Klippt og skorið

Plötusnúðar eru ýmiskonar, allt frá því að sitja við spilarann og skipta um plötur næsta vélrænt í það að vera tónlistarmenn sjálfir sem leika af fingrum fram með plöturnar sem sitt hráefni, tónlist annarra. Þeir sem lengt ná í þeim efnum eru mikils metnir um heim allan, enda ekki hægt að líkja því við annað en tónleika þegar þeir troða upp, blanda saman gleymdri tónlist og alþekktri, flétta saman saman taktinn úr þessu lagi og sönginn úr hinu, ekki bara til að láta lögin renna saman heldur til að skapa eitthvað nýtt. En af hverju ekki að ganga lengra, af hverju ekki að líta á tónlistina sem hreint hráefni og fara alla leið, hrista saman það besta úr nokkrum góðum lögum svo úr verður mögnuð snilld?

Mashup kallast það þegar menn skeyta saman lögum líkt og frægt varð hér á landi þegar einhver gárunginn setti saman  Celine Dion og Sigur Rós, Sealion Dion vs. Cigar Ros. Helsti spámaður þessara tónvísinda er kanadíska tónskáldið John Oswald sem er frægast fyrir Plunderphonics sem hann kallar svo, en sú hugsun felst í því að setja saman nýja tónlist úr gömlum upptökum. Hann byrjaði á sínum klippiverkum á sjöunda áratugnum og frægt varð er hann skeytti saman gítarfrösum frá Jimmy Page og prédikun bandarísks bókstafstrúarmanns.

Oswald lét þau orð eitt sinn falla að ef við hugsum okkur tónsköpun sem sléttan völl sé höfundarrétturinn girðingarnar og hann og fleiri hafa barist gegn þeirri þróun að sífellt er verið að lengja gildistíma höfundarréttar, aðallega fyrir tilstilli fyrirtækja sem vilji halda áfram að hagnast á hugverkum löngu eftir að höfundurinn er fallinn fá og jafnvel börn hans og barnabörn líka.

Mashup er yfirleitt notað yfir það þegar lög eru felld saman í heilu lagi eða hér um bil, en ótal afbrigði eru til á því sem Oswald kallaði Plunderphonics (fyrsta Plunderphonic diskinn er hægt að sækja á vefsetur Oswalds, plunderphonics.com). Það er til að mynda aðeins útfærsluatriði að nota búta úr lögum eins og legokubba, setja saman lag úr mörgum misstuttum bútum, kannski tugum búta eða hundruðum. Bókstafstrúarmenn kalla það ekki mashup, en merkimiðinn skiptir í sjálfu sér ekki máli, heldur framkvæmdin.

Frægar plötur með tónlist þessarar gerðar eru til að mynda fyrsta platan Oswalds sem getið er og CBS og lögmenn Michaels Jacksons létu eyðileggja, plata Negativland sem U2 stoppaði, Gráa albúmið eftir Danger Mouse, sem steypti saman Hvíta albúmi Bítlanna og Svarta albúmi Jay-Z, en EMI kom í veg fyrir dreifingu hennar þó hægt sé að sækja hana á netið (sjá http://www.illegal-art.org/audio/index.html) - beinn tengill á plötuna (torrent á zip-skrá) hér). Oft eru viðkomandi verk unnin með samþykki höfundarréttareigenda eða þegjandi samþykki, en algengara þó að unnið sé í óleyfi. Dæmi um samþykki eru Radio Soulwax-plöturnar (2 Many DJs) sem á eru mashup sem leyfi fengust fyrir og dæmi um þegjandi samþykki er platan magnaða Three Sinister Syllables, 75 mínútna flétta 250 lagabúta sem margir eru ekki nema taktur eða rödd. Á þeim 75 mínutum segja þeir Jay Glaze & Pro-Celebrity Golf sögu hiphopsins með magnaðri keyrslu (en þess má og geta að á umslagi er nafn plötunnar ritað með stöfum sem klipptir hafa verið úr umslögum á ýmsum sígildum hiphop-plötum). Heyr til að mynda þessa MF Doom syrpu, 26 lög á tæpum átta mínútum.

Three Sinister Syllables var tvö ár í smíðum, enda flókin vinna að púsla saman þó notast sé við tölvur. Dæmi um verk sem enn seinlegra var að vinna er til að mynda upptökur félaganna sem kalla sig Cassetteboy, en þeir notuðu snældur og skæri við iðju sína. The Parker Tapes er frægasta verk þeirra og tók sjö ár, en á því tæta þeir í sig ýmsa frammámenn í bresku þjóðlífi í 99 lögum, til að mynda fær Jamie Oliver eftirminnilega yfirhalningu eins og heyra má með því að smella hér. Á The Parker Tapes nota Cassetteboy félagar að mestu upptökur af talmáli og verkið fellur því að miklu leyti utan viðfangsefnis þessa pistils, en þeir nota líka nota upptökurnar til að gera grín sem nýtur verndar samkvæmd dómi hæstaréttar vestan hafs í máli erfingja Roy Orbison gegn 2 Live Crew á sínum tíma vegna lagsins Pretty Woman (útgáfa 2 Live Crew er ömurleg eins og heyra má með því að smella hér).

Margir klippararnir líta á iðju sína sem hálfgert hugsjónastarf og kæra sig ekki um að leyfi þó það standi til boða, en fleiri virðast þó gjarnan vilja hafa allt á þurru, en það getur verið snúið að afla heimilda fyrir bútum. Dæmi um það er lagið 99 Problems sem Danger Mouse bræðir saman við Helter Skelter á Gráu plötunni.

Á Svörtu plötunni, plötu Jay-Z, eru fjórir útgefendur skráðir fyrir laginu. Til þess að nota lagið þurfti Danger Mouse því að fá leyfi frá þeim útgefendum öllum að ekki sér talað um útgefanda Helter Skelter. Gera má því skóna að þeir hefðu krafið hann um fulla greiðslu fyrir fyrirframgreitt og engar líkur á að hann gæti náð þeim peningum til baka. Kemur ekki á óvart að margir fara þá leið að spyrja hvorki kóng né prest og gefa lögin síðan út á Netinu þar sem hver sem vill getur sótt þau.

Einn af þeim sem sigla milli skers og báru í þessum efnum er tónlistarmaðurinn Girl Talk sem sendi frá sér sérdeilis skemmtilega plötu fyrr á árinu, Night Ripper. Á bak við Girl Talk nafnið er lífefnafræðingurinn Greg Gillis - dagfarsprúður verkfræðingur í hvítum slopp á virkum dögum, en hálfber villtur plötusnúður um helgar. Hann lifir því tvöföldu lífi og vill víst helst hafa það svo, sem sést meðal annars af því að hann neitar blöðum í heimaborg sinni, Pittsburgh, um viðtöl til að halda því leyndu hvað hann gerir í frítíma sínum.

Gillis lærði tónlist sem barn, spilaði á trompet, en fór síðan að fást við óhljóðalist sem unglingur, segist hafa verið í hljómsveit sem framleiddi hávaða og braut hluti. Þegar það bráði af honum fór hann að hlusta á poppmúsík en nálgaðist hana út annarri átt en gengur og gerist. Fyrsta Girl Talk platan kom út 2002 eftir að Gillis hafði setið við klippingar í á annað ár.

Fyrsta plata hans var tilraunakenndari en síðar varð en Gillis segist hafa fljótlega hafa misst áhugann á tilraununum og sneri sér því að hiphopi og poppi. Hiphop er reyndar obbinn af hráefninu sem Gillis notar, enda falla pælingar hans vel að grunninum að góðu hiphopi - smalatækni og liprar klippingar.

Á Night Ripper eru brot úr lögum 167 listamanna eða hljómsveita, um 250 bútar alls, enda notaði hann fleiri en einn bút frá sumum, en alls segist hann hafa haft undir um 6.000 búta þegar hann var að setja plötuna saman. Þetta er mögnuð blanda, en ef marka má tónleikaumsagnir er Gillis enn magnaðri á tónleikum, en þar blandar hann á staðnum, skeytir saman bútum úr öllum áttum eftir stemningunni á staðnum og því í hvaða stuði hann er. Á slíkum tónleikum eru ekki eiginleg lög, frekar eins mögnuð löng syrpa og reyndar hefur hann látið þau orð falla að lögin á Night Ripper séu ekki eiginleg lög, það megi líta á plötuna sem eitt 42 mínútna lag, en þeim hafi verið skipt niður í hæfilega skammta til að tryggja að þeir renni ljúflegar niður.

Skoðum til að mynda upphafslag plötunnar með aðstoð Wikipedia: Lagið, sem er 2:40 mínútur og hægt að sækja með því að smella hér, heitir Once Again og hefst með broti úr Goodies sem crunk-gellan Chiara flutti 2004. Síðan er framvindan þessi:

0:09 Boston - Foreplay/Long Time
0:12 Ludacris - Pimpin' All Over The World
0:32 Fabolous - Breathe
1:16 Ying Yang Twins - Wait
1:25 The Verve - Bittersweet Symphony
1:44 Slim Thug - I Ain't Heard Of That
1:57 Oasis - Wonderwall
2:06 Arrested Development - Tennessee
2:08 Webbie - Give Me That
2:08 Young Jeezy ft. Mannie Fresh - And Then What
2:19 Genesis - Follow You Follow Me
2:19 Ratatat - Bustelo
2:19 Boredoms - Acid Police
2:30 The Five Stairsteps - O-o-h Child
2:38 Eminem - Ass Like That

Nokkuð dæmigert fyrir plötuna alla og takturinn þrælþéttur og drífandi. Partíplata frá helvíti og allt kolólöglegt miðað við dómaframkvæmd vestan hafs. Enginn eigandi höfundarréttar hefur þó enn gripið til varna og óvíst hvort nokkur geri slíkt, litlir peningar í spilinu og það hefur skaðað fyrirtæki þegar þau hafa gengið of hart fram í slíkum efnum. Girl Talk og útgefandi hans, Illegal Art, er þó á gráu svæði ef ekki svörtu í þessu máli og segir sitt að fyrirtækið lenti í erfiðleikum með framleiðslu á disknum vegna tregðu framleiðenda þó tekist hafi að komam plötunni út um síðir.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 19. sept.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband