Miðvikudagur, 27. september 2006
Blóðfjallið klifið
Innan tónlistarinnar rúmast margir kimar, menningarkimar og ómenningarkimar, óteljandi afbrigði af tónlist geta af sér óteljandi klíkur sem láta kannski duga að hlusta á tónlistina, en oftar en ekki fylgir sérstakur klæðaburður "einkennisbúningur" og hegðan. Allt er þetta til þess fallið að treysta samloðun hópsins; klíkufélagar standa saman gegn öðru klíkum og ekki síst gegn yfirvöldum eða yfirvaldi - þátttaka í hóp er uppreisn gegn ríkjandi hóp, ríkjandi smekk, ríkjandi tísku.
Gott dæmi um þetta er þungarokkið þar sem menn skipast í hópa efir því hversu harða tónlist þeir hlusta á, eða eftir inntaki texta eða eftir klæðaburði. Allt skarast þó og þannig hafa margir Slayer-vinir líka einhverja skemmtun af poppi á við Iron Maiden og þeir sem dá Meshuggah hlusta líka á Audioslave þó kannski ekki nema með öðru eyranu. Þungarokkunnendur eru semsagt flestir umburðarlyndir gagnvart öðru þungu rokki, enda finnst þeim sem þeir séu allir á sama báti þó hver sé í sinni káetu.
Málið vandast aftur á móti þegar lið úr annarri deild fer að kássast upp á jússurnar, þegar "indí"-lið fer að hlusta á þungarokk, mætir kannski á Slayer-tónleika í Sonic Youth bol eða þaðan af verra. Þá er hætt við að hinir hreintrúuðu snúi sér annað, saki hljómsveitir sem höfða til slíkra áheyrenda um listrænt hórerí; um að hafa svikið málstaðinn.
Bandaríska rokksveitin Mastodon glímir einmitt við þetta vandamál um þessar mundir. Sveitin spilar geysiþétt og hart þungarokk með grófum öskursöng, dæmigerð metalsveit um margt en síðasta plata hennar, Blood Mountain, hefur náð eyrum fjölmargra annarra en þungarokkvina. Nægir að nefna að hljómsveitin hefur verið áberandi í tímaritum og á vefsetrum sem alla jafna fjalla helst um nýbylgju og tilraunakennt rokk.
Mastodon er sprottin úr prog-rokksveitinni mögnuðu Today Is the Day, en þeir Bill Kelliher og Bränn Dailor voru báðir meðreiðarsveinar Steve Austin í Today Is the Day, sá fyrrnefndi á gítar og sá síðarnefndi á trommur. Today in the Day var og er fræg fyrir bræðing af þungarokki, harðkjarna og óhljóðum en þeir Kelliher og Dailor áttu ekki skap við Austin og stoppuðu þar stutt.
Kelliher og Dailor bjuggu þá í New York fylki en fluttust til Atlanta í leit að meira fjöri. Þar hittu þeir fyrir bassaleikarann Troy Sanders og gítarleikarann Brent Hinds, sem báðir eru að auki traustir söngvarar. Svo vel fór á með fjórmenningunum að þeir ákváðu að slá sama í hljómsveit og voru ekki lengi að semja upptökuhæft efni. Fyrstu upptökurnar sem Mastodon gerðu þeir vorið 2000 og héldu síðan í mikla tónleikaferð um Bandaríkin, ýmist að þeir héldu tónleika einir á smábúllum eða þeir hituðu upp fyrir ekki ómerkari sveitir en Queens of the Stone Age, Morbid Angel og Cannibal Corpse. Svo vel stóðu þeir félagar sig á sviði að eftir var tekið og dugði til að þeir fengu samning hjá rokkútgáfunni góðu Relapse.
Fyrsta Mastodon-platan var stuttskífan Lifesblood sem kom út haustið 2001. Fyrsta breiðskífan var svo hljóðrituð síðar um haustið með Matt Bayles við takkana, en hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa unnið með þeirri frábæru sveit Isis. Remission hét platan og kom út snemma árs 2002. Það ár og fram eftir 2003 var sveitin síðan á tónleikaferðalagi meira og minna og kom meðal annars hingað til lands og lék á tvennum tónleikum um miðjan júlí 2003, en þá þegar voru fleiri en þungarokkvinir farnir að sperra eyrun, ekki síst fyrir það hve sveitin þótti mögnuð á tónleikum.
Haustið 2003 hófst vinna við nýja plötu sem kom svo út í ágúst 2004 og hét Leviathan. Eins og sjá má af umslagi plötunnar er viðfangsefnið hvíti hvalurinn Moby Dick og nokkur lög á plötunni beinlínis samin uppúr bókinni eftir Herman Melville. Platan fékk frábæra dóma, en einhverjir kvörtuðu þó yfir því að þeir félagar hefðu teygt sig of langt frá þungarokkinu í átt að framúrstefnulegu rokki, að of mikið "progg" væri á plötunni og hljómur of hreinn. Hvað sem því líður þá varð Leviathan enn til að ýta undir áhuga á Mastodon og ekki bara hjá tónlistarunnendum, heldur tóku stórfyrirtækin við sér og kepptust um að bjóða sveitinni útgáfusamning. Á endanum sömu þeir félagar við Warner útgáfuna sem lofaði að leyfa þeim að ráð því sem þeir vildu við lagasmðiðar og upptökur.
Margur óttaðist að þar með væri Mastodon gengin hinu illa á hönd og eftir þetta yrðu plötur sveitarinnar álíka lap og síðustu fimmtán ár af Metallica. Á meðan menn biðu eftir nýrri plötu sem skera myndi úr um það héldu þeir Mastodon-menn gömlum og þó aðallega nýjum aðdáendum sínum við efnið með safnskífunni Call of the Mastodon. Það var mörgum síðan léttir þegar fyrsta Warner-platan kom út um daginn, Blood Mountain, og var ekki síðri en fyrri verk.
Á Blood Mountain eru þeir Mastodon-félagar enn að dagrétta hljóm sinn og fínpússa músíkina, eitthvað sem gamlir þungarokkhundar eiga eflaust eftir að kveinka sér undan, en sveitin er á réttri leið að mínu mati, fórnar ekki krafti eða djöfullegri stemmningu fyrri verka, en miðar sér þó áfram, þróar tónmál sitt og hljóm úr stað þess að hjakka í sama farinu. Gestir á skífunni gera sitt til að gera plötuna skemmtilega, Josh Homme, Scott Kelly og Cedric Bixler-Zavala, en Blood Mountain er þó gegnheil Mastodon-plata - frábær plata og ein af bestu plötum ársins, svo mikið er víst.
Hluti af kynningarefni með skífunni er leiðarvísir um blóðfjallið sem skoða má neð því að smella hér (PDF-skjal) en gætið að því að það er mjög stórt, rúm 3 MB.
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.