Barnabækur fjórar

Tók mér tíma til að lesa þrjár nýjar barnabækur og eina gamla um helgina, allar býsna góðar en ólíkar bækur. The Two Pound Tram eftir William Newton er stutt ævintýrasaga um tvo bræður sem eru eiginlega foreldralausir, því þeir hitta foreldra sína ekki nema um á miðvikudögum. Svo fer að móðir þeirra stingur af. Faðir þeirra tekur þvi svo illa að þeir bræður ákveða að strjúka að heiman og kaupa sér sporvagn sem þeir höfðu séð á auglýsingu og átti ekki að kosta nema tvö pund, eins og heiti bókarinnar ber með sér. Sagan er ævintýraleg en saman við hanna fléttar höfundur raunverulegum atburðum. Hún gerist á árunum skömmu fyrir seinna stríð og lýsir samfélagi sem er að stíga inn í nútímann, horfnum tíma þegar all gekk með öðrum hraða, svona eins og vand sem dreginn er af hesti eins og sporvagn þeirra bræðra. Skemmtilegt ævintýri kryddað smá sorg og lítilræði af trega. Kom út 2004.

The Diamond of Drury Lane eftir Julia Golding er glæný bók, kom út 2. janúar sl. Hún gerist í Lundúnum í lok átjándu aldar, um 1790 nánar tiltekið, og segir frá stúlkunni Cat Royal sem alist hefur upp í leikhúsi á Drury Lane. Bókin er fjörlega skrifuð og ævintýraleg, ævintýralega órökrétt nánar tiltekið, en það skiptir ekki meginmáli. Bókin gefur lesanda nokkuð góða mynd af því hvernig líf í Lundúnum gæti hafa verið á þessum árum, en hallærislegt finnst mér alltaf þegar höfundar bóka sem gerast í fortíðinni eyða miklu púðri í að lýsa óhreinindum og óþef, sérstaklega þegar það er gert með sterkum lýsingarorðum. Fyrir vikið missir lesandinn sjónar á söguhetjunum og fer eiginlega að horfa frekar í kringum sig og hrylla sig en að sökkva sér í söguna.

Einn vinsælasti barnabókahöfundur seinni tíma er írski höfundurinn Eoin Colfer, sem skrifaði meðal annars bækurnar um Artemis Fowl, en þær hafa komið út hér á landi og gengið vel að ég best veit. Colfer hefur skrifað fjöldann allan af bókum og sumar góðar. Bækurnar um Artemis Fowl eru ágæt skemmtun, en betri fannst mér The Wish List og The Supernaturalist, sérstaklega sú síðarnefnda sem var snúin og spennandi.

Bækurnar hans Colfers eru alla jafna miklar ævintýrabækur líkt og Artemis Fowl-serían, sem er reyndar líka vísindaskáldskapur í bland, og sumar eru hreinn vísindaskáldskapur eins og The Supernaturalist. Í sumar hefur göngu sína ný sería eftir Colfer sem er laus við allt slíkt, þ.e. ekkert yfirnáttúrlegt og lítil vísindi, sem á örugglega eftir að verða vinsæl. Fyrsta bókin í þeirri útgáfuröð heitir Half Moon Investigations og segir frá spæjaranum Fletcher Moon, sem fékk viðurnefnið Half Moon fyrir það hvað hann var smávaxinn, en hann er tólf ára gamall. Hann ákvað snemma að hann vildi verða einkaspæjari, leysti fyrsta málið þriggja ára gamall, og lærði til spæjara á Netinu. Sagan hefst þar sem hann flækist í mál sem byrjar heldur illa þegar hann brýtur fyrstu reglu einkaspæjarans - ekki verða hluti af rannsókninni. Skemmtilega skrifuð bók og nóg að gerast. Alla jafna er gamanið græskulaust, en passalega ógnvekjandi. Kemur út 1. júní næstkomandi í Bretlandi, 1. apríl vestan hafs.

Besta bókin af þeim sem hér eru nefndar að þessu sinni er Princess Academy eftir Shannon Hasle. Hún er ekki alveg ný, kom út í júlí sl. Princess Academy segir frá stúlkunni Miri sem býr í afskekktu þorpi á Eskel-fjalli þar sem fólk hefur viðurværi sitt af námavinnslu. Úr námunum vinna menn einskonar marmarastein sem er eftirsóttur en ekki ýkja verðmikill, ef marka má lífskjör manna í þorpinu. Þegar Miri er fjórtán ára ber svo við að spámenn konungsins, sem býr á láglendinu, lýsa því yfir að prinsinn verði að velja sér konu úr hópi stúlkna sem búi á fjallinu. Fyrir vikið verði allar stúlkur á aldrinum fjórtán til sextán ára að ganga í skóla til þess að læra að verða prinsessur.

Shannon Hale sannaði það með sinni fyrstu bók, The Goose Girl, að hún er góður penni, en í því endursegir hún gamla Grimmsævintýrið um gæsastelpuna. Princess Academy er líka einkar vel skrifuð, stíllinn meitlaður og lágstemmdur um leið, meira gefið í skyn en sagt er beint út. Sérstaklega fer hún vel með þær tilfinningar sem bærast með Miri í garð Peder leikfélaga síns og togstreituna milli löngunarinnar að vera hluti af samfélaginu á fjallinu og þess að verða prinsessa með þeim lystisemdum sem því hljóti að fylgja. Hale lýsir líka einkar vel atburðarásinni í prinsessuskólanum og ógnvekjandi átökum undir lokin. Sú skoðun hennar að menntun sé til alls fyrst skín í gegn í bókinni, aðallega menntun kvenna. Gæti trúað því að þessi bók myndi einkar falla stúlkum í geð, en allir ætti þó að hafa smekk fyrir henni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og tuttugu?
Nota HTML-ham

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband