Treystu viðskiptavininum

Smám saman kemst mynd á það hvernig verslun með tónlist verður háttað á Netinu í framtíðinni. Flest sýnist mér benda til þess að sú viðskiptahugmynd að gera fólki sem erfiðast fyrir að nýta það sem það er að kaupa, takmarka frelsi viðskiptavinarins sem mest, sé á undanhaldi. Framan af lögðu menn mikla áherslu á áskrift og helst þannig áskrift að viðkomandi gæti ekki spilað tónlistina nema í tölvunni sem hann notaði til að sækja hana. Einnig var verð fullhátt fannst manni, lítið ódýrara að kaupa á Netinu til að lesa niður á tölvu en að kaupa á diski með litprentuðum bæklingi og tilheyrandi.

Vendipunktur í rafrænum viðskiptum með tónlist var iTunes-verslun Apple sem bauð upp á einfalda hugmynd, engin áskrift heldur gátu menn keypt það sem þeir vildu og síðan spilað að vild í iPod spilastokk sínum, á tölvunni eða brennt á disk. verðið var líka einfalt: 99 sent fyrir hvert lag, sama hver flytjandinn var. Eini gallinn að maður þurfti að eiga iPod.

Verðið er mismunandi á milli landa og þannig kostar hvert lag 79 pens hjá iTunes í Bretlandi sem samsvarar um 87 krónum. Íslensk netverslun með tónlist er Tónlist.is og þar á bæ hafa menn valið að hafa gjaldskrána fullflókna og því erfitt að átta sig á hvað hvert lag kostar. Þar stendur þó að lag sem sótt er á harðan disk tölvunnar kosti allt að 99 kr. Síðan er hægt að kaupa inneignir og í boði er streymiáskrift, hvort tveggja óttalegt rugl að mínu mati.

Engu er hægt að spá um það hvort iTunes eigi eftir að skila sér hingað til lands og reyndar segja menn að upplýsingar um það hvar næst verði opnuð slík verslun liggi sjaldnast á lausu. Fljótt á litið er íslenskur markaður það lítill að menn flýta sér ekki að sækja inn á hann, í það minnsta ekki á meðan stærri markaðssvæði eru óunnin.

Íslensk tónlist er til sölu á Tónlist.is, ýmisleg tónlist og líklega flestallt það sem komið hefur út hér á landi. Þar er einnig hægt að kaupa eitthvað af erlendri tónlist. Í þeirri sjoppu er úrval þó ekki nema meðallagi gott fyrir minn smekk í það minnsta. Víst eru í boði 250.000 lög, sem hljómar kannski gríðarlega mikið en er það reyndar ekki. Úrval íslenskra laga hjá Tónlist.is er víst um 200.000 lög og á utanáliggjandi disk sem ég er með tengdan við heimatölvuna mína eru alls 47.711 lög (3.954 plötur), sem mér þykir ekki ýkja mikið þegar ég er að leita að einhverju til að hlusta á enda skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað lögin eru mörg ef þar er ekki að finna þau lög sem maður vill heyra.

Ég kannaði hvað til var hjá Tónlist.is af bestu tónlist liðins árs, að mínu mati að minnsta kosti, og leitaði að fjórum plötum sem ég skipaði á topp tíu: I Am A Bird Now með Antony & The Johnsons, Feels með Animal Collective, Illnoise með Sufjan Stevens og Separation Sunday með Hold Steady. Af þessum plötum fann ég eina plötu, I Am A Bird Now og gat keypt hana á 1.049 kr. Hinsvegar fann ég gríðarlegt magn af tónlist sem ég vissi ekki að væri til, mikið safn af norsku poppi og óteljandi hljómsveitir sem ég hafði hvort heyrt um né séð áður. Ekki er gott að telja það upp hér, en mér leið eins og ég væri kominn í plötubúð í annarri vídd - hugsanlega frábær tónlist en gersamlega framandi mér sem hef þó haft atvinnu af að fylgjast með tónlist í um tæpa tvo áratugi og fylgst með af áhuga í rúma fjóra.

(Það er svo annað mál hvað tækileg atriði eru í miklu ólagi hjá Tónlist.is, eins og til að mynda það hvað allt er illa skipulagt hjá þeim, óhentugt og hægvirkt, hve langan tíma það tekur að sækja sér lög og svo það að allt er bundið við Microsoft-lausnir - þegar ég reyni að tengjast með Firefox eða Opera kemur upp: "Því miður er vafrinn þinn ekki studdur af vefsvæðinu." Meiri aulagangurinn.)

Þó ekki sé hægt að komast í iTunes hér á landi og lítið af viti að finna á vefþjónum Tónlistar.is ef litið er til erlendrar tónlistar eru ýmsar leiðir færar til að skaffa tónlist. Margir sækja sér tónlist á Netið án þess að hirða um höfundarrétt og hungraða listamenn (eða sílspikaða útgefendur). Betur hugnast mér að greiða fyrir tónlistina, ekki síst ef ég kemst í nýjustu tónlist jafnharðan og hún kemur út (og þarf ekki að ösla úrgangspopp í ökkla). Í þónokkurn tíma hef ég nýtt mér þjónustu fyrirtækis sem kallast Emusic.

Emusic rekur vefverslun með tónlist og er ein sú elsta á sínu sviði. Þar var snemma tekin sú skynsamlega ákvörðun að dreifa tónlist á mp3-sniði og án þess að pakka henni svo saman að það sé ekki hægt að spila hana nema í einni gerð spilastokka, ekki hægt að gera afrit eða ámóta. Viðskiptamódelið byggist reyndar á áskrift, en þó ekki dýrari en svo að fyrir níu dali og níutíuogníu sent, um 630 kr., er hægt að sækja sér 40 lög á mánuði. Það myndi duga fyrir megninu af ofangreindum plötum og öllum ef Sufjan væri ekki svo fjandi frjór (22 lög eru á Illinoise). Það er reyndar einn af göllunum við skipulag þeirra Emusic-manna að miðað er við stök lög og þannig getur verið dýrt að sækja sér plötu með stuttum lögum. Nefni sem dæmi plötuna Sounds of North American Frogs, sem mig hefur lengi langað í. Hjá Emusic get ég sótt þá plötu alla, en það er býsna dýrt, myndi kosta hálfa þriðja mánuð af lögum því á plötunni eru 92 "lög", flest um eða innan við hálf mínuta hvert. Þá er hagkvæmara að kaupa hana á Amazon á 11,98 dali (um 760 kr.).

Emusic leggur áherslu á að semja við smáfyrirtæki og óháð og úrvalið af tónlist er einmitt mjög mér að skapi, lítið um léttasta popp, en þess meira af spennandi og forvitnilegri tónlist. Ritstjórn er starfandi við vefinn sem skrifar plötudóma og greinar um tónlistarstefnur, tímabil og tónlistarmenn þá sem tónlist eiga á vefnum. Lagasafnið er nú komið í milljón lög og salan hálf fimmta milljón laga á mánuði, en alls hefur fyrirtækið selt ríflega 45 milljón lög á síðustu tveimur árum. Talsvert minna en iTunes, en mun meira en aðrar álíka verslanir, til að mynda Rhapsody, MSN, Yahoo! og Napster. Reyndar er þetta meira en þessi fyrirtæki öll hafa selt samanlagt, svo greinilegt er að Emusic hefur valið rétta leið inn á markaðinn, annars vegar með því að treysta viðskiptavinum sínum (nota opið gagnasnið) og hins vegar með því að stíla in á tónlistaráhugamenn, því þeir hafa eðlilega fæstir beinlínis áhuga á léttri popptónlist. (Það er reyndar nokkuð af poppi til hjá Emusic, til að mynda plötur Coldplay, því útgefandi þeirra telst óháð fyrirtæki þó risi dreifi.)

Ekki er hægt að sækja allt til Íslands sem Emusic hefur upp á að bjóða, öðru hvoru rekst maður á plötur sem samningar leyfa ekki að séu seldar yfir netið hingað. Sem dæmi má nefna Bloomed, fyrstu plötu Richards Buckners sem kom út 1994, en hana er ekki hægt að sækja sem stendur í það minnsta.

Nýjar fréttir herma að Amazon hyggist hefja sölu á tónlist í rafrænu formi og að sú sala byggist á áskrift, semsé: notendur greiða fyrir ákveðið mánaðargjald og geta síðan sótt sér tónlist að vild. Í ljósi þess hve Amazon hefur lagt mikla áherslu á að vera með sem mest úrval af tónlist til sölu má gera ráð fyrir því að eins verði að málum staðið með sölu á tónlist á rafrænu sniði og þá verður erfitt að standast Amazon snúning. Þeim farnast best sem treysta viðskiptavininum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tíu?
Nota HTML-ham

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband