Patrick Watson rokkar

Patrick WatsonÁ hverri Airwaves hátíð uppgötvar maður eittvað nýtt, bæði innlent og erlent, stundum eru hljómsveitir miklu betri en plötur þeirra höfðu gefið tilefni til að ætla og stundum standast þær allar væntingar og gott betur. Þannig var það til að mynda með kanadísku hljómsveitina Patrick Watson, sem heitir eftir píanóleikara hennar og söngvara, en hún lék þrívegis á þessari Airwaves hátíð; fyrst í 12 tónum, þá í Þjóðleikhúskjallaranum og loks á Gauknum - allt magnaðir tónleikar og mjög ólíkir.

Sjá hér lokalag tónleikann í Þjóðleikhúskjallaranum:


Víst bjóst maður við því að tónleikar Watsons og félaga yrðu með helstu uppákomum Airwaves að þessu sinni því nýútkomin breiðskífa sveitarinnar, Close to Paradise, er mögnuð (fæst í 12 tónum), en sveitin gerði gott betur, fór hreinlega á kostum.

Þó Patrick Watson, sem sveitin hefur nafn sitt af, teljist kanadískur er hann fæddur í Kaliforníu, en ólst síðan upp í smábæ vestur af Montreal. Allir karlmenn í fjölskyldu hans voru flugmenn og hafði svo verið í einhverja ættliði, en Watson ungi var svarti sauðurinn, vildi frekar syngja en fljúga. Hann byrjaði líka snemma að syngja, var farinn aðsyngja í kirkjukór sjö ára gamall, en stundaði siðar nám í klassískum píanóleik og djass, tónsmíðum, útsetningum og tilheyrandi - hámenntaður músíkant eina og heyra mátti þegar Gnossienne eftir Eric Satie var tekin fyrir á tónleikunum á Gauknum sælla minninga.

Fyrsta hljómsveitin sem hann lék með, Gangster Politics, spilaði ska en entist ekki lengi. Á næstu árum fór Watson að vinna að eigin tónlist og þá að flétta saman stílum og stefnum, allt frá framúrstefnulegri klassík í grípandi popp. Um líkt leyti byrjaði hann að vinna með myndlistakonunni Brigitte Henry og gerði með henni neðansjávarmynda- og tónlistarverkið Waterproof9, en það var síðar gefið út á bók með meðfylgjandi geisladisk og er margverðlaunað. Watson kom gjarnan fram einn um það leyti en eftir stutta heimsókn til Víetnams haustið 2001 fannst honum tími til kominn að setja saman hljómsveit.

Hann byrjaði á að kalla til liðs við sig gítarleikarann Simon Angell, sem lék áður með honum í Gangster Politics, síðan bassaleikarann Mishka Stein og loks trommuleikarann magnaða Robbie Kuster, sem fór hreinlega á kostum á tónleikum sveitarinnar hér á landi um daginn.

Fyrstu plötuna, Just Another Ordinary Day, hálfgerð kynningarupptaka, gáfu þeir félagar út í sameiningu 2003. Smám saman vann sveitin sér nafn með mikill spilamennsku og sló síðan í gegn á rokkhátíð í Montreal. Í kjölfarið gerðu sveitin svo samning við nýtt kanadískt fyrirtæki, Secret City Records, um útgáfu á nýrri breiðskífu.

Eins og Simon Angell rakti söguna á spjalli í kjallaranum á 12 tónum um daginn voru þeir félagar búnir að vinna mikið í lögunum áður en haldið var í hljóðverið haustið 2005, sum laganna sagði hann að þeir félagar hefðu dundað sér við í á annað ár og þó eiginleg hljóðversvinna hafi byrjað haustið 2005 voru þeir búnir að vera að taka upp mun lengur. Patrick Watson semur lungann af lögum sveitarinnar, en þeir félagar hans leggja líka sitthvað til málanna, hvort sem það eru heil lög eða hlutar úr þeim. Ýmsir fleiri komu að gerð skífunnar, til að mynda sat Jace Lasek við takka í nokkrum lögum (frægur fyrir samstarf sitt við Wolf Parade) og Jean Massicotte í nokkrum öðrum laganna. Amon Tobin lagði sveitinni síðan til rafeindahljóð.

Í spilaranum hér til hliðar eru tvö Watson-lög, Giver og Luscious Life sem standa mönnum til boða á vefsetri hans og eins hjá útgáfunni, Secret City Records. Að lokum myndband við Drifters:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Sammála þér með Patric Watson. Hann er tónlistarmaður góður og minnir mig pínu á Andrew Bird þó hann sé ekki jafn fjölhæfur. Verst að ég rétt missti af honum.

Var annars að spá hvort þú hefðir eitthvað kíkt á bloggið mitt? Eflaust fullt af tónlist þar sem þú fílar.

http://egillhardar.com/music/ 

Egill Harðar (IP-tala skráð) 3.11.2006 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband