Fimmtudagur, 6. apríl 2006
Konungurinn kveður
Var á tónleikum í fyrradag með BB King og hljómsveit í Wembley íþróttahölinni.
Það var sérkennilegt upplifun að vera innan um alla þá gamlingja sem þar voru saman komnir, lunginn af áheyrendum hvítir karlmenn á fimmtugs- og sextugsaldri. Karlar eins og ég, eiginlega, en þrátt fyrir það fannst mér ég ekki heima í þessum hópi, sjálfsagt vegna þess að ég er vanur að vera innan um mun yngra fólk á tónleikum alla jafna.
BB King var magnaður, eiginlega mun betri en ég átti von á, enda karlinn kominn á níræðisaldur, varð áttræður 16. september sl. ferðin hans út þetta ár er kveðjutónleikaferð, þ.e. hann er að kveðja Evrópu þó hann eigi eflaust eftir að halda áfram að spila vestan hafs.
Það er eins og annað hjá karlinum að hann er með 89 tónleika á planinu hjá sér fyrir þetta kveðjuár og enn eftir að bóka einhverja tónleika í september, október og nóvember sýnist mér. Ekki eins mikið og í þá gömlu góðu daga þegar hann lék á yfir 300 tónleikum á ári (og hélt þeirri háttsemi í áratugi), en ansi gott samt af áttræðum manni.
King var með framúrskarandi hljómsveit með sér, fjóra blásara, bassa, gítar, trommur og hljómborð. Sveitin sú byrjaði líka að hita upp fyrir hann, spilaði tvö lög áður en kóngurinn birtist.
BB King hefur verið allt of feitur árum saman og þegar við bætist að flest kvöld undanfarin ár hefur hann staðið upp á endann að spila kemur ekki á óvart að lappirnar eru orðnar lélegar. Svo lélegar að hann getur ekki lengur spilað standandi. Það kom þó ekki niður á spilamennskunni.
Framan af var mikið stuð á mönnum, hornaflokkurinn í stuði og fullmikið í gangi fannst mér. Síðan hægði sá gamli á öllu saman og þeir settust hvor sínu megin við hann, bassaleikarinn og gítarleikarinn. Þá fékk maður að heyra að King er enn fanta söngvari og frábær gítarleikari. Tónninn í Lucille var harðari en ég átti von á, en spilamennskan söm við sig, nett fimleg gítarinnskot og snyrtilegar fléttur. Gaman að bera þessa spunakafla Kings saman við það sem Gary Moore bauð upp á til upphitunar fyrir tónleikana, hátt í klukkutíma af gítarsólóum, eiginlega sama sólóið endurtekið með tilbrigðum - drepleiðinlegt.
Stemmningin undir lokin hja King var tregablandin, enda var hann að kveðja þá sem best hafa stutt hann í gegnum árin, hann hefur nánast alltaf leikið fyrir fullu húsi í Bretlandi á sinni löngu tónlistarævi, líka þegar hann átti dapra daga heima fyrir. Gæti svosem trúað því að hann ætti eftir að spila einhvern tímann í Evrópu aftur að loknum kveðjutúrnum sem stendur eiginlega út árið - á meðan hann er í þessu formi er ekki ástæða til að draga sig í hlé.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 2.5.2006 kl. 22:35 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.