Miðvikudagur, 24. október 2007
Ómetanleg tónlistarhátíð
Því hefur verið haldið fram að Airwaves sé 3-500 milljóna króna innspýting í miðbæ Reykjavíkur ár hvert, enda talið að hingað komi allt að 600 manns að utan til að fylgjast með og grúi manna kemur í miðbæinn til að njóta þess sem þar er í boði.
Spurningunni um hvað tónlistarmennirnir fá fyrir sinn snúð er erfiðara að svara, enda spila flestir eða allir íslensku listamennirnir ókeypis á hátíðinni. Víst má nefna dæmi um hljómsveitir sem fengið hafa útgáfusamning í kjölfar Airwaves eða svo mikla fjölmiðlaathygli að fleytt hefur þeim áfram, en erfitt að meta hversu stóran þátt Airwaves átti í þeim samningum.
Ég held það velkist þó enginn í vafa um að Airwaves hafi verið íslensku tónlistarlífi lyftistöng og aukið grósku, fagmennsku og metnað íslenskra hljómsveita. Það er ómetanlegt að hafa svo veigamikinn viðburð til að stefna að og ótal dæmi voru um hljómsveitir sem blómstruðu einmitt á Airwaves að þessu sinni eftir stífar æfingar og undirbúning.
Þó vel hafi tekist til að þessu sinni og enn betur en á síðasta ári þarf hátíð eins og Airwaves samt að vera í sífelldri endurskoðun og stöðugri þróun. Menn hafa náð því markmiði að auka hag Icelandair á haustin og eins að ýta undir frekari metnað og dug íslenskra tónlistarmanna.
Uppselt hefur verið á Aiwaves undanfarin þrjú ár og spurning hvort það gefi ekki svigrúm til að bæta hana enn frekar hvað varðar aðkomu íslenskra listamanna að henni. Er ekki lag að styrkja enn faglegan þátt hátíðarinnar, að aðstoða þær hljómsveitir sem þátt taka í hátíðinni við að ná eyrum málsmetandi manna í útgáfuheiminum og eins að ná meiri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum?
Af Airwaves 2007 er annars það að segja að meira var um atriði utan dagskrár en áður, sem veit vonandi á gott, og þeir sem nennu höfðu til gátu séð býsna mörg af forvitnilegustu atriðum hátíðarinnar á tónleikum víða um bæ, í 12 Tónum, Máli og menningu, Poppi, Rokki & rósum og Smekkleysu, Skífunni á Laugavegi og í Norræna húsinu. Meira að segja var hægt að hefja daginn með rokki og beikoni á Prikinu, ef sá gállinn var á mönnum, og víst að það er ógleymanlegt að hlusta á Rass á Prikinu kl. 10 á föstudagsmorgni.
Dagskráin í Norræna húsinu var metnaðarfull og margt skemmtilegt að sjá og heyra. Þar er líka svigrúm til að vera með faglegri dagskrá á næstu hátíð, hugsanlega fyrirlestra eða tilheyrandi.
Ekki sá ég margar af erlendu sveitunum, en þó nóg til að sjá að !!! er almögnuð tónleikasveit, Plants & Animals frábærlega forvitnileg og Buck 65 ævintýralega góður, en hann sá ég tvisvar og Plants & Animals reyndar þrisvar.
Af þeim tæplega sextíu íslensku hljómsveitum sem ég sá spila vöktu mesta athygli mína Hjaltalín, sem blómstraði í Listasafninu, We Made God, sem var ótrúlega kraftmikil á Gauknum, Skakkamanage, sem átti tvöfaldan stjörnuleik á Nasa, FM Belfast, sem ég sá fjórum sinnum spila þessa Airwaves-daga, Mugison, sem Sammi lýsti svo: "þetta var eins og að vera nauðgað af nashyrningi", hin fjölmenna og fjölhæfa Retro Stefson, múm, sem átti frábæran leik í Listasafninu, og svo Dr. Spock, sem sýndi að öfgar göfga viðlíka geggjun hefur ekki sést á sviði.
Aðrar íslenskar hljómsveitir sem stóðu sig afburðavel: Perla, For a Minor Reflection, Soundspell, Benni Hemm Hemm, Bloodgroup, Ghostigital, Kimono, Jónas Sigurðsson, My Summer as a Salvation Soldier, Ólöf Arnalds, Sprengjuhöllin og æringjarnir í 1985!
(Björg Sveinsdóttir tók myndina.)
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:53 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Í hvert skipti sem fjölmiðlar byrja að segja frá því að nú styttist í Airwaves hátíðina ákveð ég að núna ætli ég að drífa mig suður og upplifa þennan viðburð. En það hefur ekki gerst enn Alltaf verð ég jafnsvekkt út í sjálfa mig eftir á að hafa ekki látið verða af því Svo dauðöfunda ég ykkur sem farið á hverja tónleikana á fætur öðrum, sérstaklega þegar þið byrjið að gefa rapportin Af þessum íslensku hefði ég gefið mikið fyrir að vera á tónleikum með Hjaltalín, Múgison, Sprengjuhöllinni og Jónasi Sigurðssyni.
En nú þegar ég er komin yfir öfundina: Takk fyrir góðan pistil
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.