Íslendingar eru dauðyflislegir, skaðlega íhaldssamir og gríðarlega latir

Baring-GouldSabine Baring-Gould fæddist í Exeter 1834. Faðir hans var öryrki, en hafði áður starfað hjá Austur-Indíafélaginu breska. Hann eyddi vetrinum jafna í ferðalög um Evrópu til að forðast vetrarleiðindi heima fyrir og því fékk pilturinn stopula menntun og þannig var barnaskólanám hans aðeins nokkrir mánuðir haustið 1846. Það er þó sagt að hann hafi lært sex tungumál á þrettán ára ferðum um Evrópu með föður sínum.

Þrátt fyrir litla menntun komst Sabine Baring-Gould í gegnum nám við Cambridge, lauk BA gráðu 1857 og síðan MA 1860. Hann vildi verða prestur en foreldrar hans meinuðu honum það, faðir hans vildi að hann yrði verkfræðingur. Næstu árin starfaði Baring-Gould því sem kennari, en er móðir hans lést skipti faðir hans um skoðun og Baring-Gould var vígður til prests 1866 og réðst sem aðstoðarprestur í Horbury í Vestur-Jórvíkurskíri.

Í Horbury hitti Baring-Gould unga stúlku, Grace Taylor, sem var sextán ára en hann var þá þrjátíu og tveggja ára. Hann hreifst svo af henni að hann ákvað að giftast henni. Áður en af því gæti orðið fannst honum þörf á að mennta hana og sendi hana því til náms þar sem hún átti að læra að lesa og skrifa og tala almennilega ensku. Hann giftist henni svo tveimur árum síðar, en það er til marks um hvað ættingjum þeirra fannst um ráðahaginn að hvorki komu foreldra hans eða hennar til brúðkaupsveislunnar. Þrátt fyrir það var hjónabandið hamingjuríkt og traust, stóð allt til hún lést 1916, og alls eignuðust þau fimmtán börn. Því hefur verið haldið fram að samband Sabine Baring-Gould og Grace Taylor hafi verið George Bernard Shaw kveikja að Pygmalion, en þeir munu hafa verið kunningjar Sabine-Gould og Shaw.

Baring-Gould þjónaði sem prestur á nokkrum stöðum, en 1881 fluttist hann á ættarsetur sitt, tók við prestskap í sýslunni og eyddi ævinni í að endurbyggja hús sitt í þýskum stíl, endurreisa kirkju staðarins og hugsa um 350 sálna söfnuð sinn. Tekjur af sókninni voru eðlilega litlar, en Baring-Gould borgaði fyrir allt saman með skrifum sínum, aðallega með vinsælum skáldsögum. Næstu árin safnaði hann líka þjóðlögum í Devon og Cornwall og taldi jafnan sitt helsta afrek, en hann fór víða um, heimsótti söngvara og söngkonur og skrifaðu upp eftir þeim texta og lög. Textarnir sem sungnir voru á alþýðuheimilum í sveit á þessum árum þóttu margir svo óheflaðir að Baring-Gould "lagfærði" þá, hreinsaði úr þeim það sem honum fannst dónaskapur, en leyfði þó ýmsu að standa.

Sabine Baring-Gould lést 1924.

Fjölmargar sögur eru til af sérvisku hans, flestar líklega uppspuni eða færðar í stílinn, en það er þó líklega satt að hann kenndi með tamda leðurblöku á öxlinni og líka trúleg sú saga að hann sagði við telpu í veislu: "Og hver á þig, gæskan", en hún svaraði og brast í grát: "þú átt mig, pabbi". Í Wikipediu kemur líka fram að eitt barnabarna hans, William Stuart Baring-Gould, sem var mikill Sherlock Holmes fræðingur, hafi skrifað uppdiktaða ævisögu Holmes, en byggt hana að nokkru á ævi Sabine Baring-Goulds.

Baring-Gould var hamhleypa til allra starfa og þannig eru ríflega 1.200 atriði í skrá yfir verk hans. Þar af voru um 500 bækur, þar af tugir skáldsagna, en sagt er að á sínum tíma hafi hann verið tíundi vinsælasti höfundur Bretlandseyja þó felst hans verk séu gleymd í dag nema grúskurum. Sálmurinn Áfram Kristsmenn krossmenn lifir þó enn, en þann samdi Baring-Gould á tíu mínútum, eins og hann lýsti því, fyrir skóladrengi í Hurtspierpoint í Sussex, þar sem hann starfaði sem kennari.

Íslandsáhugi Baring-Goulds kviknaði í Hurtspierpoint, en þar kenndi hann sjálfum sér íslensku með aðstoð þýsk-íslenskrar orðabókar og þýddi íslenskar fornsögur á ensku og endurskrifaði sem barna- og unglingasögur fyrir piltana sem hann kenndi. Þessi áhugi jókst með tímanum og á endanum ákvað hann að fara í ferð til íslands. Hann fékk lán hjá föður sínum, en síðan ætlaði hann að fjármagna ferðina með því að skrifa bók um hana.

Baring-Gould landakortBaring-Gould sigldi til Íslands á danska gufuskipinu Arcturus sem flutti varning og farþega á milli Kaupmannahafnar, skoska bæjarins Grangemouth, Færeyja og Reykjavíkur. Hann hugðist fara frá Reykjavík til Þingvalla, þaðan til Kalmannstungu, og Arnarvatn til Hnausa, þá til Akureyrar og Mývatns, síðan suður Austurland að Eyjabakkajökli, vestur eftir Vatnajökli, og norður Sprengisand aftur til Akureyrar. Þegar hann kom í Reykjahlíð varð ljóst að grasspretta hefði verið svo lítið á hálendinu norðan Vatnajökuls að ekki væri óhætt að fara svo langa leið á hestbaki og því sneri hann aftur til Reykjavíkur er fór þó ekki nákvæmlega sömu leið til baka. Alls tók ferðalagið fjörutíu daga og fjörutíu nætur, en hann leit Ísland fyrsta sinn 15. júní 1862

Eins og fyrirhugað var skrifaði Sabine-Gould bók um ferðalag sitt, Iceland: It's Scenes and Sagas kom út 1863 í vandaðri útgáfu, ríkulega myndskreytt af lituðum teikningum eftir Baring-Gould og með skýringarmyndum, meðal annars myndum af íslenskum galdrastöfum (sem hann segist birta fyrir þá lesendur sína sem fáist við svartagaldur), 447 síður alls í kvartbroti. Hún var ófáanleg í marga áratugi, en 2004 var hún fáanleg í bresku sérprenti og 2005 í bandarísku sérprenti. Signal-útgáfan í Oxford gaf bókina síðan út í almennri útgáfu með ítarlegum inngangi eftir Martin Graebe, en Graebe var staddur hér á landi fyrir skemmstu og kynnti þá útgáfuna með skemmtilegum fyritrlestri. 
 
Baring-Gould skrifaði líka tímaritsgreinar um ferð sína og sendi frá sér tvær skáldsögur sem hann byggði á Íslendingasögunum, "Grettir the Outlaw", sem kom út 1890, og "The Icelander’s Sword", sem kom út 1858.

Iceland: It's Scenes and Sagas er stórmerkileg bók aflestrar, enda var Baring-Gould svo vel undirbúinn undir ferðina að undrum sæti. Inngangur bókarinnar er til að mynda einkar góð lýsing á Íslandi, landháttum og íbúum og sögu lands og þjóðar með ýtarlegri tölfræði (1858 sviptu 3 menn sig lífi, 65 drukknuðu, 17 létust af öðrum slysförum og 1.939 létust á sóttarsæng og svo má lengi tína til dæmi). Skemmtileg frásögn er þar og til að mynda af Jörundi hundadagakonungi frá sjónarhorni Englendings.

Íslenskukunnátta Baring-Goulds gerði honum kleift að ræða við hvern þann sem hann hitti á leiðinni og hann var sífellt að spyrja menn spjörunum úr. Eftirminnilegt er til að mynda samtal sem hann á við bónda á Arnarvatnsheiði þar sem þeir ræða landsins gagn og nauðsynjar og síðan álit almennings á skattheimtu og dönskum stjórnvöldum. Hann var líka naskur á að skrifa niður nótur að sálmum sem hann heyrði, greinir íslenska skáldskaparhefð, mældi út fjölda húsa sem hann gisti í og gefur greinargóða lýsingu á búskaparháttum og húsakynnum, en hann fjallar líka mikið um dýralíf á Íslandi og landslag það sem verður á leið hans - maður kemur aldrei að tómum kofanum hjá honum.

Í lok bókarinnar er meira að segja ítarleg skrá yfir hve miklu hann eyddi hvern dag í ferðinni og í hvað. Þar má til að mynda sjá að 20. júlí borgar hann bóndanum á Bjargi einn dal fyrir að hafa rofið fyrir sig vörðu og gefur honum 30 mörk í drykkjufé. Skömmu áður, 17. júlí, borgaði hann bóndanum á Víðimýri 2 dali fyrir mat og óhreinindi og 22. júlí borgar hann bóndanum á Mel í Hrútafirði 2 dali fyrir "alls ekkert".

Að þessu sögðu þá er rétt að lesa bókina með það í huga að Baring-Gould færir víða í stílinn til að gera bókina læsilegri. Hann skýtur til að mynda inn heilu köflunum úr Íslendindasögum til að gæða textann lífi, lætur sem svo að eitthvað sem bar fyrir augu hafi orðið ferðafélögum hans tilefni til spurninga og hann svarað með því að fara með langan kafla úr Grettlu eða annarri sögu. Hann hélt reyndar mikið upp á Grettlu og það verður að segjast eins og er að þýðing hans er býsna lífleg:

Þórir mælti þá: "Ver eigi stygg húsfreyja. Enginn missir skal þér í verða þó að bóndi sé eigi heima því að fá skal mann í stað hans og svo dóttur þinni og öllum heimakonum."

"Slíkt er karlmannlega talað," segir Grettir, "mega þær þá eigi yfir sinn hlut sjá."

Verður svo í meðförum Baring-Gould:

"You need not scream before you are hurt, my good woman," quoth Thorir: "you will want all your words for to-morrow, when I shall carry you and your daughter away with me, and you will have to say good-by to home for many a day. What think you of that?"

"Capital!" roared Grettir. "That is capital."

Alla jafna ber Baring-Gould Íslandi og Íslendingum vel söguna, en á það til að hnýta í menn á skemmtilega meinhæðinn hátt. Sjá til að mynda þessa lýsingu: "Persónugerð [Íslendinga] er með þeim hætti að þeir eru dauðyflislegir, skaðlega íhaldssamir og gríðarlega latir. Þeir hafa sérstakt lag á að vinan verk á eins klaufalegan hátt og mögulegt er. Þegar súrra á kassa, til að mynda, horfir hinn innfæddi á verkið í nokkrar mínútur til að átta sig á hvernig megi binda hann á sem óhagkvæmastan og ólögulegastan hátt, og gefur sér síðan góðan tíma til að vinna verkið einmitt á þann hátt."

Stytt úgáfa þessarar færslu birtist i Lesbók Morgunblaðsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

ég á bók eftir hann um varúlfa - gaman að þessu ég hafði ekki hugmynd um að hann tengdist Íslandi svona

halkatla, 4.9.2007 kl. 10:08

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Frábær frásögn. Skemmtilegt, ég hef aldrei heyrt um þennan mann en mun örugglega fara og finna Íslandsbókina eftir hann, hún hljómar eins og algjör perla hahah

Ragnhildur Jónsdóttir, 4.9.2007 kl. 18:34

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Merkilegt. Stórmerkilegt. Og skemmtilegt líka.

Markús frá Djúpalæk, 4.9.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband