Mánudagur, 23. október 2006
Fjórði í Airwaves
Það var sannkallaður langur laugardagur á Airwaves - fjörið byrjaði kl. 17:00 og stóð til um kl. 3:00. Þetta var líka einn besti dagurinn og um daginn og kvöldið sá ég þrennt af því sem helst mun lifa í minningunni um Airwaves 2006. Það fyrsta var einmitt eitt það besta sem ég sá - Jóhann Jóhannsson í Fríkirkjunni. Jóhann var öðrum þræði að kynna nýútkomna plötu sína IBM 1401, A Users Manual sem 4AD gefur út. Tónlistin var þó ekki öll þaðan, heyrðist mér, heldur líka nokkrir smellir í bland. Frábær og hrífandi tónlist og ég varð að sitja á mér að faðma ekki alla sem ég hitti í kirkjudyrunum að tónleikunum loknum. Missti mig þó við nokkra, en þeir föðmuðu bara á móti.
Tónleikahald á Grand Rokk fór nokkuð úr skorðum við það að ein hljómsveit dró sig í hlé og því þurfti ég að hinkra aðeins eftir We Made God. Breytingin bitnaði líka á þeim að því leyti að þeir fengu víst ekkert sándtékk eins og heyra mátti á fyrstu lögunum, en síðan small allt saman. Mjög skemmtilegir tónleikar og sérstaklega var síðasta lagið magnað. Þess má geta að ritstjóri Kerrang! sem ég vélaði á tónleikana lauk lofsorði á þá pilta. Veit vonandi á gott.
Vegna seinkunarinnar missti ég af Úlpu og Pétri Ben sem er vitanlega hið versta mál, en mætti þó á réttum tíma til að sjá Bigga með alrafmagnaða hljómsveit. Fyrsta lag sveitarinnar var afbragðs og annað lag ekki síðra. Sveitin er býsna fjölmenn en nær þó vel saman og lögin bera vel útsetninguna. Mér fannst Biggi líka syngja mjög vel og betur en ég hef áður heyrt til hans.
Johnny Sexual var á Gauknum með sitt siðspillta lostadiskó, frábær tónlist ef uppsetningin á sviðinu gekk illa upp. Grafíkin var þó fín og Johnny hæfilega fjörugur miðað við lakónískan sönginn. Myndastyttan með hljómborðið lagði aftur á móti ekki mikið til málanna.
Vegna tafa í Iðnó náði ég í smá af lágstemmdri Kiru Kiru. Í kjölfarið greip ég svo tillögu Atla Bollasonar á lofti og steðjaði upp í Þjóðleikhúskjallara að sjá Hjaltalín. Það var skemmtileg blanda af kammerpoppi og smá tilraunakenndu rokki. Fín sveit og efnileg með frábæran söngvara.
Aftur var haldið af stað niðrí bæ, nú til að sjá Evil Madness. Sú súpergrúppa var þó lengi að hitna og mér fannst til að mynda fyrsti stundarfjórðungurinn heldur klénn, þó aðeins hafi verið slegið í eftir því sem á leið Ekki nógu evil fyrir minn smekk.
Ekkert vantaði aftur á móti uppá fjörið hjá FM Belfast á Pravda, geggjað diskófjör, NB: 21. aldar diskó. Mæli með því að fólk sæki sér lög á myspace.com/fmbelfast (hlustið eða notið MySpaceMP3Gopher).
Við komuna út í Iðnó var Stórsveit Nix Nolte einmitt að stilla upp. Hugmyndin á bak við sveitina var frábær á sínum tíma en er kannski orðin dáldið þreytt. Hvað sem því líður var engin þreytumerki að finna á músíkinni og fyrsta lagið var spilað af íþrótt - mjög skemmtilegt klifunarkennt lag. Annað lag sveitarinnar var aftur á móti heldur venjulegra og við svo búið hélt ég af stað upp í Þjóðleikhúskjallara.
Jen Lekman datt víst inn fyrir Jenny Wilson þegar sú síðarnefnda heltist úr lestinni vegna veikinda. Hann var einn á ferð með ukulele og fór skemmtilega með; gamansamur náungi og viðkunnanlegur þó hann hafi ekki verið vel undirbúinn fannst manni. Erlend Øye mætti á staðinn og tók með honum eitt lag og í lokin mætti Benni Hemm Hemm með hluta af sínum fríða hornaflokki og sló botninn í lokalag tónleikanna.
Patrick Watson sýndi í 12 Tónum að þar færi ein af stjörnum hátíðarinnar og hann brást ekki í kjallaranum, gríðarlega skemmtilegir tónleikar þar sem hann og sveitin öll fór á kostum. Flottur söngvari hann Watson og hljómsveitin frábær.
Það var komið fram á nótt þegar Patrick Watson söng síðustu laglínuna, klukan að verða tvö, en ég ákvað samt að ég þyrfti aðeins meiri músík og ákvað að skella mér í Nasa að sjá þá Ívar og Guðna Rúnar, Dr. Mister & Mr. Handsome. Þegar ég kom niðreftir var Hermigervill enn að þó komið væri fram yfir áætlaðan tíma hans. Hann vildi og meira og gekk erfiðlega að koma honum af sviðinu. Margt af því sem hann var að spila var gott en sumt fannst mér gamaldags.
Þegar Hermigervill loks þagnaði voru menn skotfljótir að koma upp græjum fyrir strákana, en heldur lengi að tengja tölvubúnað. Það gekk þó á endanum og stuðið byrjaði. Þeir félagar Dr. Mister & Mr. Handsome voru fljótir að koma fjörinu af stað, mikið stuð og skemmtilegt fannst mér þó ég hafi ekki verið í kösinni fyrir framan sviðið - þrælfínt band.
(Árni Torfason tók myndina af Bigga, sjá: arni.hamstur.is)
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 25.10.2006 kl. 09:05 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Við þökkum kærlega fyrir mætinguna á airwaves!!!
Við getum ekki lýst því hvað við erum þakklátir
kv.Maggi (We Made God)
Magnús Bjarni Gröndal (IP-tala skráð) 23.10.2006 kl. 23:16
Það virðast ekkert allir hafa fattað að ég
(myndastyttan með hljómborðið) var að
stjórna allri grafík á sviðinu, með hljóm-
borðið, hjá Johnny Sexual. Annars veit ég
ekkert hvernig ég ramblaði inn á þetta blogg.
Skemmtilegt.
kv,
Siggi Eggertsson
Siggi Eggertsson (IP-tala skráð) 31.10.2006 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.