Þriðjudagur, 10. október 2006
Harmleikurinn um Gasolin'
Meðal mynda á nýafstaðinni kvikmyndahátíð var heimildarmynd um dönsku hljómsveitina Gasolin'. Sú var á sinni tíð vinsælasta hljómsveit Danmerkur og margir Íslendingar kannast við hana frá blómaskeiðinu hennar undir lok áttunda áratugarins. Enn fleiri þekkja þó helsta liðsmann hennar, Kim Larsen, sem tók þátt í að stofna sveitina á sínum tíma og síðan að leggja hana af þegar hann hugðist hefja sinn sólóferil.
Gasolin' hætti á toppnum, var vinsælasta hljómsveit Danmerkur þegar hún lagði upp laupana eftir tónleika á Bornhólmi 1978. Þeir félagar í sveitinni, Willy Jönsson, Kim Larsen, Franz Beckerlee og Søren Berlev höfðu gert með sér það samkomulag að þeir myndu hætta leik þá hæst stóð og þó Beckerlee vildi halda áfram eitthvað lengur voru hinir sammála um að nóg væri komið þar sem þeir sátu á krá á Bornhólmi undir lok júlí 1978, en síðustu tónleikar Gasolin' voru svo í Málmhaugum 21. ágúst.
Gasolin' hefur ekki komið saman aftur og að því félagarnir segja mun það aldrei gerast. Sveitin nýtur enn talsverðra vinsælda heima fyrir eins og sjá má á metsölu á safnplötum, en einnig er heimildarmyndin sem sýnd var á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík á dögunum vinsælasta heimildarmynd allra tíma í Danmörku.
Svo langvarandi vinsældir Gasolin' ráðast sjálfsagt að einhverju leyti af því að andlit sveitarinnar, Kim Larsen, naut mikilla vinsælda eftir að sveitin hætti og nýtur enn. Einnig liggur eftir sveitina talsvert af skemmtilegum lögum og svo er saga hennar forvitnileg, ekki síst fyrir togstreituna á milli þeirra Kim Larsen og Franz Beckerlee, pólanna tveggja í sveitinni eins og sést svo vel í myndinni títtnefndu - Beckerlee metnaðarfullur tónlistarmaður sem áhuga hafði á framúrstefnu og spuna og náttúrubarnið Larsen sem var beintengdur í danska þjóðarsál með öllum sínum mótsetningum, gamni og alvöru.
Beckerlee varð undir í slagnum við Larsen, fyrst þegar Larsen ákvað að syngja á dönsku, en til að byrja með voru allir textar á ensku, móðurmáli rokksins að mati Beckerlee. Sá síðastnefndi hætti nánast í sveitinni um tíma, en lét þetta þó yfir sig ganga. Hann átti þó eftir að gleypa stærri bita því næsta stríð innan sveitarinnar var það sem kalla má tónlistarlegan ágreining - Metnaður Beckerlees var annar en Larsens; Larsen vildi skemmta fólki en Beckerlee vekja það til umhugsunar.
Það stríð vann Larsen líka og það á afgerandi hátt því lögin sem félögum hans í Gasolin' fannst ekki nógu góð tók hann upp fyrir sólóskífu, Værsgo', sem naut þvílíkra vinsælda að ekki varð litið framhjá því - eftir það var það Kim Larsen sem réð ferðinni og enginn hafnaði hans lögum upp frá því. Í myndinni kemur þessi vendipunktur einmitt vel í ljós og frá þeim tíma breytist hún í einskonar harmleik; maður finnur til með Franz Beckerlee, utanvelta sem drengur og nú undirokaður í eigin hljómsveit.
Það er nú samt svo að þó Franz Beckerlee hafi verið snjall gítarleikari þá var aðeins ein stjarna í hópnum, einn í hljómsveitinni sem skar sig úr hvað varðaði hæfileika eins og sagan hefur sannað svo eftirminnilega - Kim Larsen er vinsælasti tónlistarmaður Danmerkur fyrr og síðar og vinsældir hans síst í rénun. Þegar ég hugsa til að mynda til þess eina skiptis sem ég sá Gasolin' spila, í Kristianíu 1972 eða 73, man ég fátt af þeim tónleikum fyrir ýmsar sakir, en ljóslifandi er þó þessi magnaði söngvari, löðursveittur og úfinn - það geislaði af honum slíkur lífskraftur að maður stóð eiginlega á öndinni. Ég tók varla ekkert gítarleikaranum, enda til nóg af slíkum.
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.