Nútíminn er vondur

Með reglulegu millibili birtast niðurstöður rannsókna um að þetta og hitt sé óhollt fyrir okkur, hvort sem það eru rafsegulbylgjur, sætuefni (aspartam), skyndibitar eða sjónvarp. Tilgangur slíkra rannsókna virðist iðulega vera sá að sanna að nútíminn sé slæmur, óhollur og gott ef hann er ekki banvænn.

Sumt slíkra rannsókna má kalla gervivísindi, eins og rafsegulbylgjubullið sem gýs upp aftur og aftur, ósannaðar staðhæfingar um heilsufarsvandann ógurlega sem fylgi raflínum, farsímum og álíka búnaði. Líkt og var með járnbrautavæðingu fyrri tíma mun tíminn afsanna rafsegulbullið, eða hver heldur því fram í dag að það að fara hraðar en ríðandi hestur sé óhollt og eigi eftir að kalla fram allskyns kvilla og krankleika? Minni á að þrátt fyrir alla farsímavæðingu og raflagnafjöld bólar ekki á heilsufarsvandanum mikla - fyrsta farsímasamtalið fór fram fyrir 33 árum.

Dæmi um gagnslausar rannsóknir er obbi rannsókna um skaðsemi sjónvarpsáhorfs. Slíkar rannsóknir skoða oft hvernig börnum sem horfa mikið á sjónvarp farnast í skóla miðað við börn sem horfa lítið á sjónvarp sem er ótækur samanburður því það er svo margt annað sem spilar inní og eins líklegt að grunnástæða þess að börnin horfi mikið á sjónvarp sé orsakavaldur frekar en sjónvarpsglápið sjálft.

Tökum dæmi. Nú kemst ég að því að börnum sem búa í einbýlishúsum sem eru 250 fermetrar eða stærri vegnar betur í skóla en börnum sem búa í íbúðum sem eru 70 fermetrar eða minni. Þar er komin rannsóknarniðurstaða sem bendir til þess að fermetrafjöldi skipti máli við námsárangur. Þetta er vitanlega della og álíka della reyndar og með það hvort sjónvarpsáhorf sé slæmt, hér spilar annað inní.

Í frægri grein velta þeir Stephen J. Dubner og Steven D. Levitt því einmitt fyrir sér hvað skipti máli þegar námsárangur barna er annars vegar. Í greininni, sem birtist í USA Today og er einnig birt nokkuð breytt í bók þeirra Freakonomics, segja þeir frá mikilli rannsókn vestan hafs á námsárangri 20.000 barna, Early Childhood Longitudinal Study, sem sýnir meðal annars að líkastil sé ofmælt að fjórðungi bregði til fósturs.

Í rannsókninni kemur fram að ef fimmtíu bækur eða fleiri séu til á heimili barns fái það að jafnaði betri einkunn en ef engar bækur er þar að finna. Ef bækurnar eru hundrað eða fleiri hækka einkunnir barnsins enn. Þetta er allt gott og blessað, en málið bara það að hér virðast erfðir skipta meira máli en bækurnar, þ.e. bókafjöldinn er frekar til marks um að foreldrarnir séu gáfaðir, en að hann auki gáfur barnanna. Í rannsókninni kemur einmitt fram að gáfaðir foreldrar eru líklegri til að eignast gáfuð börn, en heimskir foreldrar (tökum umræðu um gáfur og gjövileika seinna).

Dubner og Levitt greina þetta svo:
  • Skiptir máli: Fjöldi bóka, menntun foreldra, háar tekjur foreldra, móðir barnsins þrítug eða eldri við fæðingu, foreldrarnir taka virkan þátt í skólastarfi.


  • Skipti ekki máli: Lesið er fyrir barnið, barnið horfir mikið á sjónvarp, móðir barnsins er heimavinnandi, foreldrarnir fara með barnið á söfn, barnið er rassskellt reglulega.

Draga má þessa rannsókn þeirra Dubners og Levitts saman svo: Það skiptir meira máli hvert foreldrið er en hvernig foreldrið er. (Ekki má skilja þetta svo að ekki skipti máli hvernig foreldri eru, það skiptir gríðarlegu máli, en þó meira máli hver þau eru.)

Í Slate er grein um álíka rannsókn, sjá hér en í henni komust tveir hagfræðingar við háskólann í Chicago, Matthew Gentzkow og Jesse Shapiro, að því að lítil fylgni væri á milli sjónvarpsáhorfs og þess hvernig börnum gengi í skóla. Vísbending væri þó um að ef börn innflytjenda sem ekki tala ensku horfa mikið á sjónvarp gengur þeim betur í skóla en ella af augljósum ástæðum.

"We find strong evidence against the prevailing wisdom that childhood television viewing causes harm to cognitive or educational development. Our preferred point estimate indicates that an additional year of preschool television exposure raises average test scores [...] For reading and general knowledge scores - domains where intuition and existing evidence suggest that learning from television could be important - we find marginally statistically significant positive effect."

Rannsókn þeirra Gentzkows og Shapiros er fróðleg, hægt er að lesa pdf af henni með því að smella hér, ekki síst fyrir það hvernig þeir fundu leið til að mæla sjónvarpsáhorf og áhrif þess. Mjög forvitnileg er líka samantekt þeirra um útbreiðslu sjónvarps vestan hafs.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tuttugu?
Nota HTML-ham

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband