Hver er maðurinn?

Shakespeare fundarMeira hefur verið skrifað um William Shakespeare en nokkurn annan rithöfund lífs eða liðinn. Í nýlegri bók eftir Bill Bryson kemur þannig fram að á skrá hjá British Museum séu 13.858 skráningar undir höfundarskráningu Shakespeares og 16.092 sé leitað eftir nafni hans sem viðfangi. Í bókasafni þingsins bandaríska eru og skráðar sjö þúsund bækur um Shakespeare og í ritinu Shakespeare Quarterly kemur fram að á hverju ári séu gefin út um fjögur þúsund rit á ári um Shakespeare og verk hans, bækur, ritlingar, tímarit og tilheyrandi.
 
Þrátt fyrir allan þann hafsjó af bleki sem eytt hefur verið í Vilhjálm og verk hans vitum við raun lítið sem ekkert um hann. Við vitum ekki fyrir víst hvenær hann er fæddur en þó hvar hann fæddist. Við vitum lítið um æsku hans og uppvöxt, ekki hvaða kona hans hét, ekki hvar hann var stóran hluta ævinnar, ekkert um það hvernig hann sló svo hratt í gegn, ekki hvernig hann efnaðist og svo má lengi telja.
 
Verst af öllu finnst mönnum þó að þeir hafa litla sem enga innsýn inn í manninn, hvað þar var sem mótaði hann sem leikskáld, hvaða trúarskoðanir hafði hann (stórmál á Englandi á þessum tíma (sextándu öld)), hvernig hann vann og meira að segja hvað hann hét, eða réttara sagt hvernig hann vildi að nafn sitt væri stafsett. Þannig eru til áttatíu mismunandi rithættir á eftirnafninu á sextándu öld, en aðeins sex dæmi með eigin hendi: Willm Shaksp, William Shakespe, Wm Shakspe, Willm Shakspere, og William Shakspeare. Glöggir lesendur sjá eflaust þegar að hann skrifaði nafn sitt aldrei eins og viðtekið er í dag.
 
Það má að vissu leyti telja það kost hvað við vitum lítið um Shakespeare því fyrir vikið getur hver öld varpað sínum eigin þráhyggjum á hann, lýst honum sem samtímamanni; upplýstum menntamanni fyrr á tímum, góðlegum mannvin og viskubrunni á öðrum.

Við getum líka túlkað leikritin mjög frjálslega - sjá til að mynda hvernig við höfum breytt hörkutólinu Hamlet í tilvistarhyggjulega pissudúkku og þynnt út mergjaða illsku Makbeðs (minnist einkar þunnildislegrar uppfærslu í Iðnó fyrir þrjátíu árum eða svo).
 
Það var líka alsiða forðum, til dæmis á átjándu öldinni, að endurskrifa verkin til að þau féllu betur að tíðarandanum (saklausir máttu ekki láta lífið og ekki mátti blanda saman gamni og alvöru) og eins gera menn á okkar tímum - sjá frábæra uppsetningu Vesturports á Rómeó og Júlíu.

Líkt og William Shakespeare getur eiginlega verið hver sem er og hvað sem er geta leikritin nefnilega þýtt hvað sem er og verið hvernig sem er.

Það er líka merkilegt í sjálfu sér hvað menn hafa verið iðnir við að finna aðra höfunda að verkunum og í langflestum tilfellum án þess að hafa nokkuð fyrir sér nema hyggjuvit og óljósan innblástur. Hugsanlega er þar um að kenna að bókmenntafræðingar og aðrir sem fást við fræðigreinar geti illa sætt sig við að höfundur sem svo hafi talað til okkar að við getum ekki gleymt því hafi ekki verið háskólamenntaður dándismaður.
 
Hvernig er annars hægt að skýra það að menn hafa stungið upp á Edward de Vere, Francis Bacon, Christopher Marlowe, Sir Henry Neville og meira að segja Elísabet I. Englandsdrottning (þeir eru líka til sem segja verkin hafa verið samin af nefnd, en ekki er getið um hverjir hafi skipað þá nefnd, kannski allir ofangreindir?)

Allt er þetta aðalsfólk og engar raunhæfar vísbendingar eða sannanir til sem skjóta fótum undir þvílíkt og annað eins.  Aftur á móti eru til ýmsar vísbendingar og sannanir um að William Shakespeare hafi skrifað leikritin sem kennd eru við hann. Þannig er hans getið (niðrandi) sem höfundar Hinriks VI. í bréfi Robert Greene 1592, heimildir eru fyrir því að leikarar sem léku í verkunum hafi talið þau sem verk Shakespeares og samtíðarmenn hans og félagar gáfu út safn leikrita Shakespeare með formála eftir leikskáldið Ben Johnson. Eins má geta þess að í skjölum Johnsons fundust að honum látnum vangaveltur hans um William Shakespeare félaga sinn, hverjir hafi verið kostir hans og gallar sem leikskálds.

Við kjósum þó að líta framhjá því og enn eru skrifaðar ævisögur Williams Shakespeares sem eru meiri uppspuni en sannleikur (5% staðreyndir og 95% skáldskapur er víst normið). Það er líka býsna gott að hafa annan eins skáldjöfur sem einskonar tabula rasa og skrifa síðan það sem maður vill.

Á myndinni má sjá  fund þeirra Elísabetar I. Englandsdrottningar, Roberts Devereux jarls af Essex og Williams Shakespeares eins og málarinn Thomas Stothard sá hann fyrir sér. Stothard grunaði greinilega ekki að Elísabet og Shakespeare væru einn og sami maðurinn (ein og sama konan).

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 9. janúar.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegur og skemmtilegur pistill hjá þér - eins og alltaf. Margt sem ég les hér hafði ég enga hugmynd um. Gleðilegt ár minn kæri bloggvinur og takk fyrir skemmtileg bloggkynni á því sem er að líða.

Takk líka fyrir greinina um Rufus Wainwright í Mogga.  Ég verð að viðurkenna að ég sem taldi mig fylgjast náið með Rufusi hafði ekki hugmynd um Judy Garland ævintýrið hans. Ætla að hafa uppi á þessum tónleikadiski. Fæst hann í plötubúðum í R.vík? Og svo bíð ég auðvitað spennt eftir tónleikunum með honum 13. apríl.    

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 21:32

2 identicon

PS: Leiðrétting: Nú árið er liðið ... ekki að líða    - Og smáviðbótarspurning: Er þetta mynddiskur með honum Rufusi?

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 23:08

3 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæl vertu Anna og góðar kveðjur til þín og þinna.

Í byrjun desember kom út tvöfaldur diskur með Carnegie Hall tónleikunum, Rufus Does Judy At Carnegie Hall, og sama dag kom út DVD diskurinn Rufus! Rufus! Rufus! Does Judy! Judy! Judy! Live from the London Palladium, sem er sama prógramm. Ég er ekki búinn að sjá DVD diskinn, en á af honum hljóðrásina og hún hljómar ekki síður en Carnegie Hall tónleikarnir og betri á kafla, þó ekki sé stemmningin eins skemmtilega galgopaleg.

Sena flytur diskinn inn, en ég veit ekki hvort þeir hafi flutt DVD-diskinn inn.

Tek undir það með þér að það verður ævintýri líkast að fá að sjá stráksa hér á landi  í apríl, en af orðum þínum má ráða að þú ætlir að skella þér suður. Það líst mér vel á.

Árni Matthíasson , 8.1.2008 kl. 23:28

4 Smámynd: Höskuldur Sæmundsson

Góð lesning fyrir marga parta:  Þó er það nú svo að við vitum að hann giftist Ann Hathaway (að mig minnir að hún hafi heitið) og ef leiklistarsagan svíkur ekki eru einhverstaðar til skjöl yfir það.  Þá vitum við líka að hann eignaðist börn, eða í það minnsta eru honum eignuð ein 3 eða 4 ef ég man rétt.  Að vísu var held ég deilt um feðrun tvíbura en þeir voru skráð börnin hans (strákur og stelpa). 

Höskuldur Sæmundsson, 9.1.2008 kl. 02:26

5 Smámynd: Árni Matthíasson

Rétt athugað hjá þér, við vitum það að hann giftist en reyndar er ekki alveg ljóst hvort eiginkonan hét Anne eða Agnes. Til er hjúskaparvottorð frá nóvember 1582 þar sem fram kemur af hún hafi verið 26 ára, en Shakespeare var þá átján. Fyrsta barn þeirra, Susanna, fæddist í maí 1583 og lést 1648, og síðan tvíburarnir Hamnet og Judith í febrúar 1585. Hamnet lést ellefu ára gamall en Judith lést 1662.

Um samfarir þeirra hjóna Anne/Agnes og Williams er ekkert vitað nema það að þau eignuðust þessi börn og að hann arfleiddi hana að næstbesta rúmi sínu. Væntanlega átti hann þar við hjónasængina en slíkt húsgagn var umtalsverð verðmæti á þeim tíma, löngu fyrir daga IKEA.

Árni Matthíasson , 9.1.2008 kl. 10:30

6 identicon

Takk fyrir upplýsingar. Ég held það sé ekki spurning að fjárfesta í hvoru tveggja CD og DVD. Ég á alla hina diskana með honum, (þ.ám. DVD með Rufus Wainwright live at Fillmore)  og þetta má ekki verða útundan. Og tónleikarnir í apríl: Búið að ganga frá miðum fyrir langa löngu. Öll fjölskyldan mætir

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband