson heyrði um skipsskaðann dansaði hann og söng:
"Black man oughta shout for joy.
Never lost a girl or either a boy.
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well."
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Andskot var þetta skemmtileg færsla. Takk fyrir!
Villi Asgeirsson, 4.7.2006 kl. 13:25
Takk kærlega fyrir þennan fróðleik.
Örvar (IP-tala skráð) 5.7.2006 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.