Smátt saxaður laukur

Günter GrassFyrir nokkru bloggaði ég um sjálfsævisögu Günters Grass Peeling the Onion / Beim Häuten der Zwiebel. Ég jók nokkuð við þá bloggfærslu að beiðni útgefanda þess ágæta rits Þjóðmála og hún birtist í síðasta hefti ritsins og síðan hér:

Sjálfsævisaga , Laukurinn flysjaður, Beim Häuten der Zwiebel (Peeling the Onion í enskri þýðingu), vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á þarsíðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn.

Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð og sumir gengu svo langt fyrr á árum að kalla hann samvisku Þýskalands, ekki íslenskir vinstrimenn sem höfðu mætur á vestur-þýskum sósíaldemókratisma og fögnuðu tilraunum Willy Brants til að bæta samskiptin við ríkin austan járntjalds.

Grass ætlaði að verða listamaður, málari, en varð rithöfundur. Fyrsta bók hans var Blikktromman, Die Blechtrommel, kom út 1959, sem sagði frá drengnum of Óskari Matzerath sem neitaði að verða stór, hafnaði lygum og málamiðlunum heims hinna fullorðnu. Blikktomman var fyrsta bókin í svonefndum Danzig-þríleik, önnur bókin var Köttur og mús, Katz und Maus, sem kom út 1961 og sú þriðja Hundaár, Hundejahre, sem kom út 1963. Bækurnar tengjast allar innbyrðis, deila persónum, og segja sögu Þýskalands frá því fyrir seinna stríð og til eftirstríðsáranna.

2002 kom svo út Krabbagangur, Im Krebsgang, sem mætti telja fjórðu Danzig-bókina, enda rekur hún söguna áfram, rifjar upp þegar skipinu Wilhelm Gustloff var sökkt 30. janúar 1945 með um 10.000 manns innan borðs, en talið er að um 9.400 hafi látið lífið. Í Krabbagangi er Tulla Pokriefke ein af þeim sem komast af.

Grass var gagnrýndur fyrir Krabbagang, enda fannst mörgum sem hann væri að draga upp mynd af Þjóðverjum sem fórnarlömbum í seinni heimsstyrjöldinni, en hann lýsti því svo í viðtali við The New York Times í apríl 2003 að fyrir honum hafi vakað það eitt að koma í veg fyrir að hægriöfgamenn nýttu sér harmleikinn sem skipsskaðinn vissulega var. "[Öfgamennirnir] halda því fram að Gustloff-harmleikurinn hafi verið stríðsglæpur, en svo var ekki. Víst var hann skelfilegur, en hann var afleiðing stríðs, hræðileg afleiðing stríðs."

Blikktomman, Köttur og mús og Krabbagangur hafa komið út á íslensku en ekkert bólar á Hundaárum, en í þeirri bók gerir Grass upp við fortíðina og sjálfan sig, gerir upp við Þýskaland nasismans og Þýskaland eftirstríðsáranna sem ekki getur horfst í augu við voðaverk nasismans og lítur því undan.

Þetta var reyndar margkveðið stef í þýskum bókmenntum og vel kynnt hér á landi á sjöunda og áttunda áratugnum, meðal annars fyrir atbeina Íslendinga sem menntaðir voru í Austur-Þýskalandi og fengu þar þá innrætingu að í Vestur-Þýskalandi hefðu menn sæst við nasista á meðan hreintrúaðir sósíalistar hefðu haldið baráttunni áfram. Sjá til að mynda forvitnilega Morgunblaðsgrein 14. febrúar sl. eftir Ingimar Jónsson íþróttafræðing og rithöfund, sem menntaður var í Austur-Þýskalandi og hefur ekki kastað trúnni.

Í ljósi þess sem Günter Grass ljóstraði síðar upp er Hundaár einkar forvitnileg lesning því hann er ekki síst að lýsa því hvernig hann neitaði að horfast í augu við sjálfan sig:

Hundaár er í þrem hlutum. Í fyrsta hluta hennar segir gyðingurinn Eudard Arnsler frá Walter Matern vini sínum og lífi þeirra á árunum fyrir stríð þegar nasistaflokkurinn verður til.

Í öðrum hlutanum segir Harry Liebenau frá, rekur sögu ástar sinnar á Tulla Pokriefke, en eins og Grass nefnir í Beim Häuten der Zwiebel er hann Harry Liebenau og ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá borgina Danzig í Tullu Pokriefke, borgina sem hann elskar sem heimabæ sinn en sem verður síðan ógeðfelld minning um ofsóknir og kúgun.

Walter Matern, sem var andvígur nasistum og fékk að kenna á því á árunum fyrir stríð, segir svo frá í þriðja hlutanum, rekur ferð um land í sárum til að leita hefnda fyrir allt það sem hann hlaut að þola fyrir andúð sína á nasistum.

(Þess má geta að Hundaár heitir svo eftir hundum, fyrst Senta sem gat Harras sem gat Prinz, svartan fjárhund sem borgarstjórn Danzig gaf Adolf Hitler við heimsókn kanslarans til borgarinnar. Á endanum strauk Prinz úr byrginu í Berlín og leitaði uppi nýjan eiganda - fékk nóg af nasistum.)

Í upphafi Beim Häuten der Zwiebel líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."

Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.

Í bókinni lýsir hann æsku sinni og uppeldi og því hvað hann varð snemma listhneigður, skrifaði meira að segja snemma skáldsögu mikla, en þakkar fyrir það í dag að hún hafi glatast í umróti stríðsáranna og með með henni hugsanleg ljóðs, ljóð sem hann segir hafa hugsanlega samið það sem hann mærði leiðtogann mikla og drauminn um þriðjaríkið ; Grass var nefnilega nasisti og vildi leggja sitt af mörkum, skráði sig í herinn með á von í brjósti að verða kafbátssjómaður. Hann þótti aftur á móti ekki nógu mikill bógur í svo erfitt hlutverk, var settur í heimavarnarliðið en síðan kallaður í Waffen-SS, hernaðararm hinna innræmdu stormsveita Himmlers í nóvember 1944.

Hersveit hans var send á vígstöðvarnar í ferbúar árið eftir, en í apríl særðist hann í orrustu, var handtekinn og sendur í bandarískar stríðsfangabúðir sem varð honum væntanlega til lífs því ef hann hefði lent í klóm sovéska hersins hefði hann líkastil endað ævina í Síberíu því Sovétmenn tóku mjög hart á liðsmönnum SS og Waffen-SS.

Grass rekur þessa sögu skilmerkilega í bókinni en víða ber hann þó við minnisleysi eða fer fljótt yfir sögu. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var nánast lokið.

Þegar hann lýsir bréfinu sem berst þar sem það er tilkynnt að hann sé kallaður til herþjónustu í Waffen-SS mann hann til að mynda lítið og nefni hve freistandi það sé að draga fram allskyns afsakanir og útskýringar, en vísar síðan í söguna af Harry Liebenau sem getið er hér að ofan.

Í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Joseph Alois RatzingerSvo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi, hafði verið í Hitlersæskunni en ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.

Eftir að hafa verið í haldi Bandaríkjamanna og síðar Breta var Grass sleppt úr haldi enda var hann ekki talinn hæfur til erfiðisvinnu vegna sprengjubrots sem hann var, og ber enn, í vinstri öxlinni - fyrir vikið losnaði hann við það að vera sendur til að vinna í welskri kolanámu eins margir félagar hans. Hann lenti í basli við að eiga í sig og á, líkt og flestir samlandar hans um þessar mundir, og lýsir tilfinningum sínum svo eftir að honum var sleppt, eftir að hann fékk frelsi sem hann átti erfitt með að skilja og skilgreina:

"Notaði stefnulausi svartamarkaðsbraskarinn sem bar nafn mitt klæki sína sem afsökun til að komast hjá því að fara aftur í skóla og fresta lokaprófi sínu? Hugleiddi ég að gerast lærlingur og þá í hvaða iðn?

Saknaði ég föður míns, móður og systur svo mjög að ég var tíður gestur á skrifstofum sem birtu flóttamannalista?

Voru þrengingar mínar bundnar við mig einan eða náðu þær til heimsins alls? Nánar tiltekið, tók ég þátt í því sem þá hafði fengið heitið, gæsalappalaust, samsekt Þjóðverja? Getur verið að sorg mín hafi aðeins náð til þess að ég glataði húsi, heimili og fjölskyldu og einskis annars? Hvað syrgði ég annað sem glataðist?

Svör lauksins eru eftirfarandi, þó með eyðum:

Ég gerði engar tilraunir til að skrá mig í skóla í Köln og lærlingsstaða freistaði mín ekki.

Ég skilaði engum umsóknum til skráningarstofu sem hélt skrá yfir flóttamenn frá austurhluta landsins eða yfir þá sem misst höfðu heimili sín í loftárásum. Mynd móður minnar var skýr í huga mér, en ég saknaði hennar ekki svo mjög. Ég skrifaði engin saknaðarljóð.

Ég fann ekki til neinnar sektar."

Beim Häuten der Zwiebel lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, og lokaorð Grass eru þau að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - vill kannski forðast að fletta of mörgum lauklögum, enda er enginn kjarni þegar flett hefur verið öllum lögum lauksins.

(Minni myndin er af Joseph Alois Ratzinger sem síðar tók sér nafnið Benedictus, sextándi páfinn sem það gerði.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband