Við Mórberjastræti

Booker verðlaunin bresku eru ein helstu bókaverðlaun hins enskumælandi heims, en þau verðlauna helstu bók hvers árs. verðlaunin hafa verið umdeild alla tíð eða allt frá því þau voru fyrst tilkynnt fyrir tæpum fjórum áratugum. Ýmist hamast menn að verðlaunanefndinni fyrir að bækurnar séu eiginlega allar eins eða þá að hún sé að velja of óvenjulegar bækur. Fyrir stuttu var birtur svonefndur longlist Booker verðlaunanna 2006, sem var víst óvenju lengi í smíðum, en úr þeim nítján bókum sem er að finna á þeim lista er síðan valdar sex bækur á styttri lista sem kynntur verður síðar á árinu, en þær bækur eru líka verðlaunaðar, og svo loks verða verðlaunin sjálf kynnt 10. október næstkomandi.

Þegar nítján bóka listinn var kynntur fyrir skemmstu fannst mörgum sem hann væri full venjulegur á honum væru nánast allir góðkunningjar bókmenntafræðanna undanfarin ár en fátt um nýja og spennandi höfunda. Innan um þekkta höfunda eins og Sarah Waters, Peter Carey, David Mitchell, Nadine Gordimer og Barry Unsworth er einn sem komst á listann með sína fyrstu bók, Hisham Matar, en bók hans, In the Country of Men, kom út fyrir tæpum mánuði.

In the Country of Men segir frá Suleiman, níu ára dreng, sem býr í Lýbíu undir lok áttunda áratugarins, um það leyti er Muammar al-Gaddafi, "hinn bróðurlegi leiðtogi byltingarinnar" hafði verið við völd í um áratug. Gaddafi stjórnaði landinu af mikilli hörku, allt andóf var harðlega bannað og þeir sem létu á sér kræla voru handteknir, pyntaðir og síðan myrtir.

Suleiman og leikfélagar hans þekkja til svartklæddra útsendara byltingarráðsins sem allir óttast án þess þó að gera sér grein fyrir því hvers vegna þeir eru svo óttalegir - vita þó að menn eiga það til að hverfa fyrir litar sem engar sakir og sjást aldrei meir. Smám saman rennur þó upp fyrir Suleiman að faðir hans er einn af þeim mönnum sem byltingarráðið hefur illan bifur á, faðir hans er sem sé andófsmaður, dreymir um að koma á lýðræði í Lýbíu og því í mikilli hættu.

Smám saman vex spennan í bókinni og óhugnaðurinn eykst og ekki er annað að sjá en að Sumleiman eigi eftir að steypa fjölskyldu sinni í glötun í viðleitni sinni til að bjarga henni, en móðir, sem gift var sér tvöfalt eldri manni aðeins fjórtán ára gömul, er ráðvillt, drykkfelld og bitur. Hún var nefnilega gift með hraði til að forða mannorði fjölskyldunnar enda hafði sést til hennar þar sem hún leiddi jafnaldra pilt. Biturleiki hennar snýr þó ekki beinlínis að eiginmanninum heldur frekar að því sem hann að hefst þegar hann fer í "viðskiptaferðir" sínar, en oftar en ekki eru þær ferðir farnar til að blása í glæður frelsis og lýðræðis.

Suleiman býr við Mórberjastræti í Trípólí og mórber koma við sögu sem einskonar leiðistef, enda eru þau í huga Suleimans gjöf ungra engla til mannkyns eftir að þau Adam og Eva hafa verið gerð útlæg úr paradís - englarnir vilja gera þeim útlegðina bærilegri og gróðursetja því mórber, besta ávöxt sem guð hafi skapað og guð, sem vitanlega er alvitur, sér í gegnum fingur sér við englana. Vandamálið er bara það að sá sem er alvitur í Lýbíu þessa tíma, og allt fram á okkar daga, er harðstjórinn grimmi Muammar al-Gaddafi og þeir sem ætla að sá lýðræði uppskera þjáningar og dauða. Gaddafi er reyndar aldrei nefndur á nafn, en iðulega er getið um "Leiðsögumanninn" og byltingarráð hans.


Hisham Matar er að nokkru leyti að skrifa eftir eigin reynslu, enda rændu flugumenn Gaddafis föður hans, sem þá bjó í Kaíró, og fluttu til Lýbíu. Ekkert hefur til hans spurst síðan. Ekki er bara að faðir Matars hafi horfið þannig, og hafi líklega verið myrtur, heldur segir Matar gjarnan frá því að frændur hans, föðurbróðir og vinir hafi verið hengdir fyrir að gera eitthvað á hlut hins "bróðurlega" leiðtoga, aukinheldur sem hann eigi ættingja og vini í fangelsum í Lýbíu.

Faðir Matars var sendifulltrúi Lýbíu hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og þar fæddist Matar og ólst upp í New York og síðar í Trípolí þar sem faðir hans rak fyrirtæki. Þegar hans síðan rakst á nafn sitt á lista yfir menn sem stóð til að kalla til yfirheyrslu fyrir byltingarráðinu fluttist fjölskyldan til Kaíró 1979, líkt og fer fyrir Suleiman í lokin, þó hann sé þá einn á ferð. Í framhaldinu snerist faðir Matars gegn Gaddafi og lá ekki á skoðunum sínum. Það átti eftir að verða hans bani, eins og getið er í upphafi. Matar var þá níu ára gamall, líkt og Suleiman, og eftir að hafa alist upp í Kaíró hélt hann til Bretlands í skóla og var einmitt við nám í Lundúnum þegar föður hans var rænt.

Matar lýsti því í viðtali við Guardian fyrir stuttu að hann hafi í raun ekki átt margt sameiginlegt með Suleiman þó lífshlaupi þeirra svipi saman um margt. Eitt nefnir hann þó sem gefur góða mynd af andrúmsloftinu í landi þar sem íbúarnir búa við stöðuga skoðanakúgun: "Ég fann að það var sitthvað sem ekki mátti segja. Maður sat kannski við matarborðið og einhver frændanna sagði eitthvað og allir þögnuðu vegna þess að þeir áttuðu sig á því að það var barn við borðið sem myndi kannski endurtaka það sem sagt var utan hússins og þá yrði einhver handtekinn."

Matar lærði arkitektúr og starfaði um hríð við fagið, rak eigin teiknistofu. Löngunin til að skrifa var þó sterk og fékk útrás í ljóðagerð. Eitt ljóðanna varð síðar að bókarkafla sem varð kveikjan að In the Country of Men. Í kaflanum segir frá því er Suleiman er að tína mórber í eina mórberjatrénu sem eftir er við Mórberjastræti - kemur væntanlega ekki á óvart að það er í garði andófsmanns sem tekinn er höndum rétt áður en frásögn bókarinnar hefst. Í kaflanum, sem er býsna ljóðrænn þó Matar hafi skrifað hann út úr ljóðinu vegna takmarkana ljóðaformsins að því hann segir sjálfur, klifrar Suleiman upp í tréð og les mórber sem mest hann má, finnst hann vera nánast kominn í himnaríki en fær svo sólsting, eða kannski of mikið af mórberjum, of mikið frelsi.

Smám saman tók bókin á sig mynd og Matar varð haldinn þráhyggju, eins og hann lýsir því, og fljótlega fór það ekki saman að teikna hún og smíða skáldsögu, arkitektúrinn varð að víkja og í hans stað kom íhlaupavinna sem veitti Matar meira frelsi til að skrifa, en þýddi líka stopulli og minni tekjur. Svo aðþrengdur var hann orðinn, þó kona hans hafi unnið úti, að hann var að semja við leigusala sinn um loka, loka lokafrest á greiðslu leiguskuldar þegar hann fékk fréttir af því að útgefandi hefði keypt útgáfuréttinn. Segir sitt að hann þurfti að fá að hringja hjá leigusalanum til að segja konu sinni góðu fréttirnar - hann átti ekki inneign á farsímanum.

Í viðtali á BBC fyrir stuttu lagði Matar þannig áherslu á að bókin sé ekki sannsöguleg þó víst sé margt í henni byggt á raunverulegum atburðum og raunverulegri upplifun Matars frá því hann var níu ára gamall. Hann lýsir til að mynda yfirheyrslu sem Suleiman sér í sjónvarpinu þar sem verið er að yfirheyra verksmiðjueiganda sem sakaður er um að vera kapítalisti, mann sem greinilega er búið að berja rækilega og sem mígur á sig í miðri yfirheyrslu. Í þeim kafla er Matar að lýsa eigin upplifun, því slíkar útsendingarnar voru algengar og ætlaðar til að halda fólki í greipum óttans. "Ég sá fjölmargar slíkar yfirheyrslur í sjónvarpinu," segir Matar, "og margar verri en sú sem ég lýsi."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband