Ímyndaðir nasistar

Roberto BolanoChileski rithöfundurinn Roberto Bolaño Ávalos er að margra mat með merkustu rithöfundum Suður-Ameríku á síðustu árum, en hann lést eftir alvarleg veikindi fyrir fimm árum aðeins rétt ríflega fimmtugur að aldri.

Bolaño fór víða, átti heima í Chile, Mexíkó, El Salvador og Frakklandi, en settist síðan að í strandbænum Blanes á Norður-Spáni og lést þar. Hann var vinstrisinnaður og fékk að kenna á Pinochet og hyski hans, var hnepptur í varðhald fyrir skoðanir sínar en fyrrum skólafélagar hans sem störfuðu sem fangaverður leystu hann úr prísundinni.

Meðal helstu verka Bolaños eru skáldsögurnar Los detectives salvajes, sem er margverðlaunuð, Literatura nazi en América og 2666, en einnig hlutu smásagnasöfn hans góðar viðtökur. Los detectives salvajes kom út í enskri þýðingu sem The Savage Detecives á síðasta ári og 2666 kemur út á þessu ári, en hún er ríflega 1.000 síðna skáldsaga sem byggð er á fjöldamorðunum í Ciudad Juárez.

Literatura nazi en América, sem hér er gerð að umtalsefni, kom út á ensku í lok febrúar sl. undir nafninu Nazi Literature in the Americas. Skáldsagan er nokkuð sérstætt verk því hún er eins og bókmenntasaga hægrisinnaðra rithöfunda amerískra með höfuðáherslu á suður-ameríska höfunda. Þannig eru í bókinni æviágrip á fjórða tug rithöfunda, karla og kvenna, sem allir eiga  það sameiginlegt að hafa aldrei verið til. Bókinni fylgir og ítarleg skrá yfir rit þessara ímynduðu höfunda og upptalning á fjölda tilbúinna höfunda til viðbótar sem flokkaðir eru sem minni spámenn.

Nazi Literature in the AmericasVæntanlega kemur það fáum á óvart að þessi sérkennilega bókmenntasaga er krydduð svörtum húmor, kolsvörtum. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara og undirtónn bókarinnar er myrkur því þeir rithöfundar sem nefndir eru til sögunnar eiga það sammerkt að vera erkitýpur fyrir að sem Hannah Arendt kallaði hversdagsleika hins illa í bók sinni um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann í Jerusalem - allir feta þeir sig í átt að hinu illa skref fyrir skref, og sjá ekki hvert stefnir fyrr en það er um seinan.

Frásögnin í Literatura nazi en América / Nazi Literature in the Americas er fræðibókarleg lengstaf, einskonar upptalning í tímaröð með bókmennta- og landfræðilegri flokkun, en undir lokin, í síðasta þætti sögunnar og þeim lengsta, "The Infamous Ramírez Hoffman", birtist Bolaño sjálfur óforvarandis, þar sem hann stendur með öðrum föngum og fylgist með flugkappanum Ramírez Hoffman sem er í senn óvinur herstjórnarinnar og þátttakandi í illverkum hennar. Undir lokin tekur hann svo þátt í því að leita Hoffman uppi í strandbæ á Costa Brava, nánar tiltekið í Lloret de Mar sem er ekki svo langt frá Blanes, og þar eru gerðar upp sakir.

(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 30. apríl.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband