Fram og aftur blindgötuna

Sé að heimildarmyndin The Road to Guantánamo eftir Michael Winterbottom og Mat Whitecross verður meðal mynda á kvikmyndahátíðinni sem hefst í Reykjavík eftir viku en myndin lýsir dvöl þremenninganna Shafiq Rasul, Asif Iqbal og Rhuhel Ahmed "sem máttu dúsa þar, saklausir, við skelfilegar aðstæður í tvö ár", eins og segir í kynningarbæklingi hátíðarinnar, en þeir voru aldrei kærðir fyrir eitt né neitt.

Myndin sem er hér til hliðar er af kynningarspjaldi sem notað hefur verið vegna myndarinnar í Evrópu að mér sýnist, en vestur í Amríku var annað kynningarspjald notað og varð býsna umdeilt, enda bannaði bandaríska kvikmyndaeftirlitið upprunalega gerð þess og því varð að búa til nýtt. Kvikmyndaeftirlitinu, MPAA, þótti sem myndin, sem sjá má til vinstri hér fyrir neðan, of hryllileg til að hengja mætti hana upp þar sem börn og viðkvæmar sálir gætu séð það enda benti strigahauspokinn sem fanginn ber til þess að verið væri að pynta hann.

Ekki vil ég vanmeta umhyggju kvikmyndaeftirlitsins fyrir bandarískum börnum, en ótal dæmi eru um hryllileg veggspjöld sem eftirlitið hefur engar athugasemdir gert við, til að mynda veit ég ekki betur en að á auglýsingaspjöldum fyrir þá ömurlegu mynd Saw II hafi verið afskornir líkamshlutar. Það sem gerir þessa ákvörðun svo sérdeilis öfugsnúna er að samkvæmt túlkun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna á það ekkert skylt við pyntingar að setja á menn hauspoka á þann hátt sem sýnt er á spjaldinu og brýtur ekki í bága við bandaríska mannréttindahefð. (Þeim, og forsetanum, finnst það reyndar ekki heldur brjóta í bága við þá hefð að draga menn fyrir rétt og dæma síðan fyrir óljós afbrot byggt á sönnunargögnum sem ekki má skýra frá hver eru og framburði vitna sem njóta nafnleyndar og enginn má lesa framburðinn, sjá eða heyra.) Það brýtur aftur á móti í bága við reglurnar að tjóðra menn á þann hátt sem sýndur er á seinni myndinni, þeirri hægra megin. Það má því segja að MPAA hafi bannað myndspjald sem sýnir löglega meðhöndlun fanga (að mati varnarmálaráðuneytisins) en leyft spjald sem sýnir ólöglegar aðfarir.

Þess má svo geta að tveir þremenninganna verða gestir hátíðarinnar og Amnesty International og taka þátt í málþingi um Guantánamo-fangabúðirnar í Iðnó. (Það verður fróðlegt að sjá þá, ekki síst í ljósi þess að þeim (og öðrum föngum í Guantánamo) var lýst sem þeir væru verstir allra (The Worst of the Worst) af háttsettum yfirmanni í bandaríska hernum.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Blindgatan er að þrengjast og brátt fara illvirkjarnir, sem athafna sig undir stjörnum og strípum, að reka sig á ...

Jón Agnar Ólason, 21.9.2006 kl. 20:41

2 identicon


Skammast mín fyrir að hafa ekkert gáfulegra að segja, en þeir sem klipptu myndina Fight Club áttu við svipað mál á sínum tíma. Atriðið þar sem Hr. Aðal situr klofvega á hinum ljóshærða og fríða Jared Leto og lemur í hakkabuff þótti of ógeðfellt, enda sáust hnefahöggin dynja á síbólgnandi andlitinu. Klipparar sýndu þá þess í stað viðbrögð nærstæddra, en sú útgáfa myndarinnar er einmitt mun ógeðfelldari, þar sem meira er skilið eftir fyrir áhorfandann. Það að sjá viðbrögð fólksins þar sem það grettir sig og tekur fyrir augun hafði mun meiri áhrif á mig, heldur en að sjá aksjúal barsmíðarnar.

Plakatið að ofan gerir akkúrat það sama, því það veit enginn hvernig útlítandi greyið handjárnaði maðurinn er.

Og það sama fannst mér um upptökur frá 9-11 þar sem nærstaddir sáust fylgjast með einhverju detta úr mikilli hæð, og taka fyrir andlitið þegar hluturinn lenti.

Halli (IP-tala skráð) 2.10.2006 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband