Fram og aftur tónlistargötuna

Bob Dylan varð snemma frægur fyrir það hve fljótur hann var að læra lög og sagði sjálfur að hann þyrfti ekki að heyra lag nema tvisvar til að geta spilað það sjálfur. Þessi hæfileiki kom í góðar þarfur þegar hann var að þroskast sem tónlistarmaður í lok sjötta áratugarins og upphafi þess sjöunda. Þannig lá hann yfir plötum og sótti tónleika sem mest hann mátti þegar hann var að undirbúa fyrstu plötu sína sem hann tók upp í lok nóvember 1961, en platan kom út í byrjun árs 1962.

Á fimmta og sjötta áratugnum varð mikil vakning í þjóðlagatónlist vestan hafs, meðal annars fyrir tilstilli manna eins og Pete Seeger og Woody Guthrie, en sá síðarnefndi varð ein helsta fyrirmynd hins unga Dylans. Þeir Seeger og Guthrie voru gangandi alfræðibækur af þjóðlegri tónlist og Guthrie að auki einn helsti þjóðlagasmiður Bandaríkjanna, ef við skilgreinum þjóðlög svo að þar sé komið lag sem þjóðin lærir og syngur. Seeger, sem er enn á lífi, var bjartsýnn sósíalisti, jákvæður baráttumaður fyrir jöfnuði og réttlæti. Guthrie, sem lést 1967, var öllu forvitnilegri, beittari í skoðunum og harðskeyttari, enda hafði hann kynnst skuggahliðum lífsins, fátækt og vonbrigðum í skugga ameríska draumsins eins og heyra má í laginu fræga This Land is Your Land. Guthrie var sósíalisti á ameríska vísu, sem við myndum kannski skilgreina frekar sem sósíaldemókratisma, en í lögum hans er ekki að finna sömu barnalegu bjartsýnina sem einkenndi Seeger og tónlistarfélaga hans. 

Síðasta mánuðinn áður en Dylan hélt í hljóðver lá hann yfir Anthology of American Folk Music, sex plötu safni sem Harry Smith tók saman fyrir Folkways-útgáfu Moses Asch og kom út 1952. Á því safni, sem var endurútgefið 1997, er að finna gríðarleg magn af þjóðagatónlist sem spannar flest afbrigði af  bandarískri tónlist, cajun, blús, vísnasöngur, sjómannalög og svo má telja. Í þennan sjóð sótti Dylan lög sem hann flutti á tónleikum og átti síðar eftir að taka upp, en hann nýtti þau líka sem hugmyndasjóð fyrir eigin lagasmíðar, sótti þangað textabrot, laglínur og hugmyndir ein og heyra hefur mátt í tónlist hans meira og minna upp frá því.

Á fyrstu plötu Dylans eru ekki nema tvö frumsamin lög, Talkin' New Yorkog Song to Woody (og eitt lag af Folkways safninu mikla, See That My Grave Is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson). Síðarnefnda lagið er gott dæmi um hvernig Dylan nýtir sé hugmyndir frá öðrum, enda er að að miklu leyti byggt á Guthrie-laginu 1913 Massacre, sem segir frá umdeildum harmleik í Michigan. Ágæt samantekt um Guthrie-lagið hér og hægt að hlusta á það.

Því er títt haldið fram að á níunda áratugnum hafi Bob Dylan hafi ekki gefið út sín bestu verk og ágætt dæmi um það má reyndar heyra á The Bootleg Series Volumes 1-3 sem kom út 1991, en þar er meðal annars lagið frábæra Blind Willie McTell sem Dylan tók upp fyrir Infidels (og eins Foot Of Pride sem einnig var tekið upp fyrir Infidels en rataði ekki á þá plötu). Blind Willie McTell er afbragðs lag og góð vísbending um hvað væri framundan því lagið er einskonar uppgjör við nútímann - Dylan sækir sér sniðmát aftur til fimmta áratugarins, þegar hann sökkti sér niður í þjóðlagasöng og blús, og ber það við nútímann:

Seen the arrow on the doorpost
Saying, "This land is condemned
All the way from New Orleans
To Jerusalem."
I traveled through East Texas
Where many martyrs fell
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

[...]

Well, God is in heaven
And we all want what's his
But power and greed and corruptible seed
Seem to be all that there is
I'm gazing out the window
Of the St. James Hotel
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

Annað sem Dylan tók upp á þessum tíma var að miklu leyti trúarlegt, margt framúrskarandi en ekki nema ein plata sem hægt er að kalla framúrskarandi, Empire Burlesque, sem kom út 1985. Næst síðasta Dylan-plata níunda áratugarins, Oh Mercy, var þó ágæt og fékk fína dóma, en upptökustjórnin á henni (Daniel Lanois) var full tilgerðarleg fyrir minn smekk og ég kann því síður að meta hana sem ég heyri hana oftar. Síðasta platan, Under the Red Sky, sem kom út 1990, var aftur á móti mikið léttmeti með hreinum barnalögum inn á milli. Hún var tileinkuð dóttur Dylans sem þá var fimm ára, Desiree Gabrielle Dennis-Dylan, sem bar gælunafnið  Gabby Goo Goo.

Eins og Blind Willie McTell benti til var Dylan mjög farinn að velta fyrir séu tónlistarlegum uppruna sínum og á næstu plötum tók hann fyrir þjóðlagaarfinn en hann fór lengra og leitaði aftur í blúsinn. Þannig eru á plötunum Good as I Been to You (1992) og World Gone Wrong (1993) fjölmargir blúsar, þar á meðal eftir þann mæta söngvara Blind Willie McTell, en einnig lög sem Dylan hefur væntanlega heyrt fyrst í flutningi Mississippi John Hurt og fleiri Piedmont-blúsara.

Það liðu sjö ár frá því Dylan sendi frá sér Under the Red Sky að næsta plata hans með frumsömdu efni kom út, Time Out of Mind, sem gefin var út 1997. Platan var tekin upp í janúar það ár og aftur var Lanois við stjórnvölinn. Andinn á plötunni er fremur myrkur, sem skýrist kannski að einhverju leyti af því að lögin eru samin í snjóþyngslum og myrkri á búgarði Dylans í Minnesota. Plötunni var óvenju vel tekið af Dylan plötu, og rokkunnendur kunnu vel að meta hljóm á henni og stemmninguna sem skrifast á Lanois.

Eins og getið er var platan tekin upp í janúar og fyrirhugað að gefa hana út um haustið. Um vorið fékk Dylan hættulega sýkingu í hjarta og var vart hugað líf um tíma. Hann var þó fljótur að ná sér og byrjaður á tónleikahaldi að nýju um mitt sumar. Af þeim plötum sem fylgdu í kjölfarið finnst manni þó líklegt að þessi uppákoma hafi orðið til þess að hann tók að velta fyrir sér dauðanum sem síðan fléttaðist saman við títtnefndar vangaveltur um söngvasjóðinn sem kom honum af stað.

Á Love and Theft, sem kom út í september 2001, má vel heyra, að mínu mati, að Dylan var að vinna úr fortíðinni. Lögin á plötunni eru öll ný, en í þeim fléttar hann saman þræði úr fortíðinni. Hann stýrir upptökum sjálfur á plötunni undir dulnefninu  og fyrir vikið er hljómur á henni allur skemmtilegri og líflegri en þegar Lanois sat við takkana. Reyndar heyrist manni að Dylan hafi gefið mönnum lausan tauminn að mestu, en í hljóðverinu var með honum lunginn úr tónleikasveit hans til margra ára.

Bob Dylan hefur verið venju fremur duglegur undanfarin ár og eins hefur verkefnavalið verið óvenju fjölbreytt (minni á Victoria's Secret auglýsinguna alræmdu).

Hann fékkst við fleira, lék í kvikmynd, gaf út fyrsta bindi ævisögu sinnar, Chronicles Vol. 1, og svo má telja. Í febrúar sl. fór hann svo í hljóðver að taka upp nýja plötu sem nú hefur litið dagsins ljós: Modern Times. Enn stýrir Dylan upptökunum sjálfur sem Jack Frost og stemmningin á henni er ekki síður lífleg og skemmtileg en á Love and Theft.

Segja má að Modern Times sé þriðju hluti þríleiksins sem hófst með Time Out of Mind, því enn er Dylan að velta fyrir sér fortíðinni, sækir þangað yrkisefni, laglínur og textahendingar. Heiti margra laganna gæti til að mynda eins verið heiti laga í lagasafni frá því í fyrndinni og sum eru meira að segja þekkt á öðrum lögum; Thunder on the Mountain, Spirit on the Water, Rollin' and Tumblin', When the Deal Goes Down, Workingman's Blues #2 og The Levee's Gonna Break. Hann vitnar síðan beint í Muddy Waters í Rollin' and Tumblin, notar laglínu og brot úr textanum.

Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I woke up this mornin,
Didn't know right from wrong

syngur Waters en Dylan bregður snemma útaf:

I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
Woke up this mornin',
I must have bet my money wrong.

Sjálfur sótti Muddy grunninn að lagi og texta til Hambone Willie Newbern, sem tók upp Roll and Tumble Blues 1929. Robert Johnson notaði líka brot úr lagi Hambone Willie eins og heyra má í If I Had Possession Over Judgment Day:

And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
Boy, I woke up this mornin'
my biscuit roller gone

(Johnson var áíka og Dylan, drakk í sig áhrif víða að og skilaði í frábærum lögum og textum. Í If I Had Possession Over Judgment Day vitnar hann til að mynda í Hambone Willie Newbern og einnig í Son House læriföður sinn. Þeir Johnson og Dylan eru svo báðir undr sterkum áhrifum frá Lonnie Johnson, en það er önnur saga.)

Annað dæmi af Modern Times: Í Nettie Moore vitnar Dylan í vinsælt lag frá átjándu öld í nafninu og viðlagi:

Oh, I miss you, Nettie Moore
And my happiness is o'r
Winter's gone, the river's on the rise
I loved you then, and ever shall
But there's no one left here to tell
The world has gone black before my eyes

syngur Dylan en upprunalegur texti er:

Oh, I miss you, Nettie Moore, and my happiness is o'er
While a spirit sad around my heart has come,
And the busy days are long, and the nights are lonely now,
For you're gone from our little cottage home.

Í textanum vitnar hann einnig í The Yellow Dog Rag eftir þann gamla þrjót William Christopher Handy sem skráði sig höfund að lögum sem hann heyrði fátæka blökkumenn syngja í Mississippi undir lok nítjándu aldar. Handy skráði textann svo:

Dear Sue, your Easy Rider struck this burg today
On a southboun' railer side-door Pullman car.
Seen him here an' he was on the hog.
  (The smoke was broke, no joke,
  not a [fifty?] on him.)
Easy Riders got a stay away,
So he had to vamp it--but the hike aint far,
He's gone where the Southern cross' the Yellow Dog.

og Dylan bregður sér í hlutverk Lee sem Sue leitar að:

I've gone where the Southern crosses The Yellow Dog
Get away from all these demagogues
And these bad luck women stick like glue
It's either one or the other or neither of the two

(Til skýringar má nefna að The Southern var járbrautalína og Yellow Dog var önnur slík lína sem hét Yazoo Delta. Þær skerast í Moorhead í Mississippi.)

Fleiri dæmi má nefna:  The Levee's Gonna Break byggir á When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie sem Led Zeppelin tók sér til handargagns á Led Zeppelin IV. Memphis Minnie söng:

If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
When The Levee Breaks I'll have no place to stay. 

en Dylan syngur:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
Everybody saying this is a day only the Lord could make

og breytir laginu í persónulegt uppgjör, færir það innávið og lýsir tilfinningalegu flóði ekki síður en raunverulegu. Á sínum tíma söng Memphis Minnie um flóðin miklu í Mississippi-fljóti 1927 og ýmsir hafa viljað tengja þetta lag Dylans við flóðin miklu í kjölfar Katrinu fyrir ári, en að mínu viti er það ekki svo einfalt:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
I tried to get you to love me, but I won't repeat that mistake

(Alla texta plötunnar má finna hér.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð úttekt. En svo minnist kallinn líka á Alicia Keys! Mér finnst nafnið á plötunni líka geggjað.

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 30.8.2006 kl. 13:55

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Já, það kom óneitanlega nokkuð á óvart:

I was thinkin' 'bout Alicia Keys, couldn't keep from crying

When she was born in Hell's Kitchen, I was living down the line

I'm wondering where in the world Alicia Keys could be

I been looking for her even clear through Tennessee.

Þetta hefur verið mér tilefni heilabrota og ég er ekki enn kominn að endanlegri niðurstöðu. Það liggur þó ljóst fyrir að Dylan fer ekki rétt með þegar hann segir að Alicia Keys hafi fæðst í Hell's Kitchen hverfinu á Manhattan, enda fæddist hún í Harlem þó hún hafi alist upp við fátækt í Hell's Kitchen (Clinton og Midtown West, sunnan við Central Park). Hann er hugsanlega að vísa til þess að hann tók Modern Times upp í Hell's Kitchen. Nú eða þá að hann vilji gjarnan hafa mök við hana.

Hvað plötunafnið varðar hygg ég að Dylan sé að vísa í samnefnda kvikmynd Charlie Chaplins og felur vel að yfirlýsingum hann undanfarið um hvað nútíminn sé ömurlegur þegar tónlist er annars vegar. (Ekki er loku fyrir það skotið að hann sé að vísa í aðrar plötur samnefndar, til að mynda Modern Times með Al Stewart frá 1975, sem er með einu góðu lagi að mig minnir (titillagið), eða Modern Times með Jefferson Starship frá 1981 sem er ekki með neinu góðu lagi frekar en aðrar plötur þeirrar viðurstyggilegu hljómsveitar.

Árni Matthíasson , 31.8.2006 kl. 09:50

3 identicon

Ég reyndi að reikna í huganum að Nettie Mo(o)re væri anagram á Modern Time(s), en fyrir utan að breyta þarf d-i í t vantar líka eitt m upp á … það má samt hafa það bakvið eyrað að Dylan sakni nútímans.

Haukur Már Helgason (IP-tala skráð) 11.9.2006 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband