Elvis Eþíópíu

Eitt af því skemmtilegasta við þá ágætu mynd Broken Flowers var tónlistin, óhemju fjölbreytt og skemmtileg blanda af tónlist úr ólíkum áttum. Innan um klassíkina, þungarokkið og poppið var sérkennileg blanda af djass, fönki og afrískum takti sem setti sterkan svip á myndina, undirleikur leitarinnar að tilgangi sem myndin snerist um. Blandan sú var með tónlist eftir eþíópískan tónlistarmann,  Mulatu Astatke, sem var meðal frumherja í eþíópískum djass.

Eþíópískur djass varð til á næturklúbbum Addis Ababa á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þar sem menn bræddu saman bandaríska soul-tónlist, fönk og djass og þjóðlega eþíópíska tónlits. Þannig má heyra í músíkinni djassspuna, súran fönkgítar, fjölsnærðan afrískan takt og sjóðandi hammond. Mikið af tónlistinn er sungið, megnið jafnvel, og söngvararnir alla jafna framúrskarandi, enginn þó betri en Mahmoud Ahmed, sem er sennilega þekktasti tónlistarmaður Eþíópíu hér á Vesturlöndum og einn fremsti söngvari Afríku. Hann væri eflaust enn þekktari ef heimaland hans hefði ekki verið undir marxískri harðstjórn á níunda áratugnum og ill- eða ómögulegt að fá leyfi til að fara úr landi.

Mahmoud Ahmed er fæddur í Addis Ababa 1941, af Gouragué kyni, en sá þjóðflokkur býr í suðvesturhluta landsins.  Hann fékk snemma áhuga á tónlist en lítil tækifæri til að rækta þann áhuga. Hann aflaði sér aukatekna sem skóburstari og hafði það sem aðalstarf eftir að hann flosnaði upp úr skóla og fékk svo vinnu á Arizona næturklúbbnum í Addis Ababa 1962, fyrst sem sendisveinn og síðan í eldhúsinu.

Klúbbar eins og Arizona, sem voru eiginlega ólöglegir, urðu athvarf tónlistarmanna úr her- og lögreglulúðrasveitum og á Arizona var húshljómsveitin skipuð tónlistarmönnum úr lúðrasveit lífvarða keisarans. Söngvari með þeirri sveit var Tlahoun Gèssèssè, sem þá var mesta söngstjarna Eþíópíu, og hinn ungi Ahmed komst þannig í tæri við suma fremstu listamenn Eþíópíu á þeim tíma. Hann lærði prógrammið utanað og þegar Gèssèssè forfallaðist eitt sinn bað Ahed um að fá að taka lagið með sveitinni. Það gekk svo vel að áður en varði var hann kominn með fasta vinnu sem söngvari í lúðrasveit lífarðarins og söng með þeirri sveit í ellefu ár.

Haile Selassie hafði verið við völd áratugum saman, krýndur konungur 1928 og keisari 1930. Hann hafði beitt sér fyrir ýmsum umbótum sem voru ýmist of róttækar fyrir íhaldsöfl með orþódoxkirkjuna í broddi fylkingar, eða ekki nógu róttækar að mati menntamanna. Tilraun til stjórnarbyltingar var gerð 1960 að undirlagi manna í lífvarðasveit keisarans sem nutu stuðning róttækra menntamanna. Keisarinn brást við með ýmsum tilraunum til umbóta.

Ein greina menningar sem naut takmarkaðs frelsis var tónlistarútgáfu því frá 1948 hafði rikisstofnunin Agher Feqer Mahber, föðurlandsástarsambandið, haft einkarétt til að gefa út plötur og fyrir vikið voru allar plötur sem komu út með þjóðlegri tónlist nema þegar hylla þurfti keisarann.

Fyrstur til að rjúfa einkaréttinn var armenskur kaupmaður sem flutti til landsins segulbandstæki og byrjaði að taka upp helstu hljómsveitir og gefa út kassettur. Sporgöngumaður hans var ungur áhugamaður um tónlist, Amha Eshete, sem ákvað að stofna útgáfufyrirtæki og tók að hljóðrita þessa nýju gerð eþíópískrar tónlistar og gaf svo út smáskífur og stórar plötur á merkinu Amha. þetta var í upphafi áttunda áratugarins og á var Ahmed farinn að syngja með nýrri hljómsveit, Ibiz sveitinni, sem spilaði reglulega á Ras hótelinu í Addis Ababa. Forsvarsmenn ríkisútgáfunar mótmæltu þessu en keisarinn ákvað að láta útgáfuna afskiptalausa. Alls gaf Ahma Eshèté út 250 lög á 103 tveggja laga plötum og á annan tug af breiðskífum sem voru alla jafna söfn af smáskífum.

Þetta blómaskeið eþíópískrar tónlistar stóð þó ekki lengi því spenna hafði aukist í landinu smám saman - annars vegar voru menntamenn sem vildi róttækar breytingar á eþíópísku samfélagi og hins vegar íhaldssamir sem sáu upplausn og lausung í hverju horni og vildu færa flest í gamlar skorður. Eftir að upp komst að stjórnvöld höfðu leynt fyrir þjóðinni hungursneyð vegna þurrka í Wollo héraði 1972–73 jókst verulega fylgi við maríska róttæklinga og eftir ólgu í hernum var sett saman rannsóknarnefnd liðþjálfa til að leita úrbóta. Hún var ekki lengi að gera upp við sig hvað ætti að gera, steypti keisaranum og tók völdin, kom á marxískri harðstjórn í landinu og lét myrða Haile Selassie. Í Eþíópíu kalla menn harðstjórnarárin Derg-tíma, eftir nafni nefndarinnar. Einn nefndarmanna var Mengistu Haile Mariam, sem á heiðurssess meðal helstu harðstjóra og illvirkja mannkynssögunnar.

Eitt af því fyrsta sem hreinlífismarxistarnir bönnuðu var starfsemi næturklúbba og stóð það bann í fimmtán ár. Menn máttu taka upp tónlist en ekki spila hana opinberlega nema fyrir útenda gesti eða frammámenn innan stjórnarinnar. Hvað útgáfuna varðaði var skylda að á hverri plötu (snældu) sem gefin var út urðu að vera að minnsta kosti tveir lofsöngvar um stjórnvöld. Á endanum lagðist plötuútgáfa af að mestu og þegar Mengistu var loks steypt 1991 var eiginlega áþekkt ástand í eþíópískum tónlistarheimi og menn þekkja af ævintýrinu um Buena Vista Social Club - skoðana og menningarkúgun stjórnvalda varð til þess að ríkjandi vinsæl tónlistarstefna staðnaði, hætti að þróast og breytast í takt við tímann og flestir helstu tónlistarmenn landsins hættu að spila á besta aldri. Þegar menn síðan fara að kynna sér eþíópíska tónlist frá áttunda áratugnum er það eins og að taka sér far í tímavél eða rekast á týndan fjársjóð - tónlist sem stenst samanburð við að besta sem samið var og spilað annars staðar í heiminum með skírskotun í að sem almennt var á seyði í tónlist á þessum tíma en þó gersamlega einstakt, svo framandleg þrátt fyrir kunnuglega tilburði að hún hljómar sem tónlist frá annarri vídd.

Fyrst komust menn á Vesturlöndum almennilega í tæri við Mahmoud Ahmed með plötunni Erè mèla mèla sem Crammed Discs útgáfan belgíska gaf út 1986 og Hannibal gaf síðan út í Bretlandi. Á þeirri plötu syngur Ahmed með Ibiz hljómsveitinni, en platan var tekin upp 1972. Á síðustu árum hefur plötum með honum fjölgað nokkuð, en alla jafna eru menn að gefa út gamlar upptökur. Erè mèla mèla er sígild plata og afskaplega skemmtileg en líka er óhætt að mæla með Soul of Addis sem Earthworks gaf út fyrir áratug eða svo. Live in Paris hefur stundum fengist hér á landi, en á þeirri plötu eru tónleikaupptökur frá 1994.

Þó Mahmoud Ahmed hafi notið mikilla vinsælda hjá Eþíópíumönnum víða um heim er sá áhugi á eþíópískri músík sem opinberast í Broken Flowers ekki sprottinn af vinsældum hans heldur af áhuga eins manns, Francis Falceto, sem byrjaði að gefa út gamla eþíópíska tónlist 1997. Hann samdi við Amha Eshete um afnot af upptökum Amha útgáfunnar, þar á meðal umtalsverðu af tónlist sem aldrei var gefin út, og taldi forsvarsmenn Buda útgáfunnar frönsku á að hrinda úr vör útgáfuröð sem helguð yrði þessari gósentíð tónlistarinnar í Eþíópíu. Fyrsta platan hét líka Gullár nútímatónlistar og síðan hafa þær komið út fleiri, sú 21. nú í byrjun þessa árs. 7. platan í röðinni var Erè mèla mèla með Mahmoud Ahmed endurútgefin, en alls er þrjár plötur í útgáfuröðinni helgaðar honum, en hann á að auki stök lög á mörgum af plötunum.

Ekki hef ég heyrt alla seríuna, á sennilega tíu til fimmtán af plötunum, en af þeim sem ég hef heyrt bendi ég á 1. plötuna, þá 3., 4., 7. (Erè mèla mèla), 8. 14. og 17. en á henni er einmitt goðsögnin sjálf, Tlahoun Gèssèssè.

Tóndæmi er víða að finna, til að mynda hjá WPS1, sem er netúrvarp rekið í tengslum við  MoMA listasafnið í New York. Beinn tengill er hér, en einnig er vert að vísa á síðuna sem geymir safn útvarpsþáttanna - mikið af góðri og merkilegri músík þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband